Trump kemur til Danmerkur

Donald Trump forseti Bandaríkjanna kemur í opinbera heimsókn til Danmerkur 2. september. Að mati stjórnmálaskýrenda er ástæða heimsóknarinnar fyrst og fremst áhugi Bandaríkjamanna fyrir Grænlandi og Norðurskautssvæðinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt Margréti Þórhildi Danadrottningu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt Margréti Þórhildi Danadrottningu.
Auglýsing

Fyrir nokkru var ákveðið að Bandaríkjaforseti verði viðstaddur sérstaka athöfn í Póllandi 1. september, þar sem þess verður minnst að þann dag verða liðin 80 ár frá innrás Þjóðverja í landið. Á fréttamannafundi í liðinni viku var Trump spurður hvort hann hygðist heimsækja fleiri lönd í þessari ferð og svaraði því til að „kannski förum við líka til Danmerkur“. Daginn eftir staðfestu bæði Hvíta húsið og Amalienborg að heimsóknin væri ákveðin. Forsetahjónin koma til Danmerkur 2. september og dvelja í tvo daga. Danir gera greinarmun á „statsbesøg“ og „officielt besøg”, hið fyrrnefnda er heimsókn í boði þjóðhöfðingja viðkomandi lands, dæmi um síðarnefnda er þegar forsætisráðherra býður starfsbróður sínum til landsins. Heimsókn Trump hjónanna til Danmerkur er „statsbesøg”, sem sé heimsókn í boði Margrétar Þórhildar drottningar. 

Óhætt er að segja að tilkynningin um heimsókn bandarísku forsetahjónanna til Danmerkur hafi komið nokkuð á óvart. Danmörk hefur ekki oft verið viðkomustaður bandarískra forseta gegnum tíðina. Einungis þrír starfandi Bandaríkjaforsetar hafa komið til Danmerkur. Barack Obama árið 2009, George W. Bush árið 2005 og Bill Clinton árið 1997. Í heimsókn sinni flutti Clinton ræðu á Kóngsins Nýjatorgi að viðstöddum áttatíu þúsund manns og álíka mörgum dönskum fánum!  

Heppileg tímasetning fyrir Trump

Tímasetning Evrópuferðar forsetans ræðst vitaskuld af minningarathöfninni í Póllandi 1. september. Tímasetningin er jafnframt heppileg fyrir forsetann sem er, fyrir löngu, farinn að undirbúa forsetakosningarnar á næsta ári. Mánudagurinn 2. september er almennur frídagur í Bandaríkjunum (Labour day) og yfirleitt lítið fréttnæmt að gerast þar vestra. Gúrkutíð. Þess vegna er líklegt að bandarískir fjölmiðlar geri Evrópuheimsókn forsetans skil. Slík heimsókn gefur jákvæða mynd af forsetanum þótt hann hafi til þessa ekki verið ýkja hrifinn af Danmörku og Dönum, ef marka má yfirlýsingar hans, t.d um dönsku vindmyllurnar (fuglakirkjugarðar) og Margrethe Vestager framkvæmdastjóra samkeppnismála ESB. „Hún hatar Bandaríkin meira en nokkur manneskja sem ég hef hitt“ sagði forsetinn „hún vill sekta öll okkar fyrirtæki“ og vísaði þar til bandarískra fyrirtækja sem ESB vill að borgi sanngjarna og eðlilega skatta af starfsemi sinni í Evrópu. 

Auglýsing

Heimsóknin gulls ígildi fyrir danskt atvinnulíf – og Trump

Forsvarsmenn danskra framleiðslu- og útflutningsfyrirtækja hafa lýst mikilli ánægju með að forseti Bandaríkjanna skuli heimsækja Danmörku. Í fréttatilkynningu frá danska forsætisráðuneytinu var greint frá því að verslun og viðskipti landanna verða meðal þess sem rætt verður í heimsókninni. Árlega flytja dönsk fyrirtæki út vörur til Bandaríkjanna fyrir um 140 milljarða danskra króna (2400 milljarða íslenska) og hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Bandaríkin eru í þriðja sæti þeirra ríkja sem kaupa mest af Dönum, á eftir Þjóðverjum og Svíum. Samtök danska iðnaðarins telja að um 70 þúsund Danir hafi, beint og óbeint, atvinnu af útflutningi til Bandaríkjanna. Samkvæmt tölum frá dönsku hagstofunni eru nú í Bandaríkjunum starfandi um það bil 700 dótturfyrirtæki danskra fyrirtækja og danska utanríkisráðuneytið telur að samtals starfi tæplega 130 þúsund manns vestanhafs hjá dönskum fyrirtækjum og dótturfyrirtækjum þeirra. Í ljósi þessara talna er ekki undarlegt að framkvæmdastjóri samtaka danskra atvinnurekenda hafi sagt að heimsókn Trump væri „gulls ígildi“. Dagskrá heimsóknarinnar hefur ekki enn verið birt en danskir fjölmiðlar segja augljóst að það sé fyrst og fremst eitt mál sem forseti Bandaríkjanna hefur áhuga á að ræða og það mál sé meginástæða þess að hann heimsæki Danmörku.

Grænland og Norðurskautið

Þegar Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna var Norðurskautið, og málefni því tengd, ekki ofarlega á blaði forsetans og ríkisstjórnar hans. Það hefur skyndilega breyst. Sem dæmi má nefna ræðu bandaríska utanríkisráðherrans Mike Pompeo á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Finnlandi, í maí síðastliðnum. Hann fór í ræðu sinni hörðum orðum um Rússa og Kínverja. „Við höfum séð að Rússar skirrast ekki við að beita valdi og yfirgangi“ sagði ráðherrann og vísaði þar til átakanna í Austur – Úkraínu og innlimun Krímskagans árið 2014. „Við vitum líka, í ljósi sögunnar, að Kínverjar svífast einskis til að ná sínu fram“ sagði Mike Pompeo.

Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna landa sem liggja á eða að Norðurslóðum, heimshlutanum í kringum Norðurheimskautið. Aðildarríki Norðurskautsráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. 

Við hátíðleg tækifæri hafa ráðherrar talað um að Norðurskautið eigi að vera svæði sem sátt og samlyndi ríki um, burtséð frá deilum og átökum annars staðar. Brestir eru nú komnir í þessa „glansmynd“, en Rússar hafa að undanförnu aukið til muna hernaðarumsvif sín á Norðurslóðum. Í áðurnefndri ræðu sinni sagði bandaríski utanríkisráðherrann að Norðurskautssvæðið verði pólitískt átakasvæði. Bandarískt herskip siglir nú um Norðurhöf og yfirmenn i bandaríska hernum leggja nú æ oftar leið sína til Grænlands til að fylgjast með, og fræðast um, starfsemi danska hersins.

Í skýrslu sem unnin var á vegum bandaríska hersins árið 2014 kom fram að hlýnun andrúmsloftsins muni hafa, og hafi reyndar þegar, mikil áhrif á Norðurslóðum. Til verði ný siglingaleið, svonefnd Norðvesturleið, sem muni hafa miklar breytingar í för með sér, og mikla skipaumferð. 

Samningurinn frá 1951 mikilvægur 

Með varnarsamningi sem undirritaður var 27. apríl 1951, og viðbót frá árinu 2003, fengu Bandaríkjamenn afnot af tilteknum svæðum á Grænlandi. Það leyfi stendur enn þótt umsvifin hafi minnkað síðan í Kalda Stríðinu og eru nú nær eingöngu bundin við Thule herstöðina á Norðvestur- Grænlandi. Á síðasta ári tilkynnti yfirstjórn bandaríska varnarmálaráðuneytisins að herinn hefði áhuga á að endurbæta og byggja upp flugvelli, og tilheyrandi aðstöðu, á Grænlandi. 

Ráðamenn í Pentagon hrukku illilega við þegar af því bárust fréttir að kínverskir bankar vildu gjarna lána Grænlendingum peninga til að byggja nýja flugstöð og flugvöll. James Mattis þáverandi varnarmálaráðherra hafði strax samband við Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra Danmerku í því skyni að koma í veg fyrir að lánið yrði þegið. Grænlenskir stjórnmálamenn hafa margsinnis hvatt danska stjórnmálamenn til að krefjast þess að Bandaríkjamenn „taki til eftir sig“ á stöðum þar sem herinn hafði aðstöðu í Kalda stríðinu. 

Eins og fyrr var nefnt verða Grænland og Norðurskautið það sem hæst ber í viðræðum Donald Trump við danska stjórnmálamenn. Greint hefur verið frá því að meðal þeirra sem forsetinn hitti og ræði við verði formaður grænlensku landstjórnarinnar og lögmaður Færeyja. Þetta segja danskir stjórnmálaskýrendur sýna áhersluatriði forsetans og fylgdarliðs hans í Danmerkurheimsókninni.

Veit lítið um Danmörku og Dani

Danskir fjölmiðlar greindu frá því að árið 2016, hafi Trump verið að tala í símann og í miðju samtali hafi hann sagt við Vanessu þáverandi tengdadóttur sína „ég er að tala við danska kónginn“. Á línunni var danski forsætisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen. Skömmu eftir að Trump tók við forsetaembættinu sendi Hvíta húsið frá sér skýrslu þar sem fullyrt var að lífskjör almennings í Bandaríkjunum væru umtalsvert betri en almennings í Danmörku og jafnvel fátæklingar í Bandaríkjunum hefðu það betra en „meðaldaninn“. Danskir stjórnmálamenn voru fljótir að hrekja þessar yfirlýsingar.  

Dagblaðið Berlingske nefndi nokkur atriði sem kannski muni koma forseta Bandaríkjanna á óvart. Í bandarískum stórborgum, og víðar, eru flugvellir gjarna nefndir eftir forsetum landsins. Þannig er það  eins og flestir vita, ekki í Kaupmannahöfn, flugvöllurinn einfaldlega kenndur við bæjarhlutann Kastrup. Spyrji forsetinn um minnismerki um danska stjórnmálamenn verður líka fátt um svör, slík verk eru vandfundin.  Í Danmörku er heldur enginn hermannakirkjugarður, sambærilegur við Arlington.

Hvort hinn óútreiknanlegi gestur (orðalag Berlingske) velti þessu, sem hér var nefnt, eitthvað fyrir sér er ómögulegt að segja til um, en  danskir fjölmiðlar og stjórnmálaskýrendur eru sammála um að heimsókn Donald Trump til Danmerkur verði „viðburður ársins“. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar