Aðstæður Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, eru vægast sagt snúnar um þessar mundir. Ekki einvörðungu vill Boris nýjan samning um útgöngu Breta frá Evrópusambandinu fyrir 31. október næstkomandi, heldur hefur einnig verið kallað eftir sjálfstæði Norður-Írlands sem og Skotlands. Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, segir að með Brexit hafi skapast nýr grundvöllur fyrir atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.
Orðrómur um að Boris muni kalla eftir skyndikosningum á næstu misserum hafa hlotið hljómgrunn undanfarið eftir að breska stjórnarráðið neitaði ekki fyrir slíkt. Þar með gæti Boris styrkt stöðu Íhaldsflokksins innan breska þingsins og komið Brexit samningi í gegn, ef um samning verður að ræða.
Þrátefli vegna Norður-Írlands
Landamæri Írlands og Norður-Írlands eru afar viðkvæm á stjórnmálalegan og diplómatískan hátt, auk þess sem öryggismál landamæranna eru vandmeðfarin, ekki einungis fyrir Írland heldur einnig Bretland. Þess vegna vilja hvorki Bretland né Evrópusambandið að landamæravörslu komið á eða innviðir, til að mynda hlið eða veggur, á milli ríkjanna verði byggðir.
Þaðan kemur hugmyndin að hinu umdeilda „backstop“ eða bakstopp, til sögunnar. Bakstoppið á að viðhalda óhindruðu flæði fólks á milli Írlands og Norður-Írlands. Það myndi þó þýða að Bretland þyrfti að viðhalda afar nánu sambandi við ESB um ókominn tíma. ESB hefur jafnframt krafist þess að Brexit samningur innihaldi klausu um slíkt stopp.
Bakstoppið er talið nauðsynlegt þar sem Bretland og Írland eru í tollabandalagi ESB og hluti af sameiginlegum markaði ESB. Þar af leiðandi þurfa vörur ekki að vera til skoðunar á landamærum Írlands og Bretlands hjá tollvörðum, auk þess sem sömu staðlar eru á öllum vörum, til að mynda heilbrigðisstaðlar.
Bæði ESB og breska ríkisstjórnin vilja nýjan verslunarsamning. Boris Johnson vill þó fara úr bæði tollabandalagi og sameiginlegum markaði ESB, sem gerir það nærri ómögulegt að koma í veg fyrir hörð landamæri á milli ríkjanna.
Bakstoppinu væri komið á til að koma í veg fyrir slík hörð landamæri. Það þýðir að Norður-Írland þyrfti að fara eftir einhverjum reglum sameiginlegs markaðs ESB og tollabandalagsins. Slíkt bakstopp myndi líka skapa annað vandamál, það er að segja að þá þyrfti að skoða vörur og staðla þeirra þegar þær færu frá Norður-Írlandi til Bretlands. Það gæti í raun valdið því að allt Bretland þyrfti að vera innan sameiginlega markaðs ESB um ókominn tíma.
Johnson mótfallinn bakstoppinu
Í nóvember 2018 samdi fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, við ESB um Brexit samning sem innihélt bakstoppið. Fyrir það var hún harðlega gagnrýnd og sögðu nokkrir af ráðherrum hennar af sér í kjölfarið. Þeir sögðust óttast að bakstoppið myndi festa Bretland í tollabandalagi ESB um ókominn tíma sem kæmi í veg fyrir að landið gæti gert sína eigin fríverslunarsamninga. Aðrir vildu að samningurinn hefði tímamörk eða að Bretland gæti sagt upp samningnum einhliða.
Johnson vill ekki að samningur um Brexit hafi ákvæði um bakstopp. Hann hefur staðhæft að engri sýnilegri landamæravörslu eða hindrunum verði komið á milli Írlands og Norður-Írlands. Hann hefur enn fremur verið afar gagnrýndur fyrir að neita að setjast niður til að ræða Brexit samninginn við leiðtoga Evrópusambandsins nema að sambandið gefi eftir kröfur sínar um bakstoppið.
Írska ríkisstjórnin hefur þó lagt áherslu á að bakstoppið sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hörð landamæri. Hún hefur einnig sagt að bakstoppið gæti verið tímabundið á meðan betra samkomulag næðist um framtíðarsamband Bretlands og Írlands.
Írska ríkisstjórnin telur bakstoppið einnig vera nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hörð landamæri við Norður-Írland, verði ekki búið að koma á nýjum samningi með tollamál þegar Bretland yfirgefur Evrópusambandið. Írski forsætisráðherrann, Leo Varadkar, segist til að mynda vera mótfallinn Brexit samningi án bakstoppsins.
Fjölmargir viðskipta- og landbúnaðarhópar, auk ýmissa stjórnmálamanna í Norður-Írlandi hafa lýst yfir stuðningi sínum við bakstoppið, þar sem þeir telja það vernda viðskipti á milli Írlands og Norður-Írlands.
Segir Evrópu um að kenna ef illa fer
Boris Johnson segir að hvort Bretland gangi úr Evrópusambandinu með eða án samnings velti á Evrópusambandinu. „Þau vita að neðri deild breska þingsins hefur synjað bakstoppinu þrisvar, það er engin leið að koma því í gegnum þingið, við verðum að taka bakstoppið úr samningnum, við getum ekki haldið núverandi samningi til streitu,“ sagði Boris Johnson í lok júlí.
Hann sagði jafnframt að ef ESB vildi ekki gera málamiðlanir þá yrði sambandið að undirbúa sig undir Brexit án samning.
Vilja sameinað Írland
Þingmenn Sinn Féin, annar tveggja stærstu þingflokka Írlands, stungið upp á því fyrr í sumar að efnt yrði til nýrra kosninga um sameiningu Írlands. Sinn Féin er vinstri-þjóðernisflokkur sem berst fyrir sameiningu Írlands og Norður-Írlands og er starfræktur bæði á Írlandi og í Norður-Írlandi.
Samkvæmt Good Friday samningnum er hægt að boða til kosninga um að Norður-Írland sameinist Írlandi, en einungis ef innanríkisráðherra Bretlands telji aðstæðurnar til þess vera réttar. Margir telja að slíkt myndi kynda undir óróa og gæti jafnvel leitt til ofbeldis.
Enginn samningur möguleiki
Svo virðist sem Boris sé að undirbúa sig undir Brexit án samnings. Boris hefur haldið því fram að Brexit muni eiga sér stað 31. október, sama við hvaða aðstæður það yrði, þá með eða án samnings.
Diplómatar Evrópusambandsins í Brussel segja margir hverjir að Boris ætli sér ekki að semja á ný um Brexit samning. Því eru sífellt meiri líkur á því að samningur muni ekki nást um Brexit fyrir 31. október, að því er kemur fram í frétt the Guardian.
Ef Brexit mun eiga sér stað án samnings þá gæti Boris kallað eftir kosningum í nóvember næstkomandi. Ýmsir þingmenn Íhaldsflokksins hafa lýst því yfir að þeir muni kjósa með stjórnarandstöðunni ef enginn samningur náist um Brexit. Jafnframt hefur Sinn Féin krafist þess að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um sameiningu Írlands náist enginn Brexit samningur.
Ef ekki verður samið um Brexit fyrir 31. október mun Bretland ganga úr ESB án samnings. Þá myndu lög ESB hætta að gilda um Bretland samstundis og undirbýr breska ríkisstjórnin sig nú undir slíkar aðstæður.
Mikill kostnaður gæti hlotist af engum samningi þar sem matvörur gætu hækkað í verði, auk þess sem aukin fjárhagsleg byrði yrði fyrir bresk stjórnvöld að koma á aukinni tollvörslu. Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hefur einnig látið þau orð falla að líkur séu á að enginn samningur myndi nást, en leggur áherslu að ekki sé hægt að semja á ný um nýjan samning við Evrópusambandið en þann sem fyrir liggi.Kosið verði á ný um sjálfstæði Skotlands
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, segir í viðtali við the Guardian að þegar Brexit muni eiga sér stað þá sé kominn nýr grundvöllur fyrir nýrri atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Hún vill enn fremur að kosið verði um sjálfstæði Skotlands fyrir árið 2021.
Hún segir jafnframt að ef enginn samningur muni nást um útgöngu Bretlands úr ESB beri Jeremy Corbyn jafn mikla ábyrgð og Theresa May og Boris Johnson á aðstæðunum.
Eftir fund Sturgeon með Boris í síðustu viku sagði Sturgeon að hún hefði ekki verið „gjörsamlega í skýjunum“ vegna heimsóknar forsætisráðherrans. „Hann talar um Brexit, og sérstaklega um Brexit án samnings, líkt og það sé ekkert til að hafa áhyggjur af, og að allir sem segi að svo sé eru bara neikvæðir og niðurdrepandi,“ sagði Sturgeon.
Sturgeon hefur jafnframt sagt að slíkar aðstæður séu afar „hættulegar.“ Hún bendir á að mikil óvissa sé um samgöngur, ferjur, hvort matarskortur muni eiga sér stað eða hvort skortur verði á lyfjum.
Nýjar kosningar til þings mögulegar
Starfsmannastjóri Borisar Johnson hefur frestað fríi allra starfsmanna fyrir 31. október sem hefur kynnt enn fremur undir þann orðróm að von sé á skyndikosningum í bráð eða beint eftir 31. október. Breska stjórnarráðið hefur ekki neitað orðróminum.
Slíkar kosningar gætu verið Íhaldsflokknum hagstæðar þar sem flokkurinn gæti mögulega aukið fylgi sitt og fengi stærri meirihluta innan þingsins. Það gæti auðveldað Boris að koma samning í gegnum þingið, ef um samning sé að ræða á annað borð.
Bandarískir stjórnmálamenn óánægðir
Bandarískir stjórnmálamenn hafa lýst því yfir að komið verði í veg fyrir nýjan fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og Bretlands eftir útgöngu Breta úr ESB verði landamæri Írlands og Norður-Írlands ekki opin.
Margir bandarískir þingmenn hafa lýst því yfir að þeir myndu kjósa gegn fríverslunarsamningi á milli Bretlands og Bandaríkjanna ef komið væri á landamærum, þar á meðal Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Boris Johnson segist munu virða Good Friday samninginn, sem kveður á um að engin hörð landamæri séu á milli Írlands og Norður-Írlands.
Samdráttur í efnahagi Bretlands
Hagkerfi Bretlands dróst saman um 0,2 prósent frá apríl til júní sem er í fyrsta sinn í sex og hálft ár sem slíkt gerist fyrir breskan efnahag. Hagfræðingar hafa bent á að óvissan af völdum Brexit og auknum líkum á að samningar náist ekki hafi ýtt undir líkur á að hagkerfið dragist saman.
Óvissan í kringum Brexit hefur haft afar slæm áhrif á iðnað í Bretlandi. Til að mynda hefur fjárfesting í bílaiðnaði minnkað um 90 milljón pund. Honda og Ford hafa bæði lýst yfir því að þau muni loka verksmiðjum sínum í Bretlandi. Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands, segir þó að Bretar þurfi ekki að óttast kreppu.