Snúin staða
Ísland er allt annarri stöðu en flest lönd í Evrópu, Asíu og Norður- og Suður-Ameríku, þegar kemur að einum þætti: fjármálakerfinu. Einum áratug eftir fjármálahrunið stendur það traustum fótum, og búið að hreinsa út ónýt og slæm útlán. Þetta hefur ekki verið gert vítt og breitt um heiminn. Tjöldin eru fallin, því seðlabankar munu ekki halda hjólunum gangandi á næstunni í heiminum. Hvað þýðir það fyrir Ísland? Hvað er framundan?
Blaðamennirnir Jenna Randow og Alessandro Speciale, sem starfa fyrir Bloomberg, sendu frá sér ítarlega grein 27. nóvember síðastliðinn, þar sem fjallað var um stöðuna í Evrópu síðla árs 2012, og hversu litlu munaði að það færi illa í álfunni á þeim tíma.
Fyrir sex árum höfðu áhyggjur af efnahagsvanda í Evrópu stigmagnast, með tilheyrrandi hækkun á vaxtaálagi þjóðríkja og fyrirtækja, og var margt farið að benda til þess að hálfgert hrun væri framundan, með tilheyrandi hörmungum fyrir almenning. Ekki síst var staðan viðkvæm í Suður-Evrópu, þar sem atvinnuleysi var hátt og óvissa um hvernig ætti að bjarga gríska hagkerfinu var viðvarandi.
Maður er nefndur Mario Draghi, doktorsmenntaður hagfræðingur frá MIT, en hann er forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópu. Með dramatískum hætti leiddi hann fram stefnu bankans, og hjó á hnúta sem voru að myndast, bæði í innri pólitík seðlabankans, en ekki síður á markaðnum.
Í grein Randow og Speciale er frá því greint, að það hafi verið að grípa um sig taugaveiklun innan bankans, en Draghi hafði skýra sýn á hlutina, og talaði fyrir henni. Hún var einföld, en áhrifamikil í senn: Evran yrði varin, alveg sama hvað gengi á. Hann lét orðin falla 26. Júlí 2012, og frá þeim degi markaði hann mikil spor í efnahagsstefnuna í Evrópu.
Tiltrú fæddist
Hvers vegna skipti þetta miklu máli? Var þetta ekki augljóst? Hvað þýddi þetta fyrir alþjóðamarkaði?
Allt frá þessari yfirlýsingu, sem sett var fram opinberlega og í stefnuyfirlýsingu bankans, var allt í einu kominn einhvers konar björgunarhringur fyrir fjárfesta í Evrópu. Vaxtaálag fór hratt niður, fjárfesting efldist. Tiltrú myndaðist á því að evrusvæðið myndi ekki liðast í sundur.
En hlutverk Seðlabankans stórefldist, við að halda hjólunum gangandi. Hinn 19. desember síðastliðinn lauk umfangsmikilli áætlun seðlabankans, sem hefur falist í því að fjárfesta fyrir um 60 milljarða evra í skuldabréfum fyrirtækja, sveitarfélaga og þjóðríkja, með það að markmiði að örva hagvöxt í álfunni. Umfangið hefur verið gríðarlegt, eins og tölurnar gefa til kynna.
Margir óttast nú, að tjöldin muni falla, og að nýr og erfiðari veruleiki taki við hjá þeim ríkjum sem ekki hafa nýtt tímann til þess að taka til. Sérstaklega beinast spjótin að stórum evrópskum fjármálafyrirtækjum sem mörg hver eru enn í vandræðum og með mörg löskuð útlán í sínum eignasöfnum, jafnvel þó áratugur sé nú liðinn frá því að fjármálakreppa skall á mörkuðum um allan heim.
Búast má við því að vextir fari hækkandi hjá Seðlabanka Evrópu á næstunni, og verðbólgudraugurinn fari á stjá. Erfitt er þó um þetta að spá, en flestir greinendur búast við því að það verði breyttur og erfiðari veruleiki fyrir marga að takast á við, þegar örvandi fjárfestinga seðlabankans stoppa.
Atvinnuleysi er nú komið niður í um 7 prósent í Evrópu, og hagvöxtur hefur verið á bilinu 1 til 2 prósent. Þetta er mikil breyting frá árið 2012 þegar atvinnuleysi mældist um 11 prósent að meðaltali, og hagvöxtur var lítill sem enginn. Út frá þessum mælikvarða þá hafa þessar gríðarlega umfangsmiklu fjárfestingar seðlabankans náð markmiði sínu.
Ísland í bómull
Á meðan, á Íslandi. Staða endurreistu bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, gæti vart verið ólíkari heldur en hjá mörgum evrópskum og alþjóðlegum bönkum, þessi misserin. Hrunið - og þá einkum neyðarlögin og framkvæmd fjármagnshaftanna - markaði upphafið að einhverri lygilegustu „hreinsun“ á efnahagsreikningum í heilu fjármálakerfi sem farið hefur fram. Ónýt lán eru svo til alveg farin úr efnahagsreikningum íslensku bankana, en vanskilahlutfall er lítið sem ekkert.
Í hvítbókinni um framtíðarsýn fyrir íslenska fjármálakerfið, sem starfshópur stjórnvalda sendi frá sér á dögunum og fjallað var ítarlega um í Mannlífi og á vef Kjarnans fyrir tveimur vikum, sést glögglega hversu sterkt - og jafnframt einangrað - íslenska fjármálakerfið er. Samanlagt eigið fé þriggja stærstu bankanna er yfir 600 milljarðar króna, og eiginfjárhlutfallið á bilinu 20 til 25 prósent. Starfsemin er svo til alveg einangruð við Ísland, og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð, nema þá að óverulegu leyti.
Samhliða þessari endurreisn hefur það gerst, að skuldastaða þjóðarbúsins við útlönd hefur tekið algjörri kúvending til hins betra.
Í nýlegri tilkynningu frá Seðlabanka Íslands var þessi einstaka staða gerð að umtalsefni, en fá dæmi eru um viðlíka stöðu meðal þróaðra ríkja sem Ísland er venjulega borið saman við. Þetta er ekki eðlileg staða.
Á þriðja ársfjórðungi 2018 var 76,5 milljarða afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Halli á vöruskiptajöfnuði var 43,7 milljarðar en afgangur á þjónustujöfnuði var 123,7 milljarðar, og munar þar mikið um hversu umfangsmikil ferðaþjónusta er orðin.
Samkvæmt bráðabirgðayfirliti námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.380 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.012 milljarðar. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 368 milljarða króna eða 13,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 162 milljarða króna.
Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 86 milljarða á fjórðungnum. Erlendar eignir jukust um 17 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta en skuldir lækkuðu um 69 milljarða króna.
Þessi staða sýnir í raun, að Ísland er ekki aðeins í góðri stöðu, heldur um margt einstakri.
Rætist úr vanda í ferðaþjónustu?
En nú þegar 2019 er handan við hornið eru engu að síður ógnir í kortunum. Helst má nefna að endurskipulagning í flugiðnaði muni skapa erfiðleika í ferðaþjónustu, og að kjaraviðræður muni enda með illindum og verkföllum. Slík staða getur verið erfið fyrir þjóðarbúið, og leitt til erfiðleika í efnahagsmálunum, eins og mörg dæmi úr sögunni sanna.
Þrátt fyrir að mikill skjálfti hafi verið á mörkuðum, eftir að erfiðleikar WOW air komu upp á yfirborðið, þá virðist meira traust vera fyrir hendi um þessar mundir. Tilkynning Icelandair um að félagið sé tilbúið að auka verulega framboð flugsæta, hefur haft róandi áhrif innan ferðaþjónustunnar, en WOW air og Indigo Partners eiga enn í samningaviðræðum um mögulega fjárfestingu síðarnefnda félagsins. Vonir standa til þess að hún gangi eftir, en ljóst er að félagið mun draga verulega saman seglin, eins og það hefur þegar tilkynnt um.
Samdrátturinn jafngildir því að um 180 til 290 þúsund færri erlendir ferðamenn komi til landsins á ári, sé miðað við stöðuna eins og hún var í fyrra, en WOW air hefur flutt á bilinu 600 til 700 þúsund erlenda ferðamenn hingað til lands á undanförnum árum. Til að setja þá tölu í samhengi, þá komu hingað til landsins um 450 þúsund erlendir ferðamenn árið 2010 en í fyrra voru þeir um 2,7 milljónir.
Þetta eru miklar stærðir, og ljóst að samdráttur getur haft mikil áhrif. Aðilar í ferðaþjónustu bera sig hins vegar vel, og virðast pantanir gististaða og hótela fyrir komandi ár vera í ágætu horfi, miðað við síðustu ár. Auk þess er breyting að eiga sér stað á markaði með gistingu, þar sem færri ferðamenn sækja í Airbnb gistingu um þessar mundir, á sama tíma og framboð hótelgistingar, einkum í Reykjavík, hefur aukist mikið.
Stál í stál
Í kjaraviðræðunum hefur dregið til tíðinda að undanförnu þar sem Starfsgreinasambandið, VR og Efling eru ekki alveg samstíga í samningaviðræðunum við atvinnurekendur. Þetta hefur leitt til þess að VR og Efling ganga nú í takti við Vilhjálm Birgisson og félagið sem hann er í forsvari fyrir, Verkalýðsfélag Akraness. Þessi þrjú fyrrnefndu félög hafa vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.
Ástæðan fyrir því að samningsumboð Starfsgreinasambandsins var afturkallað er tvíþætt. Annars vegar að meirihluti formanna SGS vildu ekki að VR og SGS mynduðu sameiginlega samninganefnd en það var mat þessara félaga að slíkt myndi „klárlega styrkja samningstöðuna umtalsvert“, eins og sagði í tilkynningu, enda hefði SGS og VR verið með um 75% félagsmanna innan ASÍ á bakvið sig.
Síðara atriðið laut að því að meirihluti Starfsgreinasambandsins vildi ekki vísa deilunni til ríkissáttasemjara þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins „hafi ekki lagt neitt á borðið hvað lýtur að spurningunni um svigrúm til launabreytinga og því til viðbótar hefur skilningsleysi stjórnvalda að þessari kjaradeilu verið algert og hafa þau engu svarað um þær kröfur sem verkalýðshreyfingin gerir á stjórnvöld.“
Óhætt er að segja að mikil gjá sé á milli þeirra sem nú sitja við samningaborðið, þegar kemur að kröfum. Atvinnurekendur telja að svigrúmið til launahækkana sé á bilinu 1 til 4 prósent, en forystufólk stærstu stéttarfélaganna hefur kynnt kröfugerð þar sem farið er fram á 20 til 30 prósent hækkun lægstu launa, og grunnhækkun lægstu launa úr 300 þúsund í 425 þúsund. Auk þess hefur verið gerð krafa um mikla aðkomu stjórnvalda, meðal annars með því að breyta skattkerfinu þannig að það þjóni betur þeim sem lægstu launin hafa. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega að undanförnu, fyrir að sýna kröfum verkalýðshreyfingarinnar ekki meiri skilning.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur hamrað á því í sínum málflutningi, að besta leiðin til að koma til móts við það fólk sem lægstu launin hefur, sé að breyta skattkerfinu. Í grein sem hún skrifaði í Viðskiptablaðið, sem birtist á Þorláksmessu, segir hún skýrt að skattkerfið sé það sem rýna þurfi í, til að bæta hag fólksins á gólfinu. „Besta leiðin til að rétta kjör fólks og jafna þau er að breyta skattkerfinu. Að mínu mati þarf kerfið ekki að vera einfalt en það þarf að virka bæði sem tekjuöflunartæki og jöfnunartæki. Alþýðusambandið hefur með óyggjandi hætti sýnt fram á að skattar hafi hækkað hjá lægst launaða fólkinu en lækkað hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar ef litið er aftur um 30 ár. Þetta þarf að leiðrétta. Það er líka algerlega óásættanlegt að ákveðinn hópur í samfélaginu sem rekur sitt eigið fyrirtæki og skammtar sér fjármagnstekjur í hærra hlutfalli en laun, geti fengið verulegan skattafrádrátt þar sem fjármagnsskattur er lægri en tekjuskattur. Það má enginn vera stikkfrí þegar kemur að því að greiða í sameiginlega sjóði. Mitt mat er að veturinn framundan ráðist af því hvort stjórnvöld komi með aðgerðir sem um munar í skatta- og húsnæðismálum. Nú þegar er húsnæðishópur á vegum stjórnvalda að störfum sem skilar af sér í janúar en skattamálin standa út af. Þessi tvö mál munu skipta sköpum fyrir jöfnuð, jafnrétti og sanngirni. Það er stjórnvalda ekki síður en atvinnurekenda að mæta miklum væntingum og kröfum um raunverulegar breytingar,“ sagði Drífa.
Spjótin beinast að fasteignamarkaðnum
Húsnæðismálin hafa verið mikið til umræðu að undanförnu í tengslum við kjaraviðræður. Miklar verðhækkanir á húsnæði hafa einkennt fasteignamarkað á Íslandi undanfarin fimm ár. Hápunktinum hefur vafalítið verið náð, í þeim efnum, en fasteignaverð fer enn hækkandi, sé horft til mælinga Þjóðskrár Íslands. Á vormánuðum 2017 mældist árshækkun á húsnæði 23,5 prósent, en hún mælist nú um 4 prósent.
Blikur eru á lofti á markaðnum, þar sem búist er við því að um 5 þúsund nýjar íbúðir komi út á markað á næstu 18 mánuðum. Þetta gæti leitt til offramboðs á markaðnum, sem ætti þá að leiða til lækkunar á fasteignaverði. En eitt af því sem óvissa er um er hversu mikið þarf að byggja til að skapa meira jafnvægi á markaðnum. Í nýlegri hagsjá Landsbankans var þetta gert að umtalsefni og bent á að ekki væri skýrt hversu mikil þörf væri fyrir húsnæðisuppbyggingu.
Greinendum ber ekki saman um hversu mikið þarf að byggja, og þá væri einnig erfitt að segja til um hvernig þróunin yrði á næstunni, þegar kæmi að eftirspurn eftir húsnæði. Mikið væri byggt á dýrum svæðum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í miðborginni, en eftirspurnin væri frekar eftir ódýrari eignum, og þá einkum litlum og meðalstórum íbúðum.
Verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir því að stjórnvöld eigi aðkomu að húsnæðismálunum, og liðki meðal annars fyrir því að staða leigjenda batni og fyrstu kaupenda sömuleiðis.
Möguleiki á góðri lendingu
Þrátt fyrir að staða efnahagsmála nú í byrjun nýs árs, sé um margt snúin þá eru forsendur fyrir góðri lendingu, eftir mikinn uppgang síðustu ára, fyrir hendi. Sterk staða ríkissjóðs og fjármálakerfisins getur skipt miklu máli á næstunni þar sem töluverð óvissa er um þróun mála á alþjóðamörkuðum. Þá skiptir máli að vera með sterkar undirstöður. En alveg eins og hingað til í hagsögu Íslands, þá er það útflutningur, bæði á vörum og þjónustu, sem mun skipta sköpum fyrir Ísland.
Einn nefndarmaður vildi hækka vexti
Fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands var birt 26. desember síðastliðinn, en ákveðið var að halda stýrivöxtum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun, og eru þeir nú 4,5 prósent. Verðbólga mælist 3,7.
Í fundargerðinni kemur fram að einn nefndarmanna af fimm hafi viljað hækka vexti. Ekki kemur fram hver það var, en í nefndinni eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri, Gylfi Zoega hagfræðiprófessor, Katrín Ólafsdóttir hagfræðiprófessor og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.„Nefndin ræddi þá möguleika að staldra við og halda vöxtum óbreyttum eða hækka vexti um 0,25 prósentur. Helstu rökin fyrir því að hafa óbreytta vexti voru þau að lækkun raunvaxta milli funda væri fyrst og fremst tilkomin vegna skammtímaáhrifa gengislækkunarinnar á verðbólgu og skammtímaverðbólguvæntingar. Þótt þróun raunhagkerfisins og verðbólgu hafði í meginatriðum verið eins og gert var ráð fyrir á síðasta fundi og efnahagshorfur hefðu ekki breyst mikið væru verðbólguhorfur líklega hagstæðari en þá var gert ráð fyrir þar sem olíuverð hefði lækkað nokkuð undanfarið. Einnig gætu forsendur verið til staðar fyrir lægri raunvöxtum en ella þar sem hátíðnivísbendingar og væntingakannanir bentu til neikvæðari væntinga og að það gæti dregið hraðar úr eftirspurn en búist var við. Jafnframt var bent á að auknar líkur væru á að til verkfalla kæmi á nýju ári sem gætu leitt til hraðrar kólnunar í þjóðarbúskapnum. Helstu rökin fyrir því að hækka vexti voru hins vegar þau að þörf var á meiri hækkun vaxta en ákveðin var í nóvember í ljósi aukinnar undirliggjandi verðbólgu og hækkunar verðbólguvæntinga. Þar að auki hefðu raunvextir lækkað á ný og væru nú svipaðir og fyrir vaxtahækkunina í nóvember. Taumhaldið væri því of laust þegar haft er í huga að innlend eftirspurn hefði verið heldur meiri á þriðja ársfjórðungi en spáð var auk þess sem verðbólguvæntingar væru yfir markmiði á alla mælikvarða. Þá var bent á að lækkun raunvaxta að undanförnu á sama tíma og spenna er enn í þjóðarbúskapnum gæti ennfremur verið hluti skýringarinnar á gengislækkun krónunnar.
Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 4,5%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 4,25%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 5,25% og daglánavextir 6,25%. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra. Einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi hækka vexti um 0,25 prósentur. Að mati nefndarmanna myndi peningastefnan á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í fundargerðinni.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði