Jafnvel þeir sem engan áhuga hafa á knattspyrnu hefðu vart getað annað en hrifist af taumlausri ástríðu áhangenda Union Berlin þann 27. maí síðastliðinn. Þá mætti liðið Stuttgart í seinni hluta umspils um hvort liðið myndi fara í efstu deildina eða falla í aðra deild. Stuðningsmenn Union Berlin sungu hástöfum allar níutíu mínúturnar meðan leikurinn stóð yfir og hlupu svo grátandi og hlæjandi inn á völlinn til að faðma hetjur sínar. Union Berlin, litla liðinu frá austurhluta Berlínar, hafði tekist að leggja stórveldið Stuttgart og mun því leika í efstu deild á næsta vetri, í fyrsta sinn í sögu félagsins. En hví er Union Berlin svona gífurlega vinsælt lið í höfuðborginni? Margir telja að það sé í raun töluvert meiri stuðningur við Union en liðið sem á í raun að vera „stóra“ liðið í Berlín en það er félag sem Íslendingurinn Eyjólfur Sverrisson lék með lengi: Hertha Berlin.
Þeir sem þekkja lítið til knattspyrnu í Þýskalandi telja eflaust að eitt af stórliðum Þýskalands hljóti að koma frá höfuðborginni. Það virðist vera einkennandi að a.m.k eitt sterkt lið komi þaðan. PSG eru frá París, Chelsea, Tottenham og Arsenal frá London, Roma og Lazio frá Róm, Real og Atlético frá Madrid. Þannig er það ekki í Þýskalandi. Hertha Berlin hefur á sér illt orð fyrir svindl, mútur, fjármálamisferli og ofbeldisfulla áhangendur og hefur oftar en ekki verið aðhlátursefni þýskra knattspyrnuunnenda. Hertha er liðið sem reynir og reynir en tekst ekki neitt, þannig er ímynd „gömlu dömunnar“ en það er gæluheiti Hertha Berlin.
Í austurhluta Berlínar eru Union töluvert vinsælli en Hertha. Union eru þó ekki eina liðið í Austur-Berlín og nú þurfum við að færa okkur til borgarinnar Dresden og sjöunda áratugarins. Þá var Þýskalandi skipt í austur og vestur og höfuðborginni var einnig skipt þannig. Flestir ættu að hafa heyrt minnst á Berlínarmúrinn sem klauf borgina í tvennt áratugum saman. Dynamo Dresden voru sigursælasta lið Austur-Þýskalands en hinum kommúnísku ráðamönnum fannst réttara að besta lið landsins kæmi frá höfuðborginni.
Yfirmönnum Dynamo Dresden var tilkynnt að leikmenn þeirra yrðu færðir til Berlínar og myndu skipa þar nýtt lið. Ekki dugði að malda í móinn því sá sem stóð að baki þessari ákvörðun var maður að nafni Erich Mielke og nákvæmlega enginn í Austur-Þýskalandi vildi kalla reiði hans yfir sig. Erich Mielke var nefnilega yfirmaður öryggislögreglunnar illræmdu, STASI.
Berliner FC Dynamo var stofnað í ársbyrjun 1966 og heiðursforseti félagsins var enginn annar en sjálfur Erich Mielke. Union Berlin höfðu nú eignast afar öflugan andstæðing í höfuðborginni. Mielke gerði sér grein fyrir að knattspyrna höfðaði til almúgans og taldi að það yrði jákvætt ef sigursælasta lið landsins hefði tengingu við þá stofnun sem stæði vörð um öryggi ríkisins. Engu var til sparað, Dynamo fékk bestu leikmennina og bestu æfingaaðstæður. Leikmenn áttu að vera alþýðuhetjur og félagið skyldi bera hróður kommúnismans út fyrir landsteinana.
Þetta þýddi að félagið mátti ekki tapa fyrir öðrum liðum í deildinni. Dómarar þorðu ekki að dæma gegn liðinu, þeim var annaðhvort mútað eða hótað. Leikmenn voru nær aldrei dæmdir rangstæðir, leikmenn annarra liða gátu átt von á heimsókn frá lögreglunni ef þeir tækluðu leikmenn Dynamo og ekkert lið í deildinni fékk eins oft víti og aukaspyrnur dæmdar sér í vil. Efnilegir leikmenn annarra liða voru umsvifalaust fluttir til Dynamo Berlin. Erich Mielke mætti á alla leiki og hélt veglegar veislur til heiðurs leikmönnum. Niðurstaðan varð sú að Dynamo Berlin varð langbesta lið Austur-Þýskalands og um leið hataðasta lið landsins. Þeir voru STASI-liðið, lið leyniþjónustunnar sem fólk fyrirleit og óttaðist.
En hvaðan kom þá Union Berlin? Die Eisernen er gæluheiti þeirra á þýsku og mætti kannski þýða sem „járnkarlarnir“. Union Berlin er hreinræktað verkamannalið með tengingu við málmiðnaðinn. Í fyrstu léku þeir í bláum búningum sem þóttu minna á samfestinga þá sem málmiðnaðarmenn klæddust. Auk þessa varð Union Berlin nú uppáhaldslið þeirra sem þoldu ekki STASI og kommúnistastjórnina. Að sama skapi var Dynamo Berlin lið þeirra sem studdu kommúnismann og, oftar en ekki, þeirra sem höfðu það betur en almúginn í þessu alræðisríki. Dynamo Berlin var uppáhaldslið ráðamanna og fjölskyldna þeirra. Oft varð heitt í kolunum er þessi lið mættust.
Það getur þó orðið bið á því að Union Berlin og BFC Dynamo mætist því allt breyttist er Þýskaland sameinaðist. Erich Mielke var handtekinn, varpað í fangelsi og STASI heyrði sögunni til. Góðir leikmenn frá Austur-Þýskalandi eins og t.d. Thomas Doll og Falko Götz gengu til liðs við félög í vestri. BFC Dynamo var skyndilega orðið smálið en þó ennþá hatað og fyrirlitið. Sameiningin var heldur ekki auðveld fyrir Union Berlin, fjármagn var af skornum skammti en það var þessi gífurlegi stuðningur og ást á liðinu sem bjargaði þeim.
Árið 2004 rambaði liðið á barmi gjaldþrots. Aðdáendur gripu þá til þess ráðs að gefa blóð en fyrir það fékkst smá fé. Þessi herferð var kölluð Bluten für Union, fólk gaf bókstaflega blóð sitt fyrir félagið. Þessi herferð vakti athygli og aðdáun og félaginu tókst að forða sér frá gjaldþroti. Nokkrum árum seinna blasti við annað vandamál. Leikvangur félagsins og æfingasvæðið þörfnuðust endurnýjunar en fjármagn vantaði.
Aðdáendur, margir þeirra tré - og húsasmiðir, fjölmenntu þá á svæðið þúsundum saman og tóku til við að smíða og byggja. Allir gáfu vinnu sína. Union Berlin er nú komið í deild með þeim bestu en BFC Dynamo kúldrast í neðri deildum og reynir að losna við sína svörtu fortíð. Það hefur ekki gengið sem skyldi því þótt félagið sé ekki lengur táknmynd fyrir hið sósíalíska fyrirmyndarríki þá hefur það nú laðað að sér nýnasista og annan óþjóðalýð.