Tekjubilið milli ungs fólks og miðaldra hefur aukist á Íslandi á síðustu áratugum, en slíka þróun má einnig sjá í Bandaríkjunum og á Bretlandi. Þrátt fyrir að aldamótakynslóðin búi nú við hlutfallslega verri kjör en eldri kynslóðir má þó búast við að hún verði ríkari í framtíðinni, að minnsta kosti hér á landi. Hins vegar virðist félagslegur hreyfanleiki ungmenna hafa minnkað á síðustu áratugum, en það gæti skapað vandamál fyrir tækifæri ungs fólks í dag.
Gamlir ríkari á Íslandi
Á vefsíðu ríkisstjórnarinnar um tekjuþróun landsins, tekjusagan.is, sést hvernig ráðstöfunartekjur 55-64 ára Íslendinga hafa aukist hraðar en tekjur yngri aldurshópa á síðustu þremur áratugum. Eins og sést á mynd hér að neðan jókst bilið milli þeirra fram að hruni og skrapp svo saman í kreppunni. Á síðustu fimm árum hefur bilið svo aukist um helming og er það nú nær fjórum sinnum stærra en það var árið 1991.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar-og ferðamálaráðherra, gerði grein fyrir þessari þróun í grein sinni í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum síðan. Þar segir hún það vera afgerandi niðurstöðu í tekjuþróun síðustu ára að kjör eldra fólks hafi batnað töluvert meira en annarra.
Þetta er líka í samræmi við niðurstöður skýrslu sem Axel Hall og Friðrik Már Baldursson unnu fyrir fjármálaráðuneytið árið 2016. Samkvæmt henni hefur ungt fólk dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi á meðan eftirlaunaþegar hafa fremur bætt stöðu sína.
Millenials og Baby Boomers
Svipaða þróun má líka sjá annars staðar á Vesturlöndum undanfarna áratugi. Hún hefur komið skýrt fram í niðurstöðum ýmissa rannsókna auk þess sem hún hefur verið eitt af meginstefjum í stjórnmálaumræðu Bandaríkjanna og Bretlands á síðustu misserum.
Þar er aldamótakynslóðin (e. millenials), sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum, borin saman við hina svokölluðu „baby boomer“-kynslóð, sem nálgast nú eftirlaunaaldur.
Vegna hækkandi náms-og fasteignakostnaðar á sama tíma og laun hafa staðið í stað og aukins atvinnuleysis í kjölfar efnahagskrísunnar hafa bandarísk og bresk ungmenni átt erfitt með að ná endum saman. Nýleg rannsókn sýndi afleiðingar þessarar þróunar svart á hvítu, en aldamótakynslóðin er fyrsta kynslóðin á eftirstríðsárum Bandaríkjanna sem getur vænst þess að eignast minni tekjur en foreldrar sínir um þrítugt.
Á sama tíma og staða ungmenna hefur versnað nýtur „baby boomer“-kynslóðin hins vegar sögulegrar velsældar. Sú kynslóð var alin upp við stekrara félagsnet og ódýrari menntun snemma á eftirstríðsárunum, en naut svo skattalækkana þegar hún var komin út á vinnumarkaðinn á áttunda og níunda áratugnum. Þessir þættir, auk lægri fasteignakostnaðar og ört hækkandi tekna, hafa gert „baby boomer“ -kynslóðina að ríkustu kynslóð Bandaríkjanna.
Auglýsing
Eðlilegar skýringar
Þótt þessi vaxandi ójöfnuður milli kynslóða hljómi ógnvænlegur hafa fræðimenn fundið tiltölulega eðlilegar skýringar á bak við hann. Efnahagsráðgjafar fyrrum Bandaríkjaforseta, Barack Obama, bentu á þá staðreynd að fleiri sæki sér háskólamenntun núna sem leiðir til lægri tekna á þrítugsaldri, en meiri tekjuávinnings seinna á ævinni.
Þessi athugun er í samræmi við niðurstöður Axels Hall og Friðriks Más um ævitekjur Íslendinga. Þrátt fyrir að ungmenni byrji með hlutfallslega lægri laun en áður þá virðast þeir hækka í launum hraðar og lengur en foreldrar sínir.
Ójöfn tækifæri
Fylgifiskur aukinnar menntunar hefur því verið lengri bið eftir hærri tekjum síðar á lífsleiðinni, en slíkt gerir það að verkum að fólk haldist lengur í sömu tekjuhópum á fyrri hluta ævinnar. Þessi þróun hefur skilað sér í minni félagslegum hreyfanleika ungs fólks, þar sem tekjur þeirra eru í meira mæli ákvarðaðar af foreldrum þeirra.
Á Tekjusögu ríkisstjórnarinnar er hægt að sjá hreyfanleika milli tekjuhópa eftir aldurshópum á síðustu þremur áratugum. Þannig er hægt að skoða hversu miklar líkur ungmenni af hverri kynslóð hafa átt á að komast í efri tekjuhópa þegar þau verða eldri. Samkvæmt Tekjusögunni hefur félagslegur hreyfanleiki Íslendinga minnkað töluvert með hverri kynslóð frá árinu 1991.
Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem var rúmlega tvítugur árið 1991 og í fátækasta tekjuhópnum hafði einungis 8% líkur á því að vera enn í sama tekjuhópi 15 árum seinna. Fyrir samsvarandi hóp árið 2001 höfðu líkur hans á að haldast í sama tekjuhópi 15 árum seinna hins vegar aukist um þrjá fjórðu og voru orðnar tæp 14%.
Sömu sögu má segja um alla aðra tekjuhópa ungmenna á síðustu þrjátíu árum. Líkur þeirra á að komast upp um tekjuhóp í framtíðinni hafa minnkað hjá aldamótakynslóðinni, ef frá eru talin ríkustu 20% þeirra, sem eru nú líklegri í að halda í auð sinn eftir því sem þau verða eldri.
Mikill hreyfanleiki en fer minnkandi
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði upplýsingarnar á vefsvæði Tekjusögunnar benda til þess að félagslegur hreyfanleiki sé mikill á Íslandi. Svo virðist vera, en Ísland hefur, ásamt öðrum Norðurlöndum, komið vel út í alþjóðlegum samanburði í þeim málum á undanförnum árum.
Hins vegar er ljóst að nokkuð hefur dregið úr félagslegum hreyfanleika á undanförnum áratugum. Minnki hann enn frekar er hætta á að stéttaskipting aukist hér á landi þar sem tekjulágir hafi minni möguleika á að komast upp um tekjuhópa og þeir ríku líklegri til að haldast ríkir.
Aldamótakynslóðin byrjar ekki í jafngóðri stöðu á vinnumarkaðnum og foreldrar þeirra gerðu seint á síðustu öld. Sú þróun er þó ekki endilega slæm, þar sem tekjur ungs fólks hafa vaxið hraðar og lengur en tekjur fyrri kynslóða, líklega vegna aukinnar ásóknar í háskólanám.
Þrátt fyrir meiri tekjur er þó ekki víst hvort flest íslensk ungmenni muni hafa jafnmikil tækifæri og foreldrar þeirra til að bæta hag sinn. Með minni félagslegum hreyfanleika gætu tækifærin orðið ójafnari, en slíkt gæti dregið úr þeim jöfnu tækifærum sem Íslendingar hafa verið frægir fyrir.