Ekki er líklegt að mikið betri tíð sé í vændum hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu, þegar kemur að vaxtakjörum, þrátt fyrir að stýrivextir Seðlabanka Íslands hafi lækkað hratt undanfarin misserin.
Ástæðan er þungur rekstur bankanna og óhagkvæmni í rekstri. Þrátt fyrir að bankarnir hafi hagrætt í rekstri undanfarin ár, meðal annars með fækkun starfsfólks, þá virðist enn nokkuð í að bankarnir verði með rekstrarafkomu sem telst vera ásættanleg í alþjóðlegum samanburði.
Stífar eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins (FME) eru meðal þátta sem hafa sett þrýsting á bankanna um að hagræða enn frekar í rekstri og skerpa á áherslum sínum. Líklegt er að sú þróun haldi áfram.
Nýlegar úttektir FME á þeim bönkum sem metnir eru kerfislægt mikilvægir fyrir Ísland, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, gefa til kynna að ekki sé verið að slaka neitt á eiginfjárkröfum eða öðru regluverki sem á að tryggja öryggi kerfisins, þvert á móti.
Viðmælendur Kjarnans, sem starfa á fjármálamarkaði, óttast að framundan geti verið tímabil þar sem erfiðlega gengur að koma hjólum atvinnulífsins af stað, þrátt fyrir vilja og tækifæri. Ástæðan sé meðal annars þungt og óhagkvæmt bankakerfi landsins.
Vextir lækka en hvað svo?
Meginvextir eru nú 3,25 prósent en verðbólga mælist 3 prósent. Í máli Ásgeirs Jónsson, seðlabankastjóra, í gær, þegar tilkynnt var um lækkun vaxta um 0,25 prósentur, kom fram að Seðlabankinn og stjórnvöld væru nú að róa í sömu átt, og það ætti að hjálpa til við að koma hjólum atvinnulífsins af stað.
Grunnkostnaður hár og arðsemi lág
Kostnaðarhlutfall, þ.e. hlutfall rekstrarkostnaðar af rekstrartekjum, hefur verið nokkuð hátt hjá bönkunum.
Markmiðið hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum - en ríkið á þá tvo síðarnefndu - er að vera með kostnaðarhlutfallið á bilinu 45 til 55 prósent, en reyndin hefur verið önnur hjá Arion banka og Íslandsbanka sérstaklega. Í verstu uppgjörum hefur hlutfallið verið yfir 70 prósent hjá Arion banka og yfir 60 prósent hjá Íslandsbanka.
Landsbankinn hefur verið með lægri kostnaðarhlutfall og einnig meiri arðsemi eiginfjár. Hann er stærsti banki landsins, en eigið fé hans var um 240 milljarðar króna um mitt þetta ár. Til samanburðar var eigið fé Arion banka 195 milljarðar og eigið fé Íslandsbanka 176 milljarðar.
Arðsemi eigin fjár bankanna hefur verið á bilinu 2 til 12 prósent, sé horft yfir síðustu mánuði og ár. Hjá Arion banka hefur þetta hlutfall verið lægst, hjá Íslandsbanka næst lægst - á bilinu 5 til 8 prósent - og síðan hefur það verið hæst hjá Landsbankanum, en á öðrum ársfjórðungi var það 9,9 prósent.
Til samanburðar þá hefur Arion banki nú sett sér markmið um að reka bankann með 50 prósent kostnaðarhlutfalli og 10 prósent arðsemi eigin fjár, og voru fjöldauppsagnir upp á samtals 112 starfsmenn - sé dótturfélagið Valitor tekið með reikninginn - hluti af þeirri stefnu bankans.
Allt önnur staða er nú í hagkerfinu heldur en síðustu ár, þegar fjárfesting var mikil og hagvöxtur á bilinu 3 til 6 prósent á ári. Um þessa stöðu var meðal annars fjallað í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans á föstudaginn fyrir viku.
Spár gera ráð fyrir stöðnun á þessu ári, eða á bilinu -0,2 prósent til 0,4 prósent hagvexti. Á meðan svo er þá er ólíklegt að útlánatækifærum fjölgi mikið, enda útlánaþróun hefur í sögulegu tilliti verið verulega tengd þróun landsframleiðslunnar, eins og gefur að skilja.
Ríkar kröfur um eigið fé hjá bönkunum, og einnig krafa um góða lausafjárstöðu, gerir það að verkum að bankarnir eiga erfitt verið að skila vaxtalækkunum til viðskiptavina sinna. Til þess að svo verði, þurfa bankarnir að öllum líkindum að hagræða mun meira en þeir hafa nú þegar gert, enda má hagkerfið ekki við því að vera með óskilvirkt eða óhagkvæmt bankakerfi.
Allt annar veruleiki
Lífeyrissjóðir landsins eru hins vegar ekki í sömu stöðu og geta boðið mun betri vaxtakjör en bankarnir, enda ekki með sömu yfirbyggingu og regluverk til hliðsjónar, þó sumir þeirra séu farnir að setja bremsur á útlán sín til fasteignakaupa, eins og greint var frá á vef Kjarnans í morgun.
Lægstu vextir lífeyrissjóða eru í boði hjá Almenna lífeyrissjóðnum en hann býður nú sjóðfélögum sínum að taka verðtryggð fasteignalán á 1,64 prósent breytilegum vöxtum. Vextir sem bankarnir bjóða hafa á sama tíma verið á bilinu 3,4 til 4 prósent.