Ýmis réttarhöld hafa staðið yfir Silvio Berlusconi og svokallaða „Rubygate“ málinu á Ítalíu í nær áratug. Í þeim hefur fyrrverandi forsætisráðherrann verið sakaður um að hafa keypt vændi af 17 ára stelpu í stórfurðulegri kynlífsveislu, mútað fjölda vitna til að þegja um atvikið og misnotað embætti sitt til að sleppa stelpunni úr haldi lögreglu. Fyrr í mánuðinum lést eitt lykilvitni í málinu skyndilega, en grunur leikur á um að fyrir henni hafi verið eitrað.
Ítalski Trump
Þrátt fyrir að hafa verið farsæll viðskiptajöfur og vinsælasti stjórnmálamaður Ítalíu um áratugaskeið er Silvio Berlusconi langt frá því að vera óumdeildur maður. Allt frá því hann hóf feril sinn í stjórnmálum um miðja tíunda áratuginn sem eigandi fjölmiðlaveldisins Mediaset og fótboltaliðsins AC Milan hefur hann verið viðriðinn ótal hneykslismálum. Þeirra á meðal eru mál sem tengjast skattsvikum, hagsmunaárekstrum hans sem stjórnmála- og viðskiptamaður auk ýmissa ummæla sem sýndu kvenfyrirlitningu, rasisma eða fordóma gagnvart samkynhneigðum. Vegna fyrrnefndra atriða auk hás aldurs, fjölda lýtaaðgerða og gífurlegs persónufylgis hafa margir blaðamenn bent á líkindi hans og Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Rubygate
Eitt hneykslismál Berlusconi hefur þó dregið langan dilk á eftir sér og gæti leitt til þess að fyrrum forsætisráðherrann verði dæmdur til fangelsisvistar, en það er hið svokallaða „Rubygate“ mál. Málið vísar til marokkóskrar vændiskonu að nafni Karima El Mahrough sem gekk undir nafninu Ruby Rubacuori, eða Ruby Hjartaþjófur. Berlusconi liggur undir grun fyrir að hafa keypt vændi af Ruby árið 2010 þegar hún var aðeins 17 ára gömul, en hann gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á þessum tíma.
Frænka Mubarak
Upptök málsins má rekja til handtöku Karimu í Mílanó vegna gruns um þjófnað, en þar sem hún var ólögráða átti hún að vera vistuð á unglingaheimili. Hins vegar, áður en að því kom, hringdi Berlusconi sjálfur í lögreglustjóra borgarinnar og krafðist þess að hún yrði látin laus undireins. Forsætisráðherrann sagði lögreglustjóranum að Karima væri í raun frænka þáverandi einræðisherra Egyptalands, Hosni Mubarak, og að réttast væri að sleppa henni til að afstýra diplómatískri krísu milli landanna.
Bunga bunga
Upp komst að Karima væri ótengd egypska einræðisherranum og var hún því yfirheyrð af lögreglu skömmu síðar. Þar greindi hún frá sambandi sínu við Berlusconi og sagði hann hafa boðið henni í veislur á sveitasetri sínu og borgað henni fyrir að taka þátt í svokölluðum „bunga bunga“ kynlífsathöfnum. Lýsingar á þessum veislum eru stórfurðulegar, en þær hafa meðal annars innihaldið súludans hjá ungum stelpum í nunnubúningum og fatafellu í AC Milan treyju með grímu af brasilísku fótboltastjörnunni Ronaldinho, samkvæmt lýsingu sjónarvotta.
Sekur, saklaus og aftur sekur?
Berlusconi hefur staðfastlega neitað ásökunum um að nokkurs konar kynlífsveisla hafi átt sér stað á sveitasetri sínu og hefur lýst umræddum veislum sem „fínum kvöldverðarboðum.“ Hins vegar var hann dæmdur árið 2013 til 7 ára fangelsisvistar fyrir að hafa keypt vændi af ólögráða stelpu og misnotað embætti sitt sem forsætisráðherra. Berlusconi áfrýjaði dómnum og var sýknaður af báðum ákærum, fyrst af áfrýjunardómstóli árið 2014 og síðar af hæstarétti Ítalíu árið 2015.
Þrátt fyrir sýknuna hófst nýtt dómsmál gegn Berlusconi seinna sama ár þar sem grunur lék á um að hann hafi borgað vitnum málsins alls um tíu milljónir evra og gefið þeim fjölda gjafa fyrir að milda vitnisburð sinn. Meðal slíkra gjafa voru millifærslur til Karimu frá bankareikningi í Antigua og afnot annars vitnis afíbúð á 22. Hæð í Velasca-turninum í Mílanó. Dómsmálið er ansi viðamikið og stendur enn yfir, en ásamt Berlusconi eru 27 aðrir einstaklingar ákærðir fyrir að hafa annað hvort borgað eða þegið mútur.
Imane Fadil
Eitt af lykilvitnunum í málinu var Imane Fadil, marokkósk fyrirsæta sem á að hafa tekið þátt í „bunga bunga“ partýjunum hjá Silvio Berlusconi.Í viðtali við Imane í janúar síðastliðnum sagðist hún hafa þurft að gjalda dýru verði vegna vitnisburðar síns vegna árása frá Berlusconi sjálfum og fylgdarliði hans. Nokkrum dögum seinna var hún lögð inn á spítala vegna heiftarlegra magaverkja og tíðra uppkasta. Á spítalanum var hún fyrst greind með beinmergsbilun, en heilsu hennar hrakaði stöðugt auk þess sem hún léttist töluvert. Þann fyrsta mars síðastliðinn lést Imane svo á spítalanum, 34 ára að aldri.
Imane sjálfa grunaði að eitrað hafi verið fyrir henni og bað starfsfólk spítalans um að leita að spilliefnum í líkama hennar. Niðurstöður úr fyrstu eiturefnagreiningunni lágu fyrir þann 6. mars, en samkvæmt þeim eru engin augljós merki um eitrun, þótt magn hinna ýmsu málma hafi verið óvenjuhátt í blóðinu hennar. Síðasta föstudag úrskurðuðu læknar í Mílanó svo að útilokað sé að eitrað hafi verið fyrir henni með geislavirkum efnum.
Þrátt fyrir úrskurð læknana er enn óljóst hvort eitrað hafi verið fyrir henni með öðrum hætti, en lögfræðingur Imane segir mögulegt að henni hafi verið byrlað með málmum. Aðrir læknar hafa tekið undir þessar vangaveltur, en ekkert er hægt að segja um það fyrr en niðurstöður úr krufningu á Imane liggur fyrir á næstu dögum.