Mynd: EPA

Wikileaks: Blaðamennska í almannaþágu eða glæpur?

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á í hættu á að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ár í fangelsi verði hann fundinn sekur.

Banda­rík­in, Bret­land, Sví­þjóð, Ekvador og Ísland. Leki, frétta­flutn­ingur og blaða­menn. Fjöl­miðla­frelsi og ásak­anir um njósnir og kyn­ferð­is­of­beldi. Mál Julian Assange, stofn­anda Wiki­leaks, sem nú gæti verið fram­seldur til Banda­ríkj­anna er ekki ein­falt. Kjarn­inn rýnir í mál­ið.

Julian Assange, stofn­andi Wiki­leaks, fór í gær fyrir dóm­stóla í Bret­landi þar sem fram­sals­beiðni banda­rískra yfir­valda var tekin fyr­ir. Banda­rísk yfir­völd stefndu Assange í 18 lið­um, þar á meðal fyrir njósn­ir. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa reynt að hakka sig í tölvu í rík­is­eign ásamt Chel­sea Mann­ing.

Loka­nið­ur­staða um fram­sals­beiðn­ina verður tekin í febr­úar á næsta ári, greinir AFP frétta­stofan frá.

Árið 2010 birti Wiki­leaks 470.000 trún­að­ar­skjöl frá banda­ríska hernum um utan­rík­is­þjón­ustu og stríðin í Afganistan og Írak. Síðar birti Wiki­leaks 250.000 önnur skjöl. Banda­rísk stjórn­völd telja að um alvar­legt lög­brot og að um njósnir sé að ræða en Wiki­leaks segir upp­lýs­ing­arnar eiga erindi við almenn­ing.

Ráð­herra und­ir­rit­aði fram­sals­beiðn­ina

Sajid Javid, inn­an­rík­is­ráð­herra Bret­lands, und­ir­rit­aði fram­sals­beiðni Banda­ríkj­anna um Julian Assange í gær. Í við­tali sagði Javid að það væri rétt­látt að Assange væri á bak við lás og slá. Bresk stjórn­völd hafa haldið því fram að Assange yrði ekki fram­seldur ef hann gæti verið dæmdur til dauða.

Verði Assange fram­seldur til Banda­ríkj­anna gæti hann fengið allt að 175 ára dóm, verði fund­inn sekur í öllum ákær­lið­um.

Þyrnir í augum stjórn­valda

Wiki­leaks hefur lengi verið þyrnir í augum banda­rískra stjórn­valda. Til að mynda birti Wiki­leaks mynd­bönd árið 2010 sem sýna fram­göngu banda­rískra her­valda í Írak sem vakti hörð við­brögð almenn­ings á þeim tíma. 

Þar á meðal var mynd­band af þyrlu­árás banda­ríska hers­ins sem Krist­inn Hrafns­son, núver­and­i ­rit­stjóri Wiki­leaks,  hlaut blaða­manna­verð­laun Íslands fyrir árið 2010 . Verð­launin hlaut hann fyrir vinnslu mynd­bands­ins ásamt Inga R. Inga­syni. Verð­launin voru veitt fyrir fram­úr­skar­andi úrvinnslu á mynd­bandi um þyrlu­árás í Bagdad auk þess sem verð­launin voru fyrir störf Krist­ins sem full­trúi Wiki­Leaks.

Í til­kynn­ingu Blaða­manna­fé­lags Íslands sagði að mynd­bandið hafi vakið heims­at­hygli og sýndi „hið firrta eðli nútíma hern­aðar og færði reynslu og örlög fórn­ar­lamba heim í íslenskar stof­ur.“

Svíar vilja yfir­heyra Assange

Önnur fram­sals­beiðni en sú banda­ríska lá um tíma fyrir breskum yfir­völdum gagn­vart Assange, það er til Sví­þjóð­ar. Málið varðar ákæru á hendur Assange frá árinu 2010 þar sem tvær sænskar konur sök­uðu hann um kyn­ferð­is­of­beldi.

Assange var sak­aður um að hafa nauðgað einni sænskri konu og hafa brotið kyn­ferð­is­lega gegn annarri árið 2010 er hann var í vinnu­ferð Stokk­hólmi. Assange hefur ávallt haldið því fram að hann hafi átt í sam­ræði við báðar kon­urnar með þeirra vilja.

Árið 2011 dæmdi breskur dóm­ari að Assange skyldi fram­seldur til Sví­þjóð­ar. Árið 2012 flúði hann svo til sendi­ráðs Ekvador í London þar sem hann hlaut póli­tískt hæli. Assange dvaldi þar í sjö ár en stjórn­völd Ekvador aft­ur­köll­uðu hið póli­tíska hæli hans skyndi­lega í apr­íl.

Rann­sókn á meintum kyn­ferð­is­af­brotum Assange var hætt árið 2017 vegna þess að Assange var enn í sendi­ráði Ekvador í London. Hann var fjar­lægður úr sendi­ráð­inu í apríl síð­ast­liðnum og hand­tek­inn í kjöl­farið.

Sænskir sak­sókn­arar ákváðu í kjöl­farið að opna aftur á rann­sókn er varðar ásak­anir á hendur Assange. Töldu sak­sókn­ar­arnir að þörf væri á að spyrja hann út í ásak­an­irnar á ný. Í byrjun júní komst dóm­stóll í Upp­sala hins vegar að þeirri nið­ur­stöðu að þótt Assange væri enn grun­aður um afbrot þá væri óþarfi að gefa út hand­töku­skipun eða leggja fram fram­sals­beiðni, enda væri hann nú þegar í haldi í Bret­landi.

Njósn­ari í sendi­ráð­inu?

Lenín Mor­eno, for­seti Ekvador, sagði að Assange hefði notað sendi­ráðið til njósna og þar af leiðir hefði póli­tíska hæli hans verið aft­ur­kall­að.

Krist­inn Hrafns­son telur að ásak­anir Mor­eno á hendur Assange séu súr­r­eal­ískar og fárán­leg­ar.

Leynd hefur ríkt yfir ákærunni gegn Assange en upp komst um leynd­ina fyrir til­viljun þegar nafn hans birt­ist í ótengdum dóms­skjölum í nóv­em­ber 2018. Í þeim skjölum kom fram að þau þyrftu að vera inn­sigluð þar til Assange yrði hand­tek­inn.

Óvíst er hvort hægt sé að sýna fram á laga­legan mun á því sem Wiki­leaks gerði og það sem aðrir fjöl­miðlar gerðu með því að fjalla um upp­­lýs­ing­­arnar sem komu fram á Wik­i­­leaks-­­síð­­unni

Sam­kvæmt breskum lögum getur inn­an­rík­is­ráð­herra frestað einni fram­sals­beiðni þangað til hinni er lok­ið. Breskir þing­menn hafa sent inn­an­rík­is­ráð­herra bréf þess efnis að senda Assange frekar til Sví­þjóðar heldur en Banda­ríkj­anna, að því er kemur fram í frétt The Guar­di­an.

Chel­sea Mann­ing neitar að bera vitni

Chel­sea Mann­ing, sem hafði verið dæmd í 35 ára fang­elsi fyrir að leka upp­lýs­ingum til Wiki­leaks en var síð­ar veitt lausn af Obama, fyrrum for­seta Banda­ríkj­anna, neitar nú að bera vitni fyrir kvið­dómi og var fyrir vikið dæmd í fang­elsi. Talið er að vitn­is­burður hennar gæti verið tengdur ásök­unum á hendur Assange.

Mann­ing gæti þurft að greiða 500 doll­ara sekt á dag sem gæti hækkað upp í 1000 doll­ara á dag, beri hún ekki vitn­i. 

Ísland komið í flækj­una

Sam­kvæmt Kristni Hrafns­syni kom lög­reglu­maður frá Alrík­is­lög­reglu Banda­ríkj­anna til Íslands vegna rann­sóknar á hendur Assange og Wiki­leaks í maí síð­ast­liðn­um. Auk lög­reglu­manns­ins var sak­sókn­ari frá banda­ríska dóms­mála­ráðu­neyt­inu með í för.

Sam­kvæmt Kristni höfðu menn­irnir uppi á Sig­urði Inga Þórð­ar­syni, sem er betur þekktur sem Siggi Hakk­ari, með hjálp íslensku lög­regl­unn­ar.

Krist­inn Hrafns­son sendi í kjöl­farið fyr­ir­spurn til for­sæt­is­ráð­herra, utan­rík­is­ráð­herra og dóms­mála­ráð­herra, auk rík­is­sak­sókn­ara og rík­is­lög­reglu­stjóra en hefur enn ekki borist svar við fyr­ir­spurn sinni.

Krist­inn óskaði svara fyrir dag­inn í gær, þann 14. júní, þar sem fresti lýkur fyrir banda­rísk stjórn­völd að skila inn skjölum og bæta inn ákærum gegn Assange.

Í skrifum sínum á Face­book síðu sinni sagði Krist­inn „Ég vænti þess að fleirum en mér þyki for­vitni­legt að vita hvernig vera megi að íslensk yfir­völd veiti lið­sinni sitt í póli­tískum ofsóknum og ofstæki sem lýst hefur verið sem skelfi­leg­ustu aðför að frelsi fjöl­miðla á Vest­ur­löndum og blaða­mennsku í heim­inum á síð­ari tím­um. Þær ofsóknir bein­ast m.a. að íslenskum rík­is­borg­ur­um.”

Sig­urð­ur, eða Siggi Hakk­ari, var dæmdur í þriggja ára fang­elsi árið 2015 fyrir kyn­ferð­is­brot gegn níu drengj­um.

Sig­urður hefur áður verið fund­inn sekur um þjófnað frá Wiki­leaks. Sig­urður var sak­aður um að hafa þóst vera Julian Assange og fengið for­stjóra vef­versl­unar til að milli­færa stórar fjár­hæðir á eigin banka­reikn­inga, að því er kemur fram í frétt RÚV.

Mun rík­is­stjórnin beita sér í mál­inu?

Í sam­tali við frétta­mann Vísis í fyrra­dag sagði Krist­inn Hrafns­son að í gangi væri ekk­ert annað en yfir­grips­mikil og alvar­leg þögg­un. Hann trúi að eftir að nið­ur­staða fáist í fram­sals­beiðn­ina muni sjást betur á spilin hvað varði fram­hald­ið. Hins vegar gæti verið langt í að end­an­legri ákvörðun líti dags­ins ljós varð­andi fram­sal á Assange, að því er kemur fram í við­tal­inu.

Krist­inn sagði blaða­manni Vísis að fram­ganga Banda­ríkj­anna væri árás á grunn­gildi blaða­mennsk­unn­ar.

Í byrjun júní sögð­ust bæði Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra, og Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, dóms­mála­ráð­herra, ekki hafa vit­neskju um milli­göngu um aðstoð við banda­rísku alrík­is­lög­regl­una. Katrín sagði enn fremur að eng­inn í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu hafi verið upp­lýstur um málið en að hún muni kanna málið bet­ur.

Í fyrra­dag for­dæmdu bæði Félag frétta­manna RÚV og for­maður Blaða­manna­fé­lags Íslands ákvörðun ráð­herra Bret­lands um að und­ir­rita fram­sals­beiðni Assange til Banda­ríkj­anna. Félag frétta­manna skor­aði enn fremur á íslensk stjórn­völd að beita sér gegn fram­sal­in­u. 

Þing­flokkur Pírata for­dæmir fram­sals­kröf­una einnig harð­lega. Segir í frétta­til­kynn­ingu frá þing­flokknum að hafa verði í huga að „fyrir til­stuðlan Julian Assange var almenn­ingur upp­lýstur um stríðs­glæpi Banda­ríkja­manna og banda­manna þeirra.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar