Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur verið iðin við að segja sig úr alþjóðlegum samningum og hótað frekari úrsögn, fari önnur ríki ekki að skilmálum hennar. Nýriftur samningur við Rússland er talinn skapa vettvang fyrir vopnakapphlaup, sem nú þegar virðist vera í startholunum, en óvíst er hvort nýr vopnasamningur náist sem myndi halda hergagnaframleiðslu í skefjum.
INF samningurinn
Síðasti föstudagur markaði formleg endalok vopnasamnings milli Rússlands og Bandaríkjanna um bann á framleiðslu meðaldrægra kjarnorkuflauga. Samkomulagið, sem í daglegu tali er kallað INF, var sett á árið 1987 og var mikilvægur þáttur í endalokum Kalda stríðsins á níunda áratugnum.
Hins vegar hefur samningurinn verið í uppnámi á síðustu árum. Bandaríkjastjórn ásakaði ríkisstjórn Rússlands um að hafa gengið á bak orða sinna með æfingaskotum árið 2014. Samkvæmt talsmönnum Bandaríkjahers hafa Rússar framleitt tegund kjarnorkuflaugar sem sérfræðingar telja að geti verið skotið upp í um 2 þúsund kílómetra fjarlægð frá áfangastað. Rússar neituðu ásökunum og svöruðu með því að ásaka Bandaríkjamenn um að hafa gerst sjálfir brotlegir á samningnum.
Hvorugt ríkið hefur birt sannanir um brot á samningnum opinberlega, en NATO tók undir með Bandaríkjamönnum á aðalfundi þeirra í fyrrasumar. Þar sögðu talsmenn hernaðarbandalagsins meint brot Rússa vera „sennilegasta túlkunin“ á þau gögn sem þeir bjuggu yfir.
Í október í fyrra hótaði svo Donald Trump forseti Bandaríkjanna því að rifta samningnum við Rússland vegna meintra brota, svari ríkisstjórn Rússlands ekki kröfum þeirra. Rússland stóð fast í sinni afstöðu og svo fór að Trump tilkynnti endanlega að samkomulaginu yrði rift með hálfs árs fyrirvara síðasta febrúar.
Ekki fyrir hernaðarskuldbindingar
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem sitjandi Bandaríkjaforseti gerist kröfuharðari í hernaðarmálum á alþjóðavettvangi. Á leiðtogafundi NATO í fyrra lét forsetinn í veðri vaka að Bandaríkin segðu sig úr hernaðarbandalaginu ef hin aðildarríkin myndu ekki auka fjárveitingar sínar í það. Einnig lét hann rifta svokölluðum kjarnorku-samningi við Íran í maí í fyrra, en samningnum var ætlað að stemma stigu við kjarnorkuframleiðslu landsins.
Eftir nýliðin samningsslit milli Rússlands og Bandaríkjanna er aðeins einn vopnasamningur í gildi milli landanna, sem ber heitið New Start. Sá samningur kveður á um hámarksfjölda kjarnorkuodda í hvoru landinu, en samkvæmt blaðamanni Al Jazeera er útlit fyrir að að honum ljúki án endurnýjunar árið 2021.
Vopnakapphlaup í uppsiglingu?
Sérfræðingar í hernaðarmálum segja riftun hernaðarsamninga Bandaríkjanna við Rússland auka líkurnar á alþjóðlegu vopnakapphlaupi. Bandaríkjaforseti virðist einnig hafa haft vopnakapphlaup í huga, en í rökstuðningi sínum fyrir ætlaða riftun INF samningsins í fyrra sagði hann það vera ósanngjarnt að Kína væri ekki hluti af hernaðarsamkomulaginu. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur fylgst með vopnaframleiðslu þar í landi, en samkvæmt ársgamalli skýrslu þaðan hafa umsvif Kínverska hersins vaxið ört á undanförnum árum. Meðal annars hafa Kínverjar bætt við eldflaugum í vopnabúr sitt, sem myndu gera Bandaríkjunum erfitt fyrir ef til stríðs kæmi milli landanna.
„Það er ástæða fyrir því að Kína og aðrir séu með þær, og það er ástæða fyrir því að Rússland sé að þróa þær,“ segir kjarnorkusérfræðingur um eldflaugarnar í viðtali við vefmiðilinn Vox.
Alþjóðlegt vopnakapphlaup virðist því vera í startholunum. Til að mynda sagðist Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vilja flytja meðaldrægar eldflaugar til Austur-Asíu núna um helgina, rétt eftir að samningnum við Rússland hafði verið rift. Aðspurður hvort vopnakapphlaup sé í vændum, svaraði utanríkisráðherra Rússlands því að valið væri í höndum Bandaríkjanna. Hins vegar bætti hann við að ef til vopnakapphlaups kæmi myndu Rússar aldrei tapa.
Hins vegar, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, er ekki víst hvort yfirvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi vilji taka þátt í vopnakapphlaupi. Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að hann vilji gera nýjan vopnasamning og fá Kína að samningaborðinu. Rússnesk yfirvöld hafa einnig lýst því yfir að þau vilja halda núgildandi samninga í heiðri, þrátt fyrir ásakanir um meint samningsbrot á INF.
Annað mál gildir um Kína, en talsmaður utanríkisráðuneytisins þar í landi gaf út yfirlýsingu í síðustu viku þess efnis að „Kína muni á engan hátt samþykkja fjölhliða INF samning“. Samkvæmt stjórnmálafræðingnum Chris Miller útskýrist tregða Kínverja við að ná samningi um stöðvun á framleiðslu slíkra vopna á því að vopnabúrið þeirra er ekki jafnstórt og í Bandaríkjunum eða Rússlandi.
Riftun hernaðarsamninga gæti því leitt til vopnakapphlaups milli þriggja valdamestu þjóða heimsins, fari svo að einhver þeirra vilji ekki ná nýju samkomulagi innan skamms. Þó er líklegt að Bandaríkin og Rússland vilji leita annarra leiða, en óvíst er með Kína, sem gæti viljað auka framleiðslu sína á eldflaugum þar til viðkvæmu jafnvægi er náð við hin tvö ríkin.