Í nýlegri grein Jonathan Gruber og Simon Johnson, fyrrverandi aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og prófessors við MIT háskóla, á Linkedin síðu þess síðarnefnda, fjalla þeir um þær miklu breytingar sem eru að verða í Bandaríkjunum, þar sem þekkingarbrunnar samfélaga hafa safnast saman í nokkrar ofurborgir (Super cities) í strandríkjunum.
Er þar meðal annars átt við borgir eins og Seattle, New York, San Francisco og Boston.
Styrking jaðarbyggða
Flest stærstu fyrirtækin hafa vaxið upp í strandríkjum á austur- og vesturströndinni, bestu háskólarnir hafa þróast þar og vaxið, og fjárfesting er margfalt meiri í þessum ofurborgum en á öðrum svæðum.
Í grein sinni færa þeir rök fyrir því, að þó að þessi þróun sé á margan hátt rökrétt á tæknivæddri öld, þá geti hið opinbera hagað sinni hagstjórn þannig, að heild mannfjöldans hagnist meira. Þannig meiri áhersla á staðbundna stefnumótun, meðal annars á sviði innviða og menntunar, gert samfélögin móttækilegri fyrir áskorunum nútímans, þar sem meiri sjálfvirkni mun leysa mannshöndina af hólmi.
Hagsmunir heildarinnar
Í greininni segja þegar Gruber og Johnson að hagstjórn, þar sem hugsað er meira um hagsmuni heildarinnar, snúist ekki síst um að virkja „Einstein framtíðarinnar“, og gefa kynslóðunum færi á því að láta ljós sitt skína.
Þróun ofurborganna, þar sem sogast hafa fjármunir og þekking, hafi líka á sér skuggahliðar, þar sem breytingar verða á fasteignamörkuðum, þar sem húsnæðis- og leiguverð rjúki upp og valdi venjulegu fólki vandræðum. Það flýji burt, og eigi í erfiðleikum.
Áhersla á að styðja við svæði sem séu í vörn - einstaka hverfi og sveitarfélög - sé mikilvæg í þessu samhengi.
Ofurvöxtur og samdráttur
Hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur verið á bilinu 2 til 4 prósent á ári, undanfarin 5 ár, en algengt er að hagkerfi stærstu borgarsvæðanna séu að vaxa mun meira, eða á bilinu 6 til 10 prósent, á meðan önnur svæði vaxa minna, eða glími jafnvel við samdrátt.
Í greininni segja þeir Gruber og Johnson að, mikilvægt sé - út frá hagfræðilegu sjónarhorni - að efla hagkerfi þeirra svæða sem séu að glíma við vandamál, til að tryggja það sem best að fólk með hæfileika og hugmyndir geti fengið tækifæri á því að láta til sín taka í framtíðinni. Ef ekkert verði að gert, get samfélögin molnað niður með tilheyrandi glötuðum tækifærum.