Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri ríkisfyrirtækisins Íslandspósts, hækkaði tvívegis í launum á árinu 2018. Fyrst hækkuðu laun hans í 1.992 þúsund krónur á mánuði fyrsta janúar 2018 og svo aftur um þrjú prósent 1. maí sama ár. Eftir það voru laun hans 2.052 þúsund krónur á mánuði.
Laun Ingimundar hafa hækkað um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar ákvörðun um laun hans var færð frá kjararáði til stjórnar Íslandspósts.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svarbréfi sem formaður stjórnar Íslandspósts sendi Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsáðherra, vegna óska hans um upplýsingar um hvernig stjórn Íslandspósts hafi brugðist við tilmælum fyrirrennara Bjarna í starfi um að sýna hófsemi við ákvörðun launa og starfskjara forstjóra.
Ingimundur er einnig stjórnarformaður Isavia, sem einnig er í eigu ríkisins. Kjarninn greindi frá því í morgun að stjórn þess fyrirtækis hafi hækkað heildarlaun Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, um 43,3 prósent frá því að ákvörðun launa var færð frá kjararáði árið 2017 til stjórnar fyrirtækisins á ný.
Taldi launin ekki í samræmi við ráðningarsamning
Í bréfi stjórnarformanns Íslandspósts, Bjarna Jónssonar, segir að stjórn Íslandspósts hafi á árinu 2017 aflað sér úttektar frá fyrirtækinu Interllecta ehf. um hver laun forstjóra fyrirtækja almennt væru „í því skyni að fá viðmið um hver væru laun forstjóra á almennum vinnumarkaði og þar talin samkeppnishæf.“
Ingimundur taldi að ákvörðun stjórnarinnar um laun hans hefði ekki verið í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings hans og stjórnar frá því í nóvember 2004 og lét bóka þá afstöðu sína á stjórnarfundi þann 29. janúar 2018.
Á fundi stjórnar Íslandspósts sem haldinn var 9. apríl 2018 var samþykkt að fela Ingimundi að láta taka saman greinargerð um þróun launa sinna í samanburði við launaþróun og þróun launa viðmiðunarhópa frá því fyrir gildistöku laga um breytingu kjararáði, sem sett voru árið 2009 og fólu í sér að allir ríkisforstjórar ættu að vera með lægri laun en þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Stjórn Íslandspósts sendi Bjarna greinargerð frá annars vegar Intellecta, dagsetta í maí 2018, og greinargerð frá Gísla Gíslasyni-Launaráðgjöf, dagsett í sama mánuði, en þær voru ekki birtar með bréfi stjórnarformanns Íslandspósts.
Þess má geta að varaformaður stjórnar Íslandspósts er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til margra ára.
Þarf allt að 1,5 milljarði króna frá ríkinu
Fjárhagsstaða Íslandspósts hefur verið afar varhugaverð um nokkurn tíma. Í september í fyrra leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Í umsögn Ríkisendurskoðunar, um auka fjárveitingu ríkisins til Íslandspósts, sagði að Ríkisendurskoðun teldi að það væri óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Þá væri orsök fjárhagsvandans alls ógreind, ekki lægi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar.
Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti því í janúar á þessu ári beiðni til Ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts.
Fjárfestingar og jeppakaup
Frá árinu 2006 hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar. Nettófjárfesting á tímabilinu er því rúmir fimm milljarðar króna.
Árið 2015 greiddi Íslandspóstur 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. Í svari Íslandspóst við fyrirspurn DV í fyrra sagði að fyrirtækið hafi á að skipa öflugu stjórnendateymi og það eigi við um stjórnendur sem og aðra starfsmenn fyrirtækisins, að það verði að vera samkeppnishæft í launum til að eiga kost á að laða til síns hæfa starfsmenn.