Margar þjóðir standa á næstu áratugum frammi fyrir miklum vanda vegna hækkandi sjávarborðs. Danir þurfa að eyða milljörðum til að koma í veg fyrir að sjórinn leggi undir sig stór landsvæði.
Umræður um hlýnun andrúmsloftsins og sá mikli vandi sem steðjar að mannkyni hafa verið fyrirferðarmiklar á allra síðustu árum. Inn í þá umræðu blandast margt: bráðnun jökla og plastið, sem enginn veit hvernig á að losna við og er ógnun við lífrík sjávarins, ber kannski hæst í þeirri umræðu en áhyggjuefnin eru mörg. Þar á meðal hækkandi sjávarborð.
Síendurtekin flóð
Danmörk er eitt þeirra landa sem liggja mjög lágt og þar hafa svokölluð stormflóð, valdið miklu tjóni á síðustu árum. Mestu flóðin verða þegar saman fer stórstreymi (mesti munur flóðs og fjöru), lágur loftþrýstingur og rok. Mörg dæmi eru um slík stormflóð í Danmörku en á síðustu áratugum hefur þeim fjölgað til muna og mest á allra síðustu árum. 3. desember 1999 gerði mikinn storm sunnarlega á vesturströnd Jótlands. Þar hækkaði sjávarborð um rúma fimm metra og olli miklu tjóni. Þá var lágsjávað en í stórstreymi hefði sjávarborðið hækkað um að minnsta kosti sex metra.
Í byrjun nóvember 2006 olli slíkt flóð miklu tjóni, um það bil 4 þúsund hús skemmdust mikið og mörg til viðbótar skemmdust minna. Þá hafði verið hvöss vestanátt dögum saman sem þrýsti sjónum suður Kattegat og alla leið í Eystrasalt. Þegar storminn lægði gekk sjórinn til baka og olli flóði á svæðunum fyrir sunnan Litla- og Stórabelti (badekarseffekt).
Stíf norðanátt hefur sömuleiðis iðulega orðið til að þrýsta sjó inn í Hróarskeldufjörðinn og valdið miklu tjóni. Danska víkingaskipasafnið er fyrir botni fjarðarins og nær í sjó fram. Þar hefur margoft orðið tjón af völdum sjávar og margir óttast að sjór geti valdið skemmdum á víkingaskipunum sem safnið hýsir. Hugmyndir voru uppi um að flytja safnið, jafnvel rífa húsið. Nýjustu tíðindi í þeim efnum eru að til standi að flytja víkingaskipin í dómkirkjuna í Hróarskeldu, skammt frá safninu. Hús safnsins yrði hinsvegar áfram á sínum stað og hluti starfseminnar sömuleiðis.
Kostnaðarsamar varnir
Í ársbyrjun 2017 gerði mikið flóð á Kaupmannahafnarsvæðinu og við Køgebugt, tjónið var metið á 150 milljónir danskra króna ( 2.8 milljarða íslenska). Í framhaldi af því ákvað stjórn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að fá danska verktakafyrirtækið Cowi til að meta þörf og kostnað við flóðavarnir í Kaupmannahöfn og nágrannasveitarfélögunum. Þetta var í fyrsta skipti í Danmörku sem reynt hefur verið að meta slíkt.
Sérfræðingar Cowi kynntu skýrsluna, sem er mjög ítarleg, fyrir nokkrum dögum. Jeppe Sikker Jensen, einn sérfræðinganna, sagði að gengið hefði verið út frá því að þeir varnargarðar sem þegar eru komnir, til dæmis á Amager og sunnan við Kaupmannahöfn, yrðu styrktir og jafnframt gerðir margir nýir. Hann sagði að við gerð flóðavarna væru ýmis sjónarmið sem taka þyrfti tillit til. Því hærri og öflugari sem varnargarðarnir væru, því öruggari væru þeir. Kostnaðurinn yrði jafnframt meiri og „háir varnargarðar eru sjaldnast augnayndi“.
Jeppe Sikker Jensen sagði að miðað við hundrað ára reiknilíkanið (stórflóð einu sinni á öld) væri gert ráð fyrir að kostnaðurinn við gerð varnargarða yrði um það bil 22 milljarðar danskra króna (417 milljarðar íslenskir). Sú tala væri mjög varlega áætluð og miðað við þær breytingar sem eiga sér stað þessi árin (eins og komist var að orði) yrði kostnaðurinn líklega miklu meiri.
Hann nefndi líka hvað myndi gerast ef miðað væri við stærsta flóð á þúsund árum. Þá færi suðurhluti Kaupmannahafnarsvæðisins á kaf, flugvöllurinn á Kastrup myndi lokast, lestakerfið, þar með talið metrokerfið, myndi lamast, Eyrarsundsbrúin myndi lokast. „Ef þetta gerist erum við að tala um stjarnfræðilegar upphæðir,“ sagði Jeppe Sikker Jensen.
Ekki ráð nema í tíma sé tekið
Sérfræðingar sem danskir fjölmiðlar hafa talað við, eftir að skýrslan var birt, fagna útkomu hennar. Thomas Lykke Andersen lektor í byggingafræðum við Álaborgarháskóla og sérfróður um flóðavarnir sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að oft væri reyndin sú að farið væri að hugsa um fyrirbyggjandi aðgerðir eftir að skaðinn væri skeður en betra væri að byrgja brunninn fyrirfram.
Hver á að borga?
Flóðavarnir kosta mikla peninga og það gerir tjón af völdum flóða sömuleiðis. Allir sem eru með danska brunatryggingu borga tiltekna upphæð, sem ekki er há, í svokallaðan þjóðarflóðasjóð. Yfir sjóðnum er stjórn, sem ákveður hvort tilteknar aðstæður kallist „stormflóð“. Ef stjórnin metur það svo getur fólk sótt um bætur.
Eftir flóðin árið 2017 ákvað bæjarstjórnin í Køge að leggja sérstakan árlegan skatt á íbúðarhúsnæði á tilteknum svæðum „ flóðahættusvæðum“ eins og það er kallað. Skatturinn er þúsund krónur danskar per íbúð (tæplega 19 þúsund íslenskar). Þótt slíkt gjald hrökkvi ekki til ef til kastanna kemur er það þó að mati bæjarstjórnarinnar í Køge til marks um meiri ábyrgð þeirra sem búa á slíkum svæðum.
Lea Wemelin, umhverfisráðherra Dana, segir að þetta flóðavarnamál (eins og hún orðaði það) sé svo stórt að allir verði að taka höndum saman og vatnið virði ekki bæjarmörk.
Þótt þessi umfjöllun sé einskorðuð við Kaupmannahöfn og nágrenni takmarkast flóðahættan ekki við dönsku höfuðborgina. Hættan nær líka til annarra svæða í Danmörku og margra annarra landa. Í Evrópu er Holland það land sem lengst er komið í flóðavörnum, enda talsverður hluti landsins undir sjávarmáli.