Á síðasta ári, nánar tiltekið í nóvember, var þess minnst að 100 ár eru liðin frá því að byssurnar þögnuðu á vígstöðvunum. Fyrri heimsstyrjöldin hefur mögulega, meðal nútímafólks, fallið nokkuð í skuggann af síðari heimsstyrjöldinni. Þó eru margir sagnfræðingar sem myndu hiklaust telja þá síðari vera skilgetið afkvæmi hinnar fyrri.
Fyrri heimsstyrjöldin er stundum talið vera fyrsta „nútíma“ stríðið. Það er vel þekkt að taktík og tækni haldast ekki alltaf i hendur í hernaði. Ýmsir herforingjar í byrjun stríðsins töldu að hún yrði háð eins og einkenndi orrustur nítjándu aldar: Herir myndu mætast á einum stað og berjast þar til yfir lyki. Það eru einkum tvö vopn sem báru hitann og þungann af blóðsúthellingum fyrri heimsstyrjaldar: Fallbyssan og vélbyssan. Gegn þessum byssukjöftum voru þúsundir manna sendir yfir einskismannslandið og voru því skiljanlega brytjaðir niður. Því varð til það þreytistríð sem einkenndi skotgrafahernað styrjaldarinnar. Þessa pattstöðu reyndu menn að brjóta upp á ýmsan máta og láta sér detta í hug ný vígtól sem gætu nýst við það verkefni. Hér verða talin upp fimm vopn sem annað hvort, fyrst litu dagsins ljós í því stríði, eða voru fyrst notuð í einhverjum mæli þar.
1. Skriðdreki
Hugmyndin að brynvörðu tæki sem gæti hrist af sér kúlnaregn og brotist gegnum víglínur andstæðinganna varð reyndar til áður en heimsstyrjöldin braust út. Ýmsir hernaðarsérfræðingar höfðu t.d. látið sig dreyma um einhverskonar „landskip“ sem líktist stálklæddum herskipum en athöfnuðu sig á landi, frekar en sjó. Vandamálið var bara hvernig slíkt tæki ætti að hreyfast úr stað. Rithöfundurinn H. G. Wells hafði ríkt ímyndunarafl og í smásögu sinni Járnslegnu landskipin (e. The Land Ironclads) frá 1903, lýsti hann einmitt tækjum sem voru nokkurs konar skriðdrekar. Árið 1911 reyndi austurríski herforinginn Günther Burstyn að fá fjármagn til að hanna vél sem væri brynvarin og með fallbyssu í turni ofan á ökutækinu. Þessum turni átti svo að vera hægt að snúa í ýmsar áttir til að skjóta úr byssunni. En Burstyn hafði ekki erindi sem erfiði. Í austur-ungverska hernum var ekki talin þörf á slíku tæki enda voru eflaust ekki margir sem sáu fyrir sér að styrjöldin mikla sem von væri á yrði frábrugðin orrustum 19. aldar, þar sem hið glæsta riddaralið réði lögum og lofum. Svipað viðhorf ríkti hjá öðrum herjum sem urðu í aðalhlutverki í stríðinu mikla. Annað kom á daginn og riddaraliðið reyndist algjör tímaskekkja og var, rétt eins og fótgönguliðarnir, brytjað niður af rjúkandi vélbyssukjöftum.
Er í ljós kom hvers kyns staða var upp komin í styrjöldinni, fóru ýmsir að leita í þessar hugmyndir og árið 1916 hvíldi mikil leynd yfir sendingu frá Bretlandi á vígstöðvarnar. Til að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar kæmust að því hvað þetta væri, var sagt að verið væri að senda stóra vatnstanka á vígstöðvarnar. Enn þann dag í dag er skriðdrekinn því kallaður Tank í ensku. Þessir bresku skriðdrekar voru afar stórir, þungir og hægfara. Þeir tóku fyrst þátt í orrustu við Somme í Frakklandi þann 15. september 1916. Margir þeirra biluðu og einnig kom í ljós að brynklæðningin var ekki nógu þykk. En þeir þóttu þó hafa sýnt nægilega getu svo ákveðið var að halda áfram með framleiðslu þeirra. Það var ekkert grín að vera í áhöfn skriðdreka í fyrri heimsstyrjöld. Hávaðinn var ærandi og svo ferlegur fnykur að það leið oft yfir menn af súrefnisleysi. Hitinn var oft á tíðum alveg óbærilegur og gat farið upp í 50°C. Menn lærðu þó að vinna við þetta og lærðu einnig af mistökunum. Í orrustunni við Cambrai í nóvember 1917 tókst skriðdrekunum að brjótast í gegn um víglínu Þjóðverja og markaði það í raun endann á skotgrafastríðinu. Frakkar byggðu einnig skriðdreka en þeim hugnaðist ekki þessir stóru og þungu bresku drekar. Renault skriðdrekinn franski var lítill og aðeins tveir í áhöfn en hann var einnig fljótur að sanna sig.
2. Orrustuflugvélar
Líklega sáu fáir fyrir þær miklu breytingar sem flugvélin átti eftir að hafa á hernað og allt fram að seinni heimsstyrjöld máttu herforingjar berjast við skriffinna í ráðuneytum sem voru ekki sannfærðir um mikilvægi flugvélarinnar og höfðu í raun ekki þekkingu til að ráðskast með slíkar ákvarðanir. Ýmsir sagnfræðingar telja t.d. að velgengi Breta í orrustunni um um Bretland sé ekki síst að þakka skörulegri framgöngu hershöfðingjans Hugh Dowding sem var óþreytandi í baráttu sinni við að efla orrustuvélaflota Breta.
Flugvélin var ekki eina loftfarið sem nýtt var í fyrri heimsstyrjöld en einnig var notast við loftbelgi og loftskip (eins og t.d. hið þýska Zeppelin). Í fyrstu voru öll þessi loftför notuð í njósnaskyni, m.a. til að komast að því hvar stórskotalið óvinarins væri staðsett og fylgjast með liðsflutningum sem gætu bent til þess að árás væri yfirvofandi. Fljótlega var farið að nota flugvélar í árásarskyni, til að ráðast á skotmörk á jörðu niðri. Einhvern veginn varð að finna leið til að skjóta niður sprengju – og könnunarvélar andstæðingsins en loftvarnabyssur þess tíma voru ónákvæmar og ollu litlum skaða. Þar með fæddist hugmyndin að sérstakri flugvél sem hefði það sem aðalverkefni að skjóta niður önnur loftför. Orrustuvélin var fædd.
3. Eiturgas
Eflaust eitt ógeðfelldasta vopn sem leit dagsins ljós í þessum hræðilega hildarleik. Í seinni heimsstyrjöldinni var ekki notast við það. Notkun þess var erfið enda hafði vindurinn áhrif og gasið fór ekki í manngreinarálit. Mönnum var einnig í fersku minni hryllingar fyrri heimsstyrjaldar og hefur það mögulega haft áhrif á það að gasið var ekki notað í seinni heimsstyrjöld. Eiturgas hafði reyndar verið bannað með alþjóðalögum sem sett voru árið 1907 en því miður fór enginn eftir því er heimsstyrjöldin braust út. Það voru Þjóðverjar sem nýttu það fyrst árið 1914. Þótt allir væru dauðhræddir við þetta vopn þá hafði það lítil hernaðarleg áhrif. Í raun er aðeins ein orrusta í allri heimsstyrjöldinni þar sem segja má með vissu að gasið hafi skipt sköpum: Í orrustunni við Caporetto 1917, þar sem Ítalir og Austurríkismenn börðust, hafði gasið mikil áhrif á ítalska herinn sem beið afhroð.
4. Kafbátur
Hugmyndin að þessu vopni er eldri og nokkurskonar kafbátur var meira að segja notaður í bandaríska frelsisstríðinu 1776. Það var þó ekki fyrr en í fyrri heimsstyrjöld sem þetta vopn kom til skjalanna, eins og við þekkjum það í dag. Í byrjun heimsstyrjaldarinnar, í lok júlí 1914, voru ýmsir innan breska flotans ekki sannfærðir um að nota mætti kafbáta til að sökkva stórum skipum. Það breyttist þann 5. september sama ár er þýskur kafbátur sökkti breska herskipinu HMS Pathfinder. Talið er að aðeins um 18 af 270 manna áhöfn hafi komist lífs af. Kafbáturinn hafði sannað sig sem stórhættulegt og áhrifamikið vopn. Þegar yfir lauk höfðu kafbátar Þjóðverja sökkt svo mörgum skipum sem samsvarar um 13 milljónum tonna. Óvinir Þjóðverja börðust hetjulega gegn kafbátaógninni og um helmingur kafbátaflota þeirra hvarf í hafið, ásamt um 5000 kafbátsmönnum sem sneru ekki lifandi úr þessum kalda hildarleik á hafinu. Það voru fyrst og fremst Þjóðverjar sem notuðust við kafbáta í fyrri heimsstyrjöld, m.a. vegna þess að breski flotinn var mun öflugri en sá þýski.
5. Eldvarpa
Annað mjög ógeðfellt vopn. Ólíkt gasinu var það notað einnig í seinni heimsstyrjöld. Sérstaklega í kyrrahafsstríði Bandaríkjamanna og Japana en japanskir hermenn leyndust oft í hellum og gjótum og var eldvarpan notuð til að brenna allt sem fyrir var áður en hermenn fóru inn til að kanna hvort einhver leyndist þar. Í fyrri heimsstyrjöld voru það Þjóðverjar sem fyrst nýttu þetta hættulega vopn. Þó það væri öflugt og ylli mikilli hræðslu meðal hermanna þá var það örðugt í notkun og hafði ekki teljandi áhrif. Það var aðallega notað af þýska hernum þótt Frakkar og Bretar nýttu það einnig í einhverjum mæli. Eldvörpuna bar einn maður og gat hann sent frá sér eldstraum sem náði allt að 18 metrum. Þetta var sérlega hættulegt starf því það var alltaf hætta á því að tankurinn á baki mannsins gæti sprungið og vegna þess að þetta var sérlega illa liðið vopn, þá einbeittu hermenn sér að því að drepa eldvarparann sem fyrst. Líftími þeirra var oftast ekki langur.