Í vikunni birti Maskína könnun þar sem mæld var ánægja og óánægja með störf þeirra ráðherra sem sitja í þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd.
Athygli vekur að þeir þrír ráðherrar sem mest ánægja er með eru allt konur, ein frá hverjum stjórnarflokki. Hinar tvær konurnar sem setið hafa í ríkisstjórninni eru hins vegar á meðal óvinsælustu ráðherranna.
Þá sýnir könnunin að hjá tveimur stjórnarflokkum er mun meiri ánægja með störf varaformanna þeirra en þá sem leiða flokkanna. Eini flokksformaðurinn sem nýtur mestra vinsælda af ráðherrum síns flokks er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Stjarna Lilju rís hratt
Mest er ánægjan með Lilju Dögg Alfreðsdóttur, varaformann Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Alls segjast 67,6 prósent aðspurðra vera ánægðir með störf hennar. Hún er líka sá ráðherra sem minnst óánægja er með, en 9,6 prósent sögðust ekki ánægðir með störf Lilju.
Lilja var einnig ein þeirra sem varð hvað mest fyrir barðinu á drykkjutali sex þingmanna á Klausturbar 20. nóvember. Viðbrögð hennar við því sem um hana var sagt vöktu mikla athygli og mæltust afar vel fyrir. Í viðtali við Kastljós 5. desember 2018 var hún mjög afgerandi í afstöðu sinni gagnvart framferði Klausturfólksins., sagði tal þeirra vera „algjört ofbeldi“ og að hún væri „ofboðslega“ ósátt við það. Lilja sagði enn fremur að „ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi“.
Það stendur líka upp úr í könnuninni að Lilja er langvinsælasti ráðherra Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokks hennar, mælist með 27,8 prósent ánægju og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, með enn minni, eða 22,3 prósent. Óánægja með störf þeirra er auk þess mun meiri en með störf Lilju.
Í könnun Maskínu kemur fram að ánægja með störf Lilju aukast hjá stuðningsmönnum allar flokka nema eins. Hjá stuðningsmönnum Miðflokksins, klofningsflokks úr Framsókn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur ánægjan dalað. Líklega má rekja það að hluta til Klausturmálsins, en fjórir helstu þingmenn hans voru í aðalhlutverki í því máli. Það er óneitanlega athyglisvert að rúmlega helmingur kjósenda Flokks fólksins, Pírata og Samfylkingar, sem sitja í stjórnarandstöðu, eru ánægðir með störf Lilju. Hjá Viðreisn er ánægjan enn meiri, en 85,8 prósent. Það er meiri ánægja en hjá kjósendur Sjálfstæðisflokks, sem þó situr í stjórn með Framsókn.
Á meðal Framsóknarmanna nýtur Lilja þó 100 prósent stuðnings, og er eini ráðherrann þar sem allir kjósendur ákveðins flokks segjast ánægðir með störf hans. Þannig segjast einungis 76,9 prósent kjósenda Framsóknar ánægðir með störf formanns síns, Sigurðar Inga, og 34,7 prósent þeirra eru ánægðir með Ásmund Einar.
Þórdís vinsælli en Bjarni
Næst vinsælasti ráðherrann er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks. Hún tók nýverið við stjórnartaumunum í dómsmálaráðuneytinu til viðbótar við embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís er yngsti ráðherrann í ríkisstjórn landsins – verður 32 ára í lok árs – og þykir einna líklegust til að verða næsti formaður Sjálfstæðisflokks þegar Bjarni Benediktsson ákveður að stiga til hliðar, sem alls óljóst er hvort verður í náinni framtíð. Hann hefur raunar sagt það nýlega að hann sé ekki farinn að hugsa um að hætta. Litlar sem engar líkur eru á að einhver skori Bjarna á hólm.
Þórdís hefur á sínum herðum helstu efnahagsstoð íslensk efnahagslífs, ferðaþjónustuna, og hefur auk þess þurft að há flókna baráttu innan flokks og utan vegna þriðja orkupakkans svokallaða.
Alls segjast 43,2 prósent landsmanna vera ánægð með störf hennar og 19 prósent vera óánægð. Þar eru skilin milli ánægju kjósenda stjórnar og stjórnarandstöðu þó mun skýrari með þeirri einu undantekningu að rúmlega tveir af hverjum þremur kjósendum Viðreisnar eru ánægðir með Þórdísi.
Sá sem oftast er nefndur sem líklegur mótframbjóðandi Þórdísar í formannsslag framtíðarinnar innan Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, siglir nokkuð lygnan sjó samkvæmt könnuninni, og þriðji hver þátttakandi sagðist ánægður með hans störf en rúmlega fjórði hver lýsti yfir óánægju. Innan Sjálfstæðisflokksins segjast 80,1 prósent vera ánægðir með störf hans.
Forsætisráðherra með varnarsigur
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lengi notið mikillar lýðhylli þvert á flokka. Í könnun sem gerð var árið 2015 naut hún mest trausts alls forystufólks í stjórnmálum. Sex af hverjum tíu sögðust treysta henni. Ýmsar kannanir sem gerðar voru fyrir tilurð sitjandi ríkisstjórnar sýndu einnig að flestir Íslendingar vildu Katrínu sem forsætisráðherra. Í maí 2016 gerði Fréttablaðið meira að segja skoðanakönnun um með hvaða stjórnmálamenn landsmenn myndu helst vilja búa með og þar var Katrín einnig hlutskörpust. Alls vildu 13 prósent aðspurðra búa með Katrínu.
Skömmu áður hafði Stundin gert skoðanakönnun um hvaða Íslending þjóðin vildi helst sem forseta. Þar mældist Katrín með mestan stuðning allra sem komust á blað.
Viðbúið var að umdeilt stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn myndi hafa áhrif á vinsældir Katrínar, bæði innan flokks og utan. Samt sem áður er hún sá ráðherra sem er í þriðja sæti yfir þá sem mest ánægja með, en 38,6 prósent landsmanna segjast vera það með störf Katrínar. Hún er hins vegar umdeildari en flestir ráðherrar líkt og oft vill verða með leiðtoga ríkisstjórna og þegar kemur að hinni hliðinni þá eru nánast jafn margir, eða 34,4 prósent, óánægðir með Katrínu.
Í samanburði við hina tvo stjórnarleiðtoganna, Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson, er staða Katrínar þó ansi sterk. Um fjórðungur aðspurðra var ánægður með þeirra störf og Bjarni er auk þess að glíma við að vera sá ráðherra sem næst mest óánægja er með, á eftir Sigríði Á. Andersen. Alls sögðust 51,6 prósent aðspurðra í könnun Maskínu vera óánægð með störf Bjarna.
Fleiri óánægðir með Svandísi en ánægðir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er sá kvennráðherra sem enn situr í ríkisstjórn sem nýtur minnstrar hylli hjá landsmönnum. Ólíkt hinum sitjandi kvennráðherrum þá eru fleiri óánægðir með Svandísi en ánægðir. Einungis Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælast óvinsælli en Svandís. Alls segist einungis fimmtungur aðspurðra vera ánægð með hana.
Þegar kemur að óánægju er staðan aðeins skárri. Þá bætist Bjarni Benediktsson við þá tvo flokksfélaga sína, Sigríði og Kristján Þór, sem sitja í þremur efstu sætum óánægjulistans. En þar á eftir kemur Svandís.
Líkast til spilar inn í að Svandís situr í einu erfiðasta ráðuneytinu og því fjárfrekasta. Heilbrigðismál eru ofarlega á baugi í íslenskum stjórnmálum og erfitt að gera öllum til geðs. En Svandís er sannarlega umdeild og hefur meðal annars tekið harða afstöðu gegn auknum einkarekstri í heilbrigðismálum. Hinir tveir ráðherrar Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, mælast með mun betri ánægjutölur en Svandís og mun færri eru líka óánægðir með störf þeirra. Um þriðjungur aðspurðra er til að mynda ánægður með Guðmund en fjórðungur óánægður.
Það kemur enda í ljósi að Sjálfstæðismenn eru síst ánægðir með störf hennar af öllum ráðherrum í ríkisstjórn, en einungis 19,1 þeirra segjast ánægðir með Svandísi. Að sama skapi sögðust 51,6 prósent þeirra vera ánægðir með hana. Það mældist meiri ánægja, og minni óánægja, með störf Svandísar á meðal kjósenda stjórnarandstöðuflokksins Samfylkingar en á meðal Sjálfstæðismanna.
Sigríður í sérflokki
Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra 13. mars vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landréttarmálinu svokallaða. Það gerði hún ekki af fúsum og frjálsum vilja, enda hafði Sigríður sagt í viðtölum daginn áður en hún sagði af sér, að það kæmi ekki til greina.
Heimildir Kjarnans herma hins vegar að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi gert Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni ljóst að Sigríður gæti ekki setið áfram að hennar mati. Þeim skilaboðum þyrfti að koma skýrt til hennar. Þegar Katrín fór á þingflokksfund síðar saman þennan dag lá enn ekki skýrt fyrir hvort Sigríður ætlaði að segja af sér eða ekki. Samkvæmt viðmælendum Kjarnans innan úr Vinstri grænum kom til greina að slíta stjórnarsamstarfi ef Sigríður yrði ekki látin víkja.
Klukkan 13:49 síðdegis miðvikudaginn 13. mars var boðað til blaðamannafundar í dómsmálaráðuneyti sem skyldi hefjast 41 mínútu síðar. Þar flutti Sigríður nokkuð samhengislausa ræðu sem vakti mikla furðu á meðal ýmissa innan ríkisstjórnarsamstarfsins. Þegar leið á ræðuna kom í ljósi að dómsmálaráðherrann ætlaði að stíga til hliðar sem ráðherra á meðan að verið væri að fjalla meira um Landsréttarmálið og vinna úr þeirri stöðu sem upp var komin. Hún hefði skynjað að hennar persóna kynni að hafa truflandi áhrif á frekari meðferð málsins.
Svo virtist sem Sigríður teldi ráðstöfunina tímabundna, en slíkt gengur þó ekki upp samkvæmt stjórnskipun landsins. Ráðherra getur ekki vikið tímabundið, heldur segir af sér og fer úr ríkisstjórn. Það hefur Sigríður nú gert.
Könnun Maskínu sýnir að Sigríður nýtur ekki mikillar hylli hjá almenningi. Hún er sá ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur á þessu kjörtímabili sem fæstir eru ánægðir með 13,8 prósent, og langflestir óánægðir með, 65,8 prósent. Auk þess er hún sá ráðherra sem flestir höfðu fastmótaða skoðun á. Þ.e. hlutfall þeirra sem voru hvorki ánægðir né óánægir með Sigríði var lægst allra ráðherra. Þegar skoðað er einungis þeir sem taka afstöðu í könnuninni er niðurstaðan sú að tæplega 83 prósent voru óánægðir með störf Sigríðar.
Óvinsældir Sigríðar eru ekki nýtilkomnar. Í könnun sem Maskína gerði fyrir Stundina í febrúar í fyrra kom fram að 72,5 prósent landsmanna vildu að hún myndi segja af sér embætti vegna Landsréttarmálsins.
Endurkoma hennar í ríkisstjórn verður því að teljast afar langsótt.