Um þessar mundir eru í sýningu sjónvarpsþættir frá HBO sem fjalla um Chernobyl-slysið í apríl 1986 en það er alvarlegasta kjarnorkuslys sögunnar. Undirritaður man vel eftir þessum tíma og hræðslu almennings gagnvart Sovétríkjunum þá.
Sú hræðsla snerist ekki lengur um neina hernaðarlega íhlutun, heldur var nú flestum ljóst að innviðir þessa tröllaukna heimsveldis voru orðnir veikir og óttaðist fólk frekar að mistök eða slys gætu valdið stórskaða. Aðeins nokkrum árum fyrr höfðu Sovétmenn skotið niður suður kóreska farþegaþotu. Allir farþegar fórust og Sovétríkin voru harðlega fordæmd. Svör Sovétríkjanna voru nær alltaf á sama veg: Öryggi landsins var ógnað og þau þurftu að bregðast við. Vænisýki og sjúk leyndarhyggja virtust ráða lögum og lofum í Kreml.
Við skulum samt ekki gleyma því að rússneska þjóðin og nágrannar þeirra hafa mátt þola ýmislegt í gegnum tíðina. Styrjaldir, hungursneyð og harðindi, allt þetta hefur skapað fólk sem býr yfir ótrúlegri seiglu, ósérhlífni og fórnfýsi. Það kom berlega í ljós er Sovétmenn þurftu að takast á við afleiðingar þessa hrikalega atburðar í Chernobyl þann 26. apríl 1986. Það eru ótalmargar „hvunndagshetjur“ sem koma að þessari sögu, hvort sem það eru slökkviliðsmenn, læknar og hjúkrunarfólk eða aðrir, margir unnu af óeigingirni og ósérhlífni og sumir guldu fyrir það með lífi sínu. Við munum aldrei fá að vita nöfn allra sem unnu hetjudáðir en við höfum þrjú nöfn sem við skulum skoða betur.
Alexei Aranenko, Valeri Bezpalov og Boris Baranov. Fæstir Evrópubúar kannast við nöfn þessara manna en ýmsir telja að þeir hafi mögulega komið í veg fyrir að Chernobyl-slysið yrði jafnvel meiri hamfarir en það varð í raun. Þyrlur höfðu flogið yfir svæðið og staðfest að þakið yfir kjarnaofninum hafði brotnað og ofninn sendi viðstöðulaust banvænan skammt af geislavirkni út í andrúmsloftið. Það var nógu slæmt en verra var að ofninn var hægt að sökkva ofan í jörðina en undir honum voru holrými full af vatni. Sérfræðingar töldu hættu á því að þetta myndi á endanum leiða til svo öflugrar sprengingar að nærliggjandi svæði í 200 km radíus myndu gjöreyðast, þar á meðal Kænugarður, höfuðborg Úkraínu.
Ákveðið var að senda þrjá menn í köfunarbúningum niður í vatnið, þeir þyrftu að komast að loka og opna hann svo vatnið myndi streyma úr rýminu. Þetta var hægara sagt en gert. Aðstæður væru erfiðar í myrkri og vatni en auk þess var geislavirknin á þessu svæði, rétt undir ofninum, algjörlega banvæn. Það var öllum ljóst að þetta væri sjálfsmorðsleiðangur. Þrátt fyrir það þá buðu sig fram þrír sjálfboðaliðar: Alexei Ananenko, verkfræðingur sem vissi hvar lokann væri að finna. Valeri Bezpalov, samstarfsmaður Ananenko og því staðarháttum kunnugur. Boris Baranov, verkstjóri sem átti að vera þeim Ananenko og Baranov til aðstoðar.
Í fyrstu gekk þeim ágætlega að komast áfram en ljós þeirra gáfu sig og þurftu þeir þá að þreifa sig áfram í myrkvuðu vatninu. Varla er hægt að ímynda sér hve erfitt það hefur verið en þeir héldu ró sinni og vissulega hjálpaði að þeir þekktu vel til byggingarinnar. Þó sóttist ferð þeirra seint en þeir gáfust ekki upp eða misstu stjórn á sér. Þeim var vel ljóst hve alvarlegar afleiðingar það hefði ef þeim tækist ekki ætlunarverk sitt. Að endingu fundu þeir lokann og tókst að opna hann.
Á næstu dögum var um 30 þúsund tonnum af geislavirku vatni dælt burt af svæðinu. Hættunni á sprengingu sem hefði getað breytt stórum hluta Evrópu í óbyggilega eyðimörk, hafði verið afstýrt. Þremenningum var fagnað sem hetjum er þeir birtust, öllum var ljóst hve mikið var í húfi og að fórnfýsi þeirra myndi líklega hafa kostað þá lífið. Þeir höfðu allir orðið fyrir banvænum skammti af geislavirkni. En það furðulega gerðist, allir þeirra lifðu af. Boris Baranov varð bráðkvaddur árið 2005 en þeir Ananenko og Bezpalov eru enn á lífi.