Hagstofa Íslands spáir því að samdráttur verði í landsframleiðslu um 0,2 prósent á þessu ári, en samkvæmt bráðabirgðatölum mældist hagvöxtur í fyrra 4,6 prósent.
Hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands, sem birtist í Peningamálum í febrúar, gerði ráð yfir 1,8 prósent hagvexti á þessu ári.
En allt er nú breytt eftir dramatíska atburði í ferðþjónustu, með falli WOW air og kyrrsetningu á 737 Max vélum Boeing eftir flugslys þar sem 346 létust, í seinni hluta mars mánaðar. Íslenska flugbrúin hefur laskast við þetta og ekki augljóst hvernig mun ganga að byggja hana aftur upp, með aukningu í flugferðum.
Samdrátturinn í brottförum frá Keflavíkurflugvelli í apríl var 18 prósent miðað við sama mánuð í fyrra, og allt bendir til að það muni taka nokkurn tíma að fylla upp í skarðið sem WOW air skildi eftir.
Ferðaþjónusta er orðin að hryggjarstykki í hagkerfinu en hún stóð undir um 43 prósent gjaldeyristekna þjóðarbússins undanfarin tvö ár. Það munar því mikið um það, þegar svo snögglega dregur úr umsvifum í ferðaþjónustu.
Kemur færra fólk?
Kólnunin í hagkerfinu hefur sést glögglega með ýmsum hætti, undanfarin misseri. Meðal annars hefur verulega dregið úr hækkunum á fasteignamarkaði. Vorið 2017 mældist árshækkun á fasteignamarkaði í höfuðborgarsvæðinu 23,5 prósent, og var þá með allra hæsta móti í heiminum.
Að undanförnu hefur fasteignaverð lítið sem ekkert hækkað. Að teknu tilliti til verðbólgu nemur hækkunin á fasteignamarkaði 1 til 2 prósent.
Það ætti ekki að koma á óvart, eftir þær miklu hækkanir sem verið hafa á fasteignamarkaði, allt frá árinu 2011, en mestu hækkanirnar voru þó á árunum 2015 til og með 2017.
Ferðaþjónustan hafði mikil áhrif á fasteignamarkaðinn, endaði fjölgaði ferðamönnum sem heimsóttu landið úr 450 þúsund árið 2010 í 2,3 milljónir í fyrra. Áhrifin á fasteignamarkaðinn komu ekki síst fram í fjölda íbúða sem fóru af hefðbundnum markaði í skammtímaleigu fyrir ferðamenn, einkum miðsvæðis. Þá hafði fjölgun starfa í hagkerfinu, sem flest urðu til í ferðaþjónustunni, mikil áhrif á fasteignamarkaðinn sömuleiðis.
Í fyrra fluttust 6.500 fleiri til landsins heldur en fluttu frá landinu, en árið á undan var sú tala 8.000. Líklegt verður að teljast að verulega muni draga úr því að fólk flytji til Íslands, einkum erlendir ríkisborgarar, á þessu ári, þar sem farið er að hægja á hagkerfinu.
Í fyrra fjölgaði störfum í hagkerfinu úr rúmlega 201 þúsund í 207 þúsund og sex hundruð.
Hagvaxtarskeiðið undanfarin ár hefur ekki síst byggst á mikilli fjölgun starfa í ferðaþjónustu, en um 75 prósent nýrra skattgreiðenda í hagkerfinu á undanförnum árum hafa verið erlendis ríkisborgarar.
Fari svo að það hægji verulega á þessari sköpun starfa, þá gæti það dregið úr eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, á sama tíma og framboð er að aukast nokkuð hratt þessi misserin, en talið er að um 5 þúsund nýjar íbúðir komi út á markað á næstu 18 til 24 mánuðum.
Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs, um horfur á fasteignamarkaði, segir að meira sé um það þessi misserin að nýjar íbúðir seljist undir ásettu verði. „Í janúar til mars í fyrra seldust að meðaltali 33% nýrra íbúða undir ásettu verði en fyrstu þrjá mánuði þessa árs var það hlutfall 48%. Aðrar íbúðir en nýbyggingar hafa í gegnum tíðina verið talsvert líklegri til að seljast undir ásettu verði og það sem af er ári mælist það hlutfall að meðaltali 81%. Á sama tímabili í fyrra var það hins vegar um 79%,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Launaskriðið stöðvast
Það sem einnig hefur haft veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn á undanförnum árum, er verulegar launahækkanir og kaupmáttaraukning hjá flestum hópum. Í sögulegu tilliti hefur verið fylgni á milli launahækkana og fasteignaverðþróunar.
Í nýafstöðnum kjarasamningum var einblínt á tekjulægstu hópana, þegar kom að krónutöluhækkunum. Þeir sem hafa 400 þúsund á mánuði og yfir það, munu hins vegar litar sem engar hækkanir fá á þessu ári, sé tekið tillit til verðbólgu eins og hún er nú, en hún mælist 3,3 prósent á meðan verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Vaxtalækkun getur hjálpað til
Væntingar eru um að meginvextir Seðlabanka Íslands geti lækkað á næstunni en þeir eru nú 4,5 prósent. Það gæti haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn þar sem fjármögnun yrði auðveldari, með lægri greiðslubyrði.