Alls hafa Íslendingar notað 56 milljarðar króna af séreignasparnaði sínum til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna frá árinu 2014, þegar heimild til þess var veitt sem hluti af Leiðréttingunni. Inni í þeirri tölu eru bæði framlög einstaklinganna sjálfra og mótframlög launagreiðenda. Þetta kemur fram í greinargerð með lagafrumvarpi sem á að framlengja úrræðið til ársins 2021.
Þeir sem safna séreignarsparnaði fá í raun launahækkun sem aðrir fá ekki. Sparnaðurinn virkar þannig að einstaklingur greiðir sjálfur hluta sparnaðarins en fær viðbótarframlag frá launagreiðanda á móti.
Úrræðið sem stjórnvöld bjóða upp á, að ráðstafa séreignarsparnaði inn á höfuðstól húsnæðislána, felur því í sér að atvinnurekendur eru að greiða hluta af húsnæðiskostnaði þeirra sem nýta sér það. Gróflega má ætla að framlag atvinnurekenda sem ráðstafað hefur verið inn á húsnæðislán sé nú þegar nálægt 20 milljörðum króna.
Auk þess er úrræðið skattfrjálst. Þ.e. íslenska ríkið gefur eftir tekjur til þeirra sem nýta sér þetta úrræði. Samanlagt tekjutap ríkis og sveitarfélaga á ári vegna þessa er um þrír milljarðar króna, miðað við mat á áhrifum á framlengingu úrræðisins frá 2019 til 2021. Allt í allt má ætla að skattgreiðslur sem ríkissjóður muni gefa eftir til þess hóps sem nýtir sér úrræðið verði á bilinu 18 til 19 milljarðar króna frá miðju ári 2014 og fram til júníloka 2021.
Þessi skattaafsláttur hefur hins vegar lítið sem engin áhrif á ráðstöfunartekjur ríkissjóðs í dag eða á næstu árum vegna þess að séreignarsparnaður er skattlagður við útgreiðslu. Þ.e. þegar fólk fer á eftirlaun. Þorri þeirra sem eru að nýta sér úrræðið í dag eiga töluvert langt í það. Því er verið að veita skattaafslátt á kostnað framtíðarkynslóða. Þetta er raunar staðfest í greinargerð frumvarpsins þar sem segir að „framlengingin hefur lítil áhrif á afkomu ríkis og sveitarfélaga á tímabili nýframlagðrar fjármálaáætlunar sem nær til ársins 2024.“
Þá sýna opinberar tölur að það er lítill hluti landsmanna sem nýtir sér úrræðið, og nýtur þar af leiðandi þeirra viðbótargæða sem því fylgja. Að jafnaði er iðgjöldum vegna séreignasparnaðar ráðstafað inn á lán 23 þúsund einstaklinga í hverjum mánuði. Í fyrra nam nýtingin 12,8 milljörðum króna og minnkaði lítillega á milli ára.
Á vinnumarkaði á Íslandi voru 203.700 í lok síðasta árs. Það þýðir að séreignarsparnaðarúrræðið var nýtt af um 11,3 prósent vinnandi einstaklinga í fyrra.
Byrjaði sem Leiðrétting
Í kynningu á Leiðréttingunni, stærsta máli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem fram fór í Hörpu í mars 2014 kom fram að heildarumfang hennar yrði 150 milljarðar króna. Um 80 milljarðar króna áttu að vera greiðsla úr ríkissjóði inn á höfuðstól þess hóps sem hafði verið með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, óháð efnahag. Á endanum nam Leiðréttingagreiðslan 72,2 milljörðum króna. Hún fór að mestu til tekjuhærri og eignarmeirihópa samfélagsins.
Um 70 milljarðar króna áttu síðan að koma til vegna þess að landsmönnum yrði gert kleift að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán sín í þrjú ár, frá miðju ári 2015 og fram til 30. júní 2017.
Heimildin til að nota séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán var framlengd í október 2016, í aðdraganda kosninga þess árs, fram á mitt sumar 2019. Í hinum svokölluðu lífskjarasamningum, aðgerðarpakka stjórnvalda til að skera á hnút í kjaradeilum fyrr á þessu ári, var meðal annars lofað að framlengja heimildina til sumarsins 2021.
Þrátt fyrir að upprunalega tímabilið sé liðið, að næstum allt fyrsta framlengingartímabilið og búið sé að ákveða enn lengri líftíma hafa einungis 80 prósent þeirra upphæðar sem þáverandi ráðamenn þjóðarinnar sögðu að yrði ráðstafað inn á húsnæðislán með séreignarsparnaði fyrir mitt ár 2017 ratað þangað.
Mun færri nýta sér en reiknað var með
Þegar úrræðið um að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán var kynnt var metið hversu margir gætu nýtt sér það. Niðurstaðan var sú að alls hefðu rúmlega 62.800 fjölskyldur getað nýtt sér það og þaðan er talan 70 milljarðar króna komin.
Þetta reyndir verulegt ofmat. Í apríl 2018, tæpu ári eftir að upprunalega gildistímabilið var liðið, greindi Kjarninn frá því að 45 einstaklingar, ekki fjölskyldur, hefðu nýtt séreignasparnað til að borga niður höfuðstól húsnæðislána sinna. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði að ljóst væri að „mun færri hafa kosið að nýta sér þennan möguleika“ en lagt var upp með.
Það hefur alltaf legið fyrir að líklegra væri að tekjuhærri landsmenn myndu nýta sér úrræðið. Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun, sem skilaði af sér í nóvember 2013 og var stýrt af Sigurði Hannessyni, nú framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, kom fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri miklu hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ segir orðrétt í skýrslunni.
Þar sagði einnig að „tekjumismunur þeirra sem spara og gera það ekki er mikill á öllum aldri. Hér er alls staðar átt við fasteignaeigendur sem skulda eitthvað í fasteigninni.“
Hagstæðar aðstæður
Hugmyndin á bak við séreignasparnaðarleiðina var sú að gefa þeim sem safna slíkum kost á því að stýra því betur hvernig sparnaður þeirra sé fjárfestur. Vanalega er séreignarsparnaði ráðstafað í fjárfestingar í verðbréfum, en með úrræðinu var hægt að fjárfesta frekar í steypu. Eigin steypu.
Ómögulegt er að segja um hvort muni skila betri ávöxtun til lengri tíma fyrir þá sem eiga t.d. nokkra tugi ára í að fara á eftirlaun. En skattaafslátturinn sem fylgir fjárfestingunni í eigin fasteign veitir þeirri leið strax forskot í ávöxtun. Auk þess hafa aðstæður á íslenskum húsnæðismarkaði verið einkar hagstæðar þeim sem hafa getað keypt eignir á honum á undanförnum árum.
Séreignarsparnaðarleiðin, sé hún fullnýtt, getur til að mynda gert hjónum með meðaltekjur kleift að nánast tvöfalda þá tölu sem fer til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána þeirra á mánuði. Auk þess hafa vextir á húsnæðislánum hríðlækkað á skömmum tíma og eru lægstu breytilegu verðtryggðu húsnæðislánavextir nú 2,15-2,18 prósent. Til viðbótar var verðbólga undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2014 og fram á haustið 2018. Síðan þá hefur hún verið um eða yfir þrjú prósent og stendur í dag í 3,3 prósentum. Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir því að ársverðbólgan í ár verði 3,4 prósent.
Þá hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 60 prósent frá því að séreignarsparnaðarúrræðið tók gildi sumarið 2014.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði