Í ágúst 2012 seldi Reykjanesbær skuldabréf sem sveitarfélagið eignaðist við sölu á hlut þess í HS Orku til Geysis Green Energy. Kaupandinn var Fagfjárfestingasjóðurinn ORK sem rekinn var af Virðingu, sem síðar gekk í gegnum nokkrar sameiningar og er nú hluti af Kviku banka. Sjóðurinn var fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum.
Í frétt á vef Reykjanesbæjar á þessum tíma var sagt að söluverðið væri 6,3 milljarðar króna. Það átti að skiptast þannig að ORK greiddi strax 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir króna í markaðsskuldabréfum. Auk þess kom fram í samkomulagi milli kaupanda og seljanda að lokagreiðsla ætti að fara fram í október 2017, þegar skuldabréfið væri á gjalddaga. Sú lokagreiðsla var bundin ýmsu, meðal annars þróun álverðs, og talan 6,3 milljarðar króna því fjarri því meitluð í stein. Í lok árs 2014 var skuldabréfið til að mynda metið á um 5,8 milljarða króna samkvæmt ársreikningi ORK.
Tilboð upp á tæpa 5,4 milljarða króna
Í nóvember 2015 bauðst Alterra Power, sem áður hafði heitið Magma Energy sem var útgefandi skuldabréfsins, til að kaupa það til baka með afföllum, eða á 5.350 milljónir króna.
Tilboðið var langt undir framreiknuðu virði skuldabréfsins í ársreikningi Reykjanesbæjar, sem var 6,7 til 7,7 milljarðar króna.
Þótt ORK ætti skuldabréfið þá þurfti sjóðurinn að óska eftir afstöðu Reykjanesbæjar til tilboðsins áður en því er tekið. Af sölunni varð á endanum ekki. Sem betur fer fyrir Reykjanesbæ.
Þegar komið var að gjalddaga skuldabréfsins, í október 2017, lá fyrir að útgefandinn vildi frekar láta veðið sem sett var fyrir því. Gengið var að því eftir það átti fjárfestingarsjóðurinn ORK 12,7 prósent í HS Orku.
Verkefnið virkaði þannig að eigendur ORK voru í raun kröfuhafar en Reykjanesbær haghafi þess. Ef það gekk illa myndi sveitarfélagið fá lítið til viðbótar við það sem þegar hafði verið greitt út, en ef vel gengi, og verð á hlutum í HS Orku myndi hækka, þá myndi Reykjanesbær hagnast verulega.
Selt á 8,8 milljarða króna
Seint á árinu 2018 barst tilboð í hlut ORK í HS Orku. Þar var á ferðinni svissneska fjárfestingafélagsins Disruptive Capital Renewable Energy AG. Móðurfélag DC Renewable Energy AG, Disruptive Capital Finance er skráð í kauphöllina í Sviss. Eigandi félagsins er Bretinn Edmund Truell sem hefur unnið lengi að því að koma á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Tilboð hans hljómaði upp þá rúma níu milljarða króna, en hluti kaupverðsins átti hins vegar að vera árangurstengdur.
Salan var hins vegar ekki frágengin þótt tilboð hefði komið fram. Samkvæmt heimildum Kjarnans átti Truell í erfiðleikum með að klára fjármögnun á kaupunum.
Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, steig þá inn og bauð í ORK-hlutinn. Frá þeim kaupsamningi var gengið í byrjun apríl.
Heimildir Kjarnans herma að kaupverðið hafi verið 8,8 milljarðar króna. Reykjanesbær getur því átt von á að fá rúmlega fjóra milljarða króna til viðbótar við það sem sveitarfélagið fékk þegar það seldi skuldabréfið upphaflega.
Í ljósi þess að Reykjanesbær er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins – skuldir samstæðunnar voru um 45 milljarðar króna í fyrra – og samfélagið þar mun verða fyrir umtalsverðum áhrifum vegna gjaldþrots WOW air og samdráttar í ferðaþjónustu, þá munu þeir fjármunir sem falla til vegna sölu á hlut ORK, koma sér afar vel. Þeim verður öllum ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.
Jarðvarmi gengur inn í fleiri tilboð
Þetta var ekki einu viðskiptin sem Jarðvarmi hefur gengið inn í á undanförnum vikum. Í lok mars var greint frá því að sjóður í stýringu hjá Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA) hefði undirritað kaupsamning á 53,9 prósent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orkufyrirtækinu HS Orku á 304,8 milljónir dala, tæplega 37 milljarða króna. Magma er í 100 prósent eigu kanadíska fyrirtækisins Innergex Renewable Energy sem keypti móðurfélag þess, Alterra Power, snemma árs 2018.
Jarðvarmi hefur ákveðið að ganga inn í þessi kaup líka, í samfloti við breskt fjárfestingarfyrirtæki, Ancala Partners.
Nú stendur yfir vinna við að ákveða hversu stóran hlut þeir lífeyrissjóðir sem standa að Jarðvarma vilja taka af þeim hlut og hversu mikið mun fara til Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum.
Þeirri vinnu á að ljúka fyrir maílok og viðmælendur Kjarnans telja að eignarhald HS Orku verði þá líklega þannig að Jarðvarmi muni eiga um helming og Ancala Partners um helming.
En Jarðvarmi hefur samt sem áður tögl og hagldir í þróun HS Orku. Þegar félagið keypti sig upphaflega inn í fyrirtækið þá tryggði það sé ríka minnihlutavernd og formlega aðkomu að öllum meiriháttar ákvörðunum á vegum HS Orku. Það samkomulag felur því í sér neitunarvald gagnvart öllum stórum ákvörðunum.
Því neitunarvaldi hefur Jarðvarmi beitt áður, þegar fjárfestingarsjóðurinn Blackstone hugðist kaupa 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á 95 milljónir evra, um 12,9 milljarða króna á núvirði, sumarið 2017. Sú ákvörðun var ekki vinsæl á meðal stjórnenda meirihlutaeigenda HS Orku á þeim tíma.
Góður rekstur og falin verðmæti
Rekstur HS Orku virðist vera í mjög góðu standi um þessar mundir. Í árslok 2017 átti fyrirtækið eigið fé upp á 35,5 milljarða króna og skilaði hagnaði upp á 4,6 milljarða króna. Þar voru eignir HS Orku metnar á 48,4 milljarða króna en flestir sérfræðingar eru sammála um að þær séu verulega vanmetnar. Í þeim sama ársreikningi var nefnilega 30 prósent eignarhlutur fyrirtækisins í Bláa lóninu bókfærður á 2,7 milljarð króna, sem er líkast til umtalsvert undir markaðsvirði í ljósi þess að Bláa lónið var verðlagt á um 50 milljarða króna alls í viðskiptum sem áttu sér stað tengt því í lok árs í fyrra.
Í fjárfestakynningu sem notast var við vegna sölunnar á ráðandi hlut til MIRA, sem nú liggur fyrir að ekkert verður af, og bar nafnið „Project Thor“, sagði að áætlaður EBITDA-hagnaður HS Orku (hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta) á árinu 2019 væri 31 milljón dala, eða um 3,7 milljarðar króna. Þar er hins vegar einnig gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður HS Orku muni nánast tvöfaldast á árinu 2023 og verða um 60 milljónir dala, eða um 7,2 milljarðar króna.
Lestu meira:
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
30. desember 2022Austurland 2022: Miklar fórnir fyrir stóra vinninga?
-
19. desember 2022Nær öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins lokað vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun
-
17. desember 2022Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind
-
13. desember 2022Spá stökkbreyttu orkulandslagi á allra næstu árum
-
8. desember 2022Hver ekinn kílómetri á rafbíl kosti sex krónur í stað annarra gjalda
-
8. desember 2022Fallið vindmastur Orkuveitu Reykjavíkur