Gildi lífeyrissjóður lækkaði veðhlutfall sjóðsfélagslána sinna niður í 70 prósent um nýliðin áramót. Þar með hafa allir stóru lífeyrissjóðirnir þrír: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) lækkað veðhlutfall sitt frá því sem það var hæst eftir að þeir hófu fulla sókn inn á íbúðalánamarkað að nýju haustið 2015.
Lífeyrissjóður verszlunarmanna lækkaði veðhlutfall á sjóðsfélagslánum sínum úr 75 í 70 prósent sumarið 2017. LSR lækkaði sitt lánshlutfall með sama hætti í fyrra og nú hefur Gildi, líkt og áður segir, gert slíkt hið sama.
Í frétt á vef Gildis segir að ákvörðunin byggi meðal annars á varúðarsjónarmiði vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði á undanförnum árum, og hins vegar vegna aukinnar ásóknar í lán hjá Gildi. Heimildir Kjarnans herma að sú ásókn hafi aukist umtalsvert eftir að hinir tveir stóru lífeyrissjóðirnir sem lána sjóðsfélögum til íbúðarkaupa lækkuðu veðhlutfall sitt niður í 70 prósent.
Í frétt Gildis segir að einnig sé horft til þess að hlutfall lána sjóðsfélaga nálgist nú þau viðmið sem sett séu í fjárfestingarstefnu sjóðsins. Á einfaldara máli þýðir það að hver lífeyrissjóður setur sér æskilegt hámark á ákveðnum eignaflokkum, til dæmis lánum til sjóðsfélaga vegna íbúðarkaupa. Í þeirri miklu aðsókn sem verið hefur í íbúðalán lífeyrissjóða á undanförnum rúmu þremur árum þá hefur Gildi nálgast það hámark.
Hafa keyrt niður vexti
Lífeyrissjóðir landsins hafa lengi lánað sjóðfélögum sínum til íbúðarkaupa. Þau lán hafa þó verið þannig að mun lægra lánshlutfall hefur verið í boði sem gerði það að verkum að fólk sem átti lítið eigið fé gat illa nýtt sér þau lán. Það breyttist allt haustið 2015 þegar sjóðirnir hækkuðu lánshlutfall sitt og bjóða upp á enn hagstæðari kjör. Frá þeim tíma hafa lífeyrissjóðirnir lánað sjóðsfélögum sínum 323 milljarða króna til íbúðarkaupa.
Sjóðirnir hafa getað boðið upp á afar hagstæð lán, þ.e. miðað við þau vaxtakjör sem vanalega eru í boði á Íslandi, fyrir þá sem uppfylla lánaskilyrði þeirra. Þannig eru lægstu breytilegu verðtryggðu vextir lífeyrissjóða nú 2,46 prósent á meðan að lægstu sambærilegu vextir banka eru 3,55 prósent. Lægstu breytilegu verðtryggðu vextir banka á Íslandi eru því 44 prósent hærri en lægstu vextir lífeyrissjóðs.
Þetta geta lífeyrissjóðirnir meðal annars gert vegna þess að lífeyrissjóðir þurfa ekki að greiða ýmiss konar gjöld og álögur sem t.d. bankar, sem eru í samkeppni við þá á þessum markaði, þurfa að gera. Þar hefur mest munað um hinn svokallaða bankaskatt, sem nú stendur til að lækka úr 0,376 prósent af skuldum í 0,145 prósent. Í hvítbók um fjármálakerfið, sem kynnt var í síðasta mánuði, kom fram að slík aðgerð muni skila álíka lækkun í rekstrarkostnaði og 15 prósent fækkun starfsfólks bankanna, sem jafngildir um 400 stöðugildum hjá stærstu bönkunum þremur.
Óljóst hvort lægri bankaskattur skili lægri vöxtum
Samtök fjármálafyrirtækja hafa sagt að þessi skattur geri það að verkum að bankar séu ekki samkeppnishæfir við aðra veitendur útlána. Því borga í raun viðskiptavinir bankanna bankaskattinn, að minnsta kosti að hluta, í gegnum lakari kjör en þeir gætu ella boðið.
Margir útilokaðir frá hagstæðustu lánunum
Raunverð íbúða á Íslandi hefur hækkað um tæplega 60 prósent frá 2010 og í krónum talið hefur verðið tvöfaldast. Þetta er næst mesta hækkun á húsnæðisverði í heiminum.
Í íbúðamarkaðsskýrslu sem Greining Íslandsbanka birti í október 2018 kom fram að eigendur húsnæðis hefðu hagnast um 2.051 milljarða króna vegna hækkana.
Þessar miklu hækkanir hafa hins vegar einnig gert það að verkum að aldrei hefur verið erfiðara að kaupa fyrstu eign og flestir þeirra sem eru á leigumarkaði eru þar af illri nauðsyn frekar en vilja. Leiguverð hefur auk þess hækkað langt umfram ráðstöfunartekjur frá árinu 2011.
Þegar stærstu lífeyrissjóðir landsins lækka veðhlutfall sitt, eins og þrír stærstu hafa nú gert, þá útilokar það enn fleiri frá því að geta tekið hagstæðustu lánin sem bjóðast á markaðnum. Meðalupphæð kaupsamnings á höfuðborgarsvæðinu var til að mynda 51 milljón króna í fyrra. Fyrir helgi hefði sjóðsfélagi hjá Gildi þurft að eiga tæplega 12,8 milljónir króna í útborgun til að geta keypt slíka meðaleign, og tekið lán hjá sjóðnum. Í dag þarf hann að eiga 15,3 milljónir króna.