„Umfangsmikil og ítrekuð viðskipti stærsta hluthafa HB Granda við félagið eru óheppileg að okkar mati. Slíkt er fordæmalaust á innlendum hlutabréfamarkaði.“ Þetta segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs.
Þau viðskipti sem Davíð á við eru fyrirætluð kaup HB Granda á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna. Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi HB Granda og forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Gildi tilkynnti fyrr í dag að sjóðurinn muni greiða atkvæði gegn kaupunum á hluthafafundi sem fram fer á fimmtudag. Í tilkynningu vegna þess kom meðal annars fram að viðskipti við tengda aðila yrðu að vera hafin yfir allan vafa. Þær fyrirætlanir sem fyrir liggi séu ekki trúverðugar og sjóðurinn telji að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði.
Upphaflegt kaupverð ekki opinbert
Umrædd sölufélög voru keyptar af Brim, sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, af Icelandic Group í lok árs 2015. Engar upplýsingar eru um hver verðmiðinn á þeim var í ársreikningum Icelandic Group frá þeim tíma né í ársreikningi þáverandi eiganda félagsins, Framtakssjóðs Íslands.
Aðrir hluthafar í HB Granda sem Kjarninn hefur rætt við segjast ekki hafa upplýsingar um hvert kaupverðið var á sölufélögunum þegar þau voru keypt né frekari skýringar á því hvað í starfsemi sölufélaganna útskýri þann háa verðmiða sem sé á þeim. Þá taka viðmælendur Kjarnans undir gagnrýni Gildis um að afgreiðsla stjórnarinnar á kaupunum hafi átt sér afar skamman aðdraganda.
Kaupin á sölufélögunum er ekki eina tillagan sem liggur fyrir hluthafafundinum á morgun. Þar verður einnig lagt til að nafni HB Granda verði breytt í Brim, sem er það nafn sem Útgerðarfélag Reykjavíkur bar áður en að það keypti ráðandi hlut í HB Granda.
Ekki einu viðskiptin við við stærsta eigandann
Kaupin á sölufélögunum verða ekki einu viðskiptin sem átt hafa sér stað milli Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda, verði þau að veruleika. Seint á síðasta ári samþykkti framhaldsaðalfundur kaup á Ögurvík, sem gerir út skipið Vigra RE, á 12,3 milljarða króna.
Gildi hafði einnig efasemdir um þau kaup og óskaði eftir því að fyrirtækjasvið Kviku banka tæki saman minnisblað um kaupin, áður en þau yrðu borin upp til samþykkis á hluthafafundi. Það var gert.
Minnisblaðið studdist við gögn frá stjórnendum HB Granda, og sagði kaupin, upp á 12,3 milljarða króna, geta skilað HB Granda umtalsverðum ávinningi.
Kjarninn greindi frá umsögn greinanda Capacent um kaupin í nóvember 2018. Þar kom fram að greinandanum hafi liðið „eins á laugardagsmorgni eftir kvöld á Kaffibarnum“ þegar rýnt væri í forsendur kaupverðs HB Granda á Ögurvík. „Svarið við alheiminum og tilgangi lífsins er 42,“ sagði í greiningunni, og þar vitnað til þess að hægt sé að fá út hin ýmsu verð á Ögurvík, þegar það er verið að greina kaup HB Granda á félaginu.
Töluna 42 í samhengi við svarið við spurningunni um tilgang lífsins, má rekja til bókarinnar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams.