Lægstu verðtryggðu breytilegu vextir sem hægt er að fá vegna töku húsnæðislána eru nú 1,77 prósent, hjá Almenna lífeyrissjóðnum eftir að hann lækkaði vexti sína nýverið.
Lægstu óverðtryggðu vextirnir sem í boði eru nú eru hjá Birtu lífeyrissjóði, þar sem þeir eru 4,6 prósent.
Í báðum tilfellum er um lægstu vexti hvors lánaforms fyrir sig sem íslenskum lántakendum hefur staðið til boða.
Því halda vextir sem standa lántakendum á Íslandi til boða áfram að lækka.
Það hafa meginvextir Seðlabanka Íslands, oft kallaðir stýrivextir, einnig gert en þeir eru nú 3,5 prósent og hafa aldrei verið lægri.
Annar fylgir skuldabréfaflokki, hinn ekki
Vaxtabreytingar á breytilegum verðtryggðum lánum hjá Almenna lífeyrissjóðnum, sem býður sjóðsfélögum sínum upp á lán fyrir allt að 70 prósent af kaupverði á húsnæði, eru ákveðnar 15. hvers mánaðar. Vextirnir taka mið af meðalávöxtun á skuldabréfaflokki Íbúðarlánasjóðs HFF150434 að viðbættu 0,75 prósent álagi.
Afleiðing þess var sú að vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna lækkuðu mjög mikið á skömmum tíma. Í lok maí voru þeir orðnir 2,06 prósent.
Þá ákvað stjórn sjóðsins að breyta því hvernig vextir yrðu ákvarðaðir. Í staðinn fyrir að ávöxtunarkrafa skuldabréfaflokksins myndi stýra vaxtastíginu var ákveðið að stjórn sjóðsins myndu einfaldlega ákveða þá. Þeir voru í kjölfarið hækkaðir í 2,26 prósent og þar eru þeir í dag.
Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ekki breytt sinni aðferðarfræði. Í dag eru verðtryggði vextir sem sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna geta fengið tæplega 28 prósent hærri en vextirnir sem sjóðsfélögum Almenna bjóðast.
Ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafði áhrif. VR, sem skipar fjóra af átta stjórnarmönnum í sjóðnum, ákvað að skipta þeim öllum út fyrir nýja og bar fyrir sig trúnaðarbrest vegna vaxtahækkunarinnar.
Landsbankinn í sérflokki á meðal banka
Viðskiptabankarnir hafa lengi kvartað yfir því að vera ekki samkeppnishæfir við lífeyrissjóði þegar kemur að húsnæðisútlán. Þar bera þeir aðallega fyrir sig að bönkum sé gert að greiða sértæka skatta og gjöld sem lífeyrissjóðum er ekki gert að greiða. Sá sem bítur mest er hinn svokallaði bankaskattur. Nú liggur hins vegar fyrir að fyrri áform um að lækka bankaskattinn á næsta ári hefur verið frestað til 2021 vegna samdráttar í efnahagslífinu.
Sá viðskiptabanki sem kemst næst því að gera keppt við lífeyrissjóðina í boðlegum kjörum er Landsbankinn. Verðtryggðir breytilegir vextir hans vegna lána upp að 70 prósent af kaupverði eru nú 3,25 prósent. Það eru 84 prósent hærri vextir en Almenni lífeyrissjóðurinn býður upp á.
Birta leiðir í óverðtryggðu
Lífeyrissjóður verzlunarmanna býður enn upp á skástu föstu óverðtryggðu vextina, en þeir eru 5,14 prósent hjá sjóðnum ef lántaki er tilbúinn að festa sig í þrjú ár.
Þegar kemur að breytilegum óverðtryggðum lánum þá býður lífeyrissjóðurinn Birta upp á langbestu kjörin fyrir sína sjóðsfélaga. Þeir geta fengið óverðtryggt lán á 4,6 prósent vöxtum en sá böggull fylgir skammrifi að Birta lánar einungis fyrir 65 prósent af kaupverði að hámarki.
Landsbankinn kemur þar á eftir með 5,48 prósent breytilega óverðtryggða vexti og Gildi þar skammt á eftir með 5,51 prósent (vextirnir eru 5,4 prósent upp að 60 prósent lánshlutfalli en síðan þarf að taka viðbótarlán á 6,15 prósent vöxtum til að ná 70 prósent hlutfalli). Því eru óverðtryggðir breytilegir vextir Landsbankans rúmlega 19 prósent hærri en hjá Birtu.