Samkvæmt þýskri rannsókn yrðu afleiðingar af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu slæmar fyrir bæði Bretland og öll hin ríki EES. Tapið á Íslandi gæti numið um 0,3 prósentum af landsframleiðslu, eða um 22 þúsund krónum á mann á hverju ári.
Þýska hugveitan Bertelsmann Stiftung gaf út skýrslu fyrr á árinu þar sem efnahagsleg áhrif útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (e. Brexit) voru metin víðs vegar um heiminn. Þar mátu skýrsluhöfundar annars vegar hugsanleg áhrif útgöngu án samnings og hins vegar áhrifin ef Bretland myndi ná að semja við Evrópusambandið.
750 þúsund manns gætu flúið land
Samkvæmt greininni gæti útganga án samnings leitt til um 57 milljarða evra taps í Bretlandi á hverju ári, sem þýðir að landsframleiðslan þar myndi skreppa saman um 2,49 prósent og að hver Breti yrði af um 120 þúsund krónum árlega. Slíkt tap myndi leiða til stórútflutnings frá Bretlandi að mati höfundanna, en þeir telja að allt að um 750 þúsund manns flytji frá landinu í leit að betri atvinnutækifærum.
Ef samningur næðist milli Bretlands og Evrópusambandsins áður en aðskilnaður á sér stað er búist við mildari áhrifum, en samkvæmt líkani höfundanna gæti verið að „einungis“ 400 þúsund flytji burt þaðan í því tilviki.
Írland, Holland og Belgía verst úti
Neikvæðu áhrifanna mun hins vegar ekki einungis gæta á Bretlandi, en búist er við því að öll lönd innan EES muni tapa á útgöngunni. Stærð samdráttarins virðist vera í beinu sambandi við fjarlægð ríkjanna frá Bretlandi, auk þess sem áhrifin eru neikvæðari meðal landa með hærri framleiðni.
Mest yrðu áhrifin á Írlandi, en Holland og Belgía myndu einnig finna fyrir talsverðum samdrætti. Vegna nálægðar við Bretland og háa framleiðni væru Ísland og Noregur einnig í tiltölulega mikilli hættu ef samningi hefði ekki verið náð milli ríkjanna.
Önnur lönd græða
Þó eru nokkur lönd sem búist er við að muni græða á Brexit, sér í lagi ef útgangan verður án samnings. Í þessu tilviki nefna greinarhöfundar sérstaklega Brasilíu, Indland og Ísrael, en þeir spá því að löndin fái meiri viðskiptatækifæri vegna aukinnar eftirspurnar og innflutnings vinnuafls. Einnig er búist við að önur iðnríki og nýmarkaðsríki utan Evrópu græði á samningslausri útgöngu, þótt samanlagður ábati þeirra sé mun minni en tap Evrópuríkja vegna hennar.
Á mynd hér að ofan má sjá áhrif Brexit án samnings í Evrópulöndum, mæld í árlegri breytingu í landsframleiðslu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Samdrátturinn yrði mestur í Norður-og Vestur Evrópu, en minni í Austur-Evrópulöndum auk Sviss og Austurríkis. Búist er svo við að Tyrkland og Rússland muni græða lítillega á útgöngunni, en hugsanlegur ábati landanna er þó agnarsmár.
22 þúsund krónur á mann á Íslandi
Samkvæmt höfundunum myndi útganga Bretlands úr ESB án samnings við Ísland leiða til 0,3% samdráttar í landsframleiðslu, sem jafngildir rúmum 22 þúsundum króna á mann á hverju ári. Ef samningur næst meta skýrsluhöfundar það svo að áhrifin yrðu um helmingi minni, með 0,18% samdrátt í landsframleiðslu og um 13 þúsunda króna tapi á mann á hverju ári.
Samkvæmt skýrsluhöfundunum mæti helst rekja tapið til aukinnar óhagkvæmni í framleiðslu og minna vöruúrvali vegna hærri tolla milli landanna. Með hærri tollum í alþjóðaviðskiptum yrðu framleiðsluþættir ekki fullnýttir og fjölbreytni myndi minnka þar sem ekki yrði lengur hagkvæmt að kaupa og selja ákveðnar vörur milli landanna.
Versta sviðsmyndin ólíkleg
Þrátt fyrir að allt stefni í útgöngu Bretlands án samnings við Evrópusambandið er ólíklegt að Íslendingar muni finna fyrir jafnmiklu höggi og skýrsluhöfundar gera ráð fyrir. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu hefur íslenska ríkisstjórnin unnið hörðum höndum að því að tryggja kjarnahagsmuni á lykilsviðum, meðal annars með samningum um áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, vöruviðskipti og flug.