Tíu ára afmælisár Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, er nú formlega búið og má segja að það sé loksins komin nokkuð skýr mynd á efnahagsreikninga bankana eftir fordæmalausa endurreisn bankakerfisins, á grunni innlendra eignasafna hinna föllnu banka, Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans.
Það sem helst einkennir bankana er ákveðinn hægagangur í rekstri og um margt krefjandi aðstæður til að skila viðunandi arðsemi. Þrátt fyrir nokkurn útlánavöxt, þá er arðsemi fremur lág, tækifæri til vaxtar á örmarkaðnum íslenska takmörkuð, í kólnandi hagsveiflu, og margt bendir til þess að frekari hagræðing sé í kortunum í starfsemi þeirra.
Undanfarna daga hefur umræða um laun bankastjóra verið áberandi, enda kjaradeilur í algleymingi og viðkvæm staða á borði ríkissáttasemjara.
Það sem kveikti neistann í þeirri umræðu var 82 prósent hækkun launa bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, en hún er með 3,8 milljónir í mánaðarlaun. Athyglisvert er, þegar rýnt í rekstur bankanna, að hún er með langsamlega lægstu launin meðal bankastjóra þriggja stærstu bankanna, þrátt fyrir að hún stýri stærsta bankanum sem um þessar mundir skilar einnig bestu rekstrarkennitölunum, þegar horft er til markaðshlutdeildar, arðsemi eigin fjár og kostnaðarhlutfalls í rekstri.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var með 5,3 milljónir á mánuði í fyrra, og heildarlaun Höskuldar Ólafssonar voru 6,2 milljónir á mánuði.
Sé rýnt í rekstrarkennitölur var arðsemi eiginfjár minnst hjá Arion banka. Markaðsvirði Arion banka er nú 150 milljarðar króna en eigið fé í lok árs var 200,9 milljarðar. Það þýðir að markaðsvirðið er nú 74,6 prósent af eigin fénu, sem telst fremur lágt í alþjóðlegum samanburði við banka sem eru skráðir á markað. Þó eru dæmi um banka sem eru verðlagðir neðar á þennan mælikvarða.
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálakerfinu, hefur krafið stjórn Íslandsbanka og bankaráð Landsbankans skýringa á launaþróun bankastjóra, en bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa gagnrýnt launaþróun bankastjóra ríkisbankana, og meðal annars sagt að hún sé ekki í samræmi við tilmæli þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikts Jóhannessonar, frá árinu 2017.
Hér að neðan verður farið yfir fimm mikilvæga þætti, þegar horft er til rekstrar bankanna eins og hann birtist í uppgjörum þeirra fyrir árið 2018.
1. Sá grundvallarmunur er á bönkunum, að Arion banki er í einkaeigu á meðan íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka og Landsbankans. Eign ríkisins í Landsbankanum er 98,2 prósent en bankinn sjálfur á 1,5 prósent og aðrir - að mestu starfsmenn bankans - eiga 0,3 prósent hlut. Stærstu eigendur Arion banka - sem er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, í Nasadaq kauphallir - er Kaupskil ehf. með 32,7 prósent hlut, Taconic Capital með 10 prósent hlut, Attestor Capital með 8,9 prósent, Och-Ziff Capital með 6,6 prósent, Goldman Sachs Funds með 3,4 prósent hlut og Landsdowne Funds með 3 prósent hlut. Eignarhaldið er að miklu leyti enn hjá kröfuhöfum gamla Kaupþings, eða aðila sem tengjast þeim hópi. Kaupþing, eigandi Kaupskila, ætlar að selja að lágmarki tíu prósent af hlut sínum í bankanum á næstu vikum, og er það nú í undirbúningi.
2. Eiginfjárstaða bankanna er nokkuð traust, sé horft til samsetningu þess. Samanlagt var eigið fé bankanna þriggja 616,8 milljarðar króna í lok árs 2018. Svo það sé sett í samhengi fyrir almenning, þá er það upphæð sem nemur um 14,3 prósentum af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða, en þær nema nú um 4.300 milljörðum.
Sé horft til þessa mælikvarða þá er Landsbankinn með töluvert meira eigið fé en hinir bankarnir tveir, enda er hann stærstur bankanna og með mesta markaðshlutdeild heilt á litið. Eigið fé bankans nam í lok árs 239,6 milljörðum króna. Arion banki var með 200,9 milljarða króna eigið fé í lok ársins og Íslandsbanki með 176,3 milljarða. Eiginfjárhlutföll bankanna eru há í alþjóðlegum samanburði, á bilinu 22 til 25 prósent. Eiginfjárkröfur FME eru einnig háar í alþjóðlegu samhengi, en lágmarksviðmið FME er 20 prósent.
3. Hagnaður bankanna hefur verið að dragast nokkuð saman og varð sú raunin á árinu 2018. Samanlagður hagnaður bankanna var 37,7 milljarðar króna, eða sem nemur um 6,1 prósent af heildar eiginfé þeirra. Hagnaður Landsbankans var 19,3 milljarðar og er lagt til að greiddir verið 9,9 milljarðar í arð til ríkisins vegna ársins.
Hjá Arion banka var hagnaðurinn 7,8 milljarðar og sagði Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, það vera undir væntingum. Lagt er til að tíu milljarðar verði greiddir til eigenda í arð vegna rekstrarins í fyrra, og er það hluti af þeirri sýn hluthafa og stjórnenda Arion banka að minnka eigin fé bankans og greiða út arð til eigenda. Hjá Íslandsbanka var hagnaðurinn 10,6 milljarðar og er lagt til að greiddir verði í arð 5,3 milljarðar til eigandans, það er ríkisins. Samanlagðar arðgreiðslur til ríkisins frá ríkisbönkunum vegna ársins 2018 nema því 15,2 milljörðum króna.
4. Arðsemi eigin fjár hjá bönkunum var mismunandi, en hún var minnst hjá Arion banka, aðeins 3,7 prósent. Það telst lágt í alþjóðlegum samanburði, jafnvel þó arðsemi eiginfjár hjá bönkum hafi farið almennt lækkandi á undanförnum misserum. Ríkisbankarnir voru með mun meiri arðsemi á þennan mælikvarða. Landsbankinn var með 8,2 prósent arðsemi eiginfjár og Íslandsbanki 6,1 prósent. Ríkisbankarnir skila því mun meiri arðsemi en Arion banki.
5. Eitt af því sem oft er horft til, þegar hagkvæmni rekstrar hjá bönkum er metið, er kostnaðarhlutfall þeirra. Það er hlutfall rekstrarkostnaðar miðað við tekjur. Hjá Íslandsbanka var þetta hlutfall 66 prósent. Það telst hátt í alþjóðlegum samanburði. Landsbankinn er með mun lægra hlutfall en bæði Íslandsbanki og Arion banki, eða 45,5 prósent. Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, sagði í samtali við Kjarnann að það væri alveg skýrt markmið bankans að lækka kostnaðarhlutfallið, en það fór þó hækkandi á milli áranna 2017 og 2018. Markmið bankans er að vera í kringum 55 prósent.
Arion banki var með kostnaðarhlutfall upp á 56,9 prósent, en á fjórða ársfjórðungi var það 60,3 prósent. Búast má við því að bankarnir muni reyna að lækka þetta hlutfall enn frekar, einkum Arion banki og Íslandsbanki. Starfsmönnum Arion banka hefur farið fækkandi að undanförnu en starfsgildi voru 904 í lok árs 2018 en þau voru 949 í lok árs 2017.
Sama er uppi á teningnum hjá Íslandsbanka en starfsmenn voru þar 834 í lok árs 2018 og hefur farið fækkandi. Hjá Landsbankanum starfa nú 919 en í lok árs 2017 voru þeir 1034. Meðaltal stöðugilda var hins 961 á árinu 2018. Starfsmönnum fækkaði því þó nokkuð á árinu 2018, en sé mið tekið af kostnaðarhlutfalli má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Samanlagt voru starfsmenn í bönkunum þremur um það bil 2.730 í árslok 2018.
Öfundsverð staða, þrátt fyrir allt
Sé horft til fremur stuttrar sögu bankanna, frá því þeir urðu til upp úr rústum föllnu bankanna í hruni fjármálakerfisins í október 2008, þá er staða þeirra sterk og traust að mörgu leyti, og kannski sérstaklega þegar horft til alþjóðlegs samanburðar. Bankarnir starfa að nær öllu leyti eingöngu á Íslandi og áhættusöm lán eru ekki fyrirferðamikil í rekstrinum, eftir mikla hreinsun í kjölfar hrunsins. Til framtíðar litið skiptir þetta miklu máli fyrir fjármálakerfi landsins, ekki síst í ljósi mikilla breytinga sem fjármálageirinn er að ganga í gegnum með breyttu regluverki og nýjum tæknimöguleikum. Á tíu ára starfsafmæli þriggja stærstu bankanna má segja að helsti styrkur þeirra sé sá, að efnahagsreikningarnir eru skýrir og gagnsæir, ólíkt því sem var fyrir hrunið.