Frétt bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal um áhuga Donald Trumps Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland vakti heimsathygli þegar hún birtist 16. ágúst sl. Forsetinn staðfesti sama dag frétt blaðsins. Ýmsir héldu, í fyrstu, að Trump hefði verið að grínast en svo reyndist ekki vera. Hann var að tala í fúlustu alvöru og útskýrði á fréttamannafundi að í raun væri kaup og sala á Grænlandi í grunninn fasteignaviðskipti. Sér hefði verið bent á að Danir bæru árlega mikinn kostnað vegna Grænlands sem þeir myndu losna við með sölu á þessari landareign, eins og forsetinn komst að orði.
Undrun
Hugmyndin um kaup Bandaríkjanna á Grænlandi vakti, eins og áður var nefnt, mikla athygli. Danskir og grænlenskir stjórnmálamenn voru vart búnir að nudda stírurnar úr augunum að morgni 16. ágúst þegar fjölmiðlar byrjuðu að hringja og leita álits. Viðbrögð þeirra voru á einn veg: hugmyndin væri aldeilis fráleit. Tímar slíkrar landsölu sem Bandaríkjaforseti hefði í huga væri löngu liðnir og þar að auki hefðu dönsk stjórnvöld ekkert leyfi til að selja Grænland, rétt si svona. Sumir gengu svo langt að segja þessi ummæli forsetans staðfesta það sem ýmsir hefðu talið sig vita: forsetinn væri flón (fjols). „Aprílgabb á alröngum tíma“ sagði Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra.
Í yfirlýsingu grænlensku landstjórnarinnar sagði að Grænlendingar hefðu áhuga á viðskiptum en ekki á sölu landsins. Hafi þessi viðbrögð náð eyrum forsetans verður að telja líklegt að hann hafi litið á þau eins og hvern annan goluþyt og kært sig kollóttan. En viðbrögð danska forsætisráðherrans fóru hinsvegar ekki framhjá forsetanum.
Aflýsti Danmerkurferðinni
Fréttamaður danska sjónvarpsins, DR, hitti Mette Frederiksen forsætisráðherra að kvöldi sunnudags 20. ágúst og leitaði álits hennar á hugmynd Bandaríkjaforseta. Spurningin og svarið birtast hér orðrétt, á dönsku:
- Trump vil gerne købe Grønland, siger han. Hvilke tanker gør du dig i den anledning?
Statsministeren svarede:
- Jeg gør mig ikke nogen som helst tanker i den forbindelse. Det er jo en absurd diskussion, og Kim Kielsen (Grønlands landsstyreformand) har selvfølgelig gjort det klart, at Grønland ikke er til salg, og så stopper snakken med det.
Danir, eins og við Íslendingar, eru vanir að nota orðið absurd (absúrd) um það sem þykir fráleitt, fjarstæðukennt eða jafnvel fáránlegt. Forsætisráðherra Dana þótti hugmynd Donald Trumps sem sé fráleit. Og nefndi jafnframt að formaður grænlensku landstjórnarinnar hefði lýst því yfir að Grænland væri ekki til sölu. Og meira væri ekki um það að segja.
Þar skjátlaðist Mette Frederiksen. Donald Trump hafði ýmislegt um þetta að segja. Á Twitter, þar sem forsetinn tjáir sig gjarna, hrósaði hann Dönum og jafnframt danska forsætisráðherranum fyrir að tala hreint út varðandi Grænland. Hann sagði ennfremur að í ljósi þess að forsætisráðherrann vildi ekki ræða sölu á Grænlandi hefði hann ákveðið að fresta Danmerkurferð sinni en hlakka til slíkrar heimsóknar, síðar. Þetta var aðfaranótt miðvikudagsins 21. ágúst. Hafi einhverjir ímyndað sér að þar með væri þetta Grænlandsmál úr sögunni, í huga forsetans, skjátlaðist þeim.
Absurd
Að kvöldi miðvikudagsins, sama dags og forsetinn hafði aflýst, eða frestað, Danmerkurferðinni var skyndilega komið annað hljóð í strokkinn. Þá hafði hrós í garð danska forsætisráðherrans skyndilega breyst í hneykslun vegna eins orðs í viðtali ráðherrans við Danska sjónvarpið. Þetta var orðið absurd. Forsetinn lýsti því yfir að svona tali menn ekki við Bandaríkin „að minnsta kosti ekki meðan ég er forseti. Hún (Mette Frederiksen) hefði bara getað sagt nei“.
Stjórnmálaskýrendur austan hafs og vestan segja þessa skyndilegu kúvendingu eiga sér allt aðrar skýringar. Að nota þetta orð til að ráðast á danska forsætisráðherrann sé tylliástæða en jafnframt dæmigert fyrir forseta Bandaríkjanna. Hann hafi áttað sig á því að sú skyndiákvörðun hans að hætta við Danmerkurheimsóknina, og hugsanleg kaup á Grænlandi, mæltist ekki vel fyrir og reyni þá að beina athyglinni annað. Nú var heimsókninni ekki aflýst vegna þess að ekki yrði rætt um kaup og sölu á Grænlandi, heldur vegna þess að forsætisráðherra Dana var „nasty“. Orð sem Bandaríkjaforseti virðist nota þegar hann talar niður til kvenna og er ekki beinlínis úr kurteisisorðabókinni.
Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði í viðtali að hún ætlaði sér ekki að eiga í orðaskaki við Donald Trump. Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra sagði „að það væri ekkert að því að afþakka boð um heimsókn en það væri einkennilegt að afþakka boð sem maður hefði sjálfur beðið um“ og vísaði til þess að það var upphaflega forsetinn sjálfur sem óskaði eftir að verða boðið til Danmerkur. Margir danskir stjórnmálamenn hafa sagt að það að aflýsa opinberri heimsókn, með svo skömmum fyrirvara, væri einsdæmi en varðandi Donald Trump kæmi fátt á óvart.
Klæði á vopnin
Eins og stundum áður keppast nú bandarískir stjórnmála – og embættismenn við að milda áhrifin af ákvörðunum og yfirlýsingum forsetans. Bandaríski utanríkisráðherrann, Mike Pompeo, hringdi strax í Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur til að fullvissa hann um að hið góða og nána samband ríkjanna tveggja væri óbreytt. Danmörk er einn helsti bandamaður Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, þótt forsetinn blási. Bandaríkjamenn vilja „gott veður“ í samskiptum sínum við Dani, og Grænlendinga. Þeir hagsmunir eru gagnkvæmir því Danir eru fáir og smáir og vilja gjarna samvinnu við Bandaríkin, ekki síst þegar horft er til Norðurslóða.
Skjótt skipast veður í lofti
Eins og margir vita segir forseti Bandaríkjanna eitt í dag og annað á morgun, er með öðrum orðum óútreiknanlegur. Sl. miðvikudagskvöld sagði Trump að danski forsætisráðherrann hefði verið ,,nasty“ ummælum sínum um Grænlandshugmyndina. Á fimmtudagskvöld sagði forsetinn hinsvegar að Mette Frederiksen forsætisráðherra væri frábær kona. Þau hefðu rætt saman í síma (hún hringdi sagði Trump) og þau hefðu ákveðið að ræða betur saman síðar. Forsetinn skýrði ekki nánar frá því um hvað var rætt.
AP fréttastofan greindi frá því í gær að bandaríska utanríkisráðuneytið hafi nýlega sent fulltrúadeild þingsins bréf, þar sem fram komi að stjórn Trumps hyggist, ef samþykki þingsins fæst, opna ræðisskrifstofu í Nuuk. Það myndi styrkja tengsl Bandaríkjanna og Grænlands segir í bréfinu. Bandaríkjamenn opnuðu ræðisskrifstofu í Nuuk árið 1940, eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku en henni var lokað árið 1953.
Danskir pólitíkusar hrósa forsætisráðherranum
Danskir stjórnmálamenn eru á einu máli um að Mette Frederiksen eigi mikið hrós skilið fyrir hvernig hún tók á Grænlandsmálinu og hamaganginum í forsetanum. Hún komið mjög vel fram, gætt þess vel að forðast orðaskak, verið yfirveguð í viðtölum við fjölmiðla. Hún hafi líka lagt áherslu á að Danir líti á Bandaríkin sem vinaþjóð, þau góðu tengsl eigi sér langa sögu og þannig verði það áfram.