Í frumvarpi um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sem lögð voru fram af fulltrúum allra flokka á þingi í gær, er lagt til bann við stuðningi slíkra við nafnlausan kosningaáróður. Þar segir að stjórnmálaflokkum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, verði gert óheimilt að „fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.“
Þeir sem brjóta gegn þessu munu sæta ótilgreindum sektum.
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur þó skýrt fram að fulltrúarnir telji bannið einungis taka á hluta þess vandamáls sem við sé að glíma og lýtur að „mögulegum tilraunum ýmissa aðila til að hafa óeðlileg áhrif á kosningar eða draga taum tiltekinna stjórnmálaafla án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki. Sömu vandamál geta komið upp þegar um er að ræða herferðir í þágu tiltekinna málefna án þess að þær tengist tilteknum stjórnmálasamtökum. Þessi atriði ásamt fleirum verða tekin til nánari skoðunar í áframhaldandi vinnu af hálfu stjórnvalda.“
Óeðlileg áhrif á kosningar
Í alþingiskosningum árin 2016 og 2017 var nafnlaus áróður gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum áberandi á samfélagsmiðlum. Í mars lögðu þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka fram beiðni um skýrslu frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Þeir vildu meðal annars að komist yrði að því hverjir stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.
Í beiðninni sagði að um hafi verið að ræða „rætnar og andlýðræðislegar herferðir sem enginn vill gangast við. Á skömmum tíma höfðu tugþúsundir einstaklinga séð og dreift umræddum myndböndum og áróðri á samfélagsmiðlum (einkum á Facebook og YouTube) þar sem veist var að pólitískum andstæðingum í skjóli nafnleyndar og ráðist að þeim persónulega með ósannindum og skrumskælingum án þess að kjósendum væri ljóst hverjir stæðu á bak við áróðurinn. Þær síður sem mest voru áberandi voru annars vegar Facebook-síðurnar Kosningar 2016 og Kosningar 2017, sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna, og hins vegar Facebook-síðan Kosningavaktin, sem beindi spjótum sínum að hægri væng stjórnmálanna.
Ekkert hægt að skoða fortíðina
Forsætisráðherra skilaði umræddri skýrslu í júní síðastliðnum. Niðurstaða hennar var að ekkert lægi fyrir um það hvaða hulduaðilar stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og ekkert lægi fyrir hvort stjórnmálasamtök sem lúta eftirliti Ríkisendurskoðunar hafi „staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.“ Þá væri vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast fyrir um hverjir standi á bak við þær.
Því telja stjórnvöld sig ekki hafa neina heimild, né nein úrræði, til að rannsaka eða skýra það sem í frumvarpinu sem var lagt fram í gær er kallað mögulegar tilraunir „ýmissa aðila til að hafa óeðlileg áhrif á kosningar eða draga taum tiltekinna stjórnmálaafla án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki.“