Mynd: EPA

Wikileaks: Blaðamennska í almannaþágu eða glæpur?

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á í hættu á að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ár í fangelsi verði hann fundinn sekur.

Bandaríkin, Bretland, Svíþjóð, Ekvador og Ísland. Leki, fréttaflutningur og blaðamenn. Fjölmiðlafrelsi og ásakanir um njósnir og kynferðisofbeldi. Mál Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem nú gæti verið framseldur til Bandaríkjanna er ekki einfalt. Kjarninn rýnir í málið.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, fór í gær fyrir dómstóla í Bretlandi þar sem framsalsbeiðni bandarískra yfirvalda var tekin fyrir. Bandarísk yfirvöld stefndu Assange í 18 liðum, þar á meðal fyrir njósnir. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa reynt að hakka sig í tölvu í ríkiseign ásamt Chelsea Manning.

Lokaniðurstaða um framsalsbeiðnina verður tekin í febrúar á næsta ári, greinir AFP fréttastofan frá.

Árið 2010 birti Wikileaks 470.000 trúnaðarskjöl frá bandaríska hernum um utanríkisþjónustu og stríðin í Afganistan og Írak. Síðar birti Wikileaks 250.000 önnur skjöl. Bandarísk stjórnvöld telja að um alvarlegt lögbrot og að um njósnir sé að ræða en Wikileaks segir upplýsingarnar eiga erindi við almenning.

Ráðherra undirritaði framsalsbeiðnina

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, undirritaði framsalsbeiðni Bandaríkjanna um Julian Assange í gær. Í viðtali sagði Javid að það væri réttlátt að Assange væri á bak við lás og slá. Bresk stjórnvöld hafa haldið því fram að Assange yrði ekki framseldur ef hann gæti verið dæmdur til dauða.

Verði Assange framseldur til Bandaríkjanna gæti hann fengið allt að 175 ára dóm, verði fundinn sekur í öllum ákærliðum.

Þyrnir í augum stjórnvalda

Wikileaks hefur lengi verið þyrnir í augum bandarískra stjórnvalda. Til að mynda birti Wikileaks myndbönd árið 2010 sem sýna framgöngu bandarískra hervalda í Írak sem vakti hörð viðbrögð almennings á þeim tíma. 

Þar á meðal var myndband af þyrluárás bandaríska hersins sem Kristinn Hrafnsson, núverandi ritstjóri Wikileaks,  hlaut blaðamannaverðlaun Íslands fyrir árið 2010 . Verðlaunin hlaut hann fyrir vinnslu myndbandsins ásamt Inga R. Ingasyni. Verðlaunin voru veitt fyrir framúrskarandi úrvinnslu á myndbandi um þyrluárás í Bagdad auk þess sem verðlaunin voru fyrir störf Kristins sem fulltrúi WikiLeaks.

Í tilkynningu Blaðamannafélags Íslands sagði að myndbandið hafi vakið heimsathygli og sýndi „hið firrta eðli nútíma hernaðar og færði reynslu og örlög fórnarlamba heim í íslenskar stofur.“

Svíar vilja yfirheyra Assange

Önnur framsalsbeiðni en sú bandaríska lá um tíma fyrir breskum yfirvöldum gagnvart Assange, það er til Svíþjóðar. Málið varðar ákæru á hendur Assange frá árinu 2010 þar sem tvær sænskar konur sökuðu hann um kynferðisofbeldi.

Assange var sakaður um að hafa nauðgað einni sænskri konu og hafa brotið kynferðislega gegn annarri árið 2010 er hann var í vinnuferð Stokkhólmi. Assange hefur ávallt haldið því fram að hann hafi átt í samræði við báðar konurnar með þeirra vilja.

Árið 2011 dæmdi breskur dómari að Assange skyldi framseldur til Svíþjóðar. Árið 2012 flúði hann svo til sendiráðs Ekvador í London þar sem hann hlaut pólitískt hæli. Assange dvaldi þar í sjö ár en stjórnvöld Ekvador afturkölluðu hið pólitíska hæli hans skyndilega í apríl.

Rannsókn á meintum kynferðisafbrotum Assange var hætt árið 2017 vegna þess að Assange var enn í sendiráði Ekvador í London. Hann var fjarlægður úr sendiráðinu í apríl síðastliðnum og handtekinn í kjölfarið.

Sænskir saksóknarar ákváðu í kjölfarið að opna aftur á rannsókn er varðar ásakanir á hendur Assange. Töldu saksóknararnir að þörf væri á að spyrja hann út í ásakanirnar á ný. Í byrjun júní komst dómstóll í Uppsala hins vegar að þeirri niðurstöðu að þótt Assange væri enn grunaður um afbrot þá væri óþarfi að gefa út handtökuskipun eða leggja fram framsalsbeiðni, enda væri hann nú þegar í haldi í Bretlandi.

Njósnari í sendiráðinu?

Lenín Moreno, forseti Ekvador, sagði að Assange hefði notað sendiráðið til njósna og þar af leiðir hefði pólitíska hæli hans verið afturkallað.

Kristinn Hrafnsson telur að ásakanir Moreno á hendur Assange séu súrrealískar og fáránlegar.

Leynd hefur ríkt yfir ákærunni gegn Assange en upp komst um leyndina fyrir tilviljun þegar nafn hans birtist í ótengdum dómsskjölum í nóvember 2018. Í þeim skjölum kom fram að þau þyrftu að vera innsigluð þar til Assange yrði handtekinn.

Óvíst er hvort hægt sé að sýna fram á lagalegan mun á því sem Wikileaks gerði og það sem aðrir fjöl­miðlar gerðu með því að fjalla um upp­lýs­ing­arnar sem komu fram á Wiki­leaks-­síð­unni

Samkvæmt breskum lögum getur innanríkisráðherra frestað einni framsalsbeiðni þangað til hinni er lokið. Breskir þingmenn hafa sent innanríkisráðherra bréf þess efnis að senda Assange frekar til Svíþjóðar heldur en Bandaríkjanna, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

Chelsea Manning neitar að bera vitni

Chelsea Manning, sem hafði verið dæmd í 35 ára fangelsi fyrir að leka upplýsingum til Wikileaks en var síðar veitt lausn af Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna, neitar nú að bera vitni fyrir kviðdómi og var fyrir vikið dæmd í fangelsi. Talið er að vitnisburður hennar gæti verið tengdur ásökunum á hendur Assange.

Manning gæti þurft að greiða 500 dollara sekt á dag sem gæti hækkað upp í 1000 dollara á dag, beri hún ekki vitni. 

Ísland komið í flækjuna

Samkvæmt Kristni Hrafnssyni kom lögreglumaður frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna til Íslands vegna rannsóknar á hendur Assange og Wikileaks í maí síðastliðnum. Auk lögreglumannsins var saksóknari frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu með í för.

Samkvæmt Kristni höfðu mennirnir uppi á Sigurði Inga Þórðarsyni, sem er betur þekktur sem Siggi Hakkari, með hjálp íslensku lögreglunnar.

Kristinn Hrafnsson sendi í kjölfarið fyrirspurn til forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, auk ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra en hefur enn ekki borist svar við fyrirspurn sinni.

Kristinn óskaði svara fyrir daginn í gær, þann 14. júní, þar sem fresti lýkur fyrir bandarísk stjórnvöld að skila inn skjölum og bæta inn ákærum gegn Assange.

Í skrifum sínum á Facebook síðu sinni sagði Kristinn „Ég vænti þess að fleirum en mér þyki forvitnilegt að vita hvernig vera megi að íslensk yfirvöld veiti liðsinni sitt í pólitískum ofsóknum og ofstæki sem lýst hefur verið sem skelfilegustu aðför að frelsi fjölmiðla á Vesturlöndum og blaðamennsku í heiminum á síðari tímum. Þær ofsóknir beinast m.a. að íslenskum ríkisborgurum.”

Sigurður, eða Siggi Hakkari, var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2015 fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum.

Sigurður hefur áður verið fundinn sekur um þjófnað frá Wikileaks. Sigurður var sakaður um að hafa þóst vera Julian Assange og fengið forstjóra vefverslunar til að millifæra stórar fjárhæðir á eigin bankareikninga, að því er kemur fram í frétt RÚV.

Mun ríkisstjórnin beita sér í málinu?

Í samtali við fréttamann Vísis í fyrradag sagði Kristinn Hrafnsson að í gangi væri ekkert annað en yfirgripsmikil og alvarleg þöggun. Hann trúi að eftir að niðurstaða fáist í framsalsbeiðnina muni sjást betur á spilin hvað varði framhaldið. Hins vegar gæti verið langt í að endanlegri ákvörðun líti dagsins ljós varðandi framsal á Assange, að því er kemur fram í viðtalinu.

Kristinn sagði blaðamanni Vísis að framganga Bandaríkjanna væri árás á grunngildi blaðamennskunnar.

Í byrjun júní sögðust bæði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, ekki hafa vitneskju um milligöngu um aðstoð við bandarísku alríkislögregluna. Katrín sagði enn fremur að enginn í forsætisráðuneytinu hafi verið upplýstur um málið en að hún muni kanna málið betur.

Í fyrradag fordæmdu bæði Félag fréttamanna RÚV og formaður Blaðamannafélags Íslands ákvörðun ráðherra Bretlands um að undirrita framsalsbeiðni Assange til Bandaríkjanna. Félag fréttamanna skoraði enn fremur á íslensk stjórnvöld að beita sér gegn framsalinu. 

Þingflokkur Pírata fordæmir framsalskröfuna einnig harðlega. Segir í fréttatilkynningu frá þingflokknum að hafa verði í huga að „fyrir tilstuðlan Julian Assange var almenningur upplýstur um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar