Samkvæmt ársuppgjöri ársins 2018 var eigið fé fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus metið á 4,4 milljarða króna. Eftir nýlegt endurmat á eignum sjóðsins er eigið fé hans hins vegar áætlað 42 milljónir króna. Það var því ofmetið um rúmlega 4,3 milljarða króna um síðustu áramót. Um mitt ár í fyrra voru eignir umfram skuldir metnar á rúmlega 4,8 milljarða króna.
Þetta kemur fram í einblöðungum frá GAMMA:Novus, meðal annars einum sem dagsettur er í dag, sem ætlaður er hlutdeildarskirteinishöfum en Kjarninn hefur undir höndum.
Helsta eign sjóðsins er Upphaf fasteignafélag slhf. og í einblöðungnum kemur fram að undanfarið hafi nýtt teymi sérfræðinga, auk utanaðkomandi ráðgjafa, unnið að málefnum sjóðsins. Upphaf stendur fyrir byggingu á nokkur hundruð íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Raunveruleg framvinda reyndist ofmetin
Í einblöðungi sem sendur var út vegna stöðu sjóðsins um síðustu áramót, þegar eigið fé Novus var sagt 4,4 milljarðar króna, sagði: „Góð ávöxtun sjóðsins á rætur að rekja til vel tímasettra fjárfestinga og ágætrar framvindu í þróun, framkvæmdum og sölu á vegum sjóðsins. Helsta ástæða þess að gengi sjóðsins hefur gefið eftir á sl. 12 mánuðum er sú að uppfærsla kostnaðaráætlana hefur leitt í ljós að byggingarkostnaður var vanmetin í fyrri áætlunum, en einnig hafa horfur um raunhækkun fasteignaverðs að mati greiningadeilda lækkað sem lækkar áætlaðan hagnað í hverju verkefni fyrir sig. Verkefnin eru enn hagkvæm þótt áætlaður hagnaður þeirra sé lægri en gert var ráð fyrir í upphafi árs 2018.“
Bitnar ekki á afkomu Kviku
Fyrr í dag sendi Kvika banki, sem keypti GAMMA síðastliðið vor, frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem greint var frá því að tveir fagfjárfestasjóðir, Novus og Anglia, hefðu verið í mun verra ásigkomulagi en gert hafði verið ráð fyrir og að skráð gengi þeirra hefði verið lækkað sem því nemur. Í tilkynningunni var hins vegar ekki greint frá því um hversu mikið sjóðirnir voru færði niður.
Niðurfærslan á sjóðunum mun ekki hafa nein teljandi áhrif á afkomu Kviku banka á þessu ári. Enn er áætlað að afkoman verði jákvæð um 2,9 milljarða króna fyrir skatta líkt og greint var frá í afkomuspá sem birt var samhliða hálfsársuppgjöri bankans. Það þýðir að Kvika banki hafi tryggt sig vel fyrir því að sjóðir í eigu GAMMA gætu verið súrir þegar bankinn gekk frá kaupum á félaginu.
Búið að greiða út 850 milljónir
Í einblöðungnum sem sendur var út í dag, 30. september, er bent á að stofnfé Novus-sjóðsins hafi verið 2,5 milljarðar króna og að 850 milljónir króna hafi þegar verið greiddar til baka til eigenda. Miðað við að eigið fé sjóðsins sé einungis 40 milljónir króna samkvæmt nýju mati er þó ljóst að þeir sem fjárfestu í sjóðnum, sem voru meðal annars íslenskir lífeyrissjóðir, geti að óbreyttu ekki búist við því að fá mikla viðbótar ávöxtun úr sjóðnum.
Nýráðinn framkvæmdastjóri GAMMA, Máni Atlason, hefur verið skipaður nýr sjóðstjóri yfir GAMMA: Novus og nýr fjárfestingastjóri GAMMA, Ásgeir Baldurs,hefur leitt vinnu við endurmat á eignum sjóðsins. Áður var Ingvi Hrafn Óskarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA, sjóðsstjóri Novus. Hann starfar enn hjá félaginu en nú sem forstöðumaður nýbygginga og þróunar.
Þarf að gefa út forgangsskuldabréf til að klára framkvæmdir
Í einblöðungnum segir að staða Upphafs fasteignarfélags sé þannig að það glími „nú við lausafjárvanda en nýir stjórnendur hafa lagt fram áætlun um framtíð félagsins þar sem m.a. er unnið að viðbótarfjármögnun til að mæta lausafjárvandanum. Unnið er að útgáfu nýs forgangsskuldabréfs að fjárhæð 1 ma.kr. til að klára þær framkvæmdir sem félagið hefur með höndum til að hámarka virði eigna. Gert er ráð fyrir að niðurstöður viðræðna um frekari fjármögnun liggi fyrir um miðjan október 2019.“
Hlutdeildarskírteinishafar verða upplýstir um fjármögnun félagsins um leið og niðurstaða liggur fyrir, samkvæmt því sem fram kemur í skjalinu. „Nýtt bráðabirgðagengi sjóðsins byggir á því að áform um viðbótarfjármagn gangi eftir. Samhliða endurmati eigna og vinnu við fjármögnun hefur félagið styrkt teymið sem hefur umsjón með framkvæmdum með ráðningu byggingarverkfræðings og byggingartæknifræðings sem samtals búa yfir 40 ára reynslu úr byggingargeiranum.“