Alls hefur skráðum í þjóðkirkjuna fækkað um 632 manns á tímabilinu frá 1. desember á síðasta ári til 1. ágúst síðastliðins. Nú eru 232.040 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Þjóðskrár.
Þessar tölur ríma við þróun síðustu ára en í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra landsmanna sem skráðir eru í þjóðkirkjuna mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt.
Mest fjölgar í kaþólska söfnuðinum
Á sama tímabili fjölgaði í kaþólska söfnuðinum um 437 manns eða um 3,1 prósent og í Siðmennt um 320 manns eða um 11,4 prósent. Aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu eða um 196 manns sem er 4,4 prósent fjölgun. Alls voru 25.512 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga þann 1. ágúst síðastliðinn og fjölgaði þeim um 749 frá 1. desember 2018 eða um 3 prósent.
Þessi aukning í kaþólska söfnuðinum hefur átt sér stað samhliða mikilli fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi, en stærstu hóparnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem staða Kaþólsku kirkjunnar er sterk. Þar munar mest um Pólverja, sem eru fjölmennasta hóp erlendra ríkisborgara sem búsettur er á Íslandi.
Þjóðkirkjan fékk viðbótarframlag
Tilveruréttur þjóðkirkjunnar er tryggður í stjórnarskrá landsins. Þar segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda.
Í krafti þessa fær þjóðkirkja umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna.
Fram kom í fréttum í desember síðastliðnum að í fjáraukalögum vegna ársins 2018 hefði fjárheimild til trúmála verið hækkuð um 820 milljónir króna. Þessi hækkun skýrðist annars vegar af því að framlag til þjóðkirkjunnar hefði verið aukið um 857 milljónir króna og hins vegar hefðu framlög vegna sóknargjalda lækkað um 37 milljónir króna vegna endurmats á fjölda einstaklinga í skráðum trúfélögum.
Þetta framlag kom til viðbótar því fjármagni sem þegar hafði verið ráðstafað til þjóðkirkjunnar á fjárlögum.
Samtals var áætlað að þessi upphæð yrði 2.830 milljónir króna árið 2018. Til viðbótar fékk þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni var. Samtals kostaði rekstur þjóðkirkjunnar því tæplega 4,6 milljarða króna árið 2018 áður en að viðbótarframlagið var samþykkt. Það hækkaði ríkisframlagið um tæp 19 prósent.
Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.
Kirkjujarðarsamkomulag milli ríkis og kirkju
Framlagið til þjóðkirkjunnar er vegna hins svokallaða kirkjujarðarsamkomulags milli ríkis og kirkju sem gert var 10. janúar 1997. Í því var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti mundi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi o.fl.
Til viðbótar skyldi ríkið greiða árlegt framlag í Kristnisjóð sem svaraði til 15 fastra árslauna presta. Ef það fækkaði eða fjölgaði í þjóðkirkjunni skyldi framlag ríkisins lækka eða hækka eftir tilteknum viðmiðum en þó aldrei niður fyrir tiltekinn fjölda starfa. Þá skyldu laun og launatengd gjöld fyrrgreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar vera samkvæmt úrskurðum kjararáðs.
Viðræður um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins
Í frumvarpi til fjáraukalaga sagði að í kjölfar bankahrunsins hefði orðið forsendubrestur í ríkisfjármálum og til að bregðast við því væri óhjákvæmilegt að gera umtalsverðar aðhaldskröfur í rekstrarútgjöldum allra ríkisstofnana og rekstraraðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði.
„Í tilfelli þjóðkirkjunnar var um sambærilegar aðhaldskröfur að ræða og gerðar voru í öðrum almennum rekstri hjá ríkinu. Í fjáraukalögum 2015, 2016 og 2017 voru samskonar tillögur samþykktar undir þeim formerkjum að viðræður myndu þegar hefjast við kirkjuna um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins sem fæli þá í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju, þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs, með markmið m.a. um verulega einföldun þessara samskipta.“