Í umfjöllun Seattle Times er vitnað til minnisblaðs frá fundi samtaka flugmanna hjá Southwest, þar sem spurningamerki er sett við það að floti félagsins sé alveg bundinn við Boeing. Með kyrrsetningu 737 Max véla er komin upp mikil áhætta í rekstri félagsins, sem ekki er ljóst enn hvernig verður leystur að fullu. Auk þess gætir mikillar óánægju hjá flugmönnum fyrir slæma þjónustu frá Boeing, og ófullnægjandi upplýsingagjafar.
Flugslysin í Indónesíu, 29. október, og í Eþíópíu, 13. mars síðastliðinn, hafa dregið mikinn dilk á eftir sér fyrir flugiðnaðinn sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Allir um borð í 737 Max vélum Lion Air og Ethiopian Airlines, sem hröpuðu létust. Samtals 346.
Frumniðurstöður í rannsóknum á flugslysunum benda til þess að galli hafi verið í hugbúnaði í vélunum, sem tengist svonefndu MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi.
Flugmálayfirvöld í Indónesíu kynntu frumniðurstöður - með fyrirvara um að rannsókn væri ekki lokið - fyrr í mánuðinum, og kom þá fram að flugmenn hefðu brugðist rétt við, og reynt að vinna gegn því að flugvélin hefði togast niður. Allt kom fyrir ekki.
Airbus, getur það verið?
Flugmenn Southwest eru sagðir á fundi hafa rætt um hvort það sé tilefni fyrir félagið að horfa annað eftir flugvélum heldur en til Boeing, og þá einkum til Airbus.
Þó þetta virðist vera rökrétt umræða, í ljósi stöðunnar sem upp er komin, þá þykja þetta vera mikil tíðindi, þar sem tryggðarsamband Southwest við 737 vélar Boeing teygir sig aftur til 1971. Ef Southwest færi að horfa annað en til Boeing eftir vélum, þá gæti það haft keðjuverkandi áhrif á flugiðnaðinn og aðra viðskiptavini Boeing.
Icelandair er eitt margra flugfélaga sem glímir við áhrifin af því að 737 Max vélarnar hafa verið kyrrsettar og notkun á þeim bönnuð, á meðan rannsókn á flugslysunum stendur yfir. Félagið hefur þegar tekið 3 Max vélar úr umferð og hefur nú leigt þrjár vélar í staðinn.
Samkvæmt uppfærðri flugáætlun Icelandair miðar hún við að Boeing 737 MAX flugvélar félagsins verði kyrrsettar til 16. júní næstkomandi. Það verður að koma í ljós, hvort kyrrsetning vélanna mun falla úr gildi á þeim degi eða fyrr, en sú sviðsmynd er allt eins líkleg að vélarnar verði kyrrsettar lengur. Vandi er um slíkt að spá, eins og fjallað var um í fréttaskýringu á vef Kjarnans 11. apríl síðastliðinn.
Icelandair hefur veðjað á Max vélarnar í sínu leiðakerfi og hefur sagt að þegar allt er komið úr pípunum hjá Boeing, til afhendingar hjá Icelandair, þá verði Max vélarnar 16 talsins og muni henta vél til að þjónusta leiðakerfið til Evrópu og Norður-Ameríku, eins og það er orðað á vef félagsins.
Alvarlegustu hliðarverkanir slysanna - fyrir utan dauðsföllin og áhrif á aðstandendur þeirra sem létust - er mikið högg í framleiðslu hjá Boeing í Renton í útjaðri Seattle. Þar starfa um 80 þúsund starfsmenn.
Þegar mest var í fyrra, þá komu 57 vélar úr framleiðslukerfum Boeing í mánuði þar sem Max vélarnar urðu til, en framleiðslan er nú komin niður í 42.
Ástæðan er bann við notkun á Max vélunum og kyrrsetning þeirra, og óvissa um hvenær (og hvort) Max vélarnar geti komist í notkun hjá flugfélögum.
Mikil áhrif á Ísland
Þessi vandi Boeing getur haft mikil áhrif á land eins og Ísland, sem fær 43 prósent af útflutningstekjum sínum frá ferðaþjónustu.
Sóknarleikur hjá Icelandair, sem kynntur var stjórnvöldum í aðdraganda falls WOW air, virðist ekki í kortunum, eins og mál standa nú.
Frekar er mikill varnarleikur framundan, þar sem félagið mun þurfa á því að halda að ná að endurnýja flotann með hagkvæmum hætti, án þess að leiðakerfið dragist saman eða þjónusta félagsins versni.
Í versta falli verður töluverður samdráttur í þjónustu félagsins, vegna þess hve vandi Boeing vegna kyrrsetningar Max véla, er orðinn umfangsmikill. En það verður að koma í ljós hvernig tekst að greiða úr þessari stöðu.
Í lok árs í fyrra var eigið fé Icelandair 55 milljarðar og skuldir félagsins 110 milljarðar. Undanfarnir mánuðir hafa verið félaginu erfiðir og tapaði það 6,8 milljörðum króna á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra. Ljóst er að fyrstu mánuðir ársins hafa einnig verið erfiðir, en uppgjör vegna þess tímabils hefur ekki verið kynnt enn.
Markaðsvirði Icelandair er um 45 milljarðar króna, en félagið lækkaði um 2,65 prósent í dag.
Markaðsvirði Boeing er 220 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 26 þúsund milljarðar króna, en markaðsvirði Southwest er 28,7 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 3.400 milljarðar króna. Það er upphæð sem nemur um þreföldu markaðsvirði allra skráðra félaga á Íslandi.