Vilja lækka skatta á alla sem eru með undir 900 þúsund krónur á mánuði
Í skýrslu um breytingar á skattkerfinu sem unnin var fyrir Eflingu eru lagðar til róttækar breytingar á skattkerfinu sem eiga að lækka skatta á 90 prósent framteljenda. Til þess þarf ríkið að auka tekjur sínar um tugi milljarða. Skýrsluhöfundar leggja til að það verði gert með auknum álögum á hátekjuhópa, stóreignafólk, auknu skatteftirliti og stóraukinni skattheimtu fyrir nýtingu auðlinda.
Koma þarf á stígandi skattkerfi með fjórum til fimm skattþrepum, hækka þarf fjármagnstekjuskatt til samræmis við það sem almennt tíðkast á hinum Norðurlöndunum og breyta skattlagningu rekstrarhagnaðar til samræmis við skatt á launatekjur. Þá þarf að bæta framkvæmd reiknaðs endurgjalds sjálfstætt starfandi aðila þannig að endurgjaldið verði einnig látið taka til fjármálastarfsemi, leggja þarf á stóreignaskatt með frítekjumarki fyrir eðlilegt verðmæti íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og einkabifreiða og sanngjörn auðlindagjöld „fyrir allar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.”
Þá þarf að efla skatteftirlit og herða eftirfylgni skattrannsókna og dóma.
Þetta eru helstu aðgerðir og tillögur sem lagðar eru fram í skýrslu sem Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og um tíma ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, hafa unnið fyrir Eflingu stéttarfélag.
Skýrslan ber nafnið „Sanngjörn dreifing skattbyrðar: Hvernig leiðrétta má stóru skattatilfærsluna án þess að veikja velferðarkerfið“ og var kynnt í morgun.
Tillögurnar eiga að færa láglaunafólki og lífeyrisþegum á milli 20 og 29 þúsund króna lækkun á staðgreiðslu á mánuði og samkvæmt þeim myndu um 90 prósent framteljenda fá skattalækkun. Þannig myndu allir með tekjur að um 900 þúsund krónum á mánuði fá skattalækkun ef tillögunum yrði hrint í framkvæmd, samkvæmt skýrslunni.
Lítil breyting yrði á skattbyrði næstu fimm prósentanna, þeirra sem eru með tekjur á bilinu 900-1.300 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt mati skýrsluhöfunda en tekjuhæstu fimm prósent landsmanna, myndu fá hækkaða skattbyrði.
Þarf að auka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða
Skýrslan er unnin til að vera innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður en fyrir liggur krafa verkalýðshreyfingarinnar um að stjórnvöld komi til móts við skjólstæðinga hennar með skattkerfisbreytingum og endurreisn millifærslukerfa ef þær eiga að slá af launahækkunarkröfum sínum sem settar voru fram í kröfugerðum í aðdraganda viðræðnanna.
Samhljómur er á milli þeirra tillagna sem lagðar eru fram í skýrslu Stefáns og Indriða og þeirra sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti nýverið. Í þeim fólst að sett verði á fjögur skattþrep, lagður verði á hátekjuskattur, tekinn verði upp að nýju auðlegðarskattur og skattayfirlit aukið verulega til að fjármagna þessar tillögur.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, ræddi þær tillögur í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi og sagði þar að hún reiknaði með því að „það sé hugmyndafræðilegur ágreiningur innan stjórnvalda, innan ríkisstjórnarinnar“ um hvernig eigi að breyta skattkerfinu.
Í skýrslu Stefáns og Indriða kemur fram að skattahækkun hæsta tekjuhópsins myndi ekki duga til að bæta hinu opinbera upp tekjutap þess vegna lægri skatta á lægri tekjur. Um 30 milljarða króna myndi nettó vanta upp á. Því þyrfti að nota annað svigrúm sem sé í ríkisfjármálum til að viðhalda sömu ráðstöfunartekjum hins opinbera. „Það mætti til dæmis gera með nýtingu þeirra 14 milljarða sem ríkisstjórnin hefur þegar eyrnamerkt til skattalækkana. Að auki mætti taka um 16 milljarða af tekjuafgangi á fjárlögum, það er lækka afganginn úr 29 í 13 milljarða, til að brúa upp í um 30 milljarða nettó kostnaðinn sem fyrstu útfærslunni fylgir. Þetta skref væri því mjög auðvelt í framkvæmd,“ segir í skýrslunni.
Auk þess eru lagðar fram það sem kallaður eru metnaðarfyllri útfærslur með meiri skattalækkunum og þar af leiðandi meiri kostnaði sem þyrfti að brúa með öðrum hætti. Skýrsluhöfundar telja þær útfærslur þó „ágætlega gerlegar“.
Þær leiðir sem þar eru kynntar eru bæði ódýrari og dýrari fyrir ríkissjóð að hrinda í framkvæmd. Ein útfærslan felur til að mynda í sér að persónuafsláttur og skattleysismörk yrðu hækkuð með þeim afleiðingum að skattalækkun lægstu tekjuhópa fari mest í 24 þúsund krónur á mánuði og hækkun skattbyrðar á efri tekjuhópa verður ívið minni vegna þess að persónuafslátturinn gengur upp tekjustigann. Sú útfærsla myndi kosta ríkissjóð um 37 milljarða króna nettó sem skýrsluhöfundar benda á að sé innan viðmiða sem getið var um í sameiginlegri skattastefnu ASÍ um ásættanlegan kostnað af skattabreytingum, en þar voru efri mörk sett við 40 milljarða króna.
Í skýrslunni er einnig sýnd útfærsla sem myndi kosta ríkissjóð um 48 milljarða króna nettó. Í henni felst að persónuafsláttur sé hækkaður í 70 þúsund krónur á mánuði og skattleysismörk í 215 þúsund á mánuði. „Þar má sjá að þeir sem eru með tekjur á bilinu 350-400 þúsund kr. á mánuði gætu fengið hátt í 29.000 kr. skattalækkun á mánuði. Vegna hins háa persónuafsláttar í þessu dæmi myndi skattalækkun ná alveg upp undir 1.200.000 króna tekjur á mánuði og hækkun skatta á hæstu tekjur yrði heldur minni en í fyrri útfærslum,“ segir í skýrslunni.
Leggja til nýjar tekjuöflunarleiðir
Stefán og Indriði leggja, líkt og áður sagði, fram ýmsar leiðir sem ríkissjóður getur farið til að borga fyrir þessar skattalækkanir án þess að það fé sem hann er með til ráðstöfunar skerðist. Þær snúa allar að því að færa til skattbyrðina, þ.e. af flestu launafólki og yfir á annars konar skattgreiðendur.
Í skýrslunni er einnig fjallað um þá „sem hafa þann starfa að sýsla við hirðingu eigin fjár, oft kallaðir fjárfestar, athafnamenn o.s.frv. hvort sem er í eigin nafni eða fyrir hönd eigin einkahlutafélags“. Þeir eru sagðir hafa þá sérstöðu nær einir starfandi manna að þurfa ekki að reikna sér laun fyrir vinnu sína eða geta reiknað sér lág laun, til dæmis lagað þau að skattleysismörkum. „Verður ríkið þá af verulegum tekjum og sveitarfélögin missa af útsvari nema að því leyti sem ríkið greiðir þeim sem ónýttan persónuafslátt upp í útsvar. Tryggja þarf jafnræði í tekjuskattlagningu með því að loka þessum leiðum til skattahagræðingar. Nýlegar upplýsingar sýna að fjöldi tekjuhárra og efnaðra borgara komast hjá því að borga skatta með þessum hætti og með öðrum leiðum sem almennum borgurum standa ekki til boða, svo sem að fela tekjur í eignarhaldsfélögum og taka þær ekki út nema að hluta og þá sem fjármagnstekjur.“
Þeir leggja meðal annars til að ákveðið lágmark heildartekna (launa -og fjármagnstekna) einstaklinga verði skattlagt sem almennar tekjur, að reglur um reiknað endurgjald verði látnar ná til allrar atvinnustarfsemi en fjármálastarfsemi o.fl. verði ekki undanskilin eins og nú er. og að tekjur og eignamyndun einstaklinga í einkahlutafélögum sem ekki sinna raunverulegri atvinnustarfsemi (sölu á vörum eða þjónustu) verði skattlögð hjá eigendum þeirra og eignarhaldsfélög sem ekki hafa með höndum atvinnustarfsemi verði ekki sjálfstæðir skattaaðilar.
Sérstakur stóreignaskattur er lagður til og samkvæmt tillögunum ætti hann að vera á bilinu 1-1,5 prósent á öll verðmæti umfram frítekjumark sem ætti að miðast við eðlilegt verðmæti íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og einkabifreiða til eigin afnota.
Auðlindagjöld í sjávarútvegi verði síðan miðuð við að þjóðin fái í sinn hlut að minnsta kosti 75 prósent af umframarði í atvinnugreininni með veiðigjöldum og/eða uppboði á kvóta. Til að byrja með leggja skýrsluhöfundar til að veiðigjöld verði hækkuð verulega og „óháðum erlendum aðila verði falið að leggja mat á auðlindaarð í sjávarútvegi sem frekari breytingar verði byggðar á.“ Til viðbótar leggja þeir til að svokallað orkugjald verði lagt á orkusölu til stóriðju sem miðist við mismun á verði til stóriðju hér á landi og verð á orku til iðnaðar í Evrópu, að teknu tilliti til fjarlægðaráhrifa, að auðlindagjald verði lagt á öll önnur leyfi til nýtingar á náttúrulegum auðlindum eins og vegna fiskeldis eða náumvinnslu og að kannaðar verði leiðir til að leggja auðlindagjald á þá aðila sem fengið hafa einkarétt til nýtingar á náttúruauðlindum til ferðaþjónustu.
Í skýrslunni segir að ofangreindar leiðir gætu „skilað tugum milljarða aukalega til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar og kjarabótum fyrir almenning. Svigrúm ríkisins til leiðréttingar á stóru skattatilfærslunni er því í reynd mikið.“
Vilja stórauka skattaeftirlit
Mikið púður í skýrslunni fer einnig í að setja fram tillögur um bætt skattaeftirlit. Höfundar segja að sá veikleiki sé í meðferð skattasvikamála „að brot á skattalögum verða oftlega ekki opinber eins og gerist með önnur lagabrot sem framin eru, rannsökuð og sæta ákærumeðferð. Þegar sá sem brotið hefur skattalög verður þess var að hann sætir skatteftirliti getur hann sent inn leiðréttingu á framtali sínu áður en formleg skattrannsókn hefst og síðan greitt álögur og sektir skv. skattalögum og þannig komist hjá því að brotin verði opinber, jafnvel þótt undanskotin séu stórfelld, ásetningurinn augljós og brotin gróf.“
Þeir leggja til að eftirlitsstarf skattyfirvalda og skattrannsókna verði eflt og sjálfstæði þeirra gagnvart hugsanlegum áhrifum pólitískra afla styrkt. „Aukinn mannafli í þessi verkefni er lykill að árangri og góð fjárfesting því margsannað er að gott skatteftirlit skilar ríkissjóði margföldum kostnaðinum til baka auk þess að tryggja jöfnuð og sanngirni í samfélaginu.“
Þá vilja skýrsluhöfundar að gerð verði úttekt á skipulagi skatteftirlits og skattrannsókna með teknu tilliti til skilvirkni og samspils þeirra við réttarkerfið og endurskoða málsmeðferð, að eftirlit með stórfyrirtækjum og viðskiptum yfir landamæri verði eflt og að ákvæði um keðjuábyrgð verði lögfest ásamt bann við atvinnustarfsemi þeirra sem gerast brotlegir.
Skýrsluhöfundar leggja til að gerð verði úttekt á tekju- og eignamyndun sem ekki komi fram í skattskilum einstaklinga og lögaðila þar sem ætla megi „ að miklar eignir séu duldar í einkahlutafélögum, m.a. vegna eigna sem færðar hafa verið á kaupverði og síðan afskrifaðar. Þetta getur átt við um hlutabréf, fasteignir hér á landi og erlendis. Ársreikningar gefa ekki rétta mynd af eignum félagsins og því skattalega hagræði sem það veitir.“
Þeir vilja einnig að lögfest verði skylda íslenskra aðila sem eiga ráðandi hlut í í erlendu félagi sem skráð eru í landi sem hefur ekki sambærilegar reglur um skráningu félaga og Ísland, að skrá það á Fyrirtækjaskrá hér á landi, skila ársreikningum til Ársreikningaskrár og skattframtali samkvæmt íslenskum reglum. Það myndi til að mynda eiga við eigendur þeirra aflandsfélaga sem opinberuð voru í Panamaskjölunum vorið 2016.
Þá er lagt til að raunverulegir eigendur allra félaga séu skráðir og að upplýsingar um þá liggi fyrir í Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og að lögfestar verði á Íslandi lagareglur sem séu sambærilegar þeim sem sé að finna í reglugerð Evrópusambandsins gegn skattaundanskotum, en hún kom til framkvæmda um síðustu áramót. Í henni felast fimm skilgreindar aðgerðir sem eiga að vinna gegn skattsvikum.
Segja tillögurnar stuðna að sanngjarnara skattkerfi
Stefán og Indriði segja í skýrslunni að tekjuskattkerfið sem þeir útfæra í henni sé „ekki aðeins sanngjarnara og skilvirkara en núverandi skattkerfi. Það myndi leiðrétta að hluta hina stóru og óréttlátu skattatilfærslu sem hér varð fyrir tilstilli stjórnvalda, án þess að það væri kynnt eða rætt í samfélaginu. Tilfærslan fór að mestu leynt. Þær útfærslur sem kynntar eru í skýrslunni myndu að auki jafna ráðstöfunartekjur milli kynjanna, því konur eru að mestu leyti í þeim tekjuhópum sem fengju mestu skattalækkunina. Karlar eru oftar í hátekjuhópunum sem fengju skattahækkun.“
Umbæturnar yrðu því stórt skref til jöfnunar á afkomu kynjanna.
Þá myndi hagur ellilífeyrisþega og öryrkja sérstaklega bætast ef farið yrði í útfærslurnar, að mati skýrsluhöfunda, þar sem að það fólk sé að stærstum hluta í þeim tekjuhópum sem fengju mesta skattalækkun. „Einnig væri þetta skattkerfi hagstæðara ungu fólki á vinnumarkaði sem er að hefja starfsferil og stofna fjölskyldu, ekki síst ef leiðrétting barnabóta og húsnæðisstuðnings, sem að er stefnt í stefnumörkun ASÍ, nær fram að ganga.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði