„Go´daw, jeg hedder Lars Larsen, jeg har et godt tilbud“

Danski milljónamæringurinn Lars Lar­sen lést á heim­ili sínu í síðustu viku, 71 árs að aldri. Hann var á meðal auðugustu manna í Danmörku og jafnframt þeirra þekktustu. Kjarninn rifjar hér upp sögu hans.

Lars Larsen
Lars Larsen
Auglýsing

Auðkýf­ing­ur­inn Lars Lar­sen lést á heim­ili sínu í Sil­ke­borg í Danmörku í byrjun síðustu viku. Hann var 71 árs þegar hann lést en fyrir tveim­ur mánuðum lét hann af stjórn­ar­for­mennsku í versl­un­arkeðjunni JYSK vegna veik­inda. Jacob Bruns­borg, sonur Lars, tók þá við stjórn­ar­for­mennsku í fyrirtækinu en hann hafði greinst með lifrarkrabbamein nokkru áður. Borgþór Arngrímsson fjallaði um Lars árið 2014 fyrir Kjarnann og verður hér rifjuð upp sú umfjöllun. 

Lars Larsen, Dyne Larsen eða Rúmfata-Larsen kom í heiminn þann 6. ágúst árið 1948. Hann var yngstur fjögurra systkina sem fæddust á fimm árum en sá skuggi hvíldi þó yfir þessari fjölgun í fjölskyldunni að heimilisfaðirinn, Lars Kristinus Larsen, lést áður en drengurinn fæddist, aðeins 55 ára gamall, og móðirin, Signe Vera Kirstine Hansen, ákvað að sá stutti skyldi bera nafn föðurins og hann var því skírður Lars Kristinus. 

Þegar þau Lars eldri og Signe kynntust var hann kominn undir fimmtugt en hún tíu árum yngri. Þau voru bæði af fátæku fólki komin en tókst að kaupa jörð við þorpið Arnborg á Mið-Jótlandi og lifðu fyrst og fremst af kartöflurækt. Lars eldri tók talsverðan þátt í félagsmálum, sat í safnaðarnefnd og í stjórn sjúkrasamlagsins á svæðinu. Signe var mjög trúuð og hafði starfað með Hjálpræðishernum áður en hún giftist.

Auglýsing

Skyldi verða kaupmaður

Fráfall húsbóndans var reiðarslag fyrir fjölskylduna. Ekkjan reyndi að halda búskapnum áfram en neyddist fljótlega til að selja jörðina. Hún keypti minni jörð og reyndi líka fyrir sér í hótelrekstri en hún var heilsuveil og eftir skamman tíma var hótelið selt. Signe keypti þá litla sælgætisverslun í Hurup á Norður-Jótlandi. Lars sagðist fá vatn í munninn þegar hann minnist sælgætisins en sér, og öðrum, hafi snemma orðið ljóst að bóndi yrði hann ekki.

Skólagangan hófst 5. ágúst 1956, þá var Lars sjö ára en daginn eftir varð hann átta ára. Hann segir í ævisögu sinni að vegna reglna um að börn skyldu byrja í skóla þegar þau væru sjö ára, miðað við fæðingardag en ekki fæðingarár, hafi hann verið elstur í bekknum og það hafi oft komið sér vel.

Framan af gekk sælgætisverslunin prýðilega en síðan tók að halla undan fæti. Signe var illa haldin af gigt og auk þess sótti á hana þunglyndi sem ágerðist hratt. Lars segir í ævisögu sinni að þegar hann var 12 ára hafi móðir hans verið orðin óvinnufær og dvalist langtímum saman á sjúkrahúsum. Börnin bjuggu þó áfram í litla húsinu sem móðir hans hafði keypt, þau stunduðu ýmiss konar íhlaupavinnu til að afla tekna. Eldri systkinin hættu í skólanum þegar skyldunáminu lauk, eftir sjöunda bekk, en fyrir hvatningu skólastjórans hélt Lars áfram og lauk gagnfræðaprófi árið 1966. Hann hafði mikinn áhuga á að verða kennari en eldri bróðirinn Hans sagði að það væri ekki rétta starfið, hann ætti að verða kaupmaður.

Lars fékk starf sem lærlingur í versluninni Magasin H&L í Thisted, þar voru seldar sængur og koddar, dýnur, gardínur, kjólaefni og margt fleira. Á þessum tíma kynntist hann hjúkrunarfræðinemanum Kristine Brunsborg, sem varð eiginkona hans.

Löng röð fyrir utan búðina

Árin hjá H&L voru lærdómsrík og Lars vakti athygli yfirmanna sinna fyrir dugnað og útsjónarsemi. Einu sinni gerðist það að Lars var sendur til að líta á rúmdýnur hjá nokkrum framleiðendum, en þar sá hann meðal annars nokkrar dýnur sem höfðu orðið fyrir lítilsháttar hnjaski þegar flutningabíll valt.

Lars keypti dýnurnar og margt fleira á mjög lágu verði. Svo mikið reyndar að það hefði dugað til að fylla verslunina hjá H&L tíu sinnum. Svo var auglýst að vörur sem sumar væru eilítið útlitsgallaðar yrðu seldar í versluninni föstudag og laugardag. Þegar starfsfólkið mætti til vinnu á föstudeginum var löng röð fyrir utan búðina og allt seldist upp á þessum tveim dögum. Þarna, sagði Lars, fékk hann kannski hugmyndina að JYSK. 

Nokkru síðar sagði Lars upp starfinu hjá H&L og þau Kristine, sem ætíð var kölluð Kris, fluttu til Álaborgar. Hún hafði fengið starf á sjúkrahúsi og Lars fékk vinnu í verslun sem seldi gardínur og gluggatjöld. Árið 1974 fékk hann vinnu hjá annarri verslun sem seldi rúm, rúmfatnað, gardínur og áklæði.

Auglýsing

Vildu hafa gæs í lógóinu

Árið 1979 ákvað Lars Larsen að nú væri komið að honum sjálfum að ráða ferðinni. Í samvinnu við tvo félaga sína ákvað hann að opna verslun í Árósum. Þeir tóku á leigu 500 fermetra skemmu við Silkeborgvej, svolítið fyrir utan miðbæinn. Húsnæðið var ódýrara en við aðalverslunargötur bæjarins og þarna voru næg bílastæði. Þeir félagar ákváðu að verslunin skyldi heita Jysk sengetøjslager. Þeir voru jú allir frá Jótlandi og seinna orðið í nafninu lýsti vörunum en endingin „lager“ gaf jafnframt til kynna að þetta væri öðruvísi verslun.

Nokkrar auglýsingastofur sem þeir leituðu til sögðu að nafnið væri allt of langt og þegar þeir félagar sögðu að þeir vildu hafa gæs og eitthvað sem táknaði rúm sem lógó verslunarinnar sögðu auglýsingastofurnar: „Nei, takk.“ Ein lítil stofa tók verkefnið að lokum að sér og gerði eins og Lars og félagar vildu, hannaði merkið og jafnframt auglýsingar, sem voru í senn einfaldar og lýsandi.

Þann 2. apríl 1979 klukkan 8 um morguninn var verslunin við Silkeborgvej opnuð, en þá biðu á annað hundrað manns við dyrnar og nánast allt seldist upp á fyrsta degi. „Við höfðum gert eitthvað rétt,“ sagði Lars síðar í viðtali. Hálfum mánuði síðar var verslun númer tvö opnuð í Hadsund á Jótlandi. Nokkrum dögum síðar var svo opnuð verslun í Álaborg.

Vel þekktur í Danmörku

Lars varð fljótlega landsþekktur, hann kom sjálfur fram í auglýsingum fyrirtækisins sem voru bæði einfaldar og ódýrar, svo einfaldar að auglýsingaframleiðendur hlógu. Þeir hefðu þó getað sparað sér hláturinn því textinn sem Lars fór með, „Go´daw, jeg hedder Lars Larsen, jeg har et godt tilbud,“ hitti algjörlega í mark og bæði verslanirnar og manninn þekkir hvert einasta danskt mannsbarn.

Árið 1983 keypti Lars Larsen hlut beggja félaga sinna og hefur síðan verið eigandi fyrirtækisins. Árið 2001 var nafninu breytt og það heitir nú JYSK. Gæsin er enn hluti af merkis fyrirtækisins en rúmgaflinn er horfinn.

JYSK lógó

Fyrsta verslun Jysk sengetøjslager utan Danmerkur var opnuð í Þýskalandi 1984, nú eru þar hundruð JYSK-verslanir. Alls eru verslanir JYSK nú um 2000 talsins í 35 löndum. Nokkur hluti þessara verslana er í eigu annarra – til að mynda Rúmfatalagerinn á Íslandi – sem hafa sérstakan samning við JYSK. Vöruúrvalið er í dag miklu meira en það var í upphafi, en Lars sagði í viðtali að verslanir JYSK væru fyrir almenning sem gæti fengið flesta hluti til heimilisins, annað en matvöru, á hagstæðu verði. „Húsgögnin eru ekki hönnunarvara en duga vel til síns brúks og kosta lítið,“ bætti hann við. Mikið af framleiðslunni verður til í verksmiðjum JYSK víða um lönd en annað er keypt af öðrum framleiðendum.

JYSK rek­ur nú rúm­lega 2.800 versl­an­ir í 52 lönd­um í Evr­ópu, Mið-Aust­ur­lönd­um og Asíu, þar með talið versl­an­ir Rúm­fa­tala­gers­ins á Íslandi. Tekj­ur keðjunn­ar nema um 26 millj­örðum danskra króna á ári, jafn­v­irði 480 millj­arða ís­lenskra, samkvæmt árs­skýrslu fyr­ir­tæk­is­ins.

Vinnan áhugamálið

Lars lét sér ekki nægja að beina kröftum sínum að JYSK. Hann keypti einnig húsgagna- og húsbúnaðarverslanirnar ILVA og IdeMöbler en vöruúrvalið þar var annað en í verslunum JYSK og verðið hærra. Bolia-húsbúnaðarverslanirnar, sem skiptu tugum og eru í nokkrum Evrópulöndum auk Danmerkur, voru einnig í eigu Rúmfata-Larsens. Árið 1990 stofnaði hann ferðaskrifstofuna Larsen rejser en sá rekstur gekk ekki vel og árið 1998 keypti ferðaskrifstofan Kuoni Larsen rejser.

Árið 2004 gaf Lars Larsen út æviminningar sínar, sem hann skrifaði sjálfur. „Go´daw, jeg hedder Lars Larsen – Jeg har et godt tilbud“, var dreift inn á öll heimili í Danmörku. Lars sagði þar að þrátt fyrir fátækt og erfiðleika í æsku hefði hann átt gott líf og verið gæfumaður. Hann sagði að eiginkonan Kris, sem enn vann í versluninni í Silkeborg, hefði verið sinn stóri happdrættisvinningur. Þau áttu tvö börn; sonurinn Jacob vann hjá JYSK en dóttirin Mette var kúabóndi. Sjálfur vann Lars alla daga í fyrirtækinu. Blaðamaður dagblaðsins Berlingske spurði Lars Larsen eitt sinn hvort ekki væri tími til kominn að þriðji ríkasti maður Danmerkur færi að slaka á og sinna áhugamálum. „Sinna áhugamálunum, það hef ég gert síðan 1979 og ætla að halda því áfram,“ svaraði Lars og bætti við: „Það er ríkidæmi.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar