Skýrsla sem Seðlabanki Íslands vinnur um hina svokölluðu fjárfestingarleið bankans er alveg að verða tilbúin. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands mun hún þó í fyrsta lagi verða tilbúin um miðjan ágúst og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvenær hún mun koma fyrir augu almennings.
Kjarninn greindi frá því í janúar síðastliðnum að gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands ynni að gerð skýrslu um fjárfestingarleiðina sem bankinn bauð upp á árunum 2012-2015. Auk þess kemur Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, að vinnunni. Seðlabankinn er því að rannsaka sjálfan sig. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að varpa ljósi á markmið leiðarinnar og árangur hennar við að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Upplýsingar um uppruna þeirra þátttakenda sem nýttu sér leiðina verða birtar í skýrslunni eftir því „sem lög leyfa og nauðsynlegt er til að ná markmiðum skýrslunnar“.
Þá kom fram að Seðlabankinn vænti þess að skýrslan yrði gerð opinber innan fárra mánaða.
Umtalsverð gagnrýni en engin óháð rannsókn
Vorið 2017 var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Sú tillaga gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kallaði eftir umsögnum, en komst ekki lengra í þinglegri meðferð. Einn þeirra aðila sem skilaði þá umsögn var Seðlabanki Íslands. Í henni sagði að bankinn hefði „gert rækilega grein fyrir öllum þáttum áætlunarinnar um losun fjármagnshafta[...]og fjárfestingarleiðinni. Framkvæmdin gekk vel, var skipuleg og gagnsæ og upplýsingar hafa verið veittar um hana, nú síðast í ítarlegu svari við fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um fjárfestingarleið Seðlabankans sem lagt verður fram á næstu dögum.“
Það svar barst i júní 2017. Um það má lesa hér.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur áður gagnrýnt fjárfestingarleiðina opinberlega, sagt hana hafa verið ósanngjarna og falið í sér aðstöðumun milli innlendra og erlendra aðila. Í ofangreindum umræðum sagði Bjarni að ef einhverjar vísbendingar væru um að í fjárfestingarleiðinni hafi menn „verið með illa fengið fé sem ekki hafi verið talið fram á ferðinni, þá tel ég alveg augljóst að slíkt eigi að skoða og ég tel íslenskum stofnunum ekkert að vanbúnaði að fara í þau mál.“
Þagnarskylda trompar almannahagsmuni
Kjarninn hefur ítrekað farið fram á að fá upplýsingar um þá einstaklinga og lögaðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins. Seðlabanki Íslands hefur ítrekað hafnað þessari beiðni og vísað í þagnarskylduákvæði þeirra laga sem gilda um starfsemi bankans. Kjarninn kærði synjun Seðlabanka Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamála sem staðfesti synjun Seðlabankans í lok janúar síðastliðinn.
Í kæru sinni vísaði Kjarninn til þess að í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið fjallað um fjárfestingarleiðina og því meðal annars velt upp hvort hún hafi leitt til þess að hluti af fjármagni frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hefði skilað sér til Íslands með gengisafslætti. Auk þess lægi fyrir sú alvarlega staðreynd að ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun á því fé sem var fært til landsins í gegnum leiðina. Rökstuddur grunur liggi fyrir um að af hluta fjárins hafi ekki verið greiddir réttmætir skattar hérlendis. Sá grunur birtist meðal annars í því að aðilar sem nýttu sér leiðina séu til rannsóknar vegna gruns um skattaundanskot.
Þá taldi Kjarninn að færa mætti rök fyrir því að fjárfestingarleiðin brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í ljósi þess að um hafi verið að ræða stjórnvaldsaðgerð sem hafi einungis staðið til boða fólki sem átti fyrst 50 þúsund evrur í lausu fé, og síðar 25 þúsund evrur, og einungis Íslendingum sem áttu fé erlendis. Þeim hafi staðið til boða að fá virðisaukningu á fé sitt í krafti þess að eiga fé erlendis. Þegar allt ofangreint væri dregið saman liggi fyrir að almannahagsmunir leiði til þess að upplýst verði hverjum hafi staðið til boða að færa fé til landsins með þessum hætti.
Almannahagsmunirnir væru enn ríkari í ljósi þess að stjórnsýslan hefði ekki sýnt af sér mikinn vilja og nær enga getu til að sinna eftirliti sem hún ætti að sinna. Þess vegna sé afar mikilvægt að fjölmiðlar fái tækifæri til þess að vinna þá vinnu sem stjórnvöld hafa ekki unnið.
Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi þess hversu fortakslaus hin sérstaka þagnarskylda sem getið er um í lögum um Seðlabanka Íslands sé þá komi hún í veg fyrir að „slíkar upplýsingar um viðskiptamenn bankans séu gerðar aðgengilegar samkvæmt upplýsingalögum, óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Hundruð milljarða flutt til landsins
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Sú skýrsla er gerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“