Allur þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram endurnýjaða beiðni til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, og þau áhrif sem samningurinn hefur haft á Íslandi, verði unnin. Fyrsti flutningsmaður er Ólafur Ísleifsson.
Í greinargerð sem fylgir beiðninni vísar Miðflokkurinn til skýrslu sem unnin var af starfshópi í Noregi fyrir norsk stjórnvöld, var birt árið 2012 og bar heitið „Utenfor og innenfor: Norges avtaler med EU“. Samkvæmt greinargerð Miðflokksins vöknuðu alvarlegar spurningar „um skort á lýðræði og afsal á fullveldi Noregs vegna EES-samningsins og Schengen-samvinnunnar. Í ljós kom að áhrif EES-samningsins höfðu náð til miklu fleiri samfélagsþátta en lagt var upp með árið 1992. Enn virðist ekki sjá fyrir endann á þeirri þróun því nú eru miklar umræður í Noregi um frumvarp norsku ríkisstjórnarinnar um aðild landsins að orkulöggjöf ESB en ákvörðun þess efnis að löggjöfin skuli tekin upp í EES-samninginn hefur þegar verið samþykkt af sameiginlegu EES-nefndinni.“
Miðflokkurinn telur að það sé orðið mjög áríðandi „fyrir íslenska hagsmuni að gerð verði svipuð úttekt á afleiðingum og virkni EES-samningsins hér á landi. Það væri við hæfi að gera þessa úttekt í ljósi þess að liðin eru 25 ár frá gildistöku EES-samningsins. Ítarlegt og vandað stöðumat á EES-samningnum yrði auk þess verðugt framlag nú þegar Íslendingar minntust fyrir skömmu 100 ára afmælis fullveldis landsins.“
Hópur sem metur kosti og galla þegar að störfum
Það er þegar starfandi starfshópur, sem skipaður var af utanríkisráðherra 20. ágúst í fyrra, sem vinnur að gerð skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum. Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, stýrir þeirri vinnu. Auk Björns sitja í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar. Þá fékk hópurinn starfsmann sem hefur aðsetur í utanríkisráðuneytinu. Starfshópurinn átti upphaflega að skila skýrslu sinni innan tólf mánaða, en hún hefur þó enn ekki verið birt.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið í ágúst í fyrra sagði utanríkisráðuneytið að með skýrslunni væri verið að koma til móts við beiðni frá hópi þingmanna um skýrslu utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sem samþykkt var á Alþingi fyrr á árinu 2018.
Þingmenn Miðflokksins virðast þó ekki sammála því og vilja aðra skýrslu sem skilað verður til Alþingis, ekki ráðuneytisins.