Þótt tyrknesku hjónin þekki líklega ekki íslenska málsháttinn „þolinmæði þrautir vinnur allar“ á hann sannarlega við um deilu þeirra við dönsk stjórnvöld. Deilu sem staðið hefur frá árinu 2009 en Dómstóll Evrópusambandsins felldi dóm í máli þeirra fyrir nokkrum dögum. Margir danskir stjórmálamenn eru mjög ósátt við dómsniðurstöðuna og segja hana vekja spurningar um sjálfstæði ESB ríkja.
Hjónin sem um ræðir giftust árið 1983 og bjuggu þá í Tyrklandi. Á næstu árum eignuðust þau fjögur börn. Árið 1998 skildu þau og maðurinn flutti til Danmerkur þar sem hann fékk tímabundið dvalarleyfi. Í ársbyrjun 1999 giftist hann þýskri konu, búsettri í Danmörku.
Árið 2006 sótti maðurinn um, og fékk, ótímabundið dvalarleyfi í Danmörku. Það leyfi var veitt á grundvelli reglna Evrópusambandsins um hjónabönd fólks frá löndum ESB og löndum utan þess Það dvalarleyfi gilti jafnframt fyrir börnin fjögur sem voru þá komin til föður síns.
Giftist aftur fyrri konunni
Í júní árið 2009 skildu tyrkneski maðurinn og þýska konan. Tveimur mánuðum síðar giftist maðurinn, í annað sinn, móður barnanna fjögurra, hún var þá búsett í Tyrklandi. Nokkrum dögum eftir giftinguna sótti konan um dvalarleyfi í Danmörku. Það gerði hún á grundvelli reglna ESB um fjölskyldusameingu.
Fékk synjun
Í lok maí árið 2010, fékk konan svar frá dönskum yfirvöldum. Þau synjuðu beiðni hennar um að fá að flytja til mannsins og barnanna í Danmörku. Rökin voru þau að „fjölskyldutengsl“ hennar við Tyrkland væru sterkari en við Danmörku. Konan sendi samdægurs formlega kvörtun vegna þessarar ákvörðunar danskra yfirvalda. Fjórum mánuðum síðar, 30. september 2010, vísaði Útlendingaráðuneytið (eins og það hét þá) kvörtuninni frá. Ráðuneytið mat það svo að tengsl fjölskyldunnar væru sterkari við Tyrkland en Danmörku og hvatti konuna til að búa þar áfram og fá tvö yngstu börnin til sín. Ráðuneytið benti á að árið 2000 hefðu í Danmörku tekið gildi lög um fjölskyldutengsl umsækjenda um landvistarleyfi, með síðari tíma viðbótum. Samkvæmt þeim ætti konan ekki rétt á að flytja til Danmerkur.
Nú lá málið niðri í tæp fjögur ár, eða þangað til í mars árið 2014. Þá óskaði konan eftir því að umsókn hennar um að sameinast fjölskyldu sinni í Danmörku yrði endurskoðuð. Hún höfðaði mál fyrir Bæjarrétti í Álaborg í þessu skyni. Dómstóllinn í Álaborg vísaði málinu til Bæjarréttarins í Kaupmannahöfn sem kvað upp þann úrskurð að kona ætti ekki rétt á að fá landvistarleyfi. Bæjarréttur er lægsta dómstig af þremur í Danmörku og konan kærði úrskurðinn til Eystri – landsréttar sem staðfesti úrskurð Bæjarréttarins.
Dómnum snúið við
Nú leið tíminn. Tyrkneska konan og danskur lögmaður hennar höfðu hinsvegar ekki lagt árar í bát og í mars á þessu ári kom málið til kasta Evrópudómstólsins (dómstóls ESB) í Lúxemborg. Þar gengu hlutirnir hratt fyrir sig og síðastliðinn miðvikudag (10. júlí) kvað dómstóllinn upp þann úrskurð að niðurstöður danskra dómstóla um synjun á beiðni konunnar stæðust ekki. Dómurinn byggir niðurstöðu sína á samkomulagi frá árinu 1980 milli Danmerkur og Tyrklands. Samkomulagið var viðbót við eldri samning milli landanna, frá sjöunda áratugnum. Í viðbótinni segir að hvorki Danmörk né Tyrklandi geti gert breytingar á upphaflega samkomulaginu milli landanna varðandi fjölskyldusameiningu. Síðari tíma einhliða viðbætur danskra stjórnvalda (strangari reglur) stæðust sem sé ekki.
Sprengja í vegkantinum eða borðsprengja
Danskir stjórnmálamenn höfðu lengi vitað að „fjölskyldusameiningarmálið“ kæmi til kasta Evrópudómstólsins. Seint á síðasta ári sagði Mattias Tesfaye, sem þá var talsmaður jafnaðarmanna (sem voru í stjórnarandstöðu) í málefnum útlendinga að ef allt færi á versta veg (eins og hann orðaði það) gæti dómsniðurstaðan orðið til þess að endurskoða yrði þúsundir ákvarðana danskra stjórnvalda. Þetta er mál sem stjórnvöld verða að búa sig undir. Nú er Mattias Tesfaye orðinn ráðherra útlendingamála í stjórn Mette Frederiksen. Í viðtali við Danska sjónvarpið, DR, eftir að dómurinn féll, sagði ráðherrann að það væri aldrei gott að fá á sig dóm. Nú yrði að fara vandlega yfir dóminn og það sem kæmi fram í honum til að átta sig á hvaða afleiðingar niðurstaðan gæti haft. Hvort þetta væri stór bomba í vegkantinum eða bara pínulítil borðsprengja.
Ráðherrann lagði áherslu á að Danir myndu áfram halda sig við ströng skilyrði varðandi landvistarleyfi útlendinga.
Hver á að ráða?
Morten Messerschmidt, þingmaður Danska Þjóðarflokksins og talsmaður hans í málefnum Evrópusambandsins, sagði að ráðherra útlendingamála yrði strax að bregðast við og útskýra áætlanir stjórnarinnar fyrir þingheimi.
„Það veldur áhyggjum að Evrópudómstóllinn skuli geta blandað sér í stefnu Dana í málefnum útlendinga. Við höfum árum saman fengið að vita að það væri danska þingið, Folketinget, sem tæki allar ákvarðanir í slíkum málum en það gildir greinilega ekki. Við það getum við ekki unað“ sagði Morten Messerschmidt.
Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen, sagði að stefnu Dana í málefnum útlendinga ætti Danska þingið að ákveða og hún væri mjög ósátt við dóminn. Hún sagðist vænta þess að ríkisstjórnin myndi innan skamms upplýsa hvaða áhrif niðurstaða dómstólsins hefði, einkum varðandi fjölda þeirra Tyrkja sem hugsanlega væru í sömu stöðu og tyrknesku hjónin.
Hjónin hafa ekki tjáð sig um dóminn og danskur lögmaður konunnar hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla.