Margt harla líkt með Donald Trump og Boris Johnson
Utanríkisráðherra Íslands gaf lítið fyrir samanburð á Donald Trump og Boris Johnson á dögunum. Kjarninn kannaði málið og komst að því að meira er líkt með þeim en ráðherrann hélt fram.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur oft verið líkt við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Þeir eru báðir kallaðir popúlistar, tala um að gera lönd sín „frábær á ný“ og boða báðir herta innflytjendalöggjöf. Þeir teljast óhefðbundnir stjórnmálamenn sem ná auðveldlega að fanga athygli fjölmiðla og ná oft að stýra umræðu í farveg sem þeim hentar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gaf þó lítið fyrir samanburð á Donald Trump og Boris Johnson í viðtali í Bítinu á Bylgjunni á dögunum. Hann sagði þá vera ólíka, Boris Johnson væri til að mynda ekki popúlisti.
Guðlaugur Þór sagðist ekki skilja hvernig fólk gæti stillt Trump og Johnson upp saman. Hann sagði að ólíku væri saman að jafna, þegar litið er á þessa tvo stjórnmálamenn. „Trump hefur aldrei verið í stjórnmálum og hefur stutt annan stjórnmálaflokk en hann er í núna mjög lengi og kemur allt annars staðar að. Hann er með aðra nálgun en maður sér hjá hefðbundnum stjórnmálamönnum,“ sagði utanríkisráðherra.
Boris og Trump taldir popúlistar
Ólafur Þ. Harðarson og Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessorar í stjórnmálafræði, voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1 fimmtudaginn síðastliðinn. „Þeir eru náttúrulega á margan hátt svipaðir, Trump og Johnson,“ sagði Ólafur.
Þeir hafa báðir sterk einkenni popúlisma eða lýðhyggju sem hefur verið meira áberandi í stjórnmálum, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu síðustu árin.
„Þeir hafa báðir sterk einkenni popúlisma eða lýðhyggju sem hefur verið meira áberandi í stjórnmálum, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu síðustu árin. Hins vegar eru þeir náttúrulega báðir kjaftforir og þeim gæti náttúrulega lent saman. Málefnalega, þá standa þeir að mörgu leyti nálægt hvor öðrum,“ bætti hann við.
Eiríkur tók undir að þeir ættu margt sameiginlegt en þó væru einnig ólíkindi með þeim. „Boris er úr efstu lögum bresks samfélags, var blaðamaður, farsæll borgarstjóri og þingmaður til langs tíma á meðan Trump er utanaðkomandi og ekki vel að máli farinn á neinn hátt,“ sagði Eiríkur. „Boris er sjarmerandi ruddi, Trump er bara ruddi,“ sagði þá Ólafur.
Boða báðir harða innflytjendastefnu
Guðlaugur Þór sagði í fyrrnefndu viðtali Trump og Boris vera ólíka. „Trump hefur til dæmis lagt áherslu á herðingu í innflytjendamálum – þú finnur ekki slíkt hjá Boris Johnson – og það sem menn skilgreina oft sem popúlisma.“
Boris Johnson ávarpaði þingið í fyrsta sinn sem forsætisráðherra fimmtudaginn síðastliðinn og sagðist vilja gera Bretland að besta landi í heimi, sem minnir mjög á orðræðu Trump um að gera Bandaríkin frábær á ný. Boris boðaði einnig fjölgun lögreglumanna um 20 þúsund og að refsingar glæpamanna yrðu hertar. Jafnframt vildi hann koma á nýju kerfi fyrir innflytjendur að ástralskri fyrirmynd.
Ástralía hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir stefnu sína í innflytjendamálum. Stefnan er svo harkaleg að fjölmörg mannréttindasamtök telja að hún brjóti í bága við alþjóðalög. Flóttamenn sem koma til Ástralíu á bátum er komið fyrir á eyjum rétt fyrir utan meginland Ástralíu. Tvær eyjur eru sérstaklega alræmdar, það eru eyjurnar Manus og Nauru. Trump, líkt og Boris, er mikill aðdáandi stefnu Ástralíu í innflytjendamálum og segir að mikið sé hægt að læra af henni.
These flyers depict Australia’s policy on Illegal Immigration. Much can be learned! pic.twitter.com/QgGU0gyjRS
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 27, 2019
Fjöldi flóttamanna hefur framið sjálfsmorð á eyjunum og margir skaðað sjálfa sig, að því er kemur fram í frétt the New York Times. Áströlsk yfirvöld hafa lýst því yfir að flóttamenn sem reyna að koma til Ástralíu á bátum muni aldrei fá leyfi til að búa í álfunni. BBC rannsakaði aðstæður barna á Nauru og lýsir „neyðarástandi hvað varðar geðheilsu“ þeirra. Fjölmörg börn neyðast til að dvelja á eyjunni í mörg ár.
Prýðisfólk í nýju ríkisstjórninni
Guðlaugur Þór greindi frá því að honum hefði fundist mjög gott að starfa með Johnson þegar hann gegndi stöðu utanríkisráðherra. Hann sagði að Johnson kynni að slá á létta strengi. „Hér fer ekki á milli mála að hér er mjög hæfur stjórnmálamaður á ferðinni með ákveðna sýn á hvert hann vill fara. Hann er óhefðbundinn að mörgu leyti og það held ég að sé í fínu lagi,“ sagði hann. Jafnframt bætti Guðlaugur Þór því við að mikið væri af prýðisfólki í nýju ríkisstjórn Johnson sem hann hefði einnig kynnst í gegnum tíðina.
Ríkisstjórn Borisar skipa afar umdeildir ráðherrar. Priti Patel, innanríkisráðherra, sagðist til að mynda í beinni sjónvarpsútsendingu vera hlynnt dauðarefsingu. Hún er dyggur stuðningsmaður Borisar Johnson og sagði að hann væri eina manneskjan sem gæti bjargað Brexit og Íhaldsflokknum. Patel lét af störfum í ráðuneyti May í kjölfar óheimila funda með ísraelskum stjórnmálamönnum. Áður var hún útsendari þrýstihóps fyrir tóbaks- og áfengisfyrirtæki.
Dominic Raab, nýskipaður utanríkis- og ríkjasambandsráðherra Bretlands, kom sér í klandur eftir að í ljós kom að hann vissi ekki fyrr en nýlega af tilvist Calais flóttamannabúðanna. Raab er einnig harður Brexit-liði. Elizabeth Truss er nýr alþjóðaviðskiptaráðherra og dyggur stuðningsmaður Borisar og dyggur Brexit-liði líkt og Raab.
Fyrrnefndir ráðherrar, Raab, Patel og Truss eru meðal höfunda Britannia Unchained, safn harðlínu hægri stjórnmálaritgerða sem birtust árið 2012. Í safninu birtist aðdáun þeirra af Thatcherisma og kallað var eftir að skattar væru lækkaðir og að réttindi verkafólks í Bretlandi væru takmörkuð til að auka samkeppnishæfni Bretlands.
Jafnframt er Amber Rudd nýr atvinnu-, eftirlauna- og jafnréttisráðherra. Áður var hún innanríkisráðherra en sagði af sér í kjölfar Windrush hneykslisins þar sem breskum ríkisborgurum var vísað úr landi fyrir rangar sakir. Nóg verður að gera hjá Stephen Barclay sem er skipaður sérstakur ráðherra um útgöngu úr Evrópusambandinu, enda hefur Boris gefið lýst því yfir að Bretland muni hafa samið um útgöngu úr Evrópusambandinu 31. október.
Boris hefur einnig skipað Michael Gove sem nýjan ráðherra Lancaster hertogadæmisins. Hann er umdeildur vegna kókaínneyslu sinnar á fyrri árum. Hann var áður menntamálaráðherra og barðist hart gegn stéttarfélögum kennara. Gavin Williamson, menntamálaráðherra, var áður varnarmálaráðherra en lét af völdum í kjölfar þess að hafa lekið upplýsingum um varnarmál Bretlands. Skipað var í fleiri ráðherrastöður sem hægt er að lesa nánar um hér.