,,Hann var bara svo sjarmerandi og umhyggjusamur“ sagði dönsk kona um unga Ísraelann sem sagðist vera vopna- og demantasali, fyrrverandi orrustuflugmaður, og milljarðamæringur. Hvorki hún, né aðrar konur sem ungi maðurinn heillaði, grunaði hann um græsku í upphafi en svo kom önnur hlið í ljós.
Maðurinn sem um ræðir heitir Shimon Yehuda Hayut. Hann er 29 ára gamall og ólst upp í bænum Bnei Brak, skammt frá Tel Aviv. Í bænum, sem er ein helsta miðstöð strangtrúaðra gyðinga, ríkir mikil fátækt. Faðir Shimon var rabbíni (gyðingaprestur) en ekki einn þekktasti demantakaupmaður Ísraels, demantakóngur eins og Shiman hélt síðar fram. Móðir Shiman sagði, í viðtali við dagblað í Tel Aviv, að fjölskyldan hefði misst öll tengsl við Shiman þegar hann var 18 ára og ,,síðan höfum ekkert um hann vitað og höfum ekki hugmynd um hvar hann er.“
Flýði frá Ísrael
Árið 2011 var Shimon Hayut handtekinn í Ísrael. Hann hafði þá falsað ávísanir, orðið uppvís að þjófnuðum og margs konar svindli. Hann var látinn laus, gegn tryggingu, en þegar málið kom fyrir dómstóla í mars 2012 var Shimon Hayut flúinn úr landi en ísraelska lögreglan gaf út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum. Ekki er nákvæmlega vitað hvert leið Shimon lá eftir flóttann frá Ísrael en í febrúar árið 2015 var hann í Bangkok í Tælandi. Þar varð á vegi hans finnsk kona, sem finnskir fjölmiðlar kalla Lenu H, en það er ekki hennar rétta nafn. Lena H var í fríi í Tælandi og kynntist þar þessum huggulega unga manni (hennar eigin orð) sem kvaðst heita Mordechai Tapiro en væri kallaður Simon. Hann sagðist vera fyrrverandi orrustuflugmaður, hefði orðið að hætta eftir slys, en stæði nú í umfangsmiklum vopnaviðskiptum, sem hann eðli málsins gæti ekki talað mikið um, en gæfu mjög vel í aðra hönd. Vel fór á með þeim Lene H og manninum sem kvaðst kallaður Simon og eftir að Lena H kom aftur heim til Finnlands fór Simon fljótlega á eftir henni. Nokkrum mánuðum eftir komuna þangað lenti Simon í vanda og bað vinkonu sína Lenu H um aðstoð.
Lokaða kortið í Tælandi
Vandinn sem Simon var lentur í var sá, að hans sögn, að einhver svindlari í Tælandi hefði ,,afritað“ greiðslukort hans og þess vegna hefði því verið lokað. Umrætt kort var að hans sögn svokallað Centurion kort, útgefið af American Express. Centurion kortin eru einungis boðin viðskiptavinum sem hafa mikið umleikis og Simon var í þeim hópi. Athafnamaður. Þessi Centurion kort, sagði Simon, að væri einungis hægt að fá útgefin og afhent í London en hann þyrfti jafnframt að skreppa til Bangkok til að koma þessu öllu heim og saman. En vegna þess að kortið væri lokað, sagði hann Lenu H, þyrfti hann að treysta á að hún gæti lánað honum peninga meðan hann væri að ,,redda“málunum. Þau Lena H og Simon höfðu nú búið saman í um það bil hálft ár, hún var ófrísk og þau höfðu rætt um giftingu.
En Simon hafði fleiri járn í eldinum, hann hafði komist í samband við tvær aðrar finnskar konur, þeim hafði hann kynnst á Tinder samskiptavefnum og lýst fyrir þeim umsvifum sínum. Meðal annars væri hann eigandi að næturklúbbum og íbúðum í London og víðar. En hann væri reyndar í vandræðum vegna áðurnefnds greiðslukorts sem hafði verið lokað í Bangkok. Simon réð konurnar í vinnu og þær trúðu, í upphafi öllu sem hann sagði. Líka sögunni um lokaða greiðslukortið. Þessar tvær konur voru vel stæðar og tilbúnar að hlaupa undir bagga og leyfðu Simon að nota greiðslukort sín til að halda rekstrinum gangandi.
Önnur þessara kvenna hafði hinsvegar grunað Simon um græsku eftir að kortafyrirtækið American Express hafði haft samband við konuna og sagt henni að reynt hefði verið að nota kort hennar til að leigja einkaþotu. Konan lét þá loka kortinu og hafði samband við lögreglu. Síðar kom í ljós að Simon hafði á tímabilinu mars til september 2015 fengið peninga sem jafngilda 35 milljónum íslenskra króna frá finnsku konunum þremur. Þegar finnska lögreglan ætlaði að handtaka Simon var hann hinsvegar á leið til Brasilíu, að eigin sögn í viðskiptaerindum.
Handtekinn
Simon var í Brasilíu í nokkra daga en þegar hann kom til baka til Finnlands var hann handtekinn. Hann var þá með tvö fölsuð vegabréf, þrjú fölsuð ökuskírteini, tvo flugmiða og fimm greiðslukort. Við yfirheyrslur sagði Simon að hann hefði fengið peningana að láni hjá konunum þrem og hann ætlaði að borga þeim síðar. Í réttinum var honum lýst sem ,,hugmyndaríkum“. Simon var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir svindl og skjalafals.
Flýði í annað sinn frá Ísrael
Í mars 2017 vísuðu finnsk yfirvöld Simon, eins og hann kallaði sig þótt hann héti réttu nafni Shimon, úr landi og var hann þá fluttur til Ísraels. Þar mætti hann fyrir rétt, vegna gömlu svindlákærunnar en var látinn laus gegn tryggingu. Nokkru síðar, þegar hann átti að mæta fyrir réttinn, var hann horfinn, hafði breytt um nafn og hét nú Simon Leviev. Eftirnafnið er hið sama og eins þekktasta og ríkasta demantasala í Ísrael enda átti Simon eftir að láta sum ,,fórnarlömb“ sín vita að hann væri sonur demantakóngsins, ,,ég er prinsinn“.
Einhverra hluta vegna liðu fimmtán mánuðir frá því að Simon mætti ekki fyrir réttinn þangað til yfirvöld í Ísrael lýstu opinberlega eftir honum. Í millitíðinni hafði Simon notið lífsins, með aðstoð greiðslukorta kvenna sem hann kynntist. Norskir og danskir fjölmiðlar hafa reynt að rekja slóð hans síðastliðin ár, norska dagblaðið VG (Verdens gang) og Politiken í Danmörku hafa birt löng viðtöl við konur sem hafa komist í kynni við Simon. Þær segjast reynslunni ríkari en hinsvegar orðið að punga út umtalsverðum fjármunum vegna þessara kynna. Norska dagblaðið VG birti í febrúar síðastliðnum langt viðtal við norska konu Cecile Fjellhøy.
Hún kynntist Simon á Tinder árið 2018 og í viðtalinu sagði hún farir sínar ekki sléttar vegna sambandsins við hann. Hún hafði heimilað honum aðgang að kreditkort sínu, ,,af því að hann var í vandræðum“. Simon kom til Noregs til að hitta Cecile en svo fékk hann ,,símtal“ þar sem honum var sagt að einhverjir menn sætu um hann og honum væri ráðlegast fara strax frá Ósló. Hann dreif sig samstundis til Kaupmannahafnar til að forðast ,,umsátursmennina“ eins og hann komst að orði að sögn Cecile. Síðar komst hún að því að þetta með umsátursmennina var hreinn uppspuni, hann hafði farið til Kaupmannahafnar til að hitta aðra konu sem hann var í tygjum við. Þau nutu lífsins í borginni við sundið, allt borgað með kreditkorti hinnar norsku Cecile. Meðal annars hafði Simon keypt vönduð sólgleraugu í verslun á Strikinu, þau kostuðu 43.975.- danskar krónur, samsvarar 874 þúsund íslenskum krónum. ,,En hann fékk annað par í kaupbæti“ sagði gleraugnasalinn við blaðamann VG.
Cecile Fjellhøy sagði blaðamanni VG að ,,samband“ sitt við Simon hefði staðið í 52 daga og það hefði kostað sig jafngildi 22 milljóna íslenskra króna.
Eftir að VG birti viðtalið við Cecile Fjellhøy hringdi dönsk kona til dagblaðsins Politiken og greindi frá sambandi sínu við Simon. Fljótlega eftir að þau kynntust lenti Simon, eins og oft áður, í ,,vandræðum með kortið“. Sambandinu lauk haustið 2015, þá grunaði dönsku konuna að eitthvað væri gruggugt við þennan mann sem hún hafði fallið fyrir. Þetta var um sama leyti og hann var handtekinn í Finnlandi.
Handtekinn í Aþenu
Fyrir viku síðan var Simon handtekinn á flugvellinum í Aþenu. Hann var þá á leið frá Grikklandi en framvísaði fölsku vegabréfi á flugvellinum. Fyrir það var hann dæmdur í 50 daga fangelsi en var jafnframt tilkynnt að hann gæti losnað gegn tryggingu. Hvort honum hafi tekist að öngla saman fyrir tryggingunni er ekki vitað né hvort fréttir af handtökunni hafi borist til eyrna ísraelskra lögregluyfirvalda.