Ekki náðist samkomulag um þinglok í gærkvöldi, líkt og stefnt hafði verið að. Þegar lá fyrir samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna og fjögurra stjórnarandstöðuflokka um að þingstörfum gæti lokið á laugardag eða þriðjudag, líkt og Kjarninn greindi frá í gær.
Síðdegis í gær átti eftir að semja við Miðflokkinn sérstaklega um hvað þyrfti til að hann myndi samþykkja þinglok. Þegar leið á daginn lá þó fyrir að slíkt samkomulag yrði undirritað af Miðflokknum. Það snerist um að umræðum um þriðja orkupakkann yrði áframhaldið í tvo til þrjá daga á sérstökum þingfundi í lok ágúst eða byrjun september.
Önnur mál sem rötuðu í umræðuna í gær, eins og mótstaða Miðflokksins við frumvarp um kynrænt sjálfræði eða frekari frestun á heimild til innflutnings á ófrosnu kjöti, voru af flestum viðmælendum Kjarnans sögð vera pólitísk stærilæti, en ekki alvöru ásteytingarsteinar hvað varðaði þinglok. Hlé var gert á þingfundi á ellefta tímanum í gærkvöldi til að fulltrúar mismunandi flokka gætu lesið yfir fyrirliggjandi samkomulag.
Heimildarmenn Kjarnans segja að þungt hafi verið yfir bæði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, vegna þessarar stöðu þegar hún teiknaðist upp seint í gærkvöldi þegar þingfundi var frestað klukkan 23:54.
Orkupakkinn áfram erfiður
Opinbera skýringin sem gefin er á þessari stöðu sé að stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn séu enn að henda á mill sín hugmyndum og að ekki hefði náðst saman á endanum í gær. Samkvæmt heimildum Kjarnans, bæði innan og utan stjórnarflokkanna, er raunveruleg ástæða þess að hluti Sjálfstæðisflokksins vildi ekki samþykkja þinglokasamkomulagið vegna framsetningar á málalokum umræðna vegna þriðja orkupakkans. Málið hefur leitt af sér mikil átök innan Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þungavigtarþingmenn og ráðherrar tekið mjög einarða afstöðu í því sem hefur ekki verið vinsæl alls staðar. Þar ber helst að nefna Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar og dómsmála, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formann utanríkismálanefndar. Þau hafa öll lagt umtalsvert undir í stuðningi sínum við framgangi málsins á þingi og tekið erfiða slagi. Því skipti miklu máli hvernig orðalag um orkupakkamálið yrði framsett í þinglokasamningum.
Nær allir viðmælendur Kjarnans, bæði innan stjórnarliðsins og innan meirihluta stjórnarandstöðunnar, voru þó á einu máli um að stóra málið væri afgreiðsla orkupakkamálsins.
Reynt að ná niðurstöðu í dag
Áfram verður unnið að málum í dag. Ríkisstjórnin hittist á hefðbundnum ríkisstjórnarfundi í morgun og þar átti að leggja upp næstu skref. Auk þess hófst fundur þingflokksformanna allra flokka klukkan 10:15.
Katrín Jakobsdóttir hefur hingað til borið hitann og þungann af því að reyna að ná samkomulagi. Það sem gerðist í gær breytir þó þeirri stöðu, í ljósi þess að mótstaðan nú er einungis í Sjálfstæðisflokknum. Búið var að ná öllum stjórnarandstöðuflokkunum að borðinu.
Nú sé það í höndum Sjálfstæðisflokksins að finna leið til að ljúka þingstörfum, í ljósi þess að andstaða innan hans hafi ein stöðvað þá niðurstöðu í gærkvöldi.