Í nýjum drögum að frumvarpi laga um leigubifreiðar er lagt til að hámarksfjöldi atvinnuleyfa sé afnuminn, farveitum á borð við Uber og Lyft verði auðveldað innkomu á íslenskan markað og að leigubifreiðastjórar þurfi ekki að hafa vinnuskyldu af bifreiðum sínum. Jafnframt verði leigubifreiðastjórar ekki skyldaðir til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Tillögurnar eru afar umdeildar og ekki allir á einu máli um ágæti þeirra.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur kynnt í annað sinn til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar og bárust alls 9 umsagnir. Í drögunum stendur að markmiðið með frumvarpinu sé að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu.
Viðskiptaráð Íslands, Samtök Atvinnulífsins og Neytendastofa fagna breytingunum. SA og VÍ hvetja jafnframt til þess að breytingarnar taki gildi sem fyrst. Hins vegar eru Hreyfill, Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsið Frami afar gagnrýnin á tillögurnar og vilja lengri tíma til aðlögunar.
Mögulegt brot á EES samningnum
Tilefni frumvarpsins er að í janúar 2017 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, íslenskum stjórnvöldum að stofnunin hefði hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. ESA hefur nú gefið út rökstutt álit varðandi lög um leigubifreiðar í Noregi en löggjöf þar í landi svipar um margt til þeirrar íslensku. Slíkt álit er undanfari dómsmáls fyrir EFTA dómstólnum, bregðist aðildarríki ekki við álitinu.
Þá segir að ráða mátti af samskiptum ráðuneytisins við ESA að stofnunin teldi líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti.
Fjölmargar breytingar lagðar til
Meðal breytinga sem lagðar eru til í drögunum eru afnám takmörkunarsvæða og fjöldatakmarkana atvinnuleyfa, afnám skyldu leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og breyttar kröfur til þeirra sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að til verði tvær tegundir leyfa sem tengjast akstri leigubifreiða. Annars vegar atvinnuleyfi, sem mun veita réttindi til að aka leigubifreið í eigu rekstrarleyfishafa í atvinnuskyni, og hins vegar rekstrarleyfi, sem mun veita réttindi til að reka eina leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa eða skráð undir umráðum hans og aka henni í atvinnuskyni.
Gerðar eru breytingar á skilyrðum til að mega reka leigubifreiðastöð og rekstrarleyfishöfum heimilað að framselja hluta af skyldum sínum með samningi til leigubifreiðastöðvar. Einnig er gert ráð fyrir því að heimilt verði að aka án þess að gjaldmælir sé til staðar í bifreið í þeim tilfellum þegar samið hefur verið fyrir fram um heildarverð fyrir ekna ferð.
Fjöldi atvinnuleyfa ekki aukist frá árinu 1995
Í nýju frumvarpsdrögunum kemur fram að á Íslandi sé fjöldi atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðar takmarkaður á stórum svæðum, jafnframt sem atvinnuleyfum hafi ekki fjölgað að ráði síðan 1995 þegar stjórnvöld settu þak á fjölda þeirra á tilteknum svæðum. Það ár voru atvinnuleyfi á höfuðborgarsvæðinu 570. Fjöldinn var svo lengi 560 en haustið 2017 var atvinnuleyfum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað í 580.
Núgildandi löggjöf geri enn fremur ráð fyrir að úthlutun atvinnuleyfa sé á grundvelli starfsreynslu og að við mat á starfsreynslu reiknist starfsreynsla innan takmörkunarsvæða hærri en starfsreynsla sem aflað er utan takmörkunarsvæða. Þá sé ekki tekið tillit til reynslu af leigubifreiðaakstri utan Íslands. Þannig sé erlendum bílstjórum eða umsækjendum gert mjög erfitt um vik að öðlast viðeigandi akstursreynslu miðað við íslenska bílstjóra.
„Telja verður með vísan til framangreinds að umræddar fjöldatakmarkanir og skilyrði fyrir úthlutun þeirra séu til þess fallnar að hindra aðgengi ríkisborgara annarra aðildarríkja að leigubifreiðamarkaðnum og þar með frá stofnsetningu á Íslandi,“ segir í drögunum.
Þurfi ekki að vera tengdir leigubifreiðastöð
Starfshópurinn lagði til að fjöldatakmarkanir á takmörkunarsvæðum yrði afnumið sem og afnám skyldunnar að bílstjórar séu tengdir við leigubifreiðastöð til að selja þjónustu.
„Með fjöldatakmörkunum leigubifreiðaleyfa á takmörkunarsvæðum ráða önnur sjónarmið framboði en eftirspurn og má leiða að því líkur að bæði magn og verð þjónustu sé annað en það væri fengi eftirspurnin að ráða. Breytingar á regluverki um leigubifreiðar í frjálslyndisátt eru því líklegar til að vera til hagsbóta fyrir samfélagið allt,“ segir í drögunum. Því er talið að með afnámi fjöldatakmarkana leigubifreiðaleyfa muni aðgangur að leigubifreiðum aukast.
Þá er bent á að Samkeppniseftirlitið hafi leitað eftir úrbótum í regluverki er varða leigubifreiðar. Til að mynda sé fákeppni á markaðnum og aðgangshindranir á markaði leigubifreiðastöðva fyrir þjónustu við leigubifreiðastjóra. Slaka þurfi á fjöldatakmörkunum á höfuðborgarsvæðinu og falla frá kröfu um að akstur leigubifreiðar sé aðalatvinna þeirra sem hann stunda.
„Almennt taldi eftirlitið að ýmis efnisákvæði í núverandi laga- og reglugerðaumhverfi væru til þess fallin að skerða frelsi í atvinnurekstri og hindra virka samkeppni í viðskiptum. Regluverkið takmarkaði aðgang nýrra keppinauta að markaðnum og drægi úr hvata fyrirtækjanna til að keppa á grundvelli gæða þjónustunnar.“
Liðka fyrir Uber og Lyft
Í drögunum er bent á að neytendur hafi kallað eftir því að opnað verði fyrir þjónustu farveita hér á landi á borð við þá sem þekkist erlendis frá fyrirtækjum eins og Uber eða Lyft.
„Niðurstaða starfshópsins var sú að í raun væri ekkert því til fyrirstöðu að heimila farveitum að bjóða þjónustu sína hér á landi. Hins vegar væri nauðsynlegt að líta til þess að í ljósi nýlegs dóms Evrópudómstólsins bæri að líta á farveitur sem farþegaflutningafyritæki,“ segir í drögunum.
Þá þurfi farveitur að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvum verður gert að fullnægja og með sama hætti þurfi bílstjórar farveitna að uppfylla skilyrði leigubifreiðalöggjafarinnar, hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi.
Leigubifreiðastjórar munu enn fremur ekki þurfa að starfa í tiltekinn dagafjölda við leigubifreiðaakstur til að eiga möguleika á að fá úthlutað atvinnuleyfi sem og fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum verða afnumdar.
Hreyfill með 60 prósent markaðshlutdeild
Starfshópurinn leggur einnig til að leigubifreiðastjórar skuli hafa náð 21 árs aldri og hafi haft ökuréttindi í B-flokki í minnst þrjú ár. „Skilyrðið þykir til þess fallið að líklegra sé að umsækjandi hafi náð nauðsynlegum þroska til að gegna starfanum og að hann hafi reynslu af akstri bifreiða.“
Í drögunum segir að nokkrar leigubifreiðastöðvar séu reknar á Íslandi, flestar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þær eru Hreyfill, Borgarbílastöðin, BSR, Taxi Service, Astöðin og City Taxi Reykjavík. Þá starfi tvær stöðvar utan þessara svæða, það er að segja Bifreiðastöð Oddeyrar og Leigubílar Suðurlands. Þá segir jafnframt að Hreyfill sé langstærsta stöðin með yfir 60 prósent markaðshlutdeild á höfuðborgarsvæðinu BSR komi þar á eftir með rétt undir 10 prósenta hlutdeild.
SA, VÍ og Neytendastofa fagna tillögunum
Samtök atvinnulífsins fagna drögunum í umsögn sinni en telja þó að ganga hefði mátt mun lengra í átt að opnari leigubifreiðamarkaði. Þá segir að aukið frjálsræði á leigubifreiðamarkaði á Íslandi sé fagnaðarefni sem sé löngu tímabært og muni hafa í för með sér aukið hagræði fyrir samfélagið í heild þar sem aukin samkeppni og lögmál framboðs og eftirspurnar fái að ráða verðlagningu og gæðum þjónustu.
SA og VÍ gagnrýna þó að námskeið fyrir leigubifreiðastjóra, sem þeir þurfi að ljúka og standast til að fá atvinnuleyfi, séu á íslensku og ekki sé túlkaþjónusta í boði fyrir þá. Sú tilhögun geri erlendum umsækjendum um atvinnuleyfi erfitt fyrir og sé líkleg til þess að teljast hindrun á staðfesturétti 31. gr. EES samningsins.
Viðskiptaráð Íslands fagnar markmiði laganna að auka frjálsræði á leigubifreiðamarkaði og að samkeppni sé efld með afnámi stöðvarskyldu leigubifreiðarstjóra og takmörkunum á fjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaraksturs. Ráðið telur breytingarnar jafnframt löngu tímabærar.
„Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því í drögum að nýja frumvarpinu má enn finna atriði sem skapa vafa um hvort farveitur á borð við Uber og Lyft, eða sambærilegar íslenskar farveitur spretti þær upp, geti veitt þjónustu sína hér á landi. Viðskiptaráð telur brýnt að taka allan vafa af um slík atriði í samræmi við markmið laganna; að skapa skilyrði til að veita fjölbreyttari þjónustu með leigubifreiðum.“
Eldri íslenskir karlmenn flestir leigubílstjóra
Ráðið bendir einnig á samsetningu starfstéttarinnar. „Þeir 567 einstaklingar sem höfðu leyfi til leigubílaaksturs á höfuðborgarsvæðinu í júlí í fyrra eru allir íslenskir ríkisborgarar. Meðalaldur þeirra er 57,5 ár og aðeins 34 eru konur, rétt tæp 6% leyfishafa. 100 leyfishafar eru 56–60 ára, 99 eru 61–65 ára og 96 eru 66–70 ára. Aðeins tveir eru þrítugir eða yngri á meðan 54 eru yfir sjötugu. Tæp 75% leyfishafa eru yfir fimmtugu. Þegar tölurnar voru sóttar var meðalaldur Íslendinga á bílprófsaldri hins vegar tæp 46 ár og konur voru tæplega 49% íbúa landsins,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs Íslands.
Ráðið gagnrýnir að farveitur þurfi að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvar verði að uppfylla. Í umsögninni segir að leigubílstjórar á Íslandi þurfi að lúta meira íþyngjandi skilyrðum hérlendis en annars staðar þar sem slíkar farveitur starfa.
Íslenskukunnátta verði skilyrði
Umsögn Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, BÍLS, og Bifreiðastjórafélagsins Frama segir: „Við leigubifreiðastjórar leggjum megináherslu á eftirfarandi atriði: sakavottorð, íslenskukunnáttu, hérlent lögheimili, tryggingar, skattskil, bifreiðaskráningu, stöðvaskyldu, vinnuskyldu, eftirlit og aðhald.“
Hér verður að taka tillit til farþeganna hvað snertir samskipti við bílstjórann. Hver ferð og farþegi, eru oftar en ekki háð samskiptum sem þarfnast krefjandi skilnings og tjáningu, eins og vill verða þegar erindi eru brýn og mikið er í húfi. Farþegar eru úr öllum hópum samfélagsins, þar má telja marga einstaklinga sem geta hvorki skilið né tjáð sig á öðru máli en íslensku,“ segir í umsögninni.
Þá segir að leigubifreiðastjórum ætti að vera skylt að hafa vinnuskyldu af bifreiðinni. „Ef rekstrarleyfishafa verður gert frjálst að stunda ekki vinnu af leiguakstri og hafa enga reynslu af slíku, hvernig getur hann metið reksturinn rétt? Margir hafa ökuréttindi án þess að hafa nokkra þekkingu á bifreiðum og nauðsynlegu viðhaldi. Rekstrarleyfishafi þarf að axla ábyrgð á ástandi bifreiðar og öryggi hennar í þjónustu við almenning.“
Þá segir að atvinnuleyfishafi sem beri ekki ábyrgð á rekstri bifreiðarinnar muni láta sig fátt um varða þegar komi að viðhaldi leigubifreiðar sem sé ekki í hans eigu.
„Við hjá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra leggjumst alfarið gegn afnámi stöðvaskyldunnar, með hagsmuni allra að leiðarljósi, viðskiptavina, leigubifreiðastjóranna sjálfra og yfirvalda. Með tilkomu leigubifreiðstöðva er skattaundanskotum haldið í skefjum og allt eftirlit reynist stjórnvöldum aðgengilegra en ella.“
Aukinn leyfisfjöldi muni hækka verð
Í umsögn Hreyfils segir: „Mikið er gert úr því að verð á leigubílaþjónustu komi til með að lækka neytendum í hag en engin rök hafa verið lögð fram sem rökstyðja þær fullyrðingar, þvert á móti kemur í ljós við eftirgrennslan að í þeim löndum þar sem akstur og rekstur leigubifreiða hefur verið gefinn frjálst hefur verð hækkað.“
Þá er undanþága frá gjaldmælaskyldu þegar ferð sé seld fyrir fyrirfram ákveðið gjald gagnrýnt. „Það er mat stjórnar Hreyfils er að þarna sé verið að mismuna rekstraraðilum þar sem ekki eru lagðar jafnar kröfur á aðila varðandi gjaldmæla. Þetta skekkir grundvöll samkeppninnar þegar einum rekstraraðila er frjálst að keyra gegn föstu verði en hinn aðilinn þarf að fjárfesta í dýrum gjaldmælum, búnaði og ísetningu, sem og að láta löggilda mæli með tilheyrandi kostnaði.“ Líkt og í umsögn BÍLS og Bifreiðastjórafélagsins Frama er áréttað að stjórnendum og bílstjórum Hreyfils gefist lengri tími til að aðlaga reksturinn að breyttum lögum.