Fyrir rúmum fimmtíu árum bað íslenskt dagblað fimmtíu Íslendinga fædda á fyrsta áratug síðustu aldar að nefna nokkur atriði sem þeir teldu til helstu framfara. Nær allir nefndu rafmagnið, rennandi vatn, útvarpið og símann. Margt fleira var nefnt, svo sem bættar samgöngur og betri húsakostur. Eitt sem tíu úr þessum fimmtíu manna hópi nefndu er ekki meðal þess sem nútímafólki dettur helst í hug í þessu sambandi. Nefnilega gúmmístígvél og gúmmískó.
Nútíminn á kannski erfitt með að skilja hvílík lífsgæði fólust í því að vera ekki sífellt blautur í fæturna, og sárfættur, en fólkið sem ólst upp við sauðskinnsskó kunni vel að meta breytinguna. Eins og margar kynslóðir Íslendinga fór fólkið sem tók þátt í áðurnefndri könnun flestra sinna ferða fótgangandi, oftast með lélegan fótabúnað.
Goodyear, Hutchinson og gúmmíið
Á árunum eftir 1920 varð gúmmískófatnaður sífellt algengari og vinsælli. Uppfinningin var þó eldri en í kringum 1840 fann Bandaríkjamaðurinn Charles Goodyear upp svonefnda gúmmísuðu, aðferð til að forma og móta gúmmí og fékk einkaleyfi á aðferðinni. Landi hans Hiram Hutchinson keypti leyfi til að nota aðferðina og setti árið 1853 á fót stígvélaverksmiðjuna Aigle í Frakklandi. Stígvélin „slógu í gegn“ ef svo mætti segja. Þau leystu af hólmi tréklossana sem franskur almenningur hafði notast við. Bretar kalla stígvél Wellington boots eftir hertoganum sem barðist við Napoleon við Waterloo í Belgíu árið 1815. Stígvél Wellingtons voru hnéhá leðurstígvél sem ekki var á allra færi að eignast, semsé allt annar hlutur en gúmmístígvélin.
CEBO, NOKIA og tútturnar
Á fyrstu áratugum síðustu aldar, þegar gúmmístígvélin og skórnir urðu algengur skófatnaður, datt fæstum orðið „tískuvarningur“ í hug. Notagildið var þá númer eitt. Íslendingar tóku þessum nýja fótabúnaði fagnandi. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna ugglaust eftir CEBO gúmmískóm og stígvélum, tékknesk gæðavara hét það í auglýsingum. Gúmmískórnir svartir með hvítum sóla og rönd, stígvélin oftast svört en einnig til moldarbrún með rjómagulum sóla. Þótt CEBO hafi verið algengasta vörumerkið voru einnig nokkrar aðrar tegundir fáanlegar.
Ekki var gúmmískófatnaðurinn þó alltaf fáanlegur í verslunum, enda alls kyns hömlur á innflutningi, en Íslendingar dóu ekki ráðalausir. Eftir að loftfyllt bíldekk komu til sögunnar uppgötvuðu hugvitsmenn að slöngurnar í dekkjunum væru til fleiri hluta nytsamlegar. Til dæmis væri hægt að gera úr slöngunum gúmmískó og stígvél. Margir spreyttu sig á skógerðinni, með misjöfnum árangri, oftast var framleiðslan eingöngu til heimanota en vitað er um að minnsta kosti einn framleiðanda hér á landi, sem hafði skógerðina að aðal atvinnu um margra ára skeið. Slönguskórnir voru einlitir, svartir og því auðþekktir frá innfluttu skónum með hvítu botnana. Þeir heimagerðu þóttu ekki jafn fínir og þeir innfluttu og voru kallaðir túttur, eða gúmmítúttur. Sú orðanotkun færðist reyndar síðar yfir á þessa með hvíta botninum, sem enn fást í búðum, nú framleiddir í Noregi, og líka græna gúmmískó sem fást víða.
Löngu eftir að tékkneski skófatnaðurinn varð vinsæll á Íslandi kom hinn finnski NOKIA skófatnaður á markaðinn. NOKIA stígvélin þóttu gæðavara og nutu um langt árabil mikilla vinsælda meðal Íslendinga (Finnarnir setja þau saman í höndunum sagði Jón Múli í auglýsingum).
Þótt gúmmískór og stígvél njóti ekki sömu vinsælda meðal Íslendinga og áður fyrr er þessi skófatnaður síður en svo úr sögunni. Gúmmískór og stígvél fást víða enda notagildið ótvírætt.
Stígvéladrottningin frá Hornbæk
Danir eru stígvélaþjóð. Einkum er það kvenfólkið sem notar þennan skófatnað í ríkum mæli. Sá sem gengur um götur Kaupmannahafnar, og á annað borð veltir fyrir sér fótabúnaði þeirra sem á vegi hans verða, tekur strax eftir því að stígvél eru þar mjög áberandi. Kannski ekki yfir hásumarið en alla aðra tíma ársins. Lengst af voru svörtu stígvélin lang algengust en það er ekki lengur svo. Nú er hægt að kaupa stígvél í öllum regnbogans litum og reyndar mörgum fleiri. Þessi stígvélabylting, eins og sumir kalla það, er einkum verk einnar konu: Ilse Jacobsen. Múraradóttur frá Hornbæk á Norður- Sjálandi eins og hún kallar sjálfa sig.
Ilse Jacobsen fæddist í Hornbæk fyrir 59 árum, þar hefur hún búið allt sitt líf, þar var hún skírð, fermd og gift og þar hyggst hún búa til dauðadags. Faðirinn var múrari, móðirin heimavinnandi með þrjú börn. Efnin voru takmörkuð og aðeins sex ára gömul fór Ilse að bera út blöð til að afla vasapeninga. Ellefu ára fékk hún vinnu á Hótel Hornbækhus og þegar hún mætti á staðinn og átti að vinna við að afgreiða á barnum náði hún ekki upp á afgreiðsluborðið. Hótelstjórinn uppgötvaði að hún hafði logið til um aldurinn en eftir að hafa rætt við hana ákvað hann að hún fengi vinnuna.
Seinna trúlofaðist hún, og giftist syni hótelstjórans, þaðan kemur eftirnafnið Jacobsen. Ilse lærði hagfræði og stjórnmálafræði en eiginmaðurinn rak heildsölu með skó og Ilse ferðaðist um Danmörku þvera og endilanga og seldi mikið. Þessi kynni hennar af „skóbransanum“ vöktu áhuga hennar á skótaui og hún velti fyrir sér hvernig á því stæði að stígvél væru einungis til í svörtum lit.
Árið 1993 opnaði hún litla verslun (31 fermetra) með sandala sem hún hafði sjálf hannað og tískufatnað frá lítt þekktum framleiðanda. En þótt verslunin væri lítil gekk reksturinn vel en Ilse hafði ekki gleymt stígvélunum. Árið 2000 hafði hún hannað kvenstígvél, sem hún lét framleiða í nokkrum litum. Þau voru úr gúmmí. „Mér þótti þessi PVC (plast) stígvél leiðinleg og vildi gera stígvél að tískuskófatnaði. Reyndar voru það ekki Danir sem tóku stígvélunum best í byrjun, það voru Svíar og Norðmenn. Svo komu Danirnir og allir hinir.“
Til að gera langa sögu stutta eru litskrúðugu stígvélin nú seld í hátt á þriðja þúsund verslunum í fleiri en þrjátíu löndum. Stígvélin eru tískuvara og undir merki Ilse Jacobsen Hornbæk er nú jafnframt framleiddur margs konar tískuvarningur. Í dag eru í boði litskrúðug stígvél frá mörgum framleiðendum.
Kínversku stígvélin og Hæstiréttur
Danska vöruhúsið Bilka og fleiri danskar verslanir hafa um nokkurt skeið haft til sölu stígvél, undir vörumerkinu VRS. Þessi stígvél eru í útliti nákvæmlega eins og RUB 1 stígvél Ilse Jacobsen Hornbæk. VRS stígvélin eru framleidd í Kína, RUB1 í Evrópu. Ilse Jacobsen vildi ekki sætta sig við að kínverski framleiðandinn hermdi svo nákvæmlega eftir hennar hönnun að hún stefndi Morsø skoimport, fyrirtækinu sem flytur inn kínversku stígvélin.
Ilse Jacobsen tapaði málinu í Sjó- og verslunarréttinum danska og sömuleiðis á næsta dómstigi, Landsréttinum. Niðurstaða dómstólanna var að hönnun RUB 1 stígvélanna væri ekki svo afgerandi sérstök að hægt væri að tala um höfundarrétt. Þetta vildi Ilse Jacobsen ekki sætta sig við og sótti um að fá málið tekið fyrir í Hæstarétti Danmerkur Sú beiðni var samþykkt, fyrir nokkrum dögum, á þeim forsendum að um prinsip mál væri að ræða. Kröfu Ilse Jacobsen um að Bilku og öðrum verslunum sem selja VRS stígvélin yrði gert að hætta sölu á þeim og eyðileggja lagerinn var hafnað á lægra dómstigi. Ekki er vitað hvenær málið verður tekið fyrir í Hæstarétti Danmerkur.