Hlutafé í Þórsmörk ehf., eiganda Árvakurs, var aukið um 200 milljónir króna þann 21. janúar síðastliðinn. Auk þess var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir til ársloka 2019.
Þetta kemur fram í skjölum sem send hafa verið inn til fyrirtækjaskráar vegna hlutafjáraukningarinnar og breytinga á samþykktum.
Peningarnir koma ekki frá nýjum fjárfestum
Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Sigurbirni Magnússyni, stjórnarformanni Þórsmerkur, að hlutafjáraukningin hafi öll komið frá þeim hluthöfum sem fyrir voru. Því hafi hluthafahópur félagsins ekki tekið breytingum. Nýjar upplýsingar um eignarhald hafa ekki verið sendar til fjölmiðlanefndar. Samkvæmt heimasíðu hennar, þar sem eignarhald á fjölmiðlum landsins er sýnt, voru slíkar upplýsingar síðast uppfærðar fyrir um einu og hálfu ári síðan, eða í september 2017.
Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru samkvæmt þeim upplýsingum með samanlagt stærstan eignarhlut í Þorsmörk, og þar með Árvakri. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Hlynur A mat eignarhlut sinn í Þórsmörk á 177,7 milljónir króna í lok árs 2016 en mat eignarhlutinn á 135 milljónir króna í lok árs 2017. Það þýðir að heildarvirði Þórsmerkur, og þar af leiðandi Árvakurs, fór úr um 1.080 milljónum króna í 820 milljónir króna á einu ári.
Aðrir stórir eigendur eru félagið Ramses II, í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, með 22,87 prósent eignarhlut og Kaupfélag Skagfirðinga, í gegnum félagið Íslenskar sjávarafurðir, með 15,84 prósent eignarhlut. Flestir minni eigendur eru tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum.
Viðskiptabanki Árvakurs, Íslandsbanki, hefur afskrifað um 4,5 milljarða króna af skuldum félagsins frá árinu 2009. Þorri þeirra afskrifta átti sér stað í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi á því ári. Síðari lota afskrifta átti sér svo stað árið 2011 og var upp á einn milljarð króna.
Fjárfest í útvarpsrekstri
Þegar ársreikningur Árvakurs fyrir árið 2017 var gerður opinber í byrjun september í fyrra birtist frétt um rekstur félagsins í Morgunblaðinu. Þar sagði Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og annar ritstjóri Morgunblaðsins, að rekstrarumhverfið væri erfitt og að það hafi bitnað á rekstrinum. Samkeppnin við Ríkisútvarpið hefur farið harðnandi vegna aukinna umsvifa þess, einkum á auglýsingamarkaði. Erlend samkeppni hefur einnig harðnað mjög og þar keppa innlendir miðlar við erlenda miðla sem búa við allt aðrar aðstæður, svo sem í skattalegu tilliti og í tækifærum til auglýsingasölu. Ennfremur hefur launakostnaður hér á landi hækkað ört og fyrir fyrirtæki þar sem sá liður vegur langsamlega þyngst í rekstrinum, þá er óhjákvæmilegt að það hafi veruleg áhrif. Hluti af tapi síðasta árs stafar þó einnig af því að við erum að byggja upp nýja starfsemi og sú uppbygging hefur kostað töluvert fé, en við gerum ráð fyrir að hún muni skila sér í auknum tekjum, meiri hagkvæmni og jákvæðri afkomu.
Sú nýja starfsemi fólst fyrst og síðast í kaupum á útvarpsstöðinni K100 árið 2016 og fjárfestingum í uppbyggingu hennar. Henni hefur ekki tekist blanda sér í baráttuna við stærstu útvarpsstöðvar landsins á þeim tíma sem liðinn er frá því að Árvakur keypti hana. Í síðustu mælingum Gallup, sem sýna hlustum um síðustu mánaðamót, mældist hlutdeild K100 í hlustun 2,7 prósent. Bylgjan var á sama tíma með mesta hlutdeild í hlustun, 36,7 prósent, og ríkisútvarpstöðvarnar tvær, Rás 2 (26,4 prósent) og Rás 1 (24,6 prósent) fylgdu þar fast á eftir.
mbl.is enn í sterkri stöðu en lestur blaðsins dalar
Lestur Morgunblaðsins hefur dalað hratt á undanförnum árum, líkt og flest allra prentmiðla, þrátt fyrir að blaðið hafi nú um nokkurt skeið í raun verið blanda af áskriftarblaði og fríblaði, þar sem að það er í aldreifingu flesta fimmtudaga, þegar því er dreift inn á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu án endurgjalds.
Árið 2009, þegar nýir eigendur tóku við blaðinu og núverandi ritstjórar þess, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, voru ráðnir, lásu 43 prósent landsmanna blaðið. Í síðustu mælingu Gallup, sem sýnir lestur í janúar 2019, mældist lesturinn 24,1 prósent. Í aldurshópnum 18-49 ára mældist hann 14,4 prósent. Ekki er viðbúið að miklar breytingar verði á skipan mála á Morgunblaðinu í nánustu framtíð. Davíð sagðist í viðtali við Páll Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins og þáttastjórnanda á K100, í maí 2018 að hann liti svo á að hann gæti setið í ritstjórastóli í fimm, sex eða sjö ár til viðbótar. Í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í fyrrasumar kom fram að Davíð væri með 5,7 milljónir króna á mánuði, sem gerðu hann að tekjuhæsta fjölmiðlamanni landsins. Þau laun eru þó að hluta til eftirlaun vegna ráðherrasetu hans og starfa sem seðlabankastjóri á árunum 2005 til 2009. Haraldur, meðritstjóri hans og framkvæmdastjóri Árvakurs, var í öðru sæti á listanum með tæplega 4,4 milljónir króna á mánuði og Logi Bergmann Eiðsson, dagskrárgerðarmaður hjá Árvakri, í fjórða sætinu með tæplega 1,8 milljón króna á mánuði.
Þar með er þó ekki nema hálf sagan sögð vegna þess að mikið af efni úr Morgunblaðinu fer líka inn á mbl.is, umfangsmesta fréttavef landsins árum saman, sem rekur einnig stóra og öfluga ritstjórn. Samkvæmt nýjustu mælingum Gallup voru meðal notendur vefsins í síðustu mældu viku 168.232 og vikulegir notendur alls 454.226. Vísir.is, hinn risinn á vefréttamarkaði, er þó á afar svipuðum slóðum.