Eins og staðan er í í dag er ómögulegt að fá heildstæða mynd af gjaldeyriskaupum tiltekins erlends einstaklings sem er án kennitölu ef hann kemur oft í sömu fjármálastofnun. Því er ávallt verið að meta viðskipti þessara aðila eins og þau séu einstök viðskipti.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýbirtri aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti. Gjaldeyriskaupin og vandkvæðin sem þeim tengjast teljast til aðgerða vegna afléttingu hafta sem áhættumat ríkislögreglustjóra, sem birt var í apríl, sýndi að mikil hætta á peningaþvætti stafi af.
Í áætluninni segir að skráningum vegna kaupa á erlendum gjaldeyri af af hálfu erlendra einstaklinga án kennitölu sé ábótavant hjá fjármálastofnunum. Þessir aðilar séu einfaldlega allir skráðir á sömu kennitöluna, sem tilheyrir skráningunni „ótilgreindur útlendingur“, í kerfum fjármálastofnana og því er ekki unnt að fylgjast með því hvort að sami aðili sé ítrekað að kaupa gjaldeyri. Þar af leiðandi er ómögulegt að fá heildstæða mydn af gjaldeyriskaupum erlends aðila.
Sami einstaklingur getur því átt í umtalsverðum viðskiptum án þess að slíkt flaggist, samkvæmt því sem fram kemur í aðgerðaráætluninni. „Fjármálastofnunum hefur verið bent á þennan veikleika og rætt hefur verið við þær um leiðir til að bæta úr þessu. Hefur verið mælst til þess að fjármálastofnanir leiti leiða til að skrá viðskiptin með þeim hætti að hægt verði að sjá hvaða einstaklingur á í viðskiptunum (t.d. í athugasemdareit) án tillits til þess hvort allir séu skráðir á sömu kennitölu vegna viðskiptanna.“
Í aðgerðaráætluninni er það lagt til að fjármálastofnanir bæti skráningar sínar þegar erlendur gjaldeyrir er keyptur af aðila án kennitölu og að Fjármálaeftirlitið kanni hvort lagabreyting sé nauðsynleg. Ef svo reynist er eftirlitið hvatt til þess að leggja fram slíka breytingartillögu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Í aðgerðaráætluninni er búist við að undirbúningur að þeim aðgerðum hefjist í nóvember 2019 og ljúki í febrúar næstkomandi.
Óljóst um fjölda tilkynninga
Óljóst er hversu margar tilkynningar berast til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sem varða gjaldeyrisviðskipti þar sem kerfi fjármálastofnana og skrifstofunnar geta ekki kallað fram tilkynningar eftir efni þeirra.
Fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um mögulegt peningaþvætti. Það kerfi heitir goAML og vinna við innleiðingu þess er þegar hafin. Henni á að ljúka í apríl 2020 og þá á skrifstofan að geta tekið út tölfræði eftir efni tilkynninga.
Í áætluninni er lagt til að skrifstofan framkvæmi stefnumiðaða greiningu í tengslum við erlendan gjaldeyri og upplýsi viðeigandi aðila um hættumerki og aðferðir. Skrifstofan kynni svo niðurstöður sínar í stýrihópi um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og komi með tillögur um að draga úr áhættu sem stýrihópurinn komi til framkvæmda.
Undirbúningur þessara aðgerða hefur þegar hafist og er áætlað að þær verði komnar til framkvæmda í nóvember 2019.