Ivan Burkni Framsóknargrafík

Ráðuneyti framsóknarmanna

Framsóknarmenn hafa setið í ráðherrastól félagsmálaráðuneytisins í samanlagt sautján ár frá árinu 1995. Í dag gegna framsóknarmenn margvíslegum störfum fyrir ráðuneytið en tæplega þriðjungur nefnda, faghópa og ráða á vegum félagsmálaráðuneytisins eru skipuð formönnum með tengsl við Framsóknarflokkinn. Sex formenn stjórna stofnana og sjóða á vegum ráðuneytisins tengjast einnig flokknum.

Félagsmálaráðuneytið hefur fallið framsóknarmönnum í skaut í hvert sinn sem þeir hafa tekið þátt í ríkisstjórn frá árinu 1995. Framsóknarmenn hafa samtals stýrt ráðuneytinu í um 17 ár á síðustu 24 árum. Sex ráðherrar úr röðum Framsóknar hafa gegnt embætti félagsmálaráðherra á þessu tímabili, þar á meðal núverandi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason.

Á vegum félagsmálaráðuneytisins störfuðu í maí síðastliðnum 70 nefndir, stjórnir og ráð. Af þeim eru 21 skipuð formönnum, án tilnefningar, sem hafa tengsl við Framsóknarflokkinn. Af þeim skipaði Ásmundar Einar níu formenn. Forveri hans Eygló Harðardóttir, sem gegndi embætti félagsmálaráðherra á árunum 2013 til 2017, skipaði hina tólf formennina. 

Frá því Ásmundar Einar tók við embættinu hefur hann skipað formenn þriggja stjórna á vegum félagsmálaráðuneytisins með tengsl við Framsóknarflokksins ásamt því að skipa aðstoðarmann sinn formann Tryggingarstofnunar ríkisins. Þá hefur Ásmundur Einar verið gagnrýndur fyrir að skipa í þrjár stöður innan félagsmálaráðuneytisins án þess að auglýsa stöðurnar, þar á meðal stöðu ráðuneytisstjóra.

Ráðuneytisstjóri skipaður án auglýsingar

Ásmundur Einar var fyrst kjörinn á þing fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð árið 2009 en hann sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í apríl 2011. Hann gekk síðan til liðs við Framsóknarflokkinn í júní 2011 og árið 2017 var hann skipaður félags- og jafnréttismálaráðherra í núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Í september 2018 tilkynnti stjórnarráðið að velferðarráðuneytinu yrði skipt upp í félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Jafnréttismál færðust yfir á ábyrgð forsætisráðuneytis og málefni mannvirkja færðust úr umhverfisráðuneyti í félagsmálaráðuneyti. Samkvæmt stjórnarráðinu var markmiðið með þessum breytingum að skýra verkaskiptingu, skerpa pólitíska forystu og skapa aukin sóknarfæri í málaflokkum sem ríkisstjórnin hefur í forgangi.

Félagsmálaráðuneytið tók síðan til starfa 1. janúar 2019 og fer félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar, með yfirstjórn ráðuneytisins og ber ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess. Verkefni félagsmálaráðuneytisins varða félags- og fjölskyldumál, lífeyristryggingar, almannatryggingar, húsnæðismál, vinnumál, mannvirki og undir ráðuneytið heyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ásmundur Einar skipaði í desember síðastliðnum í þrjú ný embætti innan ráðuneytisins; embætti ráðuneytisstjóra, embætti skrifstofu fjárlaga og embætti forstjóra Vinnueftirlits ríkisins. Í tilkynningunni var greint frá því að einstaklingarnir sem í hlut ættu væru allir starfandi embættismenn en urðu við ósk ráðherra um að taka að sér framangreindar stöður á grundvelli heimildar um flutning embættismanna í starfi í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þrátt fyrir að lög heimili annað þá eru það vandaðir stjórnsýsluhættir að auglýsa þegar til stendur að ráðstafa takmörkuðum gæðum, sem fyrirsjáanlegt er að færri geta fengið en vilja.

Þar á meðal var Gissur Pétursson en hann var skipaður ráðuneytisstjóri hins nýja félagsmálaráðuneytis. Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra. Gissur var áður forstjóri Vinnumálastofnunar, allt frá því að stofnunin var sett á fót árið 1997. Áður veitti hann um skeið forstöðu skrifstofu vinnumála í félagsmálaráðuneytinu og árin 1986 til 1996 starfaði hann sem sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu. Gissur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í stjórnmálafræði. Gissur var formaður Sambands ungra framsóknarmanna á árunum 1986 til 1990 og fulltrúi Framsóknar í útvarpsráði árið 1997.

Gagnrýna að stöðurnar voru ekki auglýstar

Í kjölfarið sendi Bandalag háskólamanna, BHM, frá sér yfirlýsingu þar sem gagnrýnt var að Ásmundur Einar hefði ekki auglýst ofangreindar þrjár embættisstöður lausar til umsóknar. Í yfir­lýs­ingu frá BHM segir að ráð­herra hafi nýtt sér heim­ild í lögum um rétt­indi og skyldur starfs­manna rík­is­ins þar sem segir að ­stjórn­vald, sem skipað hefur mann í emb­ætti, geti flutt hann í annað emb­ætti sem undir stjórn­valdið heyrir og þurfi þá ekki að aug­lýsa það.

Banda­lag­ið benti hins vegar á að aug­lýs­inga­skylda sé meg­in­regla við ráðn­ingar í störfum hjá rík­inu. „Aug­lýs­inga­skylda er í sam­ræmi við þá skyldu sem hvílir almennt á stjórn­völdum að gæta jafn­ræðis milli borg­ar­anna og stuðla að því að ríkið hafi ávallt á að skipa sem hæf­ustu starfs­fólki,“ segir í yfirlýsingu. Jafnframt segir í yfirlýsingunni  að þótt að til­teknar und­an­tekn­ingar frá aug­lýs­inga­skyldu geti átt rétt á sér í sér­stökum til­vikum þá telji bandalagið að of langt hafi verið gengið í því að lög­festa slíkar und­an­tekn­ingar á síð­ustu árum á kostnað gagn­særrar stjórnsýslu.

Í yfir­lýs­ing­unni segir að Banda­lag háskóla­manna geri kröfu til stjórn­valda um vand­aða stjórn­sýslu­hætti við ráðn­ingar í störf. „­Þrátt fyrir að lög heim­ili annað þá eru það vand­aðir stjórn­sýslu­hættir að aug­lýsa þegar til stendur að ráð­stafa tak­mörk­uðum gæð­um, sem fyr­ir­sjá­an­legt er að færri geta fengið en vilja. Með aug­lýs­ingu er öllum sem áhuga hafa og upp­fylla skil­yrði gefið tæki­færi á að sækja um. Að mati banda­lags­ins brjóta rúmar und­an­tekn­ing­ar­heim­ildir við aug­lýs­ingar á lausum störfum hjá hinu opin­bera í bága við jafn­ræð­is­reglur stjórn­sýslu­réttar ásamt því að draga úr gagn­sæi í stjórn­sýsl­unn­i.“

Ásmundur Einar skipar í stjórnir

Félagsmálaráðherra ber samkvæmt lögum að skipa stjórn Tryggingarstofnunar ríkisins. Ráðherra skipar fimm menn í stjórn og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður, skipaðir skulu jafnmargir menn til vara. 

Ásmundar Einar skipaði Arnar Þór Sævarsson sem formann stjórnar Tryggingarstofnunar ríkisins í maí í fyrra. Arnar Þór er aðstoðarmaður Ásmundar Einars. Arnar er lög­fræð­ingur að mennt og var sveit­ar­stjóri á Blöndu­ósi áður en hann gekk til liðs við Ásmund Einar í vel­ferð­ar­ráðu­neyt­inu í jan­úar á síðasta ári. Arnar var áður aðstoð­ar­maður Jóns Sig­urðs­son­ar, fyrrver­andi for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, þegar hann var iðn­að­ar- og við­skipta­mála­ráð­herra á árunum 2006 til 2007.

Félagsmálaráðherra skipar einnig stjórn Vinnumálastofnunar til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar án tilnefningar tvo aðalmenn í stjórnina, formann og varaformann. Ásmundar Einar skipaði Ingvar Má Jónsson sem formann stjórnar Vinnumálastofnunar. Ingvar Már er fyrrverandi varaborgarfulltrúi en hann leiddi lista flokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í fyrra.

Ásmundur Einar skipaði jafnframt nýjan formann stjórnar Íbúðalánasjóðs í byrjun árs 2018. Hann skipaði Hauk Ingibergsson en Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði hann í stjórn sjóðsins árið 2013. Haukur hefur sinnt störfum fyrir Framsókn en hann var meðal annars formaður kjörstjórnar flokksins árið 2009.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Bára Huld Beck

Ásmundur Einar skipaði enn fremur Aðalstein Hauk Sverrisson sem nýjan formann stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs án tilnefningar í janúar 2019. Aðalsteinn Haukur er formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur og var jafnframt framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins í Alþingiskosningum árið 2016. Aðalsteinn var einnig skipaður formaður stjórnar Tryggingarsjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga árið 2014 af félagsmálaráðherra til fjögurra ára en ekki má sjá á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins að skipuð hafi verið ný stjórn.

Þriðjungur nefnda skipaður formönnum úr Framsókn

Á vegum félagsmálaráðuneytisins starfar fjöldi nefnda, ráða og starfshópa. Í félagsmálaráðuneytinu í maí 2019 voru 28 lögbundnar nefndir og ráð. Þá voru auk þess 42 verkefnatengdar nefndir og vinnuhópar, sem skipaðir eru af ráðherra sérstaklega til þess að koma með ráðgjöf um umbætur í ýmsum málum.

Í svari við fyrirspurn á Alþingi frá Ingu Sæland, þingkonu Flokks fólksins, um nefndir, starfshópa, faghópa og ráð á vegum ráðuneytisins segir Ásmundur Einar að félagsmálaráðuneytið leitist ávallt við að móta stefnu þeirra málaflokka sem heyra undir ráðuneytið og að eiga vítt samráð við hagaðila, faghópa og notendur. Hann segir að slíkir hópar séu í eðli sínu nauðsynlegir við framangreinda vinnu.

Þegar pólitískar nefndir eru skipaðar þá er horft til þess að skipa þær pólitískt, það er ekkert óeðlilegt við það.

Ráðherra skipar í þær nefndir, starfshópa og ráð en oft á tíðum fá einnig ólíkir hagsmunaaðilar að tilnefna einn eða fleiri nefndarmann. Nánast án undantekningar skipar þó ráðherra formann án tilnefningar. Af þeim 70 nefndum, stjórnum og ráðum sem starfa nú á vegum ráðuneytisins eru 21 skipuð formönnum, án tilnefningar, sem hafa einhverskonar tengsl við Framsóknarflokkinn.

Níu formenn skipaðir frá því að Ásmundur Einar tók við embættinu

Af þeim nefndum sem Ásmundur Einar hefur skipað frá því að hann tók við embætti í nóvember 2017 þá eru níu nefndir, hópar eða ráð sem skipuð eru formönnum án tilnefningar sem tengjast Framsóknarflokknum. Hann skipaði Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmann Framsóknarflokksins, formann tveggja aðgerðahópa í fyrra. Auk þess skipaði hann Lindu Hrönn Þórisdóttur, formann Landssambands Framsóknarkvenna, formann faghóps um samfélagslega virkni fyrir einstaklinga með geðrænan vanda í fyrra.

Jafnframt skipaði Ásmundur Einar Frosta Sigurjónsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, formann verkefnisstjórnar um aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra á húsnæðismarkað í fyrra. Auk þess var Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, skipuð formaður starfshóps um móttökuáætlanir sveitarfélaga í mars síðastliðnum. Hún bauð sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í Alþingiskosningum árið 2017.

Eygló Harðardóttir, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, sést hér ganga við hlið Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Mynd: Birgir Þór Harðarson.
Birgir Þór Harðarson.
Þá var Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, skipuð formaður samstarfsnefndar um málefni aldraðra til næstu Alþingiskosninga. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var skipuð af félagsmálaráðherra í fyrra sem formaður prófnefndar leigumiðlunar til næstu þriggja ára. Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi iðnaðarráðherra, var skipaður formaður starfshóps af Ásmundi Einari um félagslegt undirboð í október í fyrra.  Til viðbótar skipaði Ásmundur Einar Líneik Önnu Sævarsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, formann þingmannanefndar um málefni barna í október í fyrra. 

Auk þessa voru í febrúar síðastliðnum embætti þriggja skrifstofustjóra á fagskrifstofum í félagsmálaráðuneytinu auglýst laus til umsóknar. Samkvæmt lögum Stjórnarráðs Íslands skulu ráðherrar skipa skrifstofustjóra að fengnu mati þriggja manna hæfnisnefndar. Einn þeirra þriggja sem sat í hæfnisnefndinni var Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi en hann meðal annars gaf kost sér til formennsku í Framsóknarflokknum á landsþingi árið 2008. Nefndarmenn fengu greitt fyrir störf sín.

Eygló skipaði þrettán formenn sem enn eru að störfum

Á undan Ásmundi Einari gegndi Eygló Harðardóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, embætti félagsmálaráðherra, fyrir utan stutt stopp Þorsteins Víglundssonar í embættinu í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar í nokkra mánuði árið 2017. Eygló Harðardóttir var félags- og húsnæðismálaráðherra frá árinu 2013 til 2017. Eygló var fyrst kosin á þing sem varaþingmaður Framsóknarflokksins árið 2008.

Eygló skipaði fjölda nefnda, fagráða og hópa á meðan hún var ráðherra. Af þeim sem enn eru starfandi eru tólf sem skipaðir eru, án tilnefningar, formönnum með tengsl við Framsóknarflokkinn. Hún skipaði einnig í stjórn Ábyrgðarsjóðs launa sem enn er að störfum en þar skipaði hún Þóreyju Önnu Matthíasdóttur sem formann stjórnarinnar. Þórey Anna er fyrrverandi formaður Landssambands framsóknarkvenna og bauð hún sig jafnframt fram fyrir Framsóknarflokkinn í Hafnarfirði í fyrra.

Ekkert óeðlilegt

Í samtali við Kjarnann segir Ásmundar Einar Daðason, félagsmálaráðherra, að þegar um er að ræða nefndir, ráð og hópa á vegum ráðuneytisins sem taka stefnumótandi ákvarðanir sem tengjast pólitík þá séu formenn nefndanna pólitískt skipaðir.

„Þegar pólitískar nefndir eru skipaðar þá er horft til þess að skipa þær pólitískt, það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Ásmundur Einar. Hann segir aftur á móti að þegar um er að ræða nefndir sem ekki marka pólitíska stefnu þá séu þær yfirleitt skipaðar embættismönnum.

Aðspurður segist hann þó ekki vita í fljótu bragði hversu margar nefndir af þeim 70 sem eru á vegum ráðuneytisins séu svokallaðar pólitískar nefndir en sagði jafnframt að hægt væri að fara yfir það ef þess væri óskað.

Árið 2007 tóku sérstök svæðisbundin vinnumarkaðsráð til starfa um land allt. Ráðin starfa á grundvelli laga um vinnu­markaðsaðgerðir sem samþykkt voru á Alþingi árið 2006. Hlutverk ráðanna er meðal annars að greina stöðu og þróun atvinnumála hvert á sínu starfssvæði og gera tillögur að vinnumarkaðsúrræðum. Samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir skipar ráðherra sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð. Í hvert vinnumarkaðsráð eru tilnefndir tveir ráðsmenn af samtökum launafólks á hverju svæði og tveir af samtökum atvinnurekenda. Jafnframt er einn ráðsmaður tilnefndur af sveitarfélögum á hverju svæði, einn af mennta- og menningarmálaráðherra og einn skipaður án tilnefningar.

Félagsmálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi þeirra sem tilnefndir eru sem aðalmenn. Í heildina eru vinnumarkaðsráðin átta og formenn fjögurra þeirra hafa á einhverjum tíma verið í framboði fyrir Framsóknarflokkinn. Til viðbótar er Guðný Sverrisdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, formaður Vinnumarkaðsráðs Norðurlands eystra en hún er systir Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi ráðherra og þingkona Framsóknarflokksins. Formaður Vinnumarkaðsráðs Austurlands er Helga Þórarinsdóttir en hún er eiginkona Gunnars Þórs Sigbjörnssonar. Gunnar Þór starfaði innan Framsóknarflokksins til fjölda ára og sat í ýmsum nefndum á vegum Framsóknar í sveitarstjórn á Héraði. Eygló skipaði alla átta formenn ráðanna og eru þeir enn að störfum.

Fyrrverandi ráðherrar að störfum í ráðuneytinu

Siv Frið­leifs­dótt­ir, fyrr­ver­andi ráð­herra Fram­sókn­ar­flokks­ins, var ráðin í starf sér­fræð­ings á skrif­stofu félags­þjón­ustu í félags- og hús­næð­is­mála­ráðu­neyt­inu í apríl árið 2016. Starfið var aug­lýst og alls sóttu 36 um það. Siv hafði áður verið fengin til að starfa sem ráð­gjafi fyrir félags- og hús­næð­is­mála­ráðu­neytið á árinu 2014. Um var að ræða aðstoð vegna nor­ræns sam­starfs, for­mennsku í Nor­rænu ráð­herra­nefnd­inni og vinnu í Vel­ferð­ar­vakt­inni sem stofnuð var að frum­kvæði stjórn­valda snemma árs 2009 til að fylgj­ast með afleið­ingum efna­hags­hruns­ins á heim­ilin í land­inu.

Þegar starfið var auglýst í febrúar 2016 vöktu tvær konur athygli á því að í auglýsingunni um starf sérfræðing á skrifstofu félagsþjónustu var starfsreynsla gerð að veigameiri skilyrði en menntun í aðsendri grein á Vísi. Í aug­lýs­ing­unni var kraf­ist háskóla­prófs eða sam­bæri­legrar mennt­unar á sviði félags­mála. Þá sagði einnig í aug­lýs­ing­unni að mik­il­vægt væri að við­kom­andi sér­fræð­ingur hefði víð­tæka þekk­ingu og reynslu af opin­berri stjórn­sýslu og sam­starfi þvert á ráðu­neyti. Enn fremur væri æski­legt að hann hefi sér­þekk­ingu á þeim mála­flokkum sem heyra undir skrif­stofu félags­þjón­ustu. Þá var einnig gerð krafa um víð­tæka þekk­ingu og reynslu af alþjóð­legum sam­skipt­um, ekki síst nor­rænu sam­starfi innan stjórn­sýsl­unn­ar.

Í grein kvennanna segir að auglýsingin sé eitt dæmi af fjölmörgum þar sem starfsreynsla var gerð að veigameira skilyrði en menntun. „Eina krafan um menntun sem sett er fram er krafa um háskólapróf eða sambærilega menntun á sviði félagsmála. Háskólamenntun virðist því ekki vera skilyrði. Hins vegar skiptir viðamikil og sérhæfð starfsreynsla höfuðmáli.“

Siv Friðleifsdóttir sat á þingi fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn frá 1995 til 2013 og var tví­vegis ráð­herra.

Siv er með BS-­próf í sjúkra­þjálf­un. Hún sat á þingi fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn frá 1995 til 2013 og var tví­vegis ráð­herra. Siv var umhverf­is­ráð­herra og sam­starfs­ráð­herra Norð­ur­landa 1999 til 2004 og heil­brigð­is- og trygg­inga­mála­ráð­herra 2006 til 2007.

Síðustu rúm þrjú ár hefur Siv starfað sem sérfræðingur innan ráðuneytisins og var hún jafnframt staðgengill skrifstofustjóra um tíma. Siv er einnig formaður Velferðarvaktarinnar en Eygló Harðardóttir skipaði hana formann án tilnefningar árið 2014.

Pólitískar stöðuveitingar tíðkast enn

Skiptar skoðanir eru um hvort pólitískar stöðuveitingar viðgangist enn hér á landi og ef svo er hvort þær séu réttlætanlegar. Lengi vel voru pólitískar stöðuveitingar meginreglan við ráðningar í störf hjá hinu opinbera. Stjórnmálaflokkar deildu út störfum og embættum til styrkja sinn eigin flokk í sessi. Þegar leið á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gætti hins vegar við auknum óvinsældum með fyrirgreiðslu flokkanna og dvínandi mikilvægi þeirra fyrir flokkana sjálfa leiddi til þess að aukin áhugi var á faglegum sjónarmiðum við mannaráðningar. Árið 1996 voru síðan ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins samþykkt á Alþingi. Í þeim leysti fimm ára ráðningartími æðstu embættismanna af hólmi æviráðningu og eftirlaunakerfi opinberra starfsmanna breytt. Í dag eru pólitískar stöðuveitingar ekki opinberlega viðurkenndar hér á landi nema hvað það varðar að hverjum ráðherra er heimilt að ráða sér pólitískan aðstoðarmann sem hverfur úr ráðuneytinu þegar ráðherra lætur af störfum.

Þetta kemur fram í fræðigrein Gunnars Helga Kristinssonar, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, um umfang og sögu pólitískra stöðuveitinga á Íslandi í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Í greininni kemur jafnframt fram að ráðuneytin virðast síður en ýmsar aðrar greinar stjórnsýslunnar hafa þróast í átt að faghyggju á síðustu árum. Gunnar Helgi segir í greininni að það endurspegli eðli þeirra starfa sem þar séu unnin og mikilvægi þeirra fyrir ráðherra. Í ráðuneytunum sé þó ekki gert ráð fyrr því að starfsmenn ráðuneytanna séu pólitískt skipaðir, að frátöldum aðstoðarmanni ráðherra.

Gunnar Helgi segir í samtali við Kjarnann að þó að stjórnsýslan hafi í auknum mæli færst frá hefðbundnum pólitískum stöðuveitingum á síðustu áratugum þá komi þær þó enn fyrir. Að hans mati eiga pólitískar stöðuveitingar nú sér stað í þrengra samhengi elítu stjórnmála. Stjórnmálaflokkar séu nú meiri elítuflokkar sem reknir eru af atvinnumönnum sem fái frekar opinberar stöðuveitingar en óbreyttir flokksmenn.

Gunnar Helgi bendir jafnframt á að auk hefðbundinnar fyrirgreiðslu þá noti stjórnmálaflokkar einnig strategískar stöðuveitingar. Stöðuveitingar af þessu tagi miða ekki að því fyrst og fremst að verðlauna þá einstaklinga sem stöðurnar hljóta heldur að tryggja að einstaklingar sem flokkarnir geti treyst sitji í pólitískt mikilvægum embættum. Gunnar Helgi segir að rannsóknir hans á síðustu árum hafi bent til þess að stjórnmálamenn noti í vaxandi mæli stragetískar stöðuveitingar til að styrkja stöðu flokksins innan stjórnsýslunnar.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi iðnaðarráðherra, var skipaður formaður starfshóps af Ásmundi Einari um félagslegt undirboð í október í fyrra. Starfshópurinn skilaði tillögum til úrbóta í janúar síðastliðnum. Búið er að móta aðgerðaráætlun út frá tillögunum og tilkynnti félagsmálaráðuneytið í maí síðastliðnum að Ásmundur Einar hefði falið Jóni að hafa yfirumsjón með því að framfylgja aðgerðum sem byggja á tillögum hópsins. Sömuleiðis þeim aðgerðum sem snerta félagsleg undirboð í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamninga sem samþykktir voru í byrjun apríl síðastliðnum.

Stefna að auknu gagnsæi í allri stjórnsýslunni

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna „hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri“ freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.

Bára Huld Beck

„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess,“ segir í sáttmálanum.

Ennfremur er tekið fram að stefna þurfi að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. „Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna.“

Í nýlegri könnun MMR frá 3. maí 2019 um hvað veldur landsmönnum mestum áhyggjum kom fram að líkt og síðustu þrjú ár voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum sem reyndist vera eitt af helstu áhyggjuvöldum þjóðarinnar. Alls svöruðu 44 prósent landsmanna að spill­ing í fjár­málum og/eða stjórn­mál­um valdi þeim mestum áhyggjum í síðustu könnun.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar