Hernaðaruppbygging á norðurslóðum nær nú til Íslands
Ísland hefur stóraukið framlag sitt til varnarmála, ásamt því að Atlantshafsbandalagið hefur aukið viðveru sína á Íslandi til muna.
Bandaríkjamenn ætla sér að stórauka hernaðarlega viðveru sína á norðurslóðum og koma upp nýrri norðurslóðadeild innan bandaríska hersins. Rússar hafa einnig aukið hernað sinn á síðustu árum og hefur viðvera NATO á Íslandi aukist til muna. Ísland jók enn fremur framlag sitt til varnarmála um 37 prósent frá því í fyrra.
Ríkisstjórn Trump æltar sér að auka hernaðarviðveru sína á norðurslóðum. Hún ætlar að koma á nýrri norðurslóðadeild innan bandaríska hersins, efla öryggisviðveru sína á norðurslóðum, styrkja her sinn á svæðinu, halda heræfingar og byggja upp ísbrjóta sína, að því er kom fram í ræðu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þann 6. maí síðastliðinn á samkomu Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi.
Ræðan ruggaði bátnum innan ráðsins svo vægt sé til orða tekið. Sagði hann norðurslóðir áður hafa verið svæði samvinnu og rannsókna, nú væru norðurslóðir hins vegar orðnar að svæði valdabaráttu og samkeppni. Nú væri nýtt upphaf strategískrar samkeppni og nýrra ógna. Hann sagði enn fermur norðurslóðir hafa miklar auðlindir, til dæmis 13 prósenta allrar óuppgötvaðrar olíu, 30 prósenta óuppgötvaðs gass, auk margra jarðmálma, gulls og demanta. Aðgengi að auðlindunum væri nú meira en áður vegna bráðnun og hopunar íss.
Vilja takmarka getu Kína og Rússlands
Hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum eru sérstaklega að takmarka getu Kína og Rússlands á norðurslóðum að því er kemur fram í nýrri skýrslu Varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna.
Pompeo tók einmitt Kína sérstaklega fyrir í ræðu sinni í Norðurskautsráðinu, en Kína hefur stöðu áheyrnaraðila innan Norðurskautsráðsins ásamt tólf öðrum ríkjum, svo sem Frakklands, Indlands, Japans, Bretlands og fleiri ríkja. Pompeo sagði efasemdir um raunverulegan tilgang veru Kína á norðurslóðum. Nú skilgreini Kína sig sem „nærríki norðurslóða“ en hann líti svo á að einungis séu til norðurslóðarríki og ríki sem ekki séu norðurslóðarríki, enginn þriðji flokkur sé til.
Hann sagði þar að auki Kína ekki hafa tilkall til neins þrátt fyrir að það skilgreini sig sem „nærríki norðurslóða.“ Pompeo sagði að áætlun Kína að gera siglingaleið um norðurslóðir sem hluta af Belti og braut væri leið kínverskra stjórnvalda að þróa mikilvæga innviði á norðurslóðum og jafnvel koma upp langtíma öryggisviðveru (e. security presence) á svæðinu.
Rússar auka hernað sinn á norðurslóðum
Í fyrrnefndri skýrslu varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna er því haldið fram að þörf sé á að nútímavæða eldflaugavarnir og varnir gegn langdregnum flaugum á norðurslóðum. Varnarmálaráðuneytið vill enn fremur auka sjóeftirlit á hafsvæðinu milli Íslands, Grænlands og Bretland, það er hjá hinu svokallaða GIUK bili. Það falli vel að núverandi verkefnum NATO á Íslandi. Í skýrslunni segir enn fremur að hætta sé á ákveðinni keðjuverkun frá öðrum svæðum. Til að mynda geti spenna milli Bandaríkjanna og Rússlands eða Kína í öðrum heimssvæðum smitað út frá sér og skapað spennu á milli þeirra á norðurslóðum.
Sergei Kislyak, öldungadeildarþingmaður rússneska þingsins og fyrrum sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, sagði á Arctic Circle í Hörpu í október síðastliðnum að stór hluti norðurslóða væri á yfirráðasvæði Rússlands þar sem herleysi myndi bitna á öryggi landsins, að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins. Hann sagði enn fremur að norðurslóðir væru fjársjóðskista náttúruauðlinda sem hægt væri að nýta.
Rússar hafa vissulega aukið hernað sinn á norðurslóðum. Í viðtali við Foreign Policy benti Dan Sullivan, bandarískur öldungadeildarþingmaður, á að á síðustu árum hafi Rússar aukið hernað sinn á norðurslóðum gífurlega. Rússar hafi opnað 14 nýja flugvelli, 16 hafnir, 40 ísbrjóta og fjögur ný herteymi á norðurslóðum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fyrirlestri í Norræna húsinu 11. júní síðastliðinn að aukin hernaðaruppbygging Rússa á norðurslóðum, með auknum herstöðvum, kafbátum og aukinni hernaðarlegri loftumferð, valdi bandalaginu sérstaklega áhyggjum.
Ísland hluti af hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum
Bandaríkin munu auka fjármagn til mannvirkjauppbygginga á Keflavíkurflugvelli um sjö milljarða króna en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði þó í viðtali við Morgunblaðið að á Íslandi yrði ekki herseta á nýjan leik. 300 milljónum verður hins vegar varið í uppbyggingu á innviðum vegna skuldbindinga Íslands í NATO. Forsætisráðherra sagði enn fremur að aukin hernaðarumsvif á Norðurhöfum ættu að vera Íslendingum áhyggjuefni. Katrín sagði einnig viðveru hermanna hafa aukist á Íslandi og að hún hafi verið mikil síðustu tvö ár.
Í viðtali við Kastljós þann 25. júní síðastliðinn sagði hún að „auðvitað hljótum við öll að hafa áhyggjur af þeim auknu hernaðarumsvifum sem við sjáum í norðurhöfum og sérstaklega því Ísland hefur lagt sig fram að vera alltaf málsvari friðsamlegra lausna á alþjóðavettvangi.“
Framlag Íslands til varnarmála hefur hækkað síðustu ár
Í fyrra hækkuðu framlög Íslands til varnarmála um 37 prósent. Framlög Íslands til varnarmála árið 2019 eru 2.185 milljónir króna miðað við 1.592 milljónir króna árið 2017. Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál og alþjóðamál sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2019.
Í svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans kom fram að auknar fjárheimildir málaflokksins megi skýra að mestu af fjórum verkefnum: 127 milljónir króna voru veittar til endurnýjunar á ratsjárkerfi og stjórnstöðvarkerfi. Alls 60 milljónir króna fóru í að efla samningsbundinn gistiríkjastuðning og 50 milljónir króna megi svo rekja til reglubundinna varnaræfinga í samræmi við varnaráætlun Atlantshafsbandalagsins. Að lokum voru 35 milljónir veittar til samningsbundins viðhalds varnarmannvirkja.
Stærstur hluti fjármagnsins fer til almenns reksturs Landhelgisgæslunnar og Keflavíkurflugvölls eða 1.519 milljónir króna. 217 milljónir króna fara í samstöðuaðgerðir.
Í skýrslu utanríkisráðherra er grundvöllur varna Íslands sagður vera aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951. Þar er vöxtur útgjalda sagður „helgast af vaxandi skuldbindingum sem Ísland hefur tekist á hendur innan Atlantshafsbandalagsins og aukinni tímabundinni viðveru liðsafla bandalagsins á Keflavíkurflugvelli vegna versnandi öryggisástands í Evrópu, þ.m.t. á Norður-Atlantshafi.“
Á fyrirlestri sínum í Norræna húsinu þann 11. júní síðastliðinn sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, bandalagið nú þegar hafa aukið viðveru sína á Íslandi og í kringum Ísland. NATO ríki hafi til að mynda aukið fjölda heræfinga í Norður-Atlantshafi.
Stjórnarflokkar ósammála um varnarmál
Vinstri græn eru á móti samstarfinu í NATO, að því er kom fram í máli forsætisráðherra í viðtali við Kastljós þann 25. júní síðastliðinn. Hún sagði Vinstri græn engu að síður hafa tekið þá ákvörðun að fylgja Þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem það „er auðvitað hlutskipti stjórnmálamanna að þurfa stundum að fylgja lýðræðislegum vilja, sérstaklega þegar um er að ræða eina stjórnmálaflokkinn sem er andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu eins og er raunin með okkur Vinstri græn.“
Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, skrifaði á Facebook síðu sinni 25. júní síðastliðinn að það væri grátlegt að „horfa upp á þá gegndarlausu sóun sem á sér stað í hernaðaruppbyggingu í heiminum, með fjármunum sem mætti svo hæglega nýta til annarra og betri hluta.“ Hann skrifaði enn fremur að hann telji að NATÓ aðild skapi þjóðinni frekar ógn en öryggi.
Þessar staðhæfingar eru í takt við stefnu Vinstri grænna, en þar segir skýrt: „Ekki á að leyfa heræfingar í landinu eða innan lögsögu þess. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir umferð með kjarnorku-, sýkla- og efnavopna í lofti, á láði og legi.“
Í stefnu Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna séu „forsendur þess að öryggi landsins sé tryggt“
Í viðtali við Kastljós 12. júní síðastliðinn sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að NATO vilji að Rússar viti af fælingarmætti bandalagsins til að koma í veg fyrir að Rússar reyni að taka yfir landssvæði einhvers NATO ríkis. Hann sagði markmiðið með því ekki vera að hefja átök heldur að koma í veg fyrir átök.
Spurður út í hlutverk Íslands innan bandalagsins svaraði Stoltenberg framlag Íslands til NATO væri mikilvægt þrátt fyrir að Ísland hefði ekki her. Bandaríkjamenn hafi til að mynda eftirlitsflugvélar sem vinni frá Keflavík. Íslendingar gegni einnig mikilvægu hlutverki þegar kæmi að afvopnun. Stoltenberg hélt því einnig fram að Donald Trump styðji NATO og muni standa við heit sín í öryggismálum.
Þrátt fyrir að stjórnarflokkar séu ekki á einu máli er varðar þátttöku Íslands í NATO er ljóst að viðvera hermanna hefur aukist á Íslandi og framlög Íslands til varnarmála einnig. Framkvæmdastjóri NATO telur Ísland gegna mikilvægu hlutverki innan bandalagsins á sama tíma og forsætisráðherra lýsir yfir áhyggjum sínum af auknum hernaði á norðurslóðum.