Mynd: Pixabay.com

Handsprengjum sífellt kastað inn í kjaraviðræður

Lengi hefur blasað við að mjög viðkvæm staða væri uppi á vinnumarkaði. Vegna þess voru stjórnir ríkisfyrirtækja beðnar um að sýna hófsemi í launahækkunum forstjóra sinna þegar vald yfir þeim var fært aftur til þeirra. Þær hunsuðu þau tilmæli og laun flestra forstjóra, sem voru þegar mjög há í öllum samanburði, voru hækkuð um tugi prósenta.

Íslenska ríkið á tvo af þremur stóru viðskiptabönkunum, Landsbankann og Íslandsbanka. Nýleg rannsókn sem gerð var fyrir starfshóp sem vann Hvítbók um fjármálakerfið sýndi að 61,2 prósent landsmanna eru jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi þeirra.

Sama rannsókn sýndi að einungis 16 prósent treysta bönkum. Ástæðuna fyrir traustleysinu er ekki einungis að finna í bankahruninu sem varð fyrir rúmum áratug, og afleiðingum þess. Þvert á móti voru þau orð sem flestum Íslendingum datt í hug þegar lýsa átti bankakerfinu orð eins og háir vextir, dýrt, okur, glæpastarfsemi, spilling og græðgi. Þar á eftir komu orð á borð við og vantraust, há laun, bónusar og eiginhagsmunasemi.

Óánægja almennings með bankanna sína snýr því ekki að eignarhaldi þeirra, heldur þeirri þjónustu sem þeir veita og þeirri menningu sem þeir virðast endurspegla. Menningu græðgi og spillingar, samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, kom inn á þetta í erindi sem hann hélt á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins síðastliðinn þriðjudag. Þar spurði hann meðal annars af hverju nokkur ætti að treysta bankakerfinu? „Til að fólk treysti manni þarf maður að vera traustvekjandi og það skortir töluvert upp á það.“

Gylfi sagði bankana viljandi seta verðskrá sína fram með flóknum og óskýrum hætti þannig að neytendur ættu ekki möguleika á því að bera þær saman. Þetta, og önnur óskýr starfsemi bankanna, skili rentu sem sé ekki notuð til að bæta kjör til almennings heldur til að greiða há laun til starfsfólks fjármálafyrirtækja, skila miklum hagnaði og til að byggja nýjar byggingar. Þar vísaði hann til áætlana um að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við hlið Hörpu sem eiga að kosta að minnsta kosti níu milljarða króna, og nettó sjö milljarða króna þegar búið er að selja aðrar fasteignir bankans upp í kostnaðinn. „Landsbankahúsið er tíu sinnum dýrara fyrir Ísland heldur en múrinn við landamæri Mexíkó sem Bandaríkjaforseti vill byggja. Af hverju? Þetta eru peningar almennings,“ spurði Gylfi.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, hélt eldmessu um bankana á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins í vikunni.
Mynd: Skjáskot

Sambærileg skilaboð hafa komið annars staðar frá. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifaði blaðagrein í desember 2018 með fyrirsögninni „Ríkið getur lækkað vexti“. Þar sagði Sigurður að í Hvítbókinni hafi komið fram að  með­al­vextir útlána íslensku bank­anna hafi verið 5,8 prósent á árinu 2017 en með­al­vextir skulda bank­anna 3,2 prósent. „Á því ári var því 2,6 pró­sentu­stiga munur á með­al­tals­vöxtum vaxta­ber­andi eigna og skulda íslenskra banka. M.ö.o var álagn­ing íslensku bank­anna 45 prósent[...]Háir vextir útlána bank­anna skýr­ast því að mjög stórum hluta af þess­ari háu álagn­ingu þeirra.“

Sigurður sagði að það væri íslenska ríkisins að hagræða í bankakerfinu, bæta þannig kjör, stuðla að meiri skilvirkni og auka verðmætasköpun. Það yrði gert með því að minnka rekstrarkostnað. Og um það bil helmingur hans er launakostnaður.

Öllum ljóst viðkvæmni kjaradeilna

Nú standa yfir einhverjar viðkvæmustu kjaraviðræður sem átt hafa sér stað í áratugi á Íslandi. Í kröfugerðum, sem félagsmenn samþykktu, var til að mynda farið fram á að lágmarkslaun yrði hækkuð úr 300 þúsund krónum í 425 þúsund krónur á nokkrum árum. Ef verkalýðshreyfingin á að víkja frá þessum kröfum þá þurfa stjórnvöld að koma að borðinu með tillögur sem skili skjólstæðingum hennar nægilegum kjarabótum. Með öðrum orðum verður ríkið að borga fyrir kjarabætur launafólks, ekki atvinnulífið. Það þarf ríkið að gera með skattkerfisbreytingum sem færa skattbyrði af lág- og millitekjuhópum og eykur jöfnunarhlutverk skattkerfisins, meðal annars með auknum millifærslum í gegnum bótakerfi. Að endingu er farið fram á sértækar aðgerðir til að rétta hlut þeirra sem hafa farið halloka á húsnæðismarkaði á síðustu árum. Allir sem koma að kjaraviðræðum gera sér grein fyrir því að svona er staðan og að lausnin á hinni erfiðu stöðu felst í málamiðlun á þessum forsendum.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, ræddi þessa stöðu meðal annars í þættinum 21 á Hringbraut nýverið.

  En það er fleira sem verkalýðshreyfingin, og raunar þorri almennings, fór fram á. Að hópar sem hafa mun hærri laun en flestir landsmenn fari ekki fram úr sér í launahækkunum heldur beri skynbragð á það sem sé að gerast í samfélaginu.

Það virðist hins vegar vera erfitt fyrir þá sem hafa vald til slíkra ákvarðana, að bera slíkt skynbragð og ganga í takt við kröfur þorra almennings.

Tilmæli ráðherra hunsuð

Það má segja að fyrsta sprengjan sem kastað var inn á vinnumarkaðinn hafi verið 44,3 prósent hækkun á launum þingmanna, og tugprósentahækkun á launum æðstu ráðamanna, sem ákveðin var af kjararáði og gerð opinber á kjördag 2016. Skömmu áður höfðu aðstoðarmenn ráðherra verið hækkaðir um allt að 35 prósent.

Við skýlausri kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að það yrði undið ofan af þessum hækkunum, til að tryggja sáttargrundvöll um laun á vinnumarkaði, hefur ekki verið orðið. Þess í stað var ákveðið að færa ýmsa undan kjararáði og á endanum að leggja fyrirbærið niður, en leyfa ráðamönnum að halda hinum miklu hækkunum.

Í árslok 2016, þegar enn var stjórnarkreppa í landinu og ekki hafði tekist að mynda ríkisstjórn, var ákveðið að færa ákvarðanir um laun forstjóra ríkisfyrirtækja frá kjararáði til stjórna fyrirtækjanna sjálfra. Benedikt Jóhannesson tók síðan við sem fjármála- og efnahagsmálaráðherra í janúar 2017 og eitt af hans fyrstu verkum var að senda bréf á stjórnir allra ríkisfyrirtækja. Í bréfinu beindi Benedikt þeim tilmælum til stjórnanna að þær myndu stilla öllum launahækkunum í hóf eftir að þær myndu fá ákvörðunarvald yfir launum forstjóra um mitt ár 2017. Í bréfinu stóð að ástæða hafi verið til þess að „vekja sér­staka athygli á mik­il­vægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launa­á­kvarð­ana á stöð­ug­leika á vinnu­mark­aði og ábyrgð félag­anna í því sam­bandi. Æski­legt er að launa­á­kvarð­anir séu var­kár­ar, að forð­ast sé að ákvarða miklar launa­breyt­ingar á stuttu tíma­bili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglu­bundnum hætti til sam­ræmis við almenna launa­þró­un.“

Afrit af bréfinu var svo sent aftur til allra stjórnanna daginn áður en að launaákvörðunarvaldið var fært til þeirra. Auk þess fundaði Benedikt með formönnum stjórna stærstu ríkisfyrirtækjanna þann 10. ágúst 2017 og fór þá enn yfir efni bréfsins.

Benedikt Jóhannesson sendi skýr tilmæli til stjórna ríkisfyrirtækja. Þau voru hunsuð.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Stjórnir flesta stærstu fyr­ir­tækj­anna í rík­i­s­eigu huns­uðu til­mælin og hækk­uðu laun for­stjóra sinna langt umfram almenna launa­þró­un. Benedikt sagði í viðtali við Kastljós í vikunni að hans mestu mistök sem ráðherra hafi verið þau að hafa ekki rekið þær stjórnir sem það gerðu.

Sumir gengu á lagið...

Þegar ársreikningar ríkisfyrirtækja vegna ársins 2017 fóru að birtast á fyrstu mánuðum ársins 2018 kom í ljós að stjórnir þeirra höfðu gengið á lagið. Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, hækkaði til að mynda úr tveimur milljónum króna í tæpar 3,3 milljónir króna á mánuði eftir að launaákvörðunarvaldið var fært til stjórnar fyrirtækisins.

Stjórnarformaður Landsvirkjunar er Jónas Þór Guðmundsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra. Hann er líka í starfskjaranefnd stjórnar fyrirtækisins og var formaður kjararáðs sem fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Laun stjórnarmanna Landsvirkjunnar, sem allir eru pólitískt skipaðir, hækkuðu líka um tæp 50 prósent samkvæmt ákvörðun starfskjaranefndar.

Laun forstjóra Íslandspósts, Ingimundar Sigurpálssonar, hækkuðu líka gríðarlega mikið, eða um 25 prósent, við tilfærsluna. Hann var með um 1,8 milljón króna á mánuði eftir hana.

Þetta gerðist þrátt fyrir að Íslandspóstur hafi glímt við gríðarlegan rekstrarvanda að undanförnu sem birtist meðal annars í því að fyrirtækið þyrfti að fá 500 milljón króna neyðarlán frá ríkinu til að bregðast við lausafjárskorti í lok síðasta árs, sem alls óvíst er að hægt verði að greiða til baka.

Stjórnin sjálf hefur einnig hækkað vel sín eigin laun. Alls hafa stjórnarlaun hækkað um 65 prósent frá árinu 2014. Í fyrra var ákveðið að almenn laun stjórn­ar­manna myndu hækka úr 140 þús­und krónum á mán­uði í 165 þús­und krón­ur. Laun for­manns stjórnar, Bjarna Jónssonar, eru tvö­föld laun stjórn­ar­manns og fór hann því úr 280 þús­und krónum á mán­uði og upp í 330 þús­und krón­ur. Hækk­unin nam því tæpum 18 pró­sent­u­m. Þetta sýna fund­ar­gerðir stjórnar sem Frétta­blaðið greindi frá fyrr í febrúar. Varaformaður stjórnar Íslandspósts er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.

...Og þá gengu allir á lagið

Annar for­stjóri sem færð­ist undan kjara­ráði á árinu 2017 er Guð­mundur Ingi Ásmunds­son, for­stjóri Lands­nets. Laun hans hækk­uðu um tvær millj­ónir króna árinu 2017 og námu heild­ar­laun hans á árs­grund­velli 21,7 millj­ónum króna, eða um 1,8 millj­ónum króna á mán­uði. Það var hækkun um rúm tíu pró­sent.

Fjölgað var í stjórn Landsnets úr þremur í fimm á árinu 2017. Samhliða jókst launakostnaður vegna stjórnarstarfa um tæp 53 prósent. Meðalkostnaður á hvern stjórnarmann á mánuði var um 200 þúsund krónur. Sigrún Björn Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, er stjórnarformaður Landsnets.

Fleiri ríkisforstjórar hafa hækkað umtalsvert í launum. Laun Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarps­stjóra RÚV hækk­uðu um 16 pró­­­sent í 1,8 millj­­­ónir króna á mán­uði á árinu 2017. Kostnaður vegna stjórnarlauna hækkaði að sama skapi um 21 prósent. Stjórnarformrður RÚV á því ári var Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Á aðalfundi í fyrra var Kári Jónasson,fyrrverandi fréttastjóri hjá RÚV og ritstjóri Fréttablaðsins, kjörinn formaður.

Laun forstjóra Isavia, Björns Óla Haukssonar, hækkuðu um 36 prósent við það að ákvörðun um laun ríkisforstjóra voru flutt til stjórna. Laun hans eftir breytinguna voru tæplega 2,4 milljónir króna á mánuði.

Ingimundur Sigurpálsson hækkaði í launum á tveimur vígstöðum, annars vegar sem forstjóri Íslandspósts og hins vegar sem stjórnarformaður Isavia.
Mynd: Skjáskot

Stjórnarformaður Isavia er Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts. Mánaðarlaun hans fyrir það aukastarf voru 360 þúsund krónur á árinu 2017 og höfðu þá hækkað um rúmlega 30 prósent frá árinu 2014.

Blessaðir bankarnir

En mesta úlfúðin hefur verið vegna launakjara þeirra sem stýra ríkisbönkunum tveimur, Landsbankanum og Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í þeim. Stjórnarformaður hennar er Lárus Blöndal, sem leiddi líka starfshópinn sem vann Hvítbókina um fjármálakerfið. Það var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sem skipaði hann í bæði hlutverkin.

Í ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2018, sem birtur var fyrir rúmri viku, kom fram að laun bankastjórans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, hefðu verið hækkuð í 3,8 millj­ónir króna á mán­uði, sem þýðir að laun hennar hafa hækkað um tæplega 82 pró­sent á um tveimur árum, en þau voru tæplega 2,1 milljón króna áður en að ákvörðun um laun hennar var færð undan kjararáði.

Til viðbótar hafa kjör bankaráðsins líka hækkað umtalsvert og fram yfir almenna launaþróun. Þannig hækkuðu til að mynda heildarlaun formanns bankaráðs, Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, úr 800 þúsund krónum í 925 þúsund krónur milli áranna 2016 og 2017. Á árinu 2018 hækkuðu heildarlaun hennar svo aftur og hún var að meðaltali með 966 þúsund krónur í laun í fyrra samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Íslandsbanki færðist aftur í ríkiseigu eftir að stöðugleikasamningar voru gerðir við kröfuhafa föllnu bankanna. Við það urðu starfsmenn bankans allir ríkisstarfsmenn og ákvörðun um laun bankastjórans, Birnu Einarsdóttur, færðist undir kjararáð. Birna var með alls um 4,8 milljónir króna í laun og árangurstengdar greiðslur að meðaltali á mánuði á árinu 2016.

Í janúar 2017 úrskurðaði kjararáð að lækka ætti laun hennar í rúmlega tvær milljónir króna á mánuði. Sú launalækkun kom þó aldrei til framkvæmda þar sem Birna var með tólf mánaða uppsagnarfrest. Ákvörðun um launakjör hennar færðist svo aftur til stjórnar Íslandsbanka um mitt ár 2017.

Birna var einnig með 4,8 milljónir króna í laun á árinu 2017. Til viðbótar fékk hún eina milljón króna á mánuði í mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð.

Birna Einarsdóttir og Friðrik Sophusson stýra Íslandsbanka.
Mynd: Íslandsbanki

Í vikunni sendi Íslands­­­banki frá sér til­­kynn­ingu þar sem fram kom að Birna hefði óskað eftir því í nóv­­em­ber síð­­ast­liðnum að laun hennar yrðu lækkuð og að þau séu nú 4,2 millj­­ónir króna á mán­uði. Sú tala er þó ekki tæmandi fyrir heildarkjör hennar heldur tekur einungis mið af launum. Ef bifreiðarhlunnindi og áætlaður kaupauki á þessu ári eru reiknuð með verða meðaltalslaun Birnu á mánuði á árinu 2019 um 4,8 milljónir króna. Sú kjarabreyting tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Í fyrra, á árinu 2018, hækkuðu heildarlaun hennar hins vegar umtalsvert. Þá námu laun, bifreiðarhlunnindi og kaupauki að meðaltali 5,3 milljónum króna á mánuði.

Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður Íslandsbanka. Hann fékk alls um 883 þús­und krónur mán­að­ar­lega í laun á árinu 2017. Þau laun hækk­uðu um 14,5 pró­sent á milli 2016 og 2017. Launin hækkuðu svo aftur í fyrra, um 6,6 prósent. Þá námu meðallaun Friðriks 942 þúsund krónum á mánuði.

Bankaráðið telur launahækkunina hóflega

Það tók nokkurn tíma að fá viðbrögð frá þeim sem bera ábyrgð á rekstri Landsbankans eftir að greint var frá hinum miklu launahækkunum bankastjóra hans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, með birtingu ársreiknings í lok síðustu viku.

Bankaráð Landsbankans, sem er ábyrgð fyrir því að skammta bankastjóranum laun, sendi þó frá sér tilkynningu á mánudag þar sem það sagði að hækkunin væri í samræmi við starfskjarastefnu bankans. Laun hennar hafi verið lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum og því hefði þurft að hækka þau til að starfskjör Lilju Bjarkar væru samkeppnishæf.

Á þriðjudag komu svo fram viðbrögð Bankasýslu ríkisins. Í þeim fólst að senda stjórnum bæði Landsbankans og Íslandsbanka bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um launamál bankastjóranna og þess óskað að svör berist fyrir 19. febrúar næstkomandi.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi einnig bréf sama dag þar sem óskað var eftir „því að stjórnir og Banka­sýsla rík­is­ins upp­lýsi fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið um það hvernig brugð­ist hafi verið við þeim til­mæl­unum sem beint var til þeirra með bréfi ráðu­neyt­is­ins frá jan­úar 2017, sem síðar var ítrek­að, og í hvaða mæli þau hafa verið höfð til hlið­sjónar við ákvörðun launa fram­kvæmda­stjóra. Hafi stjórnir ákvarðað fram­kvæmda­stjórum launa­hækk­anir umfram almenna launa­þró­un, er óskað eftir því að þær færi rök fyrir þeim ákvörð­unum með til­vís­unar til eig­anda­stefnu.“

Bjarni sagðist „óhress“ með launahækkun forstjóra Landsbankans í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 á miðvikudag og að það væri ekki annað að sjá en að tilmælin sem send voru í upphafi árs 2017 hefði verið höfð að engu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar