Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefur þegar vísað 11 öðrum málum skjólstæðinga sinna til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málin eiga það sameiginlegt að einhver þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru með ólögmætum hætti í Landsrétt dæmdi í þeim.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans skiptast málin nokkuð jafnt á milli dómaranna fjögurra.
Málin, tíu sakamál og eitt einkamál, hafa öll verið móttekin hjá Mannréttindadómstólnum og dómurinn er búinn að skrifa Vilhjálmi vegna þeirra. Þá hafa þau öll hlotið málsnúmer. Einn skjólstæðingur Vilhjálms sem um ræðir hefur þegar lokið afplánun og annar er í afplánun sem stendur.
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli sem Vilhjálmur rak fyrir hönd enn eins skjólstæðings síns vegna ólögmætrar skipunar dómara við Landsrétt féll í gærmorgun.
Það mál snerist um að Arnfríður Einarsdóttir, einn þeirra fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra gerði tillögu um að skipa í Landsrétt í andstöðu við niðurstöðu hæfisnefndar, væri ólöglega skipuð og þar með væri það brot á mannréttindum skjólstæðings Vilhjálms að hún felldi dóm yfir honum. Umræddur skjólstæðingur hlaut 17 mánaða fangelsisdóm fyrir margvísleg brot.
Mikil óvissa til staðar
Í dómnum segir að Sigríður hafi brotið gegn landslögum með því að gera breytingar á lista yfir þá 15 dómara sem skipaðir voru án þess að rökstyðja þær með viðunandi hætti þrátt fyrir að hafa fengið ráðgjöf sérfræðinga um að hverjar afleiðingar ákvörðunar hennar gætu orðið. Sigríður fjarlægði, líkt og áður sagði, ólöglega fjóra umsækjendur sem hæfisnefnd hafði lagt til að yrðu skipaðir og setti fjóra aðra í staðinn.
Í dómi Mannréttindadómstólsins var einnig vikið að því að afgreiðsla Alþingis á skipun dómaranna hefði brugðist, en kosið var um skipun þeirra allra í einu í stað þess að kosið yrði um skipan hvers og eins.
Niðurstaðan leiðir af sér að starfsemi Landsréttar er í fullkomnu uppnámi. Strax í gærmorgun var tekin ákvörðun um fresta öllum málum sem dómararnir fjórir sem voru skipaðir með ólögmætum hætti; Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson, áttu að koma að í þessari viku. Síðar um daginn ákváðu dómarar við Landsrétt að enginn þeirra myndi kveða upp dóma í þessari viku. Starfsemi millidómsstigsins er því í algjöru uppnámi.
Lögmenn sem Kjarninn hefur rætt við segja borðleggjandi að taka þurfi upp öll mál sem dómararnir fjórir hafa komið að sem óskað verður eftir endurupptöku á. Þá sé einnig vandséð, og í raun ómögulegt, að þeir geti setið áfram í réttinum. Það þurfi að skipa nýja dómara í þeirra stað.
Dómsmálaráðuneytið hefur enn sem komið er ekki slegið á þá óvissu sem er til staðar með því að skýra hvernig brugðist verði við stöðunni sem upp er komin. Á meðan að svo er geta lögmenn þeirra sem telja á sér brotið með dómum ólöglega skipaðra dómara lítið gert annað en að vísa málum þeirra til Mannréttindadómstólsins á sömu forsendum og sá sem vann mál sitt fyrir honum í gær.
Ferlið allt mun að öllum líkindum einnig verða íslenska ríkinu dýrt í peningum talið. Þeir fjórir sem teknir voru af listanum hafa fengið eða munu fá miska- og/eða skaðabætur, dómararnir fjórir sem skipaðir voru án þess að hafa verið taldir á meðal 15 hæfustu eiga líkast til háa skaðabótakröfu á ríkið verði þeir að víkja og kostnaður við endurupptöku mála sem þeir hafa komið að gæti orðið umtalsverður. Þá er ótalin allur málskostnaður sem fallið hefur til.