Hentistefnuflokkur íslenskra stjórnmála
Miðflokkurinn er að marka sérstöðu í íslenskum stjórnmálum með getu sinni til að taka flókin mál, smætta þau niður í einfaldar lausnir og stilla sér upp sem varðmanni fullveldis og almennings í þeim. Leiðtogi flokksins hefur náð góðum tökum á skynhyggjustjórnmálum og virðist geta staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál. Það síðasta, Klausturmálið, hefur flýtt för flokksins á jaðar stjórnmálanna. Þar virðist hann kunna vel við sig.
„Fyrir Sigmund Davíð skiptir mjög miklu máli að koma þremur helstu málefnum flokks hans á framfæri. Sem eru Sigmundur, Davíð og Gunnlaugsson.“ Þetta sagði Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu sem hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningabaráttum hans, í sjónvarpsþætti á Hringbraut í byrjun október 2017.
Tilefnið var að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafði ákveðið að segja sig úr Framsókn í 3.500 orða bréfi til flokksmanna og stofna nýjan flokk í kringum sjálfan sig. Sá flokkur fékk á endanum nafnið Miðflokkurinn og náði að bjóða fram í öllum kjördæmum í hinum skyndilegu alþingiskosningum sem boðaðar um miðbik september mánaðar, og fóru fram 28. október 2017.
Stefna hins nýja flokks var loðin. Í fyrstu viðtölunum sem formaðurinn fór í eftir stofnun hans var mest talað um að vilja framhald af því „hvernig við unnum hlutina á árunum 2009-2016,“ en það er sá tími sem Sigmundur Davíð gegndi formennsku í Framsóknarflokknum. Helsta stefnumálið var því að spóla til baka til þess tíma sem var áður en að Sigmundur Davíð þurfti að segja af sér vegna Wintris og Panamaskjalana.
Hópurinn sem stóð að flokknum samanstóð að mestu af helstu bandamönnum Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum og öðrum fylgismönnum hans sem fylgt höfðu honum að málum árum saman. Á meðal þeirra sem skiptu um lið voru Gunnar Bragi Sveinsson og Vigdís Hauksdóttir auk þess sem Bergþór Ólason, sem gegnt hafði trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kom um borð.
Þá greindi Björn Ingi Hrafnsson, sem hafði tilkynnt um framboð undir hatti Samvinnuflokksins, að hann ætlaði að ganga til liðs við Sigmund Davíð með sína liðsmenn. Björn Ingi, sem var þá nýlega hættur sem helsti stjórnandi Pressusamstæðunnar, sagði þá í stöðuuppfærslu á Facebook að hann fagnaði því „mjög að við Íslendingar fáum aftur tækifæri til að kynnast framtíðarsýn hans sem stjórnmálaforingja, enda geta flestir verið sammála um þann mikla árangur sem náðist fyrir land og þjóð undir hans forystu á sínum tíma.“
Vertu með á miðjunni! Fyrir fáeinum dögum lýsti ég því að úrlausnarefni samfélagsins og ástandið í íslenskum...
Posted by Björn Ingi Hrafnsson on Thursday, September 28, 2017
Lykilfólk í Miðflokknum hóf samstundis, bæði opinberlega og í einkasamtölum, að sverja Björn Inga af flokknum og á endanum fékk hann ekkert formlegt hlutverk í kosningabaráttu hans. Þess í stað snéri hann aftur í fjölmiðla og stofnaði vefmiðilinn Viljann síðla árs 2018.
Unnu stórsigur
Tæpum tveimur vikum fyrir kosningar 2017 var kosningastefna Miðflokksins kynnt. Helsta stefnumálið snérist um að íslenska ríkið ætti að kaupa Arion banka að fullu, en það átti þá 13 prósent í bankanum. Svo vildi Miðflokkurinn að þriðjungur yrði seldur í opnu útboði, að ríkið myndi halda eftir um þriðjungi og að þriðjungur yrði gefin landsmönnum. Hugmyndin þótti illa ígrunduð af flestum sérfræðingum, enda átti að nota skattfé almennings til að kaupa hlut í banka sem átti síðan að gefa almenningi aftur að hluta. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði hugmyndina til að mynda „innihaldslaust blaður“.
Þrátt fyrir að vera ekki með nánast neina stefnu, að vera nýstofnaður og keyra kosningabaráttu sína að meginstefnu á loforði sem gagnrýndur gátu auðveldlega tætt í sig með skynsamlegum rökum, þá vann Miðflokkurinn stórsigur í Alþingiskosningunum haustið 2017.
Alls fékk Miðflokkurinn 10,9 prósent atkvæða í síðustu Alþingiskosningum, sem er mesta fylgi sem nýr stjórnmálaflokkur hefur nokkru sinni fengið í fyrstu þingkosningunum sem hann hefur boðið fram í. Flokkurinn fékk alls 21.335 atkvæði, og það sem meira var, 316 atkvæðum fleiri en Framsóknarflokkurinn. Sigur, og endurkoma Sigmundar Davíðs, var algjör. Persónufylgi hans náði eitt og sér að niðurlægja gamla flokkinn hans og ýta þeim nýja inn á þing sem fjórða stærsta flokki landsins.
Engar líkur voru hins vegar á því að Miðflokkurinn næði inn í ríkisstjórn. Frjálsyndu miðjuflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratar, voru aldrei að fara að starfa með þeim. Það voru Vinstri græn ekki heldur að fara að gera og Sjálfstæðisflokkurinn virkaði heldur ekki sérstaklega spenntur fyrir því að endurvekja kynnin við Sigmund Davíð á þessum tíma.
Flokkurinn settist því í stjórnarandstöðu sem næst stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og hóf að móta innra starf sitt.
Varðmenn fullveldis
Á fyrsta landsþingi flokksins sem haldið var fyrir tæpu ári síðan glitti meira í hvar flokkurinn ætlaði að standsetja sig. Allt myndmál og orðræða sýndi að þjóðernislegar áherslur yrðu ofarlega á baugi, að alþjóðasamstarf yrði tortryggt, og að mörg af gömlum málum Sigmundar Davíðs frá tíma hans í Framsóknarflokknum sem gáfu vel yrðu endurnýtt. Helsta baráttumálið yrði að verja fullveldi Íslands og lýðveldið með því að færa völdin frá embættismönnum til sterkra leiðtoga sem hefðu hið raunverulega lýðræðislega umboð.
Á meðal þess sem kom fram í landsfundarályktun flokksins var að RÚV, sem Sigmundur Davíð hefur gagnrýnt harðlega fyrir umfjöllun um sig, ætti að fara af fjárlögum, að lögreglumönnum í landinu yrði fjölgað, að þak yrði sett á vexti af nýjum verðtryggðum lánum, að fjármálakerfið yrði endurskipulagt og að Landsbankinn yrði látinn leiða þá vinnu.
En stærsta málið sem samþykkt var þar, og mun marka stefnu flokksins mest í komandi framtíð, var að í ályktuninni var samþykkt að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.“
Næsta mál á dagskrá voru sveitarstjórnarkosningar í lok maí 2018. Þar vann Miðflokkurinn enn einn sigurinn á landsvísu þar sem flokkurinn náði að skjóta rótum mjög víða. Í höfuðborginni tókst honum að koma hinni afar umdeildu Vigdís Hauksdóttur í borgarstjórn.
Endurkoma Sigmundar Davíðs gekk vel. Hann hélt áfram að finna nýja búninga fyrir sitt helsta pólitíska vopn, að stilla sér upp með Íslendingum í óskilgreindri baráttu þeirra við strámenn, helst vonda útlendinga. Sú leikjafræði og orðræða hafði gefist mjög vel í Icesave-málinu þar sem andstæðingurinn var Evrópusambandið og þáverandi ríkisstjórn, við uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna þar sem andstæðingarnir voru „hrægammasjóðir“ og þegar Sigmundur Davíð fékk í gegn Leiðréttinguna, sem í fólst tilfærsla á 72 milljörðum króna úr ríkissjóði að mestu til eignarmestu og tekjuhæstu hópa samfélagsins, þegar andstæðingurinn varð meðal annars Seðlabanki Íslands fyrir að hafa greint áhrif aðgerðarinnar réttilega í ritum sínum áður en hún var framkvæmd.
Virðist geta staðið flest allt af sér
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er án efa umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Hann kom mjög ungur inn í stjórnmál þegar hann var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á skrautlegan hátt í byrjun árs 2009. Hann hafði skráð sig í flokkinn tveimur vikum áður en flokksþingið fór fram. Upphaflega var greint frá því að Höskuldur Þórhallsson hefði verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins þar en síðar reyndist talning hafa verið röng og var tilkynnt um að Sigmundur Davíð væri réttkjörinn formaður. Hann vantaði þá enn tvo mánuði í að vera 34 ára gamall.
Fjórum árum síðar var hann orðinn yngsti forsætisráðherra lýðveldissögunnar eftir mikinn kosningasigur Framsóknarflokksins í apríl 2013.Sigmundur Davíð sagði af sér því embætti 5. apríl 2016 eftir að Panamaskjölin höfðu opinberað hann sem eiganda aflandsfélagsins Wintris og kröfuhafa í bú föllnu bankanna sem ríkisstjórn hans hafði verið að semja við. Viðtal þar sem Sigmundur Davíð sagði ósatt þegar hann var spurður út í Wintris fór sem eldur um sinu út um allan heim. Daginn áður en hann sagði af sér fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar á Austurvelli þegar 26 þúsund manns mótmæltu Sigmundi Davíð, öðrum ráðherrum sem voru í Panamaskjölunum og ríkisstjórninni sem þeir sátu í.
Í könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var á þeim tíma sem leið frá því að sérstakur Kastljósþáttur um skjölin var sýndur og þar til Sigmundur Davíð steig til hliðar kom fram að 78 prósent landsmanna vildi að hann myndi segja af sér.
Þetta var ekki staða sem margir stjórnmálamenn hefðu snúið aftur úr.
Eftir nokkurra mánaða frí vildi Sigmundur Davíð, þá enn formaður Framsóknarflokksins, taka aftur við stjórnartaumunum. Hann var sannfærður um að vera fórnarlamb samsæris og að hann hefði ekki gert neitt rangt. Síðar opinberaði Kjarninn að Wintris hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur og óskað eftir því að fá að gera þá rétt upp við skattayfirvöld.
Sigmundur Davíð tapaði svo í formannsslag við Sigurð Inga Jóhannsson í Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna 2016 og sat í nokkurs konar sjálfskipaðri útlægð sem þingmaður flokksins næsta tæpa árið. Á þeim tíma tók hann lítinn þátt í þingstörfum en einbeitti sér að því að stofna Framfarafélagið, vettvang utan um hugmyndir hans sem stjórnmálamanns sem átti að nýtast til að fleyta honum aftur til valda innan Framsóknarflokksins.
Þegar kosningar skullu skyndilega á haustið 2017 breyttust þau áform. Sigmundur Davíð og nokkrir tryggir fylgismenn gengu úr Framsóknarflokknum, stofnuðu Miðflokkinn og buðu fram út um allt land. Einu og hálfu ári eftir Panamaskjölin vann hann kosningasigur.
Þegar Klausturmálið kom upp voru áhrifin ekki ósvipuð og eftir Panamaskjalahneykslið. Í könnun sem birt var 3. desember 2018 kom fram að á milli 74 og 91 prósent Íslendinga eru hlynnt afsögn alþingismannanna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi ætti að segja af sér en næstum jafn háu hlutfalli fannst að Bergþór ætti einnig að gera það. Þá töldu 86 prósent landsmanna að Sigmundur Davíð ætti að víkja. Þessa stöðu virðast Miðflokksmenn nú hafa staðið af sér.
Á meðal annarra sem Sigmundur Davíð hefur talið til óvina sinna eru þeir sem hann kallaði pólitíska krossfara innan háskólasamfélagsins og flest allir fjölmiðlar landsins. Hann hefur talið að þessir aðilar ynnu leynt og ljóst gegn honum, ríkisstjórn hans á meðan að hún sat og þar af leiðandi almenningi sem hafði kosið hann til valda.
Fleygamál sem hentaði fullkomlega
Þegar Alþingi hófst í haust virtist Miðflokkurinn vera að finna verulega taktinn sinn. Hann var enn með annan fótinn inn í meginstraumnum en hinn kyrfilega í jaðarfylgi þeirra sem eru með verulega fyrirvara gagnvart alþjóðavæðingu og þeim breytingum sem hún hefur haft í för með sér. Þ.e. þeim hópum sem eru ósáttastir með stöðu sína í samfélaginu, leita að sökudólgum fyrir þeirri stöðu og eru því móttækilegri fyrir lýðskrumi.
Nýtt mál sem smellpassaði fyrir fleygapólitík Sigmundar Davíðs var komið fram, innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins inn í íslensk lög. Málið er nægilega flókið til þess að fæstir kynna sér meginatriði þess og því er hægt að stýra umræðu um það með upphrópunum og hræðsluáróðri. Hart hafði verið tekist á um málið í Noregi, sem er tengt við orkumarkað Evrópusambandsins í gegnum sæstrengi, áður en að innleiðing pakkans var samþykkt þar af andstæðingum EES-samningsins.
Eftir að sú niðurstaða lá fyrir fór sá hópur að einbeita sér að Íslandi. Allt í einu varð þriðji orkupakkinn hitamál á Íslandi, sem tengist ekki evrópskum orkumarkaði í gegnum strengi. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í viðtali við 21 á Hringbraut í janúar að gagnrýnin á þriðja orkupakkann væri eitthvað sem við værum að fá frá Noregi um að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.“
Málið hentaði íslenska Miðflokknum líka vel vegna þess að það var vandræðamál innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þeirra tveggja flokka sem Miðflokkurinn tekur mest fylgi frá. Því fóstraði flokkurinn snemma andstöðu við þriðja orkupakkann og naut þar stuðnings ritstjóra Morgunblaðsins, Davíðs Oddssonar, sem hefur í ritstjórnargreinum undanfarinna ára hallað sér mun meira að Sigmundi Davíð en sínum gamla flokki, Sjálfstæðisflokknum.
Klausturmálið reyndi á tilveruréttinn
Svo kom Klausturmálið. Það er rakið hér í aukaefni hér að neðan en snérist um drukkna orðræðu sex þingmanna úr Miðflokki og Flokki fólksins á Klausturbar þann 20. nóvember 2018, sem var tekin upp og send til fjölmiðla. Þar átti sér einnig stað augljós tilraun til að fá þingmennina Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson til að yfirgefa Flokk fólksins og ganga til liðs við Miðflokkinn.
Málið olli Miðflokknum samstundis miklum skaða. Í fyrstu könnun sem gerð var á fylgi flokka eftir að það kom upp, sem var birt í Fréttablaðinu að morgni 5. desember, kom fram að Miðflokkurinn myndi einungis fá 4,3 prósent fylgi ef kosið yrði þá og þar með falla með öllu út af þingi.
Sex þingmenn á Klausturbar
Þriðjudaginn 20. nóvember 2018 fóru sex þingmenn – fjórir úr Miðflokki og tveir úr Flokki fólksins – á barinn Klaustur, í námunda við Alþingishúsið. Þar settust þeir niður, drukku áfengi og töluðu með niðrandi og meiðandi hætti um samstarfsfólk sitt í stjórnmálum.
Þeir stærðu sig einnig að pólitískum hrossakaupum með sendiherrastöður, þingmenn Miðflokksins reyndu að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra sem glímir við sjaldgæfan beinsjúkdóm, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann. Það sem þingmennirnir sex, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins , Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritari flokksins, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson úr Flokki fólksins, vissu ekki var að í nálægð við þá sat einstaklingur sem upphaflega kallaði sig bara „Marvin“.Sá tók upp það sem fram fór. Og sendi á valda fjölmiðla.Marvin hét í raun Bára Halldórsdóttir, 42 ára fötluð og hinsegin kona sem kom inn á barinn á eftir þingmönnunum. Hún sagði síðar í viðtali að sér hefði einfaldlega blöskrað orðfæri fólksins og ákveðið að taka það upp.
Einn þeirra stjórnmálamanna sem mikið var rætt um á Klaustursupptökunni, á kynferðislegan og niðrandi hátt, var Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Á upptökunum heyrðist Gunnar Bragi Sveinsson meðal annars segja: „Hjólum í helvítis tíkina“ þegar rætt var um Lilju.
Lilja fór í viðtal í Kastljósi 5. desember síðastliðinn sem mæltist afar vel fyrir þvert á pólitískar línur. Þar var hún mjög afgerandi í afstöðu sinni gagnvart framferði Klausturfólksins., sagði tal þeirra vera „algjört ofbeldi“ og að hún væri „ofboðslega“ ósátt við það. Lilja sagði enn fremur að „ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi“.
Miðflokksmenn telja málið samsæri, að Bára hafi brugðið sér í dulargervi, hafi átt sér samverkamann og að upptökurnar hafi verið undirbúnar en ekki tilviljun.
Þegar þarna var komið við sögu voru Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason farnir í leyfi frá þingstörfum og búið var að reka Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson úr Flokki fólksins.
Upphaflega reyndu Miðflokksmenn að setja fókusinn á að um ólöglegar upptökur væri að ræða og að eitthvað hefði verið átt við þær. Sá málflutningur hlaut engan hljómgrunn. Gunnar Bragi og Bergþór fóru fljótlega í leyfi frá þingstörfum og áherslur Sigmundar Davíðs og annarra Miðflokksmanna snerust um að þrauka fram í jólafrí og fá þá skjól frá óvæginni umræðu í þeirra garð.
Það tókst.
Þróun Miðflokksins flýtt
Í lok janúar snéru Gunnar Bragi og Bergþór óvænt aftur til starfa. Ljóst var að Miðflokksmenn ætluðu ekki að skammast sín meira fyrir Klausturmálið heldur að spyrna fast við fótum og útmála sig sem fórnarlömb þess, ekki gerendur. Skömmu síðar gengu Karl Gauti og Ólafur til liðs við Miðflokkinn og gerðu hann þar með af stærsta stjórnarandstöðuflokknum í landinu með níu þingmenn. Klaustursvegferðin skilaði á endanum tilætluðum árangri.
Ljóst var að flokkurinn hafði misst möguleikann á því, að minnsta kosti tímabundið, að ná í atkvæði í meginstraumnum og því hafði Miðflokkurinn tekið mjög skýr skref í átt að jaðrinum og því að vera meira í ætt við sambærilega flokka í nágrannalöndunum okkar. Stymir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði í bloggfærslu um síðustu helgi að staða Miðflokksins minnti á Danska þjóðarflokkinn, sem skapaði sér stöðu til hægri við danska íhaldsflokknum á sínum tíma með góðum árangri. Árangur Danska þjóðarflokksins var ekki síst vegna harðrar afstöðu hans í málefnum innflytjenda, góðum árangri hans við að tefla stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu sem andstæðum, fullveldistali og tortryggni gagnvart alþjóðavæðingu.
Það hefur sýnt sig á síðustu vikum að Miðflokkurinn er að fara hraðar í þessa átt en áður, og spilar staðan sem skapaðist við Klausturmálið þar ugglaust lykilhlutverk. Forsvarsmenn Miðflokksins hafa engu að tapa.
Flokkurinn stóð til að mynda fyrir málþófi til að hindra framgöngu frumvarps sem heimilaði eftirstandandi aflandskrónueigendum að fara með þær úr landi. Seðlabankinn hafði sagt að ef frumvarpið yrði ekki samþykkt gæti það aukið umfang aflandskrónueigna í lausu fé um 70 prósent.
Málþófið hafði tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi að endurvekja þá hugmynd að Sigmundur Davíð og fylgismenn hans væru þeir einu sem stæðu upp í hárinu á erlendum fjármagnseigendum. Í öðru lagi að sýna hvers hinn nýi stærsti stjórnarandstöðuflokkur væri megnugur nú þegar hann teldi níu manns.
Ná vopnum sínum aftur
Eitt þeirra mörgu umræðuefna sem sexmenningarnir ræddu á Klaustri í nóvember var hversu móttækilegir kjósendur í Suðurkjördæmi væru fyrir kynþáttahyggju og útlendingaandúð. Ólafur Ísleifsson sagði þar að það væri „augljós markaður fyrir þessi sjónarmið í Suðurkjördæmi.“
Það sæist meðal annars á því að Ásmundi Friðrikssyni, þingmaður Sjálfstæðisflokks hefði gengið vel í prófkjörum þar þrátt fyrir að hann hefði verið að skrifa það sem „andstæðingar hans kalla rasistagreinar“.
Í mars hafa þingmenn Miðflokksins prófað sig áfram á þessum markaði. Gunnar Bragi mærði til að mynda framgöngu lögreglunnar á mótmælum sem áttu sér stað á Austurvelli í mars þar sem hún sprautaði piparúða á mótmælandi hælisleitendur. Sú yfirlýsing féll í mjög góðan jarðveg í lokuðum hópum á Facebook þar sem útlendingaandúð er allsráðandi. Ólafur Ísleifsson gagnrýndi svo þjóðkirkjuna fyrir það að hinir mótmælandi hælisleitendur hefðu fengið að pissa í dómkirkju landsins. Sá málflutningur mæltist líka vel fyrir í áðurnefndum hópum en var gagnrýndur harkalega af þingmönnum annarra flokka.
Sigmundur Davíð sjálfur hefur farið mikinn síðustu vikur. Hann sagði í viðtali við Útvarp Sögu fyrir rúmum mánuði að að ýmislegt benti til þess að djúpríki stjórni á Íslandi bakvið tjöldin. Embættismannakerfið hefði tekið völdin af ráðherrum og nefndi aflandskrónufrumvarpið sem dæmi um það.
Á vetrarfundi Miðflokksins um síðustu helgi var svo samþykkt stjórnmálaályktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokkurinn ætlar að stefna í sinni pólitík.
Þar kom fram að flokkurinn vilji þjóðlegar áherslur, og að hann hafni með öllu þriðja orkupakkanum. Að horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum, sem dómstólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóðasamningum. Að afnema eigi verðtryggingu húsnæðislána án þess að tilgreint sé hvernig eigi að gera það. „Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar,“ stóð neðst í ályktuninni.
Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á fundinum að þriðji orkupakkinn væri „stórhættulegur“ og hann sé eitt „tannhjól kerfisins“ sem Miðflokkurinn vilji berjast gegn. Flokkurinn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur andlitslausra stofnanna út í heimi.
Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðningsmenn hérlendis. Þrátt fyrir Panamaskjölin, allar samsæriskenningarnar og Klausturmálið þá er Miðflokkurinn að ná vopnum sínum að nýju samkvæmt könnunum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi hans níu prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokksins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars