Hlutverk Íslands er afar mikilvægt innan Atlantshafsbandalagsins (NATO), netárásir geta virkjað viðbrögð bandalagsins og Bandaríkin styðja bandalagið þrátt fyrir tal um annað. Þetta kom fram í máli Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO í gær í Norræna húsinu í gær.
Mikill öryggisviðbúnaður var í Norræna húsinu í gær og var fullt út úr dyrum. Tilefnið var koma Stoltenberg á viðburð á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Varðbergs og utanríkisráðuneytisins. Yfirskrift viðburðarins var NATO og Ísland í 70 ár: Öflug samvinna á óvissutímum.
„Öruggari og sterkari þegar við vinnum saman“
Stoltenberg ávarpaði gesti og sagði meðal annars að NATO kunni vel að meta hlutverk Íslands innan bandalagsins. Ísland tengi saman Norður-Ameríku og Evrópu vegna landfræðilegrar legu sinnar.
Framkvæmdastjórinn sagði að þrátt fyrir að Ísland sé herlaust land þá sé framlag landsins annars konar. Ísland aðstoði NATO til að mynda með eftirlit með sjóumferð og loftumferð. Auk þess sé borgaralegt framlag Íslands innan bandalagsins vel metið, til að mynda í Afganistan, Írak og Kósovó.
Stoltenberg lagði áherslu á að þjóðir innan bandalagsins standi saman vegna þess að „þegar nágrannar okkar eru stöðugir erum við öruggari.“
Framkvæmdastjórinn sagði að Ísland væri leiðandi í kvenréttindamálum innan bandalagsins. Ekki einungis vegna þess að það sé rétti hluturinn til að gera heldur einnig því það væri afar gáfulegt. Það sé mikilvægt að virkja konur, t.d. í Afganistan, til þess að koma á stöðugleika.
Þrjár ógnir steðja að bandalaginu
Stoltenberg sagði að ógnir sem steðji að bandalagsríkjunum séu ófyrirsjáanlegri og óstöðugri en áður. Í því samhengi steðji sérstaklega þrjár ógnir að bandalaginu, þ.e. styrkur bandalagsins, að viðhalda lágu spennustigi í Norður-Atlantshafi og takmörkun vopna.
Hvað varðar styrk bandalagsins þá sagði Stoltenberg mismunandi skoðanir og auknar deilur á milli Bandaríkjanna og Evrópuríkja, ásamt óeiningu á milli einstakra Evrópuríkja, valdi áhyggjum. Ríkin séu ósammála um ýmis málefni, til að mynda tolla, viðskipti og loftslagsbreytingar.
Stoltenberg sagði einungis eina leið vera hægt að fara til þess að viðhalda bandalaginu, það er að hafa stuðning almennings innan bandalagsríkja við bandalagið. Það sé gert með því að sýna fram á hversu mikilvægt bandalagið sé og að bandalagið lagi sig að nýrri þróun í öryggismálum.
Fjármagn Bandaríkjanna hefur aukist um 40 prósent
Hann benti á að þrátt fyrir deilur á milli ríkja þá séu bæði Bandaríkin og Evrópuríki að auka þátttöku sína innan vébanda bandalagsins. Bandaríkin hafi til að mynda aukið veru sína í Evrópu með fleiri hernaðaræfingum, fleiri hermönnum og svo mætti áfram telja. Undir stjórn Trumps hafi fjármagn til öryggismála í Evrópu aukist um 40 prósent. Þrátt fyrir tal um annað þá séu Bandaríkin að auka viðveru sína innan Evrópu og Evrópuríki hafa einnig aukið framlag sitt til öryggismála., að því er kom fram í máli framkvæmdastjórans.
Til þess að viðhalda lágu spennustigi á Norður-Atlantshafi verði að halda áfram að eiga í samskiptum við Rússland og sagði Stoltenberg að „svo lengi sem við stöndum sterk og sameinuð getum við átt samtal við Rússland.“ Í því samhengi væri mikilvægt að forðast atvik eða slys sem geti aukið spennu milli Rússlands og NATO.
Hlutverk Íslands mikilvægt
Stoltenberg sagði að formennska Íslands innan Norðurskautsráðsins væri mikilvæg til að halda samræðum við Rússland áfram. Af átta ríkjum innan Norðurskautsráðsins séu fimm þeirra meðlimir NATO. Ísland geti hjálpað með því að beita sér fyrir takmörkun vopna. Þó ber að geta að Norðurskautsráðið fjallar ekki um hernaðarmál.
Stoltenberg sagði Ísland hafa sögulega spilað stórt hlutverk í friðarviðræðum, til að mynda 1986 þegar forsetar Rússlands og Bandaríkjanna, Gorbachev og Reagan, hittust í Reykjavík.
Ísland hafi nú það hlutverk að hjálpa Bandaríkjunum og Evrópu að standa saman. Nú séu sjóleiðir norðurslóða smám saman að opnast sem muni auka skipaumferð í kringum Ísland.
Það sem ógni takmörkun vopna nú til dags er að Rússland fari ekki lengur eftir sáttmálanum sem banni meðaldrægar flaugar, að mati Stoltenbergs. Rússland hafi ekki sýnt fram á vilja um að fara eftir sáttmálanum, því þurfi allir að búa sig undir heim án þess sáttmála. Hann lagði ríka áherslu á að viðhalda bandalaginu sé sérstaklega mikilvægt fyrir smáþjóðir líkt og Ísland.
Netárásir geta virkjað fimmtu grein NATO
Þegar Stoltenberg var spurður út í hina ófyrirsjáanlegu þróun í bandarískum stjórnmálum svaraði hann því að Trump hafi annan stíl en flestir aðrir stjórnmálamenn og uppskar mikinn hlátur fyrir vikið.
Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að ríkisstjórn Trump standi með NATO og muni gera það áfram. Á sama tíma sé mikilvægt að önnur bandalagsríki innan NATO fjárfesti meira í vörnum sínum. Þetta sé ekki einungis skilaboð Trump haldi uppi, heldur hafi það einnig verið skilaboð ríkisstjórnar Obama á sínum tíma. Að mati Stoltenberg sýni Trump stuðning sinn ekki með orðum heldur gjörðum og sagði að Bandaríkin væru í raun að standa sig.
Stoltenberg sagði að netárás geti virkjað fimmtu grein NATO sem virkji viðbrögð bandalagsins. Hins vegar sé erfitt að tileinka netárásir ákveðnum einstaklingum vegna eðlis netárása.
Aukin viðvera NATO á Íslandi
Stoltenberg sagði NATO nú þegar hafa aukið viðveru sína á Íslandi og í kringum Ísland. NATO ríki hafi til að mynda aukið fjölda heræfinga í Norður-Atlantshafi. Við sumar æfingarnar sé notast við íslenska innviði og samskiptatækni.
Að lokum gaf Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Stoltenberg skýrsluna „Reassessing the Stoltenberg Report” sem þýða mætti sem „Endurmat Stoltenberg skýrslunnar.”