Þrátt fyrir sögulega sundrung meðal vinstri manna í Vestur-Evrópu hefur António Costa, forsætisráðherra Portúgal og leiðtoga Sósíalistaflokksins, tekist að halda saman fjórum vinstri flokkum í heilt kjörtímabil. Almennur stöðugleiki og aukinn hagvöxtur hefur ríkt í Portúgal í stjórnartíð Costa. Færri ferðamenn og tollastríð gætu hinsvegar komið hart niður á Portúgölum á næstu árum.
Costa og Sósíalistaflokknum er spáð sigri í þingkosningunum sem fara fram í Portúgal í dag. Costa hefur verið forsætisráðherra landsins undanfarin fjögur ár eftir að hafa myndað ríkisstjórn með vinstri blokkinni; Portúgalska kommúnistaflokknum og hinum umhverfissinnaða Vistvæna flokki, sem oftar en ekki er kallaður Græni flokkurinn. Þessari vinstri blokk tókst að fella aðeins 11 daga gamla minnihlutastjórn sem leidd var af sósíaldemókratanum Passoas Cohelo, en bandalag hans hafði verið við stjórnvölin á árunum 2011 til 2015.
Portúgölsk stjórnmál eru að mörgu leyti frábrugðin stjórnmálum annarra ríkja innan Evrópusambandsins. Portúgal er til að mynda eitt af fimm löndum í Evrópusambandinu sem ekki er með öfgasinnaðan hægriflokk á þingi. Hin eru Bretland, Írland, Lúxemborg og Malta. Á sama tíma áttu fáir von á því að Costa og vinstribandalag hans myndi endast út kjörtímabilið. Spánverjar sem deila Íberíuskaganum með Portúgölum hafa til samanburðar gengið í gegnum fjórar mismunandi kosningar á jafn mörgum árum vegna ólgu á vinstri væng stjórnmálanna þar í landi.
Portúgölsk stjórnvöld hafa einnig gert sitt besta til að taka á móti eins mörgum innflytjendum og mögulegt er. „Við þurfum fleiri innflytjendur og við munum ekki líða útlendingahatur,“ sagði Costa á blaðamannafundi í fyrra. Innflytjendur hafa reynst Portúgölum dýrmætir til að manna störf í ferðamannaiðnaðinum, sem vaxið hefur hratt á undanförnum árum. Portúgölsk stjórnvöld hafa einnig áhyggjur af háum meðalaldri, sem sífellt fer hækkandi, og horfa til innflutnings ungs vinnuafls í því sambandi.
Rétt úr kútnum
Þrátt fyrir að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi þurft að bjarga portúgalska efnahagskerfinu með 78 milljarða evra neyðarláni fyrir einungis átta árum, hafa Portúgalar náð að rétta úr kútnum, sérstaklega í stjórnartíð Costa og Sósíalistaflokksins. Atvinnuleysi hefur dregist saman, úr 12,3 prósent, þegar síðustu kosningar fóru fram, niður í 6,3 prósent. Á sama tíma hefur hefur hagvöxtur verið mikill borinn saman við flest önnur lönd í Evrópusambandinu.
Vöruviðskiptahallinn, sem var rúmlega 7 prósent árið 2014, var kominn niður í 0,4 prósent í lok síðasta árs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur farið fögrum orðum um hvernig Costa og ríkisstjórn hans tókst að snúa við blaðinu.
Costa lofaði fyrir kosningarnar árið 2015 að draga úr aðhaldssemi fyrirvera hans, aðhaldssemi sem ríkisstjórn Cohelo neyddist til að beita til að standa við samninga Portúgal við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Máttur ferðamannaiðnaðarins
Rétt eins og á Íslandi hefur ferðamannaiðnaðurinn stóraukist í Portúgal á síðustu árum sem hefur veitt efnahagslífinu í landinu byr undir báða vængi. Portúgal hefur verið eftirsóknarverður áfangastaður sökum þess meðal annars hve ódýrt landið er miðað við til að mynda Spán og önnur lönd í Suður-Evrópu. Samdráttur hefur einnig orðið á fjölda ferðamanna til Norður-Afríku vegna aukinnar hættu á hryðjuverkum og breyttum stjórnarháttum í löndum sem áður þóttu eftirsóknarverð eins og til dæmis Egyptaland. Í fyrra var landið meðal fimm mest heimsóttu landa í Evrópu.
Þessi aukni fjöldi ferðamanna hefur einnig leitt til fleiri Airbnb-íbúða sem þvingað hefur fátækari stéttir landsins frá helstu ferðamannastöðum Portúgals. Til að mynda eru hlutfallslega fleiri Airbnb-gistirými í Lissabon heldur en í Barcelona sem lengi hefur verið þekkt fyrir fjölda slíkra íbúða.
Portúgölsk ferðaþjónusta náði hæstu hæðum árið 2017 en færri heimsóttu landið í fyrra. Frekari samdráttur í greininni á næstu mánuðum og árum gæti reynst næstu ríkisstjórn í Portúgal þungt í skauti. Stór hluti ferðamanna síðasta árs voru Bretar en þeir voru 15 prósent af öllum þeim sem ferðuðust til landsins eða um 13 milljónir talsins. Nú þegar hefur dregið úr heimsóknum þeirra til Portúgal og líkur eru á að samdráttur aukist enn frekar vegna óvissu varðandi Brexit.
Áskoranir framundan
Portúgal skuldar nú þegar 120 prósent af landsframleiðslu sinni en Costa stefnir á að ná því niður í 100 prósent árið 2023, nái hann endurkjöri. Það gæti reynst honum erfitt þar sem ólíklegt þykir að efnahagur Portúgal haldi áfram að vaxa eins hratt og hann hefur gert undanfarin ár. Þar er helst um að kenna færri ferðamönnum, eins og áður segir, og tollastríði Kína og Bandaríkjanna.
Vinstra bandalag Costa dró einnig úr innviðafjárfestingum sem helst hefur bitnað á skólakerfinu og heilbrigðisþjónustu svo dæmi sé tekin. Ríkisstjórn hans var einnig harðlega gagnrýnd árið 2017 fyrir það hve illa hún tókst á við skógarelda sem leiddu til dauða um það bil 100 íbúa. Þáverandi innanríkisráðherra landsins sagði af sér í kjölfar hamfaranna. Einnig hafa hin og þessi spillingarmál sett svip sinn á stjórnartíð Costa.
Ójafnvægi á vinstri væng stjórnmálanna
Þó að Costa sé spáð sigri í kosningunum er ekki víst að bandalag hans haldi. Sósíalistaflokknum er spáð 37 prósent atkvæða, eða um það bil 5 prósent meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum 2015. Helstu keppinautar Sósíalistaflokksins eru Sósíaldemókrataflokkurinn og Flokkur fólksins, en þeir tveir mynduðu minnihlutastjórnina sem Costa og vinstribandalag hans felldi árið 2015. Politico spáir Sósíaldemókrataflokknum 27 prósent fylgi á meðan Flokki fólksins er spáð 5 prósent fylgi.
Alls eru 230 þingsæti á portúgalska þinginu og ólíklegt þykir að Costa takist að fá hreinan meirihluta. Aukið fylgi hinna flokkanna í vinstri blokkinni, sem setið hafa í ríkisstjórn með Costa og Sósíalistaflokknum undanfarið kjörtímabil, gæti á endanum reynst dýrkeypt. Fræðimenn telja að það gæti leitt til sundrungar meðal vinstri manna rétt eins og víðar í Evrópu.