Í fjáraukalögum ársins 2019 var samþykkt að leggja 500 milljóna króna viðbótarframlag til að mæta auknum kostnaði vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Auk þess var framlag til að mæta auknum kostnaði við flýtimeðferð dvalar- og atvinnuleyfa hækkað um 29,2 milljónir króna. Því framlagi er ætlað að mæta launakostnaði þriggja starfsmanna sem ráða þurfti til að sinna þessari þjónustu.
Í frumvarpi vegna fjáraukalaga segir að þrátt fyrir að dregið hafi úr tilhæfulausum umsóknum vegna breytinga á regluverki, hafi umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgað. „Miklar sveiflur hafa einkennt málaflokkinn bæði hvað varðar fjölda umsókna, eðli mála, málsmeðferðartíma og dvöl í þjónustu eins sem heilbrigðiskostnaður hefur verið stór óvissuþáttur.“
Framlög á fjárlögum hafa dregist saman og flóttamönnum fækkað
Heildarútgjöld vegna útlendingamála voru um 4,2 milljarðar króna árið 2017. Þau áttu að lækka umtalsvert á þessu ári og samkvæmt fjárlögum var reiknað með því að þau yrðu tæplega 3,6 milljarðar króna. Með viðbótarframlaginu munu þau ekki ná því að vera jafn há og þau voru árið 2017.
Í lok nóvember síðastliðnum höfðu alls 710 sótt um vernd á Íslandi það sem af er ári. Alls fengu 154 vernd hérlendis á fyrstu ellefu mánuðum ársins.
Það er því nokkuð ljóst að mun færri flóttamenn sæki um hæli á Íslandi í ár en á undanförnum árum. Á öllu árinu 2017 sóttu hér um 1.096 manns um slíkt og því stefnir í að fjöldi hælisleitenda verði tæplega 60 prósent af því sem hann var í fyrra. Þá fengu 115 flóttamenn hæli hér.
Flestir flóttamenn komu hingað til lands árið 2016 þegar þeir voru 1.130 talsins. Þá fengu 110 manns hæli á Íslandi.
Fyrir utan þá flóttamenn sem koma að sjálfsdáðum til landsins þá tekur Ísland líka við svokölluðum kvótaflóttamönnum. Stefnt er að því að taka við allt að 75 slíkum á næsta ári, að mestu Sýrlendingum sem eru staddir í Líbanon og hinsegin flóttamönnum og fjölskyldum þeirra frá Kenýa.
Áður hafði Ísland tekið við samtals 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum.
Borga flóttamönnum fyrir að draga umsóknir til baka
Kjarninn greindi frá því í ágúst að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vildi að Útlendingastofnun fengi heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum.
Þau tilvik sem um ræðir eru þegar flóttamaður hefur annað hvort dregið umsókn sína um vernd hérlendis til baka eða hann hefur fengið synjun og ákvörðun hefur verið tekin um að veita aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.
Þeim yrði þá greitt fyrir að fara frá Íslandi í tveimur greiðslum. Sú fyrri, svokallaður ferðastyrkur, yrði greiddur út á Keflavíkurflugvelli. Sá síðari, svokallaður enduraðlögunarstyrkur, yrði greiddur í heimaríki viðkomandi.
Reglugerð sem innleiddi þessar greiðslur tók gildi í byrjun nóvember síðastliðins.
Fullorðnir einstaklingar frá Alsír, Egyptalandi, Kasakstan og Marokkó eiga að fá allt að 700 evrur, 86 þúsund krónur, fyrir að fara frá Íslandi en börn frá sömu löndum fá 37 þúsund krónur samtals í ferða- og enduraðlögunarstyrk.
Fylgdarlaus börn frá öllum ofangreindum ríkjum geta fengið allt að eitt þúsund evrur, 123 þúsund krónur, samþykki þau að draga verndarumsókn sína til baka eða að það sé þegar búið að synja þeim um alþjóðlega vernd.
Flóttamenn frá öðrum löndum en ofangreindum geta fengið á bilinu 100 til 200 evrur í ferða- og enduraðlögunarstyrk fallist þeir á þau skilyrði sem eru fyrir styrkveitingunni.
Þurfa að undirrita skuldaviðurkenningu
Umsókn um enduraðlögunarstyrk skal lögð fram innan tveggja daga frá því umsókn um alþjóðlega vernd er dregin til baka eða henni synjað. Ef umsókn um vernd er dregin til baka er Útlendingastofnun heimilt að greiða fullan enduraðlögunarstyrk. Ef umsókn um enduraðlögunarstyrk er lögð fram eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir dragast 100 evrur af heildarupphæð á hvern einstakling. Ef umsókn er lögð fram eftir að úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir dragast 200 evrur af heildarupphæð á hvern einstakling.
Samhliða því að reglugerðin tók gildi fékk Útlendingastofnun heimild til þess að greiða styrkina sem um ræðir á meðan styrktarveitingin rúmast innan þeirra fjárheimilda sem stofnunin hefur. Hver útlendingur hefur einungis rétt á enduraðlögunarstyrk einu sinni. Í drögum að reglugerðinni sagði að „samhliða umsókn um styrk ber umsækjanda að undirrita skuldaviðurkenningu hjá Útlendingastofnun þess efnis að hann samþykki að endurgreiða veittan styrk komi til þess að hann sæki síðar um dvalarleyfi hér á landi.“