Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands þá var meðaltal „annarra tekna“ hjá innlendum íbúum Íslands um 1,3 milljónir króna á árinu 2017. Á sama tíma var það 626 þúsund krónur hjá innflytjendum, eða rúmlega 50 prósent lægra.
„Aðrar tekjur“ eru samtala ýmissa félagslegra greiðsla, svo sem lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og aðrar bótagreiðslur á borð við atvinnuleysisbætur, vaxta- og barnabætur. Auk þess teljast til annarra tekna náms- og rannsóknarstyrkir, vinningar og ýmsar aðrar tekjur.
Þegar miðgildi þessara talna (helmingur með lægri aðrar tekjur en það og helmingur með hærri aðrar tekjur) er skoðað kom í ljós að það var 136 þúsund krónur á ári hjá innlendum íbúum en 72 þúsund krónur hjá innflytjendum. Þar er munurinn líka tæplega 50 prósent.
Innflytjendum til Íslands hefur fjölgað mjög hratt á síðustu árum. Þeir eru nú 45.130 og hefur fjölgað um 49 prósent frá byrjun árs 2017 og um 113 prósent frá byrjun árs 2011.
Samhliða þessari miklu aukningu hefur bilið á milli meðaltals „annarra tekna“ innlendra og innflytjenda aukist. Þ.e. meðaltalsgreiðslur til innlendra íbúa hafa vaxið hraðar á síðustu árum en meðaltalsgreiðslur innflytjenda.
Meðaltalsgreiðslur til innlendra íbúa hafa farið úr 998 þúsund krónum í 1,3 milljónir króna á árunum 2012-2017. Á sama tíma lækkuðu meðaltalsgreiðslur til innflytjenda úr 644 þúsund krónum í 626 þúsund krónur.
Raunar hafa greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu dregist verulega saman á undanförnum árum. Árið 2015 greiddu þau 3,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki. Á árinu 2017 var sú upphæð 2,4 milljarðar króna.
Gæti átt sér eðlilegar skýringar
Í framsögu sem Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, flutti um félagslegar greiðslur til innflytjenda og innlendra á morgunverðarfundi EAPN á Íslandi í lok mars, kom fram að munurinn á milli hópanna gæti átt sér eðlilegar skýringar.
Hlutfall karla og yngra fólks á meðal innflytjenda væri til að mynda að jafnaði hærra. Þeir ættu líka að jafnaði færri börn og væru því ólíklegri þiggjendur barnabóta. Á móti kæmi að innflytjendur byggi oftar í leiguhúsnæði sem væri að jafnaði dýrara en eigið húsnæði.
Í framsögunni kom einnig fram að munurinn gæti að hluta til skýrst af því að innflytjendur ættu ekki sama bótarétt og innlendir, einfaldlega vegna þess að margir þeirra hafa dvalið stuttan tíma á Íslandi. Þeir hefðu því ekki unnið sér inn rétt á félagslegum greiðslum.
Þegar miðgildi annarra tekna þeirra innflytjenda sem hafa dvalið lengur á Íslandi er skoðað þá er það hærra en hjá heildinni.
Gró sagði að fyrir innflytjendur sem hafa dvalist á Íslandi í áratug eða lengur þá sé miðgildi annarra tekna nánast það sama og hjá innlendum íbúum.
Mikil aukning á fáum árum
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög hratt á Íslandi á undanförnum árum. Alls voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi 45.130 í byrjun mars síðastliðnum.
Flestir þeirra erlendu ríkisborgara sem búa á Íslandi koma frá Póllandi. Í byrjun marsmánaðar voru þeir 19.466 talsins sem þýðir að 43 prósent allra erlendra ríkisborgara sem hér búa eru upprunalega frá Póllandi.
Í lok síðasta árs bjuggu langflestir erlendu ríkisborgararnir sem búa hérlendis í Reykjavík, eða 18.470 talsins. Á þeim tíma bjuggu því alls um 42 prósent þeirra í höfuðborginni, og tæp 62 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Frá byrjun árs 2015 hefur fjöldi erlendra ríkisborgara í Reykjavík aukist um 80 prósent.
Með lægri laun en Íslendingar
Um síðustu áramót voru innflytjendur 12,4 prósent af öllum íbúum landsins. Hlutfall innflytjenda á Íslandi er nú svipað og það er í Noregi (14,1 prósent) og í Danmörku (10,2 prósent) í árslok 2017. Enn vantar þó töluvert upp á að ná Svíþjóð þar sem innflytjendur voru 18,6 prósent íbúa í lok þess árs. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru tölurnar þó ekki að öllu leyti sambærilegar þar sem skilgreiningar á innflytjendum og annarrar kynslóðar innflytjendum eru ekki að öllu leyti þær sömu.
Innflytjendur eru að jafnaði með tæplega átta prósent lægri laun en innlendir hér á landi. Það er að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starfstengdra þátta en með því að leiðrétta fyrir þessum þáttum fæst skýrari mynd af þeim áhrifum sem bakgrunnur hefur á laun hér á landi.
Þetta kom fram í nýlegri greiningu Hagstofu Íslands á launamun innflytjenda og innlendra fyrir tímabilið 2008 til 2017 sem unnin var í samvinnu við innflytjendaráð.