Brexit áhættan magnast
Allra augu eru nú á Bretlandi. Hvernig mun útgangan úr Evrópusambandinu teiknast upp? Eða verður hætt við hana? Óvissan ein og sér er álitin mikil efnahagsleg áhætta þessi misserin. Verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland. Vandi er hins vegar um það að spá, hverju breskir stjórnmálamenn taka upp á í tengslum við Brexit. Hvaða áhrif hefur Brexit á Ísland? Kemur enn eitt höggið á íslenska útflutning á þessu ári?
Í fyrstu setti Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, það sem skilyrði fyrir samningaviðræður við Evrópusambandið (ESB) að útgangan úr ESB yrði 29. mars. Eftir nær fordæmalaus átök, þar sem ekki tókst að ná samkomulagi um forsendur útgöngu, var dagsetningunni seinkað til 12. apríl. Aftur fóru í gang mikil átök sem leiddu til þess að fresturinn til að ná niðurstöðu um forsendur útgöngu var framlengdur fram í október.
Pólitískir dagar May verða brátt taldir, en hún tilkynnti um að hún myndi hætta sem forsætisráðherra, tárvot, fyrir framan Downingstræti 10, og lætur svo formlega af embætti í dag. Síðustu dagar hennar hafa einkennst af því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið að hvetja til þess að Bretland haldi sig við það, að yfirgefa ESB og á þeim grunni geti Bretland og Bandaríkin eflt samstarf sitt á sviði utanríkismála og viðskipta. “Það getur orðið stórkostlegt samband” sagði Trump á blaðamannafundi.
Glundroði
Ef það er eitthvað orð sem lýsir því sem gerst hefur í breskum stjórnmálum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit, í júní 2016, þá er það glundroði. Mjótt var á munum í kosningunum, 52 prósent með útgöngu, en 48 prósent á móti. Áberandi meiri stuðningur var við útgöngu meðal eldra fólks á meðan ungt fólk studdi mun frekar áframhaldandi veru í ESB.
Niðurstaðan leiddi til sundrungar og glundroða, sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Hvaða viðhorf sem fólk hefur til Brexit - þessa stóra hugtaks sem hefur snúið breskum stjórnmálum á hvolf - þá er ekki hægt að neita því að efnahagsleg óvissa hefur aukist umtalsvert eftir kosningarnar 2016. Og sú áhætta nær til Íslands.
Í nýju Peningamálum Seðlabanka Íslands er fjallað um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi og er þar ekki síst vikið að Brexit. Mikil kúvending hefur orðið í íslensku efnahagslífi til hins verra undanfarin misseri, en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að 0,4 prósent samdráttur verði í landsframleiðslu á þessu ári. Til samanburðar benda bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið 4,6 prósent og að 6.500 ný störf hafi orðið til frá upphafi árs til loka ársins. Sveifluna á þennan mælikvarða má því mæla í um 7 þúsund störfum.
Óvissan um Brexit er umtalsverð, jafnvel þó íslensk stjórnvöld hafi nú þegar samið um að viðskiptakjör Íslands gagnvart Bretlandi haldi sér. Áhættan er fólgin í því, hvað muni taka við þegar Bretland yfirgefur ESB og hvaða forsendur verði þá fyrir hendi, þegar kemur að viðskiptasambandi við EES-svæðið.
Óvissan í kringum ferlið sem hófst með þjóðaratkvæðagreiðslunni hefur þegar dregið úr bjartsýni og fjárfestingarvilja breskra fyrirtækja og valdið því að bresk heimili halda í vaxandi mæli að sér höndum varðandi húsnæðiskaup, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands, þar sem fjallað er ítarlega um stöðu efnahagsmála í heiminum.
„Fjöldi fyrirtækja hefur fært starfsemi sína til meginlandsins eða íhuga að gera það og farið er að bera á því að fyrirtæki, sérstaklega í þjónustuiðnaði, séu farin að halda að sér höndum varðandi ráðningar. Nokkuð hefur því hægt á hagvexti í Bretlandi og hagvaxtarhorfur eru lakari en þær voru áður,” segir meðal annars í Peningamálum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins var hagvöxturinn í Bretlandi 1,8 prósent, en síðan þá hafa mælingar á gangi efnahagsmála sýnt að hallað hefur hratt undan fæti - svipað og gerst hefur á Íslandi.
Í Peningamálum Seðlabankans segir að nær allar greiningar sem unnar hafi verið á Brexit, bendi til þess að útganga án samnings geti haft verulega miklar afleiðingar, ekki aðeins fyrir Bretland heldur efnahag heimsins.
Framleiðslukeðjur slitna
Þó flestir spái því, að það verði ekki látið gerast, að Bretlandi gangi úr ESB án samnings eða ítarlegrar áætlunar um hvernig eigi að takast á við það, þá er heldur ekkert sem segir að það geti ekki gerst. Sé litið yfir atburði síðustu mánaða, þá liggur fyrir að engin áætlun, sem hefur nægilega mikinn stuðning stjórnmálamanna, getur orðið leiðarvísir út úr stöðunni.
Afleiðingar útgöngu án samnings eru taldar verulega alvarlegar.
„Líklegt er að viðskipti milli Bretlands og ESB yrðu erfiðari og dýrari og framleiðslukeðjur þvert á landamæri yrðu í uppnámi. Þetta, ásamt hindrunum á för vinnandi fólks yfir landamæri, er líklegt til að hafa neikvæð áhrif á framleiðnivöxt og hagvaxtargetu þjóðarbúsins. Við bætist aukin óvissa og hækkandi áhættuálag á fjárskuldbindingar sem líklega hægir enn frekar á innlendri eftirspurn. Gengi pundsins myndi að öllum líkindum lækka sem myndi leiða til hækkunar innflutningsverðs og haldi kjölfesta verðbólguvæntinga ekki gæti Englandsbanki þurft að hækka vexti til að halda verðbólgu í skefjum sem myndi dýpka efnahagssamdráttinn enn frekar. Breska þjóðhagsstofnunin, NIESR, hefur birt mat á þjóðhagslegum áhrifum útgöngu Breta án samnings á breskan efnahag. Samkvæmt niðurstöðum þeirra gæti breska pundið lækkað um u.þ.b. 10% og landsframleiðslan í Bretlandi minnkað um liðlega 3% fram til ársins 2022 í samanburði við útgöngu sem fæli í sér að meginhluta núverandi sambands Bretlands og ESB yrði viðhaldið næstu ár,” segir í Peningamálum.
Versnandi horfur í efnahagsmálum heimsins
Leiðandi vísbendingar og hagvaxtarspár gefa til kynna að hagvöxtur í þróuðum ríkjum verði einnig hægari á þessu ári en áður var talið, einkum á fyrri hluta ársins. Fyrir Ísland er þetta ákveðið áhyggjuefni, ekki síst eftir áföllin í ferðaþjónustu, en mikilvægt er að útflutningur frá Íslandi, bæði á vörum og þjónustu, nái að vaxa og hagkerfið þannig að styrkjast á nýjan leik.
Þrátt fyrir sterka stöðu ríkissjóðs, um 700 milljarða óskuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans og trausta stöðu fjármálakerfisins - miðað við áður fyrr - þá eru engu að síður blikur á lofti á Íslandi, ekki síst vegna þessara vendinga í efnahagsmálum heimsins sem nú sjást í kortunum.Hagvöxtur á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi var minni en búist var við í febrúar og hafa horfurnar fyrir árið í heild versnað, að því er segir í Peningamálum Seðlabankans. Þótt aðstæður á vinnumarkaði hafi áfram þokast til betri vegar hefur svartsýni neytenda og fyrirtækja aukist, hagvísar reynst lakari en vænst var og PMI-vísitölur gefið eftir. Þetta á einkum við um Þýskaland, Ítalíu og Frakkland. Talið er að hagvöxtur á evrusvæðinu verði einungis 1,2% og minnki úr 1,8% í fyrra. Yrði það minnsti hagvöxtur á evrusvæðinu síðan árið 2013, gangi spárnar eftir.
Hagvöxtur í Bretlandi var 1,8% á fyrsta ársfjórðungi sem er heldur meira en gert var ráð fyrir í febrúar, en vöxturinn endurspeglar þó að hluta tímabundin áhrif af aukinni birgðasöfnun breskra fyrirtækja. Hagvaxtarhorfur hafa hins vegar versnað fyrir árið í heild enda hefur PMI-vísitalan fyrir Bretland lækkað mikið og ekki verið lægri í þrjú ár.
„Samkvæmt henni eru líkur á að breskur þjóðarbúskapur dragist saman á öðrum ársfjórðungi. Þrátt fyrir lækkun PMI-vísitölu, minnkandi bjartsýni heimila og fyrirtækja og áhrif tímabundinnar lokunar alríkisstjórnarinnar reyndist hagvöxtur í Bandaríkjunum kröftugri á fyrsta fjórðungi ársins en áður hafði verið spáð. Þó er búist við að hann gefi eftir er líður á árið og verði 2,4% á árinu öllu sem er lítillega minni vöxtur en gert var ráð fyrir í febrúar,” segir í Peningamálum Seðlabankans, þar sem fjallað er um horfur á alþjóðamörkuðum.
Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að heimshagvöxtur verði 3,3 prósent í ár sem er 0,2 prósentum minni vöxtur en sjóðurinn spáði í janúar og 0,4 prósentum minni en hann gerði ráð fyrir í október.
Minni hagvöxt í heiminum má einkum rekja til verri horfa í þróuðum ríkjum, einkum á evrusvæðinu, en einnig í hluta þróunar- og nýmarkaðsríkja. Verulega dró úr vexti alþjóðaviðskipta í fyrra eftir kröftugan vöxt árið 2017. Endurspeglar það einkum neikvæð áhrif af viðskiptadeilum og tollastríði, einkum milli Bandaríkjanna og Kína, á fjárfestingarútgjöld fjölda fyrirtækja víða um heim en viðskipti með fjárfestingarvörur eru almennt mikil milli landa.
Hægari vöxtur skýrist þó einnig af almennt veikari heimsframleiðslu og er útlit fyrir að hægja muni enn frekar á vextinum í ár. Í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að alþjóðaviðskipti aukist um 3,4% í ár en ekki um 4% eins og áður hafði verið spáð. Óvissa er þó enn mikil, m.a. um hagvaxtarhorfur og niðurstöðu viðræðna milli Bandaríkjanna og Kína um lausn viðskiptadeilunnar, að því er segir í Peningamálum.
Bretland hefur í gegnum tíðina verið eitt stærsta viðskiptaland Íslands. Sé miðað við tölurnar í fyrra var Bretlandsmarkaður með um 10 prósent hlutdeild í útflutningi, en þar vega viðskipti með sjávarafurðir þungt. Evrusvæðið allt er með 45 prósent hlutdeild í útflutningi. Samkvæmt því sem fram kemur í Peningamálum er áhættan vegna Brexit því verulega mikil, þar sem viðskiptasamband Bretlands við Evrópu er mikilvægt okkar hagsmunum.
Verið að hræra í stoðum ESB?
Í Bretlandi búa 66 milljónir en evrusvæðið er með 340 milljónir íbúa.Áhrifin af útgöngu Breta úr ESB án samnings á útflutning héðan gætu orðið nokkur og versta sviðsmyndin verulega dökk.
Þar fara saman minnkandi umsvif - þar sem verulega myndi draga úr eftirspurn með tilheyrandi áhrifum á verðlag, t.d. sjávarafurða - og síðan uppbrot á viðskiptasamböndum milli ríkja. Seinna atriðið er talið sérstaklega mikilvægt mál fyrir ESB, enda byggir efnahagslegt samstarf á víðtæku viðskiptasambandi allra ríkja ESB og síðan sambandi svæðisins við önnur markaðssvæði.
Í umfjöllun í Peningamálum Seðlabankans segir að lækkun á gengi pundsins, geti enn fremur dregið úr samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja á Íslandi, þegar kemur að breska markaðnum, en flestar spár gera ráð fyrir að töluverð lækkun verði á gengi pundsins komi til þess að Bretland fari úr ESB án samnings. Samkvæmt mati NIESR, þjóðhagsstofnun Bretlands, gæti samdráttur í landsframleiðslu orðið á evrusvæðinu um 0,8 prósent, bara vegna Brexit. Þessi áhrif eru mæld í tugþúsundum starfa og fara einstaka geirar verr út úr þessum áhrifum en aðrir.
Útganga Breta án samnings myndi einnig hafa áhrif á önnur lönd, þ.á m. Ísland. Í Peningamálum segir: „Miðað við mat NIESR á hagvaxtaráhrifum útgöngu Breta án samnings á efnahagsumsvif í Bretlandi og á evrusvæðinu má áætla að landsframleiðsla á evrusvæðinu gæti minnkað um 0,6% fram til ársins 2022 og um 0,8% meðal helstu viðskiptalanda Íslands. Áhrifin af útgöngu Breta úr ESB án samnings á útflutning héðan gætu því orðið nokkur. Við bætist tæplega 1% hækkun raungengis vegna gengislækkunar pundsins, aukin alþjóðleg óvissa og möguleg smitáhrif hækkandi vaxtaálags á fjármálaleg skilyrði hér á landi,” segir í Peningamálum.
Ekkert vanmat
Þrátt fyrir að ýmsar áhyggjuraddir hafi lengi heyrst, vegna þróunar mála þegar kemur að Brexit og hvernig málið hefur þróast í breskum stjórnmálum, þá eru mörg íslensk fyrirtæki búin að greina vel hver áhrifin gætu orðið á rekstur á Íslandi. Þetta á meðal annars við um íslenskan sjávarútveg, sem á mikið undir því að halda áfram góðu viðskiptasambandi við Bretlandsmarkað, hvað sem Brexit líður.
Viðmælendur Kjarnans í íslenskum sjávarútvegi sögðu einnig að tollar, viðskiptabönn og óvissa vegna stjórnmálalegrar áhættu, væru núna ein mesta óvissan þegar kæmi að rekstri íslenskra fyrirtækja.
T.d. hefur lokun Rússlandsmarkaðar, með viðskiptabanni sem nær til Íslands, haft mikil neikvæð áhrif á sölu makríls, tollastríð Bandaríkjanna og Kína hefur valdið því að margir fjárfestar og fyrirtæki halda að sér höndum, og Brexit-málið í Bretlandi hefur verið eins og olía á eld þegar kemur að stjórnmálalegri áhættu. Í slíkum aðstæðum er erfitt að gera langtímaáætlanir og viðhalda fjárfestingu í nýjum tækifærum og viðskiptaþróun.
Veruleg þörf er á því að náið sé fylgst með því, hvernig framvinda Brexit verður, á næstu mánuðum. Ekki er nóg að hafa gert jákvætt samkomulag við stjórnvöld í Bretlandi, því það eitt og sér er algjört aukaatriði við hliðina á mögulegum miklum neikvæðum afleiðingum af uppbroti á gangverki alþjóðaviðskipta í Evrópu, eins og margir telja að geti gerst ef Bretland gengur úr ESB án þess að forsendurnar verði traustar og gagnsæjar.
Það sem helst getur unnið með íslenskum sjávarútvegi er að hann er tæknivæddari en víða annars staðar í heiminum, og mikil reynsla er innan greinarinnar hér á landi að takast við sveiflur og erfiðleika. Þörf gæti hins vegar verið á mun meiri og samstilltari markaðssókn, heldur en til þessa hefur verið stunduð. Ef dyrnar lokast að hluta að einum markaði verður að reyna að opna nýjar.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði